þriðjudagur, maí 13, 2008

13. maí 2008 - Fordómarnir mínir!

Ég hafði verið beðin, ásamt fleira fólki, að gerast sýningargripur í útskriftarverkefni stúlku einnar sem var að ljúka námi í Listaháskóla Íslands. Ég tók að sjálfsögðu vel í beiðnina og mætti upp að Korpúlfsstöðum á annan í hvítasunnu þar sem gjörningurinn átti að fara fram. Ég vissi fátt um það sem átti að fara fram annað en að verkefnið og gjörningurinn áttu að vera áminning til okkar um að heimurinn er ekki bara í hvítu og svörtu og alls ekki þegar um er að ræða kynferði og kynhneigðir.

Svo hófst gjörningurinn þar sem sýningargestir áttu að leysa af hendi nokkur einföld og saklaus verkefni. Þótt ég sæi ekki nema það sem fór fram í næsta nágrenni við mig, brosti ég samt í byrjun að hegðun sumra gestanna er þeir leystu hinar ýmsu þrautir. Sumir létu sig jafnvel hafa það að taka nokkrar leikfimisæfingar undir kristilegri leiðsögn af dvd-diski. Aldrei léti ég hafa mig út í svona lagað!

Bíddu nú hæg. Hvað voru krakkarnir að gera rangt? Flestir voru gestirnir ungir að árum, gjarnan á milli tvítugs og þrítugs. Raunverulega gat ég ekki annað en dáðst að þeim fyrir þorið, að framkvæma þær þrautir sem fyrir þá höfðu verið lagðar. Ég hugleiddi eigin unglingsár þegar svona lagað hefði verið útilokað, enda hermdu þá allir eftir þeim sem bar sig best hverju sinni og öll frávik frá meðalmennskunni voru bannfærð um leið og bólaði á þeim.

Hugsunin breyttist eftir 1968. Það kom fram ný kynslóð unglinga sem hættu að vera stereótýpur af hverjum öðrum og heimurinn verður aldrei samur á eftir. Sem betur fer.

Ég held að ég hafi uppgötvað örlítinn vott af mínum eigin fordómum þar sem ég sat í hópi ungs fólks á Korpúlfstöðum á annan í hvítasunnu.


0 ummæli:







Skrifa ummæli