mánudagur, maí 19, 2008

19. maí 2008 - Júrótrash!

Síðan ég vaknaði í morgun hefi ég heyrt hvert hallærislagið á fætur öðru í útvarpinu, svo hallærislegt að ætla mætti að Júrótrashkeppnin væri á döfinni. Og ég sem hélt í sakleysi mínu að henni hefði lokið þegar Íslendingar höfnuðu lagi sem hafði möguleika á sigri í keppninni og sendu Guðrúnu Gunnarsdóttur í þess stað til Belgrað.
Annars hafði ég lúmskt gaman af fréttum sem berast okkur þessa dagana frá Belgrað. Íslensku keppendurnir í Júrótrashkeppninni hittu krónprinsessu lýðveldisins Serbíu í þarlendu sjónvarpi á dögunum og var boðið í hanastél hjá henni.
„Ha, krónprinsessa lýðveldisins Serbíu?“
„Hvaða rugl er í gangi?“
„Er Serbía hætt að vera lýðveldi og orðið konungsríki?“

Sem betur fer er ástandið ekki orðið svona slæmt þótt íslenskir keppendur í Júrótrash séu enn sömu royalistarnir og þeir voru fyrir 1944. Þeim til upplýsingar skal þess getið að alþýðulýðveldið Júgóslavía var stofnað 29. nóvember 1945 og síðan eftir sundurliðun Júgóslavíu, sambandslýðveldið Serbía og Montenegro frá 2003 og lýðveldið Serbía frá 2006.

Það má svosem vel vera að einhverjir einstaklingar vilji eignast Serbíu í krafti erfða sinna, en serbnesku þjóðarinnar vegna verður þeim vonandi aldrei að ósk sinni og Boris Tadic forseti Serbíu getur varpað öndinni léttar.


0 ummæli:Skrifa ummæli