sunnudagur, júlí 22, 2007

22. júlí 2007 - Finnur Árnason forstjóri Haga ...... rak upp ramakvein í blöðum á dögunum og kvartaði sáran yfir vonsku Alþýðusambandsins og, ef mig misminnir ekki, Hagstofu Íslands gagnvart smásöluversluninni. Þar dró hann fram þá staðreynd að verðlag í Baugsverslunum hefði nánast staðið í stað á síðustu fimm árum á sama tíma og vísitala neysluverðs hefði hækkað um rúm 20%. Þetta átti að vera til marks um góðmennsku Baugsmiðla eða svo vitnað sé í orð forstjórans:
“Sá atvinnurógur sem dagvöruverslunin hefur ítrekað orðið fyrir undanfarin ár, á því ekki við nein rök að styðjast.”

Svo mörg voru þau orð. Sjálf er ég ekki alveg sannfærð þrátt fyrir tölur forstjórans. Ef ég man rétt var gengið verulega lægra og dollarinn í um 100 krónum fyrir fimm árum síðan. Því ætti allur innflutningur að hafa lækkað sem gengishækkuninni nemur á þessum tíma, en það hefur hann ekki gert nema að mjög litlu leyti. Gengishækkunin hefur runnið nánast óskipt í vasa heildsalanna meðal annars Haga hf.

Hagar hf hafa því ekki verið að gera nein góðverk á þessum fimm árum heldur grætt peninga sem aldrei fyrr vegna sterkrar stöðu krónunnar. Mig grunar að veikari króna verði fljót að skila sér út í verðlagið þótt lítið hafi sést af gengishækkunni, ekki fremur en skattalækkuninni.

-----oOo-----

Ég var úti að aka á laugardag og lenti þá á eftir ungu pari á Bimma suður í Kópavogi. Framundan skipti yfir í rautt ljós, en fólkið á bílnum á undan skeytti því engu, heldur ók rólega yfir á rauðu eins og ekkert væri sjálfsagðara. Ég komst svo upp að hlið bílsins á næsta ljósi þar sem hann var stopp á rauðu fyrir aftan fleiri bíla. Þá sá ég skýringuna. Vesalings karlkyns ökumaðurinn var svo upptekinn af gullfallegri stúlku við hlið sér í framsætinu að hann tímdi ekki að horfa á umferðina framundan.


0 ummæli:Skrifa ummæli