fimmtudagur, nóvember 12, 2015

12. nóvember 2015 - Kennitöluflakk


17. janúar 2014 hélt Eimskipafélag Íslands upp á 100 ára afmæli sitt. Var það gert með slíkum sóma að eftir var tekið og sjálf eignaðist ég bókapakka með sögu Eimskipa og skipa þess auk listarverkabókar með hjálp góðrar vinkonu minnar sem þá starfaði hjá félaginu, því sjálf hefi ég ekki verið í föstu starfi hjá félaginu síðan 1989 þótt ég hafi leyst af á skipum félagsins auk Herjólfs öðru hverju í gegnum árin.

Vissulega kvörtuðu margir yfir 100 ára afmælinu, aðallega menn sem aldrei höfðu starfað hjá félaginu. Þetta væri sko ekkert 100 ára afmæli, nær væri að tala um fimm ára afmæli enda félagið búið að skipta um kennitölu og því alls ekki sama félagið og forðum daga. 

Það er vissulega rétt að skipt var um kennitölu, að gróðapungar þeir sem notuðu gott orðspor félagsins til að blóðmjólka félagið komu því nánast á hausinn svo það þurfti að endurreisa það með nýjum kennitölum. Ekki ætla ég að véfengja það, en starfsfólkið hélt áfram að vinna á sama vinnustað undir sama nafni og ekkert breyttist og sömu skipin héldu áfram að sigla undir sömu nöfnum með sömu áhöfnum. Það var bara einhver kennitala sem breyttist. Stærstur hluti starfsfólksins vissi ekki einu um breytinguna á kennitölunni.

Ég er löngu hætt í föstu starfi hjá Eimskipafélaginu þótt ég hafi vissulega leyst af á skipum félagsins á undanförnum árum og líkað vel, enda margir gamlir skipsfélagar enn á skipum félagsins og þetta er nánast eins og ættarmót gamalla skipsfélaga að skreppa túr á skipunum.

Árið 1996 flutti ég til Íslands frá Svíþjóð og hóf störf hjá Hitaveitu Reykjavíkur. Ég get ekki með nokkru móti munað kennitölu Hitaveitunnar, en hún byrjaði með Laugaveitunni 1930, var formlega stofnuð með Reykjaveitunni 1943 eða síðar, var það kannski formlega 1948?, enda byrjaði ég ekki fyrr en haustið 1996. Ég er enn á sama vinnustað og þó. Samkvæmt kröfum gagnrýnenda Eimskipafélagsins er ég á þriðja vinnustaðnum frá 1996 því ég vinn nú undir þriðju kennitölunni frá því ég byrjaði. Fyrst var það Hitaveita Reykjavíkur, tveimur árum síðar varð það Orkuveita Reykjavíkur og nú heitir vinnustaðurinn minn Veitur ohf. Svo skörp voru skilin á milli Orkuveitu Reykjavíkur og Veitna ohf, að ég vissi ekki af nýja nafninu fyrr en löngu síðar og enn síðar af nýju kennitölunni. Þó vinn ég enn á sama vinnustað og ég hóf störf haustið 1996, sama fólkið, sömu dælustöðvarnar, sömu borholurnar.

Árið 1989 hætti ég hjá Eimskipafélagi Íslands og flutti til Svíþjóðar og fékk nýja kennitölu. Nokkrum árum síðar breytti ég um kynskráningu í sænskri þjóðskrá og þar með fékk ég enn eina kennitöluna. Síðar flutti ég aftur til Íslands og hóf störf hjá Hitaveitunni og fékk ég aftur gömlu kennitöluna mína.

Ef einhver heldur því fram að ég sé 63 ára, get ég sannað að slíkt sé rangt. Ég fékk nýja kennitölu 24. apríl 1995 svo vitnað sé í fólk sem telur Eimskip vera nýtt félag.sunnudagur, nóvember 08, 2015

8. nóvember 2015 - Gengið á húsþökumFyrir nokkrum árum voru forráðamenn byggingafyrirtækis dæmdir fyrir vítavert kæruleysi eftir að byggingaverkamaður hjá þeim féll niður af stillans í nokkurri hæð og lét lífið. Eftir slysið héldu þeir því fram að ekki væri alltaf hægt að koma í veg fyrir banaslys. Öryggismál voru samt talin vera í lamasessi á vinnustaðum samanber banaslysið.

Ég var að horfa á auglýsingu frá Íbúðalánasjóði þar sem ung stúlka gengur á hælaskóm eftir þakmænum og situr á  þakskeggi tilbúin að hoppa. Ekki veit ég hvað þessar aðfarir eiga að tákna, en þær eru ekki góð auglýsing fyrir íbúðamarkaðinn, kannski er hún að minna okkur á hrunið þegar menn fóru framúr sér og það var hátt fall og dýrt fyrir íslensku þjóðina.

Það er kannski ekki ris og fall byggingariðnaðarins sem er mér efst í huga við að sjá þessa auglýsingu heldur öryggismálin. Það eru mörg dæmi þess að byggingaverkamenn hafi fallið ofan af þaki og mörg eru dauðaslysin í byggingariðnaði á Íslandi sem og annars staðar. Í Danmörku með sinn mikla kaupskipaflota eru banaslys tengd kaupskipum orðin færri en í byggingariðnaði. Ég veit ekki tölurnar hér heima þar sem engin kaupskip eru eftir undir íslenskum fána að frátöldum fáum ferjum og hvalaskoðunarbátum, en ég veit nokkur alvarleg slys í byggingariðnaði hér á landi á undanförnum áratugum.
 
Það hefur mikið átak verið gert til að bæta öryggismálin um borð í skipum og í tengslum við sjómennsku. Talsvert hefur einnig verið gert til að bæta öryggismálin í byggingariðnaði, en hvort það sé nægjanlegt skal ég ekki fullyrða. Það er hinsvegar víða pottur brotinn í þeim efnum hvort sem það er sök verktakans eða verkamannsins. Sjái ég til manna spígsporandi á húsþökum án þess að vera í öryggislínu geri ég miskunnarlaust athugasemdir við slíkt hafi ég tækifæri til slíks, enda á slíkt ekki að þekkjast í nútímasamfélagi þar sem reglan skal vera að allir komist heilir heim að afloknum vinnudegi. Þetta á jafnt við um það sem ber við augu sem og myndir af slíku sem sjást á samfélagsmiðlum. Svo birtir Íbúðalánasjóður auglýsingu þar sem ung stúlka á hælaskóm vappar lausbeisluð um á húsþökum, reynir að halda jafnvægi á húsmæni og situr á ystu nöf.

Með þessum orðum hvet ég Íbúðalánasjóð til þess að draga þessa hræðilegu auglýsingu sína hið snarasta til baka. Hún er Íbúðalánasjóði og framleiðendum auglýsingarinnar til skammar.