sunnudagur, júlí 15, 2007

15. júlí 2007 - Selvogsgatan féll að fótum mér


Nei nei elskurnar mínar. Ég er ekki flutt suður í Hafnarfjörð og ég hefi ekki ekið Selvogsgötuna í Hafnarfirði í marga mánuði, en það eru til tvær Selvogsgötur öfugt við Eyktarás sem finnst einvörðungu í einu eintaki, sem gata í Reykjavík.

Á föstudagskvöldið skrapp ég á Næstabar og þar tilkynnti ég hverjum sem heyra vildi að ég ætlaði að ganga Selvogsgötuna á laugardag. Auðvitað á aldrei að taka mark á loforðum sem eru sett fram í ölæði, en ég er bara svo vitlaus að ég stend við loforðin. Það var því ekki annað að gera í þynnkunni á laugardagsmorguninn en að troða nesti í bakpokann, setja nýjar rafhlöður í gépéessinn og myndavélina og halda suður í Kaldársel þar sem ég lagði eðalvagninum meðan á svaðilförinni stóð. Guðrún Helga kom þangað og ók mér suður í Selvog. Þar heimtaði ég að hún henti mér út of vestarlega sem hún samþykkti og ég hóf gönguna upp í fjall.

Þegar á fjallið var komið fór ég að furða mig á því þvílíkt ófæruhraun var framundan og fór að skoða kortið og gépéessinn aðeins betur. Auðvitað hafði ég farið upp á röngum stað, upp Nátthagaskarðið í stað Selstígs sem er næsta skarð austar. Þar sem ég fór að rýna í kortin á fjallinu hugsaði ég með mér að gígurinn framundan hlyti að vera Hvalhnúkur og hóf að ganga í áttina að honum. Eftir nokkra stund fór ég að bera stefnuna við gépéessinn og auðvitað reyndist ég vera að fjarlægjast Selstíginn og Selvogsgötuna.

Eftir að ég hafði rétt af kúrsinn og fundið mér annað fjall sem hlyti að vera Hvalhnúkur þurfti ég aðeins að ganga í verstu tegund að kargahrauni í nokkrar klukkustundir uns ég kom að Austurási og síðan Hvalhnúki. Þar fann ég loksins vörður sem virtust vera til merkingar Selvogsgötunni. Eftir það gekk allt mun betur en áður og ég komst að Grindarskörðum tveimur stundum síðar og loks niður að Kaldárseli klukkan rúmlega ellefu á laugardagskvöldið eftir tíu tíma torfærugöngu.

Gangan eftir Selvogsgötunni var stórkostleg. Ég mætti ekki einustu manneskju alla gönguna. Einustu lífverurnar sem ég sá voru nokkrir fuglar og stundum voru kyrrðin og þögnin nánast yfirþyrmandi.

Svo finn ég alveg hvernig kílóin bráðna af mér.

P.s. ég hefði örugglega villst ef ég hefði ekki verið með nýja gépéessinn á mér!


0 ummæli:Skrifa ummæli