mánudagur, júlí 16, 2007

16. júlí 2007 - Landhelgisgæslan og Jónas Hallgrímsson!

Ég skrapp niður á höfn í góða veðrinu á sunnudag með það að markmiði að kíkja á bókaútsölur í Kolaportinu, en bæði Þorvaldur og Siggi eru með 50% afslátt af bókum í básum sínum. Ég fann fátt sem ég þráði, en heim kom ég þó með eintak af Búfræðingatali á þúsund krónur.

Er út var komið og ég ætlaði að ganga yfir Geirsgötuna út í bíl, varð ég fyrir léttu áfalli er skipin við Faxagarð blöstu við mér. Það var búið að mála yfir nafn Landhelgisgæslunnar á síðu varðskipsins Týs og í staðinn var búið að mála ensku orðin Coast guard á yfirbygginguna.

Ég sannfærð um að Jónas Hallgrímsson hafi snúið sér við í gröf sinni þegar þetta var gert, hvort heldur hann hvílir í heiðursgrafreit á Þingvöllum eða í Assistentskirkjugarðinum í kóngsins Kaupmannahöfn.

Um leið velti ég því fyrir mér hvort Björn Bjarnason viti af þessu, en einnig hvort hópurinn sem kennir sig við Seifing Æsland viti ekki að við eigum hér Kóst gard sem hefur unnið her hennar hátignar í minnst þremur þorskastyrjöldum og að flaggskipið er í höfn, reiðubúið til að mæta Seifing Æsland?

-----oOo-----

Nefnd á vegum Alþingis kom eitt sinn í heimsókn í vinnuna til mín undir forystu Einars Odds Kristjánssonar. Ég lenti nánast í vandræðum með að svara Einari Oddi, enda ljóst að þarna fór maður sem setti sig vel inn í þau mál sem honum voru falin. Eftir þessi einu persónulegu kynni mín af Einari Oddi hefi ég ávallt borið mikla virðingu fyrir þessum manni sem lést á fjalli síðastliðinn laugardag.


0 ummæli:







Skrifa ummæli