þriðjudagur, júlí 17, 2007

17. júlí 2007 - Lúkas og Sif


Fyrir nokkrum vikum var haldin minningarathöfn um hundinn Lúkas á Akureyri, í Reykjavík og ef ég man rétt, einnig á Ísafirði. Það var auglýst á þann hátt í fjölmiðlum og þannig var skilningur minn á athöfnunum. Ég hæddist að þessu og var þá svarað með því að hér væri verið að sýna andúð á ofbeldi gagnvart dýrum. Ég skal alveg taka undir það síðarnefnda og fagna sérhverri baráttu gegn dýrapyntingum.

Meðal þeirra sem komu með athugasemdir við blogg mitt var einn sem benti meðal á þá staðreynd að ekki væri enn búið að sanna að hundurinn væri dauður með orðunum: Hefur líkið fundist? Nú virðist sem hundurinn hafi verið lifandi allan tímann og reyndar furðulegt að hann hafi ekki leitað fyrr til byggða þegar haft er í huga að hann er alinn upp á meðal manna. Ég ætla ekki að velta því frekar fyrir mér, en þykir það sorglegt að einhverjir skuli hafa komið leiðinlegri kjaftasögu í gang og þannig reynt að skaða mannorð ungs manns. Loks er ástæða til að fagna því að lausn sé komin á hundamálið á Akureyri.

-----oOo-----

Ég hefi aðeins einu sinni flogið með þyrlu. Reyndar eru afrek mín meiri en það því ég hefi aldrei orðið svo fræg að fara á loft í þyrlu og aldrei lent í því að lenda í þyrlu. Ástæða þessa var að ég tók þátt í björgunaræfingu á vegum Slysavarnarskóla sjómanna og þyrlan hét TF-SIF.

Við vorum nokkur sem var hent í sjóinn af bát utan við Engey og svo kom þyrlan og “bjargaði” okkur og hífði upp eitt af öðru. Þegar áhöfn þyrlunnar hafði híft mig upp og sá hver ódráttur hafði komið á krókinn, flugu þeir með mig smáspöl og hentu mér síðan út aftur. Ævintýrin þennan dag og aðra daga sem ég var á námskeiðinu gáfu mér virkilegt adrenalínkikk og minnist ég þeirra með ánægju.

Í minningu námskeiðsins góða fylgdist ég með sjónvarpsmyndum frá aðgerðum á slysstað utan við Straumsvík í kvöld þar sem TF-SIF var á hvolfi í sjónum. Það var hryggilegt að sjá um leið og ég sendi þakklæti til almættisins fyrir að allir komust heilir í land.


0 ummæli:Skrifa ummæli