Í gær, á meðan ég beið eftir henni Hrafnhildi ofurkisu, gaf ég mig á tal við nokkra unga krakka sem voru að leika sér á stéttinni á bak við húsið. Þegar Hrafnhildur birtist hópnum sá ungur piltur búsettur í næsta húsi, ástæðu til að hasta á kisuna og reyndi að reka hana í burtu. Ég var að sjálfsögðu ekkert sátt við atferli stráksa og spurði hvers vegna hún mætti ekki koma heim til sín?
“Veistu hvað hún gerði um daginn?”
“Nei, það veit ég ekki.”
“Hún hoppaði inn um gluggann heima hjá okkur og borðaði allan fiskinn sem við ætluðum að hafa í matinn.”
Af skepnuskap mínu gat ég ekki annað en farið að skellihlæja að frásögn stráksa áður en ég benti honum á að ef slíkt kæmi fyrir aftur, yrðu þau bara að hafa samband við mig svo hægt yrði að leysa málin í góðu.
Ég er örugglega ekki hátt skrifuð hjá nágrönnum mínum eftir þetta.
þriðjudagur, júlí 31, 2007
31. júlí 2007 - Skepnuskapur vélstýrunnar
mánudagur, júlí 30, 2007
30. júlí 2007 - Forheimskun Moggabloggsins
Nokkrir eðalbloggarar hafa rekið áróður gegn Moggabloggi síðasta árið og óbeint bent á forheimskun þá sem fylgir fréttatengdu bloggi. Ég ætla ekkert að telja upp nein nöfn í þessu sambandi, en stundum er ég alveg sammála þeim aðilum sem halda uppi stöðugri gagnrýni á Moggabloggið, ekki Moggabloggið sem slíkt enda er það þægilegasta bloggsetur sem ég hefi unnið með. Forheimskun segir heldur ekkert um uppsetningu á bloggi, heldur er það innihaldið sem segir meira um gáfnafarið.
Mér hefur nokkrum sinnum blöskrað sú meðvirkni og vafasama gáfnafar sem hefur fylgt einstöku fréttum eða fréttatengdu efni sem farið hefur af netfréttamiðlum og inn á bloggsíður. Einhver gárungi á Selfossi lagði til, að ég held í gríni, að lögreglan fengi sér naglamottur til að stoppa af ökumenn bifhjóla sem aka of hratt. Fleiri aðilar í bloggheimum tóku undir þetta gjörsamlega hugsunarlaust þótt slíkar naglamottur jaðri við morðtilraun.
Nokkrum dögum síðar komst kjaftasagan um hundinn Lúkas í hámæli. Bloggarar kepptust þá við að hóta meintum árásarmanni án þess að vita einu sinni hvort hundurinn væri lífs eða liðinn. Það kom svo í ljós að hundræfillinn var enn á lífi og virtist hafa komist ágætlega af á ruslahaugum Akureyrarbæjar eða nágrenni þeirra. Eitthvað held ég reyndar að þá hafi sljákkað í verstu bloggurunum, en samt. Menn eru fljótir að gleyma.
Á sunnudag var maður drepinn í Reykjavík og aftur voru bloggararnir fljótir að koma með sína sýn, misgáfulega eða þá að þeir endursögðu það sem Mogginn hafði birt nokkrum mínútum áður. Ég fór að skoða þessi “fréttablogg”. Mörg voru bara hreint bull eða endursögn fréttanna auk þess sem nokkrir Moggabloggarar kostuðu sér á lyklaborðið og sögðu eitthvað hjárænulegt bull í hvert sinn sem Mogginn sagði eitthvað nýtt.
Ég er enn að velta fyrir mér hvort ég eigi að halda áfram á Moggabloggi eða snúa mér að einhverju vitrænna. Dæmin að ofan hvetja mig ekki til að halda áfram á bloggsvæði sem stefnir í það að verða hreint fréttablogg án nokkurra sjálfstæðra skoðana bloggaranna sjálfra.
sunnudagur, júlí 29, 2007
29. júlí 2007 - II - Lokaorð (vonandi) um Seifing Æsland
Þegar ég vann í Svíþjóð voru öflugar girðingar allt umhverfis þau orkuver sem við önnuðumst og efst voru fleiri lengjur af gaddavír. Víða voru myndavélar á svæðunum og öryggisvörður hafður til eftirlits á kvöldin eftir venjulegan vinnudag, en á nóttunni sá næturvaktin um eftirlitið.
Fljótlega eftir að ég byrjaði að vinna þarna fór ég að furða mig á öllu öryggiseftirlitinu og var þá bent á að þessar hörðu öryggisreglur hefðu verið teknar upp eftir að svokallaðir umhverfissinnar hefðu komist um allt nokkrum árum áður, lagt sjálfa sig og aðra í hættu og hengt upp borða gegn orkuverinu á milli tveggja skorsteina. Þó taldist orkuverið umhverfisvænt í þeim skilningi að það kom í staðinn fyrir tugi þúsunda af litlum orkuveitum með lélega brennslunýtni á hverju heimili með þeim kostum sem fjarvarmaveita gefur, en þess má geta að við sáum ekki bara vesturhluta Stokkhólms fyrir fjarvarma, heldur og Järfälla og Sollentuna eða nokkur hundruð þúsund íbúa sem bjuggu í þessum sveitarfélögum.
Í morgun gerði Eva Hauksdóttir athugasemdir við háðsskrif mín og annarra eftir að ungur meðlimur Seifing Æsland ók á hús á föstudag. Þótt ég skilji ekki alveg hvað hún er að fara með skrifum sínum, vil ég benda á að stundum er eðlilegra að svara heimskupörum með háði en með beinum aðgerðum gegn þeim. Þá er ég ekki aðeins að hugsa um það tjón sem felst í vinnutapi og hugsanlega öðrum aðgerðum til að koma í veg fyrir frekara tjón af völdum þessara svokölluðu umhverfissinna heldur og aðrar afleiðingar af aðgerðum þeirra.
Aðgerðir Seifing Æsland bjóða heim kröfunni á að settar verði upp víggirðingar umhverfis orkuver og framkvæmdir. Slíkt hefur ekki verið til siðs á Íslandi nema að litlu leyti hingað til auk þess sem orkufyrirtækin hafa opnað dyr sínar fyrir ferðamönnum á hverju sumri undanfarin ár og gefið ferðafólki takmarkaðan kost á að valsa um virkjanasvæðin. Þrátt fyrir vilja til að halda þessu samstarfi orkufyrirtækjanna og almennings áfram, hljóta þau samt að hafa öryggið í fyrirrúmi og umfram fróðleiksfýsn óviðkomandi fólks. Aðgerðir Seifing Æsland vinna gegn þessu markmiði um leið og hætta er á að stór svæði verði girt af í framtíðinni til að koma í veg fyrir frekari spjöll og varasamar mannaferðir.
Ég ætla því að vona að þessir átta dagar í varðhaldi fyrir einhver ungmennanna í Seifing Æsland nægi til að þau láti af mótmælum sínum svo ekki þurfi að grípa til stórfelldra víggirðinga á hálendinu til að halda þeim í burtu.
29. júlí 2007 - Umhverfissinnar á "grænum" Subaru
Ég gladdist mjög er ég komst að því að hinir ungu skemmtikraftar okkar í Seifing Æsland hafa ekið um á “grænum” Subaru að undanförnu og þannig lífgað upp á tilveru okkar og glatt okkur sem einnig ökum um á grænum Subaru.
Hvað er kerlingin að segja? kann einhver að spyrja. Subaru er sko ekkert umhverfisvænn og eyðir alltof miklu bensíni. Auk þess er bifreið ungmennanna í Seifing Æsland nærri tuttugu ára gamalt Subaru Justy brak á leið í niðurrif. Satt er það, en um leið sparast nagladekkin auk þess sem mikið öryggi er í fjórhjóladrifinu. Þá ber að hafa í huga að margir hlutir í eðalvagni ungmennanna í Seifing Æsland eru úr hinu umhverfisvæna áli, meðal annars mótorblokk, stimplar, vatnsdæla, gírkassahús, drifhús auk ýmissa smærri hluta. Það er því hægt að velta fyrir sér hve þungur yrði Subaru allur ef ekkert ál væri í honum. Það er því sem ég segi, bíll ungmennana er grænn þótt hann sé sagður grár í skoðunarvottorði og lítur út fyrir að vera flekkóttur.
Ástæða þessarar nýju uppgötvunar minnar er sú að umræddur eðalvagn Seifing Æsland ók á gamalt timburhús um daginn fullur af gaskútum að sögn vitna. (Ég hélt að þessi útlendu ungmenni hafi lært það að það er mjög erfitt að nota gaskúta við hryðjuverkaárásir eins og nýleg dæmi sanna). Ekki sá mikið á húsinu fagra á Vesturgötunni, en því meir á ökutækinu og óvíst hvort það verði notað í fleiri mótmælaaðgerðir á næstunni. Fyrir einskæra heppni voru þeir félagar Baldur og Felix ekki á tröppum hússins þegar ungmennin óku á það.
Þess skal sömuleiðis getið að efri myndin er stolin frá fyrirtæki sem staðsett er í rauða húsinu sem ekið var á, samanber tengilinn hér að neðan þar sem segir frá þessu voðaverki.
http://www.jl.is/blog/?p=151
laugardagur, júlí 28, 2007
28. júlí 2007 - Fósturdóttir Íslands og Guðni Már!
Einn vestfirskur kunningi minn borðar ekki kæsta skötu. Honum hefur verið strítt á þessu og einhver orðaði það sem svo að hann hefði verið hrakinn frá Vestfjörðum vegna áhugaleysis síns fyrir kæstri skötu og skötuilm. Mér finnst illa að manninum vegið með þessari stríðni, enda er ég sjálf með svipaðan smekk fyrir gæðunum og forðast að koma nærri opinberum matsölustöðum á Þorláksmessu.
Á föstudag heyrði ég viðtal Guðna Más Henningssonar við Eivör Pálsdóttur fósturdóttur Íslands úti í Færeyjum þar sem Eivör lýsti því yfir að sér þætti hákarl góður. Guðni lét að sjálfsögðu í ljósi vanþóknun sína á matarsmekknum, bæði hvað snertir hákarl og skerpukjöt, en hið síðarnefnda mun vera mest dásamaði þjóðarréttur Færeyinga. Með þessum gikkslátum í Guðna er ljóst að ekki er hægt að skipta á þeim tveimur, láta kyrrsetja hann í Færeyjum en kalla Eivör hingað til Íslands í hans stað. Við þurfum hvort eð er að endurheimta Guðna Má aftur svo hann geti tekið við næturvaktinni á ný.
En nú er bara spurningin. Hvað finnst Eivöru um kæsta skötu? Það má alveg ljóst vera að hver sá “útlendingur” sem borðar bæði skötu og hákarl með bestu lyst á skilið að fá íslenskt ríkisfang með hraði hvort sem sá á ráðherra að tengdaforeldri eður ei.
föstudagur, júlí 27, 2007
27. júlí 2007 - Faðmlög við bifreiðar!
Á seinnihluta síðustu aldar héldu sænskir umhverfisverndarsinnar uppi borgaralegri óhlýðni í baráttu sinni gegn ýmsu því sem þeir töldu miður fara í samfélaginu. Meðal annars festu þeir sig við tré til að koma í veg fyrir að þau yrðu höggvin og aðrar framkvæmdir hafnar. Af þeim sökum hlutu þeir gælunafnið trädkramare (sá sem faðmar tré) og hefur þetta gælunafn orðið að samheiti fyrir borgaralega óhlýðni í Svíþjóð eftir það.
Að undanförnu hefur talsvert borið á hreyfingunni Seifing Æsland sem hefur það að markmiði sínu að bjarga Íslandi frá sjálfu sér. Öfugt við sænska umhverfisverndarsinna hafa þessir lítinn áhuga fyrir því að faðma trjáplöntur sbr að þeir hafa látið skógarhöggið á Þingvöllum afskiptalaust. Þess í stað hefur þetta unga fólk hlekkjað sig við bíla í minnst tveimur aðgerðum, við Grundartanga og Hellisheiðarvirkjun. Þegar haft er í huga að það er heilmikið ál í nær öllum bílum í dag, t.d. í vélablokkum, gírkassa og drifhúsum auk margra annarra hluta, mætti halda að þeir væru að berjast fyrir bættum áliðnaði á Íslandi.
Ónei, ekki alveg því Seifing Æsland hefur þegar mótmælt við öll álverin svo vart vilja þeir vernda áliðnað á Íslandi. Því geta faðmlög þeirra við bifreiðar í mótmælaaðgerðum þeirra aðeins þýtt eitt. Seifing Æsland berst fyrir verndun hins íslenska bílisma.
fimmtudagur, júlí 26, 2007
26. júlí 2007 - Hver er munurinn?
Fyrir fjórum árum síðan réðist danski herinn með hjálp bandamanna sinna inn í Írak og hernam landið í óþökk írösku þjóðarinnar. Andspyrnuhreyfing Íraka hefur síðan barist gegn hernámsliðinu og fellt allnokkra hermenn í átökum eða samtals 3931 hermann frá því innrásin hófst, flesta frá bandamönnum Dana frá Bandaríkjunum. Það er þó einungis örlítið brot af þeim mikla fjölda Íraka sem hefur verið felldur af innrásarherjunum frá Danmörku og bandalagsríkjum þeirra.
Nú hefur dansk-palestínska þingkonan Asmaa Abdol Hamid verið kærð fyrir landráð í Danmörku með því að hún bar innrás Danmerkur í Írak saman við innrás Þýskalands í Danmörku 1940 og bar dönsku andspyrnuhreyfinguna saman við þá írösku. Ég spyr bara, er einhver munur á danskri innrás í Írak eða þýskri innrás í Danmörku?
Jú, það er einn stór munur. Danski herinn þurfti að ferðast á milli heimsálfa áður en hann komst á áfangastað þar sem hægt var að ráðast inn í ókunnugt land. Það hafa hinsvegar verið talsverður skærur danskra stjórnvalda við nágrannaríki sín í gegnum aldirnar vegna landamæra sinna. Því er þýsk innrás í Danmörku 1940 mun skiljanlegri en dönsk innrás í Írak árið 2003 þótt mér komi ekki til hugar að mæla neinni innrás bót, hvorki innrás Þjóðverja 1940 né þeirri sem Danir frömdu 2003.
Er ekki kominn tími til að danska ríkisstjórnin læri að skammast sín og hunskist heim með árásarher sinn frá Írak?
Það væri fróðlegt að heyra álit fólks á þessu máli.
þriðjudagur, júlí 24, 2007
25. júlí 2007 - Eyjagöng
Ég hefi aldrei farið ofan af hrifningu minni á jarðgöngum hvort heldur er í gegnum fjöll eða undir firði. Hvalfjarðargöng heppnuðust betur en nokkur þorði að vona í upphafi, göng á milli Ísafjarðar, Súgandafjarðar og Önundarfjarðar hafa reynst vera hin besta samgöngubót fyrir annars deyjandi byggðalög og nú á að reyna að bjarga byggðarlögum á Tröllaskaga með gangatengingu í gegnum Héðinsfjörð. Þá er ég ekki í nokkrum vafa um gæði jarðgangna á milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar og bíð í ofvæni eftir göngum undir Lónsheiði og Vaðlaheiði auk nýrra og betra ganga á milli Norðfjarðar og Eskifjarðar.
Á þriðjudag heyrði ég viðtal við Árna Johnsen þar sem hann vildi gera sem minnst úr skýrslu Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen um kostnað við hugsanleg Eyjagöng. Þar gat ég ekki heyrt betur en að Árni talaði verð Eyjaganga niður í 700 þúsund fyrir hvern lengdarmetra sem svar við tölum VST sem voru minnst fjórfalt hærri.
Þegar Hvalfjarðargöng voru gerð fór allt framúr björtustu vonum, verð, gæði bergsins, leki og nákvæmni. Það þurfti sáralítið að fóðra göngin og vinnunni lauk á mörgum mánuðum fyrr en ætlað var í upphafi. Þrátt fyrir að allt gengi eins og best var á kosið kostuðu Hvalfjarðargöngin um 800 þúsund á hvern lengdarmetra á verðlagi sem gilti fyrir nærri áratug síðan. Nú eiga Eyjagöng bara að kosta 700 – 900 þúsund á lengdarmetrann sem er 100 - 300 þúsundum króna lægra en tölur Ægisdyra fyrir ári síðan! Þarf ekki að skoða höfuðið á Árna Johnsen?
Mér er sagt að bergið á milli lands og Eyja sé að miklu leyti mjög gljúpt hraun. Það þarf því að fóðra göngin að miklu leyti, kannski alla leið og samt er óvíst hvort göngin geti orðið að veruleika þótt beitt sé fóðrun alla leið auk styrkinga til að tryggja að göngin falli ekki saman. Þar koma til aðrir umhverfisþættir svo sem meiri jarðskjálftatíðni en við Hvalfjarðargöng, hugsanleg neðansjávargos og kvikuhlaup neðanjarðar.
Því er viðbúið að göngin muni ekki kosta 20 milljarða, öllu heldur 80 til 100 milljarða eða fjórar til fimm milljónir á hvern lengdarmetra. Þrátt fyrir hrifningu mína á Vestmannaeyjum og Eyjamönnum, þá held ég að þessum fjármunum sé betur komið fyrir við aðrar framkvæmdir.
24. júlí 2007 - Undraland eða Gamla sjónvarpshúsið?
Á mínum velmektarárum þótti góður siður að kenna biðstöðvar Strætisvagna Reykjavíkur við kennileiti í umhverfinu. Á þessum árum hafði vagnstjórinn hljóðnema fyrir framan sig sem hann galaði í nafn stoppistöðvarinnar þegar hann nálgaðist, Vegamót, Kleppur, Undraland, Tunga, Sogamýri, Lækjartorg. Með breyttu leiðarkerfi árið 1970 (eða var það með nýju strætisvögnunum árið 1968?)lagðist þessi góði siður af þótt íhaldið réði enn öllu í Reykjavík og sum nöfnin gleymdust ungu fólki sem ekki var vant þeim.
Á þessum árum var Gísli Marteinn Baldursson ekki fæddur. Nú hefur hann fengið þá snilldarhugmynd að gefa stoppistöðvunum nöfn rétt eins og að slíkt hafi aldrei verið gert áður. Nöfnin bera líka með sér að ekki má vekja upp gömlu góðu nöfnin heldur skal finna nýjar ambögur. Þannig fær fyrsta stöðin nafn í samræmi við upphrópun fyrrum verslinga á gamla skólanum sínum þ.e. Versló með setu, en fyrir okkur sem ekki vitum hvar Verslunarskólinn er til húsa, þá er hann sunnan Borgarleikhússins og Kringlunnar. Verzlunarskólinn með setu var hinsvegar lengst af við Þingholtsstræti/Grundarstíg/Hellusund. Borgarfulltrúinn er því greinilega ekki alveg með stafsetninguna og staðsetninguna á hreinu þótt 33 ár séu liðin frá því setan var lögð niður í íslensku máli.
Nú á að koma einhver stoppistöð sem heitir Stjórnarráð. Ekki veit ég hvaða staur fær það virðulega nafn, en á árum áður báru stöðvarnar andspænis Stjórnarráðinu nafnið Lækjartorg sem var um leið miðstöð strætisvagnasamgangna í Reykjavík, en sá hluti strætisvagnakerfisins sem hafði miðstöð norðan við stjórnarráðið hét Kalkofnsvegur. Nú þykja þau nöfn ekki nógu fín lengur.
Grátlegast finnst mér þó að skemmtilegasta nafni biðstöðvar gamla strætisvagnakerfisins skuli kastað fyrir róða og tekið upp nafnið “Gamla sjónvarpshúsið” í staðinn. Þetta var hið undurfallega nafn Undraland, en bærinn Undraland stóð einmitt þar sem nú eru háhýsi Öryrkjabandalagsins, neðan Laugavegarins andspænis húsunum við Laugaveg 176 til 178.
Við getum svo velt því fyrir okkur hvar gamla sjónvarpshúsið var mörgum árum eftir að sjónvarpið flutti alla starfsemi sína í Efstaleitið.
mánudagur, júlí 23, 2007
23. júlí 2007 - Járnblendiverksmiðjan á Grundartanga
Sagt er að rónar komi óorði á brennivínið.
Uppi á Grundartanga er ógeðslega skítug og ljót verksmiðja í eigu norskra aðila. Þar hefur verið stundað svo árum skiptir að sleppa út mengun í skjóli nætur, en það kemst sjaldan í hámæli þótt margir viti af þessu. Ef fréttamenn komast að því að verið er að sleppa út óhreinsuðum reyk er svarið ávallt hið sama, mannleg mistök.
Hversu oft er hægt að kenna mannlegum mistökum um mengunina frá Járnblendinu á Grundartanga? Það er ljóst að það er eitthvað mikið að mengunarvörnum frá þessari verksmiðju og ætti að vera búið að svipta hana starfsleyfi fyrir löngu.
Rétt eins og rónarnir sem koma óorði á brennivínið kemur Járnblendiverksmiðjan óorði á stóriðju á Íslandi. Ef ekki er hægt að koma mengunarvörnum verksmiðjunnar í lag, er eðlilegast að loka henni og flytja starfsemina heim til eigendanna í Noregi.
sunnudagur, júlí 22, 2007
22. júlí 2007 - Finnur Árnason forstjóri Haga ...
... rak upp ramakvein í blöðum á dögunum og kvartaði sáran yfir vonsku Alþýðusambandsins og, ef mig misminnir ekki, Hagstofu Íslands gagnvart smásöluversluninni. Þar dró hann fram þá staðreynd að verðlag í Baugsverslunum hefði nánast staðið í stað á síðustu fimm árum á sama tíma og vísitala neysluverðs hefði hækkað um rúm 20%. Þetta átti að vera til marks um góðmennsku Baugsmiðla eða svo vitnað sé í orð forstjórans:
“Sá atvinnurógur sem dagvöruverslunin hefur ítrekað orðið fyrir undanfarin ár, á því ekki við nein rök að styðjast.”
Svo mörg voru þau orð. Sjálf er ég ekki alveg sannfærð þrátt fyrir tölur forstjórans. Ef ég man rétt var gengið verulega lægra og dollarinn í um 100 krónum fyrir fimm árum síðan. Því ætti allur innflutningur að hafa lækkað sem gengishækkuninni nemur á þessum tíma, en það hefur hann ekki gert nema að mjög litlu leyti. Gengishækkunin hefur runnið nánast óskipt í vasa heildsalanna meðal annars Haga hf.
Hagar hf hafa því ekki verið að gera nein góðverk á þessum fimm árum heldur grætt peninga sem aldrei fyrr vegna sterkrar stöðu krónunnar. Mig grunar að veikari króna verði fljót að skila sér út í verðlagið þótt lítið hafi sést af gengishækkunni, ekki fremur en skattalækkuninni.
-----oOo-----
Ég var úti að aka á laugardag og lenti þá á eftir ungu pari á Bimma suður í Kópavogi. Framundan skipti yfir í rautt ljós, en fólkið á bílnum á undan skeytti því engu, heldur ók rólega yfir á rauðu eins og ekkert væri sjálfsagðara. Ég komst svo upp að hlið bílsins á næsta ljósi þar sem hann var stopp á rauðu fyrir aftan fleiri bíla. Þá sá ég skýringuna. Vesalings karlkyns ökumaðurinn var svo upptekinn af gullfallegri stúlku við hlið sér í framsætinu að hann tímdi ekki að horfa á umferðina framundan.
laugardagur, júlí 21, 2007
21. júlí 2007 - Þrjú ár af bulli
Ég held að ég sé að setja met í bulli. það eru komin þrjú ár síðan ég byrjaði að bulla bloggi, fyrst á blog.central.is, síðan í eitt ár á blogspot.com og nú á Moggabloggi síðan í desember síðastliðnum ásamt því að halda áfram á blogspot. Ég held að ég ljúgi engu er ég held því fram að ég hafi sent frá mér rúmlega 1200 pistla samtals og flettingar á þessum þremur árum eru orðnar nærri 400.000 þar af flestar á þessu ári.
Ekki hefi ég bara eignast vini á þessum þremur, heldur hafa og tveir aðilar lýst yfir slíkum fjandskap við persónu mína að undrum sætir. Þessir hatursaðilar eru kannski fleiri, en tveir hafa látið slíkt svo ótvírætt í ljósi við mig og aðra að ekki fer á milli mála hatur þeirra í minn garð og skoðana minna. Þótt ég sé stolt yfir hatri þeirra í minn garð ætla ég samt ekki að gefa upp nöfn þeirra að sinni jafnframt því sem ég tek það fram að hvorugur þeirra bloggar reglulega.
Með þessum orðum er ég búin að útiloka þá aðila úr óvinahópnum sem hent hafa mér út af bloggvinalistanum sínum. Sömuleiðis er ég búin að útiloka Jón vin minn Val frá þessum sjálfskipuðu óvinum mínum þótt hann þekki ágætlega annan þessara óvina, en margir halda að við séum svarnir óvinir vegna ólíkra skoðana okkar á flestum málum.
Eins og gefur að skilja hafa sum málefni orðið mér hugleiknari en önnur. Ég hefi því verið beðin um hætta að leggja Framsóknarflokkinn í einelti, beðin um að hætta að blogga eða einfaldlega beðin um að koma mér út í ystu myrkur. Eins og gefur að skilja ætla ég ekki að hlýða þessum beiðnum og mun ég halda áfram skrifum mínum um sinn, óvinum mínum til sárrar skapraunar en öðrum vonandi til ánægju.
Takk Pollý fyrir hjálpina fyrir þremur árum.
föstudagur, júlí 20, 2007
20. júlí 2007 - Umhverfisverndarhópurinn Seifing Æsland
Sagt er að fólk geri góðlátlegt grín að ungliðahópnum Seifing Æsland og brosi jafnvel út í annað þegar sést til þeirra vera að mótmæla virkjunum og álverum, neyslukapphlaupi og bílisma. Ekki ég. Það er aldrei að vita nema um sé að ræða alvöru umhverfisverndarsinna sem fara á milli á reiðhjólum eða hestum öfugt við íslenska vinstrigræna sem allir nema Magnús Bergsson mættu á bílum á landsfundinn í febrúar síðastliðnum.
Ég vænti þess svo að þessir alvöru náttúruverndarsinnar muni senn halda til Þingvalla og faðma grenitrén eystra til að koma í veg fyrir að þau verði skemmdarvörgum Þingvallanefndar að bráð. Þá efa ég ekki að þau hafi haft nokkuð til síns máls er þau mótmæltu neysluhyggjunni í Æslendingum nútímans í Kringlunni á dögunum, enda þykir mörgum sem kaupgleði mörlandans sé löngu komin út yfir allt velsæmi. Sum þeirra bera það reyndar með sér að vera meinilla við sjampó og aðrar umhverfisskaðlegar vörur.
Ef að líkum lætur munu þau sömuleiðis berjast hatrammlega gegn notkun minkapelsa og skjótast upp í Helgadal (stutt að fara) og hleypa út nokkrum minkum til að bæta æslenska náttúru og koma í veg fyrir að minkarnir muni kveljast úr innilokunarkennd. Þá efa ég ekki að þau muni reyna að sökkva hvalbátunum og þeim hluta fiskiskipaflotans sem er í höfn, enda fiskistofnarnir í útrýmingarhættu að mati Hafró og umhverfisverndarsinna.
Þegar þeir verða svo búnir að kála nokkrum orkuverum og tryggja lokun álveranna, mun fátt vera eftir til bjargar á Æslandi annað en að flytja suður á Jótlandsheiðar. Þá hafa þeir náð tilgangi sínum og tekist að seifa Æslandi.
Muna svo bara að síðasti Íslendingurinn á að taka fánann með sér.
fimmtudagur, júlí 19, 2007
19. júlí 2007 – Hámarkshraðinn lækkaður í 30 km meðan ....
Fyrir nokkru var hámarkshraðinn lækkaður í 30 km/klst á Reykjanesbraut í Garðabæ og hvergi sást maður við vinnu. Sennilega hefur hámarkshraðinn verið lækkaður vegna þess að þeir ætluðu sér að þrengja Reykjanesbrautina verulega tímabundið sem kom svo í ljós nokkru síðar. Þó fékk þessi 30 km hraðatakmörkun að vera uppi í nokkra daga áður en hafist var handa við hina tímabundnu þrengingu. Enginn vissi af hverju nema kannski vegagerðarmenn á svæðinu.
Um daginn var ég að aka á Mosfellsheiði er ég kom skyndilega að skilti sem sagði mér að hámarkshraðinn væri 50 km/klst. Ekki vissi ég af hverju fyrr en ég heyrði það einhverjum dögum síðar að hámarkshraðinn hefði verið lækkaður vegna slitlagskemmda. Nú hefur verið tilkynnt að hámarkshraðinn hefur verið lækkaður niður í 30 km/klst vegna nýja hringtorgsins við Þingvallavegamótin í Mosfellsbæ.
Ég ætla ekki að kvarta yfir þessari lækkun á hámarkshraða sem slíkri. Ég geri mér fulla grein fyrir þeirri hættu sem vegagerðarverkamenn leggja sig í þar sem þeir eru að störfum á og við fjölfarna akvegi. Hinsvegar er það ljóst að ef enginn er að störfum á framkvæmdasvæði, skapast sú hætta að fólk hætti að taka mark á slíkum boðum. Þetta minnir mig á ítalska leigubílstjórann sem fór upp í 140 þegar hann kom að 40 km hraðatakmörkun í fyrra.
Ég held að það verði því að gera þá kröfu til þeirra sem bera ábyrgð á öryggi við slíkar framkvæmdir að þeir merki framkvæmdasvæði nógu vel, en einnig með ljósamerkjum eins og ég hefi oft séð erlendis, en oft eru sérstök ljós sem segja til um lægri hámarkshraða ef verið er að vinna á svæðinu. Í slíkum tilfellum er kveikt á blikkljósum þegar vinna hefst að morgni og jafnframt á skiltum sem segja til um lækkaðan hámarkshraða í 30 km, en svo er slökkt á þessum ljósum að kvöldi þegar fólkið fer heim. Blikkljósin mega reyndar vera blikkandi allan tímann sem og stiglækkaður hámarkshraði áður en kemur að sjálfu framkvæmdasvæðinu, en það er óþarfi að vera með stórlækkaðan hámarkshraða, jafnvel niður í 30 km þegar enginn er við vinnu, t.d. á kvöldin og um helgar. Slíkt veldur einungis virðingarleysi fyrir lækkuðum umferðarhraða.
miðvikudagur, júlí 18, 2007
18. júlí 2007 - Flugfarþegar
Eins og allir vita, þjást Íslendingar af sjálfspyntingarhvöt og vilja því ekki vakna á eðlilegum tíma og fljúga til útlanda á venjulegum vökutíma. Svona hefur þetta verið um áratuga skeið. Ekki dugir að benda á Flugleiðir og þeirra stífu áætlun um hámarksnýtni og því sé verið að nýta vélarnar sem koma frá Ameríku eldsnemma að morgni og þurfa því að fara strax til Evrópu svo vélarnar nái Ameríkuflugi síðdegis.
Hin flugfélögin gera þetta líka. Æsland Express sendir fleiri flugvélar í loftið klukkan sjö að morgni að því er virðist, einvörðungu til að hrekkja væntanlega flugfarþega. Til að bæta gráu ofan á svart, telur SAS það vera merki um hressa Íslendinga að vakna fyrir allar aldir og eltir því hin félögin. Flugstöðin er því stútfull af morgunfúlum væntanlegum flugfarþegum á hverjum einasta morgni.
Ég fór með nokkrar manneskjur til Keflavíkur í morgun og í veg fyrir SAS flugið sem er þó á skikkanlegum tíma samanborið við hin félögin. Aksturinn suðureftir gekk vel því samkvæmt flugáætlunum Keflavíkurflugvallar áttu þrettán flugvélar að fara í loftið milli sjö og átta, en mínir farþegar þurftu ekki að mæta til innritunar fyrr en klukkan að verða sjö og voru því á eftir verstu umferðinni um flugstöðina og samt komnir vel tímanlega á flugvöllinn.
Á leiðinni heim hugsaði ég með mér að ég myndi lenda í verstu morgunumferðarófærð á leiðinni. Ég fór framhjá Straumsvík strax eftir klukkan 07.30 og þaðan tók aksturinn heim í Árbæinn einungis um 20 mínútur. Kannski var ég á undan morguntraffíkinni, en samt sýnir þetta vel hve lítil liðkun í umferðinni hefur mikið að segja. Nú er Reykjanesbrautin orðin tvær akreinar alveg frá Hafnarfirði til Reykjavíkur og einustu hindranirnar eru tvenn umferðarljós í Garðabænum og umferðin flýtur áfram eins og ekkert sé.
þriðjudagur, júlí 17, 2007
17. júlí 2007 - Lúkas og Sif
Fyrir nokkrum vikum var haldin minningarathöfn um hundinn Lúkas á Akureyri, í Reykjavík og ef ég man rétt, einnig á Ísafirði. Það var auglýst á þann hátt í fjölmiðlum og þannig var skilningur minn á athöfnunum. Ég hæddist að þessu og var þá svarað með því að hér væri verið að sýna andúð á ofbeldi gagnvart dýrum. Ég skal alveg taka undir það síðarnefnda og fagna sérhverri baráttu gegn dýrapyntingum.
Meðal þeirra sem komu með athugasemdir við blogg mitt var einn sem benti meðal á þá staðreynd að ekki væri enn búið að sanna að hundurinn væri dauður með orðunum: Hefur líkið fundist? Nú virðist sem hundurinn hafi verið lifandi allan tímann og reyndar furðulegt að hann hafi ekki leitað fyrr til byggða þegar haft er í huga að hann er alinn upp á meðal manna. Ég ætla ekki að velta því frekar fyrir mér, en þykir það sorglegt að einhverjir skuli hafa komið leiðinlegri kjaftasögu í gang og þannig reynt að skaða mannorð ungs manns. Loks er ástæða til að fagna því að lausn sé komin á hundamálið á Akureyri.
-----oOo-----
Ég hefi aðeins einu sinni flogið með þyrlu. Reyndar eru afrek mín meiri en það því ég hefi aldrei orðið svo fræg að fara á loft í þyrlu og aldrei lent í því að lenda í þyrlu. Ástæða þessa var að ég tók þátt í björgunaræfingu á vegum Slysavarnarskóla sjómanna og þyrlan hét TF-SIF.
Við vorum nokkur sem var hent í sjóinn af bát utan við Engey og svo kom þyrlan og “bjargaði” okkur og hífði upp eitt af öðru. Þegar áhöfn þyrlunnar hafði híft mig upp og sá hver ódráttur hafði komið á krókinn, flugu þeir með mig smáspöl og hentu mér síðan út aftur. Ævintýrin þennan dag og aðra daga sem ég var á námskeiðinu gáfu mér virkilegt adrenalínkikk og minnist ég þeirra með ánægju.
Í minningu námskeiðsins góða fylgdist ég með sjónvarpsmyndum frá aðgerðum á slysstað utan við Straumsvík í kvöld þar sem TF-SIF var á hvolfi í sjónum. Það var hryggilegt að sjá um leið og ég sendi þakklæti til almættisins fyrir að allir komust heilir í land.
mánudagur, júlí 16, 2007
16. júlí 2007 - Landhelgisgæslan og Jónas Hallgrímsson!
Ég skrapp niður á höfn í góða veðrinu á sunnudag með það að markmiði að kíkja á bókaútsölur í Kolaportinu, en bæði Þorvaldur og Siggi eru með 50% afslátt af bókum í básum sínum. Ég fann fátt sem ég þráði, en heim kom ég þó með eintak af Búfræðingatali á þúsund krónur.
Er út var komið og ég ætlaði að ganga yfir Geirsgötuna út í bíl, varð ég fyrir léttu áfalli er skipin við Faxagarð blöstu við mér. Það var búið að mála yfir nafn Landhelgisgæslunnar á síðu varðskipsins Týs og í staðinn var búið að mála ensku orðin Coast guard á yfirbygginguna.
Ég sannfærð um að Jónas Hallgrímsson hafi snúið sér við í gröf sinni þegar þetta var gert, hvort heldur hann hvílir í heiðursgrafreit á Þingvöllum eða í Assistentskirkjugarðinum í kóngsins Kaupmannahöfn.
Um leið velti ég því fyrir mér hvort Björn Bjarnason viti af þessu, en einnig hvort hópurinn sem kennir sig við Seifing Æsland viti ekki að við eigum hér Kóst gard sem hefur unnið her hennar hátignar í minnst þremur þorskastyrjöldum og að flaggskipið er í höfn, reiðubúið til að mæta Seifing Æsland?
-----oOo-----
Nefnd á vegum Alþingis kom eitt sinn í heimsókn í vinnuna til mín undir forystu Einars Odds Kristjánssonar. Ég lenti nánast í vandræðum með að svara Einari Oddi, enda ljóst að þarna fór maður sem setti sig vel inn í þau mál sem honum voru falin. Eftir þessi einu persónulegu kynni mín af Einari Oddi hefi ég ávallt borið mikla virðingu fyrir þessum manni sem lést á fjalli síðastliðinn laugardag.
sunnudagur, júlí 15, 2007
15. júlí 2007 - Selvogsgatan féll að fótum mér
Nei nei elskurnar mínar. Ég er ekki flutt suður í Hafnarfjörð og ég hefi ekki ekið Selvogsgötuna í Hafnarfirði í marga mánuði, en það eru til tvær Selvogsgötur öfugt við Eyktarás sem finnst einvörðungu í einu eintaki, sem gata í Reykjavík.
Á föstudagskvöldið skrapp ég á Næstabar og þar tilkynnti ég hverjum sem heyra vildi að ég ætlaði að ganga Selvogsgötuna á laugardag. Auðvitað á aldrei að taka mark á loforðum sem eru sett fram í ölæði, en ég er bara svo vitlaus að ég stend við loforðin. Það var því ekki annað að gera í þynnkunni á laugardagsmorguninn en að troða nesti í bakpokann, setja nýjar rafhlöður í gépéessinn og myndavélina og halda suður í Kaldársel þar sem ég lagði eðalvagninum meðan á svaðilförinni stóð. Guðrún Helga kom þangað og ók mér suður í Selvog. Þar heimtaði ég að hún henti mér út of vestarlega sem hún samþykkti og ég hóf gönguna upp í fjall.
Þegar á fjallið var komið fór ég að furða mig á því þvílíkt ófæruhraun var framundan og fór að skoða kortið og gépéessinn aðeins betur. Auðvitað hafði ég farið upp á röngum stað, upp Nátthagaskarðið í stað Selstígs sem er næsta skarð austar. Þar sem ég fór að rýna í kortin á fjallinu hugsaði ég með mér að gígurinn framundan hlyti að vera Hvalhnúkur og hóf að ganga í áttina að honum. Eftir nokkra stund fór ég að bera stefnuna við gépéessinn og auðvitað reyndist ég vera að fjarlægjast Selstíginn og Selvogsgötuna.
Eftir að ég hafði rétt af kúrsinn og fundið mér annað fjall sem hlyti að vera Hvalhnúkur þurfti ég aðeins að ganga í verstu tegund að kargahrauni í nokkrar klukkustundir uns ég kom að Austurási og síðan Hvalhnúki. Þar fann ég loksins vörður sem virtust vera til merkingar Selvogsgötunni. Eftir það gekk allt mun betur en áður og ég komst að Grindarskörðum tveimur stundum síðar og loks niður að Kaldárseli klukkan rúmlega ellefu á laugardagskvöldið eftir tíu tíma torfærugöngu.
Gangan eftir Selvogsgötunni var stórkostleg. Ég mætti ekki einustu manneskju alla gönguna. Einustu lífverurnar sem ég sá voru nokkrir fuglar og stundum voru kyrrðin og þögnin nánast yfirþyrmandi.
Svo finn ég alveg hvernig kílóin bráðna af mér.
P.s. ég hefði örugglega villst ef ég hefði ekki verið með nýja gépéessinn á mér!
laugardagur, júlí 14, 2007
14. júlí 2007 - Hrafnhildur ofurkisa
Í fyrrakvöld fór heilsan hjá mér í baklás. Ég hafði verið í burtu allan daginn og þegar ég kom heim og hristi lyklakippuna kom engin þreytt Hrafnhildur ofurkisa á móti mér eins og hún var vön að gera.
Hvar var Hrafnhildur? Ég gekk um allt hverfið hristandi lyklakippuna eins og gamall húsvörður og engin Hrafnhildur kom á móti mér. Okkur Tárhildi vælukisu gekk illa að sofna um nóttina, vitandi af Hrafnhildi úti í nóttinni.
Á fimmtudagsmorguninn vaknaði ég eldsnemma og rauk fram til að hleypa Hrafnhildi inn, en engin Hrafnhildur beið við dyrnar. Ég fór að hafa áhyggjur, ekki síður en vesalings Tárhildur sem hágrét og kallaði á systur sína sem svaraði engu. Til að gera málin enn verri þurfti ég að undirbúa mig fyrir útvarpsviðtal og kisan mín ennþá týnd. Ég hringdi í Kattholt. Engin Hrafnhildur þar, en Sigga í Kattholti lofaði að láta mig vita ef Hrafnhildarleg kisa kæmi í heimsókn.
Rétt áður en ég fór að heiman í útvarpsviðtalið tók ég einn hring um hverfið með lyklakippuna. Heyrði ég þá ámáttlegt væl úr runna rétt við húsið heima og sjá. Þarna var Hrafnhildur ofurkisa komin, glorhungruð, skítug og þreytt. Hún neitaði að segja mér hvar hún hafði haldið hús, lét sér nægja leyndardómsfullt bros um ævintýri næturinnar, gekk beint að dallinum sínum og tæmdi í örfáum munnbitum.
Ég og Tárhildur gátum tekið gleði okkar á ný og ég mætti á réttum tíma í útvarpsviðtalið.
-----oOo-----
Svo fær Victoria Ingrid Alice Desirée krónprinsessa Bernadotte hamingjuóskir með þrítugsafmælið í dag og jafnframt fær franska þjóðin hamingjuóskir með 218 ára byltingarafmælið.
föstudagur, júlí 13, 2007
12. júlí 2007 - Vífilsfellið einu sinni enn
Ferðin upp gekk vel, en þó var jarðvegurinn óþarflega þurr og og hefði mátt vera aðeins hærra rakastig í honum. Ég held meira að segja að þolið hjá mér hafi verið aðeins betra en um daginn er ég fór á Esjuna. Eftir að komið var niður aftur, var reynt að kanna það af Selvogsgötunni sem hægt var að sjá í þeirri von að hægt verði að fara Selvogsgötuna sem fyrst og fyrir haustrigningarnar. Carina þurfti einnig að kynna sér Kleifarvatnið enda er sú ágæta bók á sænsku á náttborðinu hennar og kjörið tækifæri til að kynna sér aðstæður.
Eftir Kleifarvatnið var rennt að ættaróðalinu í Herdísarvík (Langalangamma mín fæddist þar hundrað árum áður en Einar Ben dó). Ekki get ég þó metið af aðstæðum hvort gamli bærinn var þar sem rústir eru í dag, rétt austan við núverandi íbúðarhús og þar sem Einar Ben eyddi síðustu ævidögunum, en það hús var byggt eftir 1910 (ég veit ekki hvenær).
-----oOo-----
Af gefnu tilefni vil ég taka fram að ég mótmælti orðum í viðtali við mig sem var tekið á mánudag en birtist í Blaðinu á fimmtudag.Blaðakonan virtist taka mótmæli mín til greina í símtali á þriðjudag, en síðan var öllu snúið á hvolf þegar viðtalið birtist loksins. Ég er í öskrandi fýlu út í Blaðið eftir þessa meðferð.
Nú skil ég betur hvers vegna Blaðið var ekki borið í hús til mín á fimmtudagsmorguninn.
fimmtudagur, júlí 12, 2007
12. júlí 2007 - GéPéEssinn minn
Um daginn fékk ég rándýrt GPS handtæki í hendur og ætti nú að vera fær í flestan sjó, allavega ekki seinna en ég hefi lært á tækið góða.
Ástæða þess að ég lagði í þessa góðu fjárfestingu kemur ekki til af góðu. Í fyrrasumar ákváðu fimm konur og einn karl að ganga hina frægu Selvogsgötu frá Selvogi til Hafnarfjarðar. Um morguninn áður en lagt var af stað, hætti karlmaðurinn við að fara með okkur, enda þjáðist hann af óvæntum timburmönnum. Það að maðurinn hætti við var í sjálfu sér afsakanlegt, en vandamálið var bara að hann einn átti GPS tæki og því urðum við að halda til óbyggða án löglegra leiðsögutækja.
Svo skall á þoka. Er þokunni létti nokkrum klukkustundum síðar, sáum við ekki til Hafnarfjarðar, heldur Þorlákshafnar. Ferðasagan er hér og myndirnar hérna .
Ástæður skrifa minna eru ekki að endursegja gamla sögu heldur allt aðrar. Á hverju hausti týnast fleiri rjúpnaskyttur nema þá helst árin tvö góðu sem rjúpan var friðuð. Oft eru þessar rjúpnaskyttur vanbúnar til ferða um hálendið og ferðalag þeirra ein samfelld sorgarsaga fyrir þær sjálfar og hundruð leitarmanna sem eyða dýrmætum tíma og fjármunum í að leita týndra ferðamanna.
Af hverju leigja hjálparsveitirnar ekki út GPS tæki til fólks sem ferðast um í óbyggðum? Ég skil vel að fólk sem er sjaldan á ferð sér enga ástæðu til að leggja í kostnað upp á allt að 80.000 krónur til að nota einu sinni eða tvisvar á ári. Hinsvegar gæti verið stórsniðugt að einhver tæki að sér að leigja út svona tæki til ferðamanna.
Mín fjárfesting ætti þó að geta skilað sér í notkun tækisins í evrópskum stórborgum þar sem ég hefi oft gengið vitlausa götu á leiðinni heim á hótel.
-----oOo-----
Tvær ungar konur sem sýndu af sér óvenjulega mikinn andlegan styrk hafa bloggað reglulega og lýst áhyggjum sínum, gleði og sorgum þar sem þær þjáðust af krabbameini. Fyrir nokkru lést Ásta Lovísa Vilhjálmsdóttir og nú er Hildur Sif Helgadóttir einnig látin. Tilvist þeirra í bloggheimum gerði heiminn fegurri, ekki bara bloggheiminn, heldur og veröldina alla. Megi fjölskyldur þeirra eiga samúð okkar alla og við skulum minnast þeirra í bænum okkar.
miðvikudagur, júlí 11, 2007
11. júlí 2007 - Enn eitt nostalgíukastið
Þegar ég var ung og fyrir daga lögleiðingar öryggisbelta, þótti töff að aka um með opna hliðarrúðu og með hangandi hendi út um rúðuna. Ekki fór þetta alltaf vel því þessi öryggisaðferð kom ekki í staðinn fyrir öryggisbeltin. Eitt sinn varð ég vitni að hörkuárekstri þar sem lítill sendiferðabíll fór á hliðina og vesalings bílstjórinn festist með handlegginn undir bílnum. Hin slæma aðkoma og það að bílstjórinn á hinum bílnum var í öryggisbelti, varð til þess að ég hefi notað beltin allar götur síðan þá.
Í morgun sá ég gamlan og lítinn sendiferðabíl á ferð og bílstjórinn ríghélt um hurðina með opna rúðuna rétt eins og í gamla daga. Ekki gat ég séð að hann væri með öryggisbelti, en ósjálfrátt fékk ég eitt af mínum alþekktu nostalgíuköstum.
10. júlí 2007 – II – Klukkuð
Ég hefi víst verið klukkuð af Ylfu Mist Helgadóttur og neyðist því til að játa á mig átta syndir, en þær eru eftirfarandi:
1. Ég gleymdi að gefa stefnuljós er ég ók út úr hringtorgi um daginn.
2. Ég sofna alltaf áður en ég næ að opna bókina á náttborðinu.
3. Ég þoli ekki rétti með útlenskum landaheitum.
4. Mér finnst öl betra en kaffi.
5. Ég er blóðlöt við að skúra gólfin heima hjá mér.
6. Mér finnst rifsberjasulta góð.
7. Ég þoli ekki ketti! Þó á ég tvær gullfallegar kisur.
8. Mér leiðast fjallgöngur, en bara verð til að ná af mér aukakílóunum.
Í framhaldinu klukka ég Hildigunni, Hörpu, Stínu frænku, Parísardömuna, Sardínuna, Steina litla og Þórð sjóara.
Svo þýðir ekkert að klukka mig aftur.
þriðjudagur, júlí 10, 2007
10. júlí 2007 - Benedikt
Í dag ætlar annar Benedikt að reyna sömu þolraun. Í fréttum sjónvarpsins var hann kallaður Benedikt II (Benedikt annar). Mér finnst þessi nafngift vel til fallin og bíð ég þess nú að Benedikt XVI (Benedikt sextándi) leggi til sunds og busli yfir Ermarsundið. Helsta spennan í því sambandi verður þó ekki um hvort honum takist að synda alla leið, heldur fremur hvort hann muni synda eða beita hinni tvö þúsund ára aðferð forvera síns í starfi og rölta yfir Ermarsundið?
mánudagur, júlí 09, 2007
9. júlí 2007 - Göngugarpur?
Ég sé á athugasemdum við bloggið mitt að sumir bloggvina minna álíta mig einhvern ægilegan göngugarp. Það er rangt. Ég er algjör vesalingur í fjallgöngum og fer þessar ferðir meira af vilja en mætti.
Síðast þegar ég rölti á Esjuna, fyrir tveimur vikum, fór ég upp á rúmlega tveimur tímum og var gjörsamlega örmagna er upp var komið. Síðan var það bara þrjóskan sem fékk mig til að halda austur á Hábungu. Þegar þangað var komið þurfti ég, hvort sem mér líkaði betur eða verr, að halda nánast sömu leið til baka. Ekki af því að mig langaði til þess, en mér finnst skemmtilegra að skila mér aftur heim til mín en að verða úti á fjallinu.
Í framhaldi þeirrar göngu og þess hve mér hefur gengið illa að byggja upp þol síðan ég hóf að rölta á fjöll, pantaði ég mér tíma hjá lækni eftir síðustu Esjugöngu. Læknirinn sá hefur haldið mér við efnið í heilsufari síðasta áratuginn og var ekki lengi að finna út í hverju vandamálið væri fólgið. Síðasta áratuginn hefi ég tekið blóðþrýstingslyf og hann vildi meina að ég þyrfti að minnka notkun þeirra. Þau héldu hreinlega aftur af eðlilegu blóðstreymi til fótanna þegar ég reyndi á mig.
Nú eru komnir tíu dagar síðan ég hóf að minnka notkun á blóðþrýstingslyfjum og ég er ekki frá því að hann hafi rétt fyrir sér. Kannski næ ég því að verða þessi göngugarpur sem Ylfa Mist og fleiri halda mig vera.
sunnudagur, júlí 08, 2007
8. júlí 2007 - Öfund mín í garð Baltasars Kormáks?
Ég sá það í fréttum að Mýrin hefði fengið aðalverðlaunin, hin svokölluðu “Crystal Globe Grand Prix”, á hinni heimsfrægu kvikmyndahátíð Karlowy Vary í Tékklandi. Mikill heiður sem leikstjóranum Baltasar Kormáki er sýndur með þessum verðlaunum.
Ég hefi aldrei heyrt þessara verðlauna getið fyrr. Baltasar Kormákur hefur þó væntanlega heyrt þessara verðlauna getið, enda hefur hann miklu meira vit á kvikmyndaverðlaunum en ég sem aldrei hefi framleitt kvikmynd, ekki einu sinni séð Mýrina og því ókunnugt um hversu mikið snilldareintak af kvikmynd hún telst vera.
Síðasta kvikmynd kappans sem ég barði augum var Hafið sem sýnd var í sjónvarpi fyrir einhverjum árum síðan. Ég man ekki hvort ég entist til að horfa á alla myndina, en hún hvatti mig ekkert til að horfa á fleiri kvikmyndir hins fræga leikstjóra. En það er ekkert Baltasar Kormáki að kenna þótt ég sé með svona hræðilegan kvikmyndasmekk að geta ekki horft á listaverk hans til enda.
Hinsvegar ættu Norðfirðingar að geta fagnað með því að þeir losnuðu við gamalt úrelt frystihús í eldi í kvikmyndatökum Baltasars Kormáks þegar Hafið var tekið upp. Sömuleiðis Baltasar Kormákur sem hefur væntanlega fengið 20.000 $ peningaverðlaun auk verðlaunagripsins ef marka má heimasíðu þessarar heimsfrægu kvikmyndahátíðar.
laugardagur, júlí 07, 2007
7. júlí 2007 - II - Ættarmót
Ég var að lesa í Fréttablaðinu að kallað hefði verið út aukafólk á vakt hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum um helgina. Í sömu frétt er sagt frá því að Johnsensættin sé með ættarmót í Vestmannaeyjum þessa sömu helgi.
Þrátt fyrir neitun lögreglunnar, er ekki fráleitt að draga þá ályktun af fréttinni að tengsl séu þarna á milli.
7. júlí 2007 - Niðurskurður
Þegar ég byrjaði til sjós árið 1966 mátti hver sem var fiska upp að 12 mílum við Íslandsstrendur. Hér voru fleiri hundruð erlendir togarar að veiðum, enskir, þýskir, belgískir, rússneskir og frá mörgum öðrum þjóðum. Aflinn var misjafn, en almennt var talið að þorskveiðar væru á mörkum ofveiði.
Því var gripið til þess að draga úr veiðum útlendinga með útfærslu fiskveiðilögsögunnar 1972 og 1975. Þá var mikil bjartsýni ríkjandi, en þá voru sömuleiðis að berast svartar skýrslur frá Hafrannsóknarstofnun til áminningar þess að ekki væri nægur í sjónum. Það var þó ekki fyrr en um 1984 sem núverandi kvótakerfi komst á og þannig reynt að stýra veiðunum svo allir fengju nóg og eins til að nóg væri eftir af fiski í sjónum til handa komandi kynslóðum.
Síðan eru liðin 23 ár. Búið er að skera þorskveiðina niður um kannski allt að tveimur þriðju og samt er enn veitt of mikið. Næsta kynslóð er komin og enn er verið að skera niður. Fiskveiðistjórnunarkerfið sem átti að vera leiðbeinandi er nú orðið að reglu og alltaf má veiða minna og minna. Það má vel vera að þetta sé allt gott og blessað, en þá er líka ekkert að marka það sem á undan er gengið. Staðan nú er eins og ef verið væri að byrja með veiðistýringu, en ekki eins og slíkt hefði byrjað fyrir 23 árum.
Eru ekki einhversstaðar mjög alvarlegir ágallar á fiskveiðistjórnunarkerfinu?
Fyrir nærri fjórum áratugum brugðust síldveiðarnar og hrun varð á fiskmörkuðum vestanhafs. Þetta leiddi af sér kreppu öllu verri en þessa tilbúnu kreppu stjórnvalda árið 2007. Árin 1967 og 1968 þurfti að grípa til hrikalegra gengisfellinga með stórfelldu atvinnuleysi og almennri vesöld um tíma. Það var eðlilegt því þá voru öll eggin í sömu körfunni. Síðan þá hefur fjölbreytnin aukist umtalsvert, m.a. með tilkomu hinna hötuðu álvera. Nú eru uppi hávær barátta gegn álverum þótt tilkoma þeirra stuðli að náttúruvernd á alheimsvísu jafnframt því sem útgerðarmenn eru byrjaðir með gömlu gengisfellingartugguna sína.
Útgerðarmenn fengu fiskinn á silfurfati og nú verða þeir að bera sjálfir ábyrgð á honum. Því hlýtur það að vera algjör krafa að ekki verði hlustað á vælið í þeim, en að reynt verði að hraða uppbyggingu stóriðju sem hefur að nokkru leyti komið í stað fisksins í sjónum og mun vonandi gera það í enn frekari mæli á næstu árum.
föstudagur, júlí 06, 2007
6. júlí 2007 - Túrhestur í einn dag
Ég gerðist túrhestur í einn dag á fimmtudag og fór hina hefðbundnu leið að Geysi, Gullfossi og Þingvöllum með hina fjóra gesti mína frá Svíþjóð. Ekki veitt mér af að rifja upp þessa leið, enda ekki farið hana í nokkur ár. Nánast allt var á sínum stað, Geysissvæðið, Gullfoss og Þingvellir.
Þrátt fyrir ánægju mína vegna bættra öryggisatriða við Gullfoss, þótti mér öllu verra að sjá og heyra hve Geysir og Strokkur eru orðnir daprir. Þessar svettur sem komu úr Strokki voru óttalega ræfilslegar samanborið við það sem var fyrir fáeinum árum síðan. Þótt kraumaði í Geysi skildist mér á starfsmanni sem ég talaði við, að Geysir gæfi frá sér smáskvettur öðru hverju og hafði ekkert komið frá honum síðan á miðvikudag er ég stoppaði þar. Það er því ljóst að eitthvað róttækt þarf að gera, annað hvort að bora aðeins í Geysi eða Strokk, nema slíkt sé gert á báðum stöðum til að opna inntaksrásirnar og auka þannig aðstreymið af heitu vatni sem er nærri suðumarki undir þrýstingi.
Það er alveg ljóst að þótt mikið hafi verið lagt í Geysissvæðið til að tæla að túrhesta, verður lítið gagn af þeim framkvæmdum ef Geysir og Strokkur fá að deyja drottni sínum.
Ætli þingmenn Suðurlands viti af þessu?
-----oOo-----
Ökumennirnir á PZ-682 og BH-996 fá svo falleinkunn fyrir að aka um 20 km undir hámarkshraða við bestu aðstæður, að safna bílum fyrir aftan sig og skapa þannig verulega hættu þegar bílar voru að reyna framúrakstur.
miðvikudagur, júlí 04, 2007
4. júlí 2007 - Lækkun húsnæðislánahlutfalls í 80%
Fyrir manneskju sem ekki á eigin íbúð er erfitt að safna peningum. Allur sá peningur sem gæti farið í sparnað eða í að borga niður eigið húsnæði fer í húsaleigu. Þetta verður eins og vítahringur sem erfitt er að rjúfa. Fyrir nokkrum árum rofnaði sá vítahringur að nokkru leyti og ég notaði tækifærið og keypti mér íbúð í stað þess að eyða öllum peningunum í húsaleigu. Nú hefur Jóhanna Sigurðardóttir lokað glufunni aftur. Það gerir ekkert til fyrir mig persónulega því að ég er löngu komin á lygnan sjó í húsnæðismálum, takk veri hækkun lánshlutfalls húsnæðislána fyrir þremur árum.
Með lækkun húsnæðislánahlutfallsins í 80% hefur Jóhanna gert atlögu að efnaminna fólki þessa samfélags. Um leið ætlar Jóhanna að búa til nýtt félagslegt íbúðalánakerfi og auka á möguleika fólks að geta leigt húsnæði. Þannig ætlar hún að loka hringnum og byggja múra. Fólk sem lendir í vítahring húsaleigunnar á að vera þar áfram og ekki hafa möguleika á að rjúfa vítahringinn.
Ænei, ekki þú Jóhanna mín. Þarf ég virkilega að þakka almættinu fyrir að Jóhanna Sigurðardóttir var ekki félagsmálaráðherra þegar ég losnaði úr vítahringnum fyrir þremur árum?
þriðjudagur, júlí 03, 2007
3. júlí 2007 - Hryðjuverkin í Bretlandi
Bloggvinur minn Arngrímur Eiríksson sendi mér athyglisvert viðtal á dögunum í framhaldi af þeirri hryðjuverkaógn sem nú steðjar að Bretlandi. Mér þótti þetta viðtal mjög athyglisvert, en þótt ég sé ekki sammála því að öllu leyti, get ég ekki annað en samsinnt ýmsu því sem þar kemur fram:
http://youtube.com/watch?v=4xyM5XRcjMw
Ég fór að velta hlutunum fyrir mér. Þú setur gaskút eða gaskúta ásamt nokkrum pökkum af nöglum í dýran bíl, opnar frá gasinu og yfirgefur bílinn. Svo ætlast þú til þess að þú getir komið af stað sprengingu með hjálp gemsa. Það getur vel verið að það sé hægt, en þá notar þú ekki vandaðan þýskan bíl til verksins heldur einhvern enskframleiddan sem hugsanlega tætist í sundur við sprenginguna. Eða tætist einhver bíll í sundur við sprenginguna? Verður þetta ekki bara einhvert klúður? Kannski var tilgangurinn einhver annar en sá að drepa fólk.
Gordon Brown þurfti á athygli að halda. Í mörg hafði hann þurft að sætta sig við að vera í skugga Tony Blair þótt hann væri í reynd höfundur þeirrar stefnu sem Tony fylgdi í innanríkismálum. Hann þurfti því á að halda athygli sem beinir athyglinni að honum sem landsföður, en ekki bara sem fjárgæslumanns. Það þurfti því saklaus hryðjuverk til verksins. Nú eru þau komin. Að einhver hafi brennst í árásunum segir ekki annað en að eitthvað hafi farið úrskeiðis í árásinni á flugstöðina í Glasgow.
Það er líka til önnur skýring. Á síðustu hundrað árum hafa minna en 50.000 farist í hryðjuverkaárásum í heiminum. Til samanburðar má geta þess að 50+ milljónir fórust í seinni heimstyrjöldinni. Okkur stafar því mun minni hætta af hryðjuverkum en nokkru öðru, t.d. margfalt minni hætta en af umferðarslysum. Kannski er nóg að reka við til að skapa ótta.
Í fyrrasumar, skömmu eftir að rætt hafði verið um sprengju í fljótandi formi var ég stödd í flugstöðinni í Manchester þegar maður sem sat rétt hjá mér uppgötvaði að plastpoki með einhverju dóti lá við hliðina á leiktæki í brottfararsalnum. Hann tilkynnti um pokann og um leið kom heill her vopnaðra manna sem girti af þennan hluta flugstöðvarinnar, en áður en þeir náðu að gera meiri vandræði kom eigandi pokans og heimtaði hann til baka og fékk hann. Þar með var hættuástandi aflýst.
Einhverjir hugsanlegir hryðjuverkamenn höfðu náð tilgangi sínum. Með því að einhver saklaus vegfarandi gleymdi poka á förnum vegi, skapaðist spenna og nagandi ótti við hryðjuverk, nákvæmlega það ástand sem óvinir ríkisins vilja framkalla.
-----oOo-----
Í dag, 3. júlí 2007 verður Jóel Kristinn Jóelsson garðyrkjubóndi að Reykjahlíð í Mosfellsdal borinn til grafar. Á síðastliðnum vetri þegar fjölmiðlar voru á kafi í að úthúða starfsfólki og nágrönnum barnaheimilisins að Reykjahlíð í Mosfellsdal kom hann oft upp í huga mér, ekki einungis fyrir að vera faðir bestu félaga æsku minnar, heldur og fyrir þá vináttu sem hann sýndi börnunum á barnaheimilinu með því að virða þau sem vini sína og fór hann aldrei í manngreinarálit þótt misjafn væri sauður í mörgu fé.
Ég vil votta ekkju hans, Salóme Þorkelsdóttur fyrrum alþingismanni, börnum og barnabörnum og öðrum ættingjum samúð mína og minna.
mánudagur, júlí 02, 2007
2. júlí 2007 - Læknuð af Formúlu?
Einhverntímann hefði ég ekki látið það spyrjast um mig að ég missti af keppni í Formúlu 1. Það var í þá daga sem MIchael Schumacher var upp á sitt besta og ég reyndar líka. Nú er ég orðin nokkrum árum þroskaðri og Schumacher gamli kominn á eftirlaun.
Fyrir rúmum mánuði ákvað ég að fara fremur á fjall en að horfa á leiðinlegasta kappakstur ársins í Formúlu 1, en sá kappakstur er að venju haldinn í Mónakó. Á sunnudag var haldin keppni í Frakklandi og ég nýlega komin heim af næturvaktinni.
Ég vaknaði tíu mínútum áður en keppnin byrjaði, horfði á vekjaraklukkuna og velti fyrir mér um stund hvort ég ætti að skríða framúr og fara inn í stofu til að horfa á keppnina eða halda áfram að sofa. Meðan ég var enn í svefnrofunum mundi ég skyndilega að Michael Schumacher var ekki nálægt ráspól, ekki einu sinni þátttakandi í keppninni.
Ég snéri mér á hina hliðina og hélt áfram að sofa.