laugardagur, maí 10, 2008

11. maí 2008 - Gáfaðir Kópavogsbúar í kexinu

“Kópavogsbúar eru gáfuðustu íbúar landsins ef marka má úrslitin í Útsvari, spurningakeppni sveitarfélaganna sem fram fór í gærkvöldi. Lið Kópavogs og Reykjavíkur kepptu til úrslita í hörkuspennandi keppni. Það var spurningin um Sæmund á sparifötunum sem færði Kópavogi sigurinn en Reykjavíkurliðið gataði á svarinu. Það er kremkex frá Fróni.”

Svona hljóðaði fréttin af úrslitakeppninni í Útsvari á föstudagskvöldið þegar hún var lesin upp í sjónvarpsfréttum á laugardagskvöldið.

Um leið og ég vil óska laganemunum ungu, ásamt Erni Árnasyni sem er álíka mikill Kópavogsbúi og ég sem á heima í Árbænum, til hamingju með sigurinn vil ég nefna að þetta er að sjálfsögðu allt gott og blessað og að mestu leyti rétt, þó ekki alveg. Það var ekki bara að hvorugt liðið vissi svarið við spurningunni um kexið og að spurningunni var beint að Kópavogsbúum sem götuðu á svarinu, heldur er nafnið Sæmundur tilkomið þannig að forstjóri kexverksmiðjunnar Esju var heiðursmaðurinn og fyrrum sjómaðurinn Sæmundur Elías Ólafsson fæddur 7. apríl 1899 og látinn 24. júlí 1983, en hann tók við rekstri Esju árið 1939. (sjá Bergsætt-I-174) Löngu síðar yfirfærðist nafnið Sæmundur á framleiðslu beggja verksmiðjanna, Esju og Fróns. Því er rétta svarið, kremkex frá Esju.

Það er svo allt annað mál að bæði liðin brugðust mér einnig með því að vita ekki nafnið á höfuðstaðnum á Sardiníu og þótt ég öskraði svarið á sjónvarpið mitt, nennti enginn að hlusta. Það er kannski eðlilegt að ég muni nafnið á þessum bæ því ég var einhverju sinni á ferð með innanlandsflugi á Ítalíu og fór af í Genúa, en farangurinn minn hélt áfram til Cagliari þaðan sem ég endurheimti hann tveimur dögum síðar.

Þessi færsla var í tilefni lokadags vetrarvertíðar 11. maí :)


0 ummæli:







Skrifa ummæli