mánudagur, maí 19, 2008

20. maí 2008 - HrefnuveiðarÞað er af sem áður var þegar ríkisstjórn Íslands fékk bandaríska setuliðið á Miðnesheiði til að gera loftárásir á háhyrningsvöður á miðunum til að fækka þeim aðeins, enda olli háhyrningurinn talsverðu tjóni á veiðarfærum (reknetum á síldveiðum?)

Ef ég man rétt var Keikó metinn á 60.000 kjötbollur handa hungruðum heimi. Þegar haft er í huga að hrefnur eru miklu stærri en háhyrningar, hvað geta þá 56.000 hrefnur gert í sama tilgangi? Ástæða þess að ég nefni þennan fjölda er sú að samkvæmt talningu árið 2004 var áætlað að 56.000 hrefnur væru á íslenska landgrunninu, en 184.000 í norður- og mið-Atlantshafi. Þetta þýðir með öðrum orðum að auðveldlega má tífalda veiðarnar frá þeim 40 hrefnum sem nú hefur verið gefið leyfi fyrir að veiða án þess að gengið sé á hrefnustofninn, sem offjölgar sér þessi misserin sökum lélegrar sóknar.

Utanríkisráðherra hefur sagt að verið sé að fórna meiri hagsmunum fyrir minni með hrefnuveiðum sumarsins. Ég er ósammála. Nær væri að hætta að eyða stórfé í tilgangslausan lobbýisma fyrir sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og nota það fé sem sparast í að kynna sjávarútvegsstefnu Íslands, þar á meðal hvalveiðar. Ísland verður hvort eð er ekki annað en taglhnýtingur Bandaríkjanna í öryggisráðinu á meðan Sjálfstæðisflokkurinn ræður í ríkisstjórninni.

Með þessu legg ég til að heimilt verði að veiða allt það magn sem hægt er að selja af hrefnu þó að hámarki 300 hrefnur á ári fyrstu árin.

http://is.wikipedia.org/wiki/Hrefna


0 ummæli:Skrifa ummæli