miðvikudagur, apríl 30, 2008

1. maí 2008 - Ferðasaga

Það er sagt að það sé gaman í Berlín á 1. maí. Ekki veit ég neitt um það en vinir mínir í Berlín hafa ráðið mér að halda mér frá kröfugöngu dagsins.

Ég skrapp til útlanda á miðvikudagsmorguninn á Valborg, sjálfan 30. apríl. Slíkt þykir venjulega ekkert merkilegt og því er ástæða til að yppta öxlum og snúa sér að einhverju skemmtilegu í stað þess að lesa leiðinlega ferðasögu.

Þegar haft er í huga að lítið er til af peningum, ákvað ég að skera niður hótelkostnaðinn eins og hægt var þó þannig að ég næði öllu því skemmtilegasta á ráðstefnu TGEU í Berlín. Því enduðu pantanir þannig að ég fékk mér far með Æsland Express til Stansted en áfram þaðan með RyanAir til Berlínar og ég var mætt á Keflavíkurflugvöll eldsnemma á miðvikudagsmorguninn.

Ekki vantaði félagsskapinn þegar þangað var komið. Gamall skóla- og skipsfélagi var að fara í golfferð til Englands og höfðum við margt að spjalla um eftir að hafa ekki hist í 19 ár. Svo var flogið til Stansted. Þar tók við löng og leiðinleg bið eftir næstu vél.

Ég held að Stansted sé að verða of lítill flugvöllur. Það var ekki bara að flugvélarnar eiga orðið erfitt með að komast í stæði, heldur virðist starfsfólkið á flugvellinum þreytt og illa haldið. Ég fékk brottfararspjald í vélina til Berlínar löngu á eftir áætlun. Eftir að ég var komin inn í fríhöfnina kom í ljós að ég hafði fengið brottfararspjald á almenna biðröð þótt ég hefði greitt fyrir forgang í vélina. Hlaðfreyja sem ég talaði við var fljót að laga það atriði. Það var skrifað á brottfararspjaldið að ég ætti að fara í hlið nr 46. Svo var öllu fólkinu vísað á hlið 48 og loks á hlið 55. Flugvélin skilaði sér of seint vegna rigningar. Samt var fólkið rekið inn og svo var haldið af stað. Þá kom í ljós að flugstjórinn hélt að hann væri Eddie Irvine endurborinn og gaf allt í botn. Fyrir bragðið vorum við ekki tuttugu mínútum á eftir áætlun á áfangastað, heldur tíu mínútum fyrir áætlaðan lendingartíma. Hann hefði samt mátt lenda aðeins mjúklegar í Berlín.

Þegar ég var komin upp á hótel, búin að taka það verðmætasta upp úr töskunum og skrifa athugasemd þess efnis að ég væri komin draumastaðinn ákvað ég að fá mér einn lítinn öl fyrir svefninn og rölti niður á bar. Þar sem ég sötraði mitt öl veitti ég þvi athygli að maður einn sem sat við barinn, missti kort úr veskinu sínu án þess að taka eftir því. Ég rölti því yfir til kappans og rétti honum greiðslukortið hans. Nú er ég ekki lengur aðeins hreyfð af öli, heldur vel drukkin á kostnað mannsins sem endurheimti greiðslukortið sitt.

30. apríl 2008 - Ich bin ein Berliner....

...og ekki orð um það meir að sinni!

þriðjudagur, apríl 29, 2008

30. apríl 2008 - Galli í nýjum bílum.

Ég ók á eftir glænýrri Toyotu Landcruiser 200 á þriðjudag. Þvílíkur glæsivagn hélt ég í byrjun. Svo komst ég að því að hún hefur sama galla og einkennir marga nýlega Bensa og Bimma.

Toyotan reyndist vera með biluð stefnuljós.

29. apríl 2008 - Ljótasti garður í Árbæjarhverfi

Á vorin fer fólk að huga að görðum sínum, allir nema ég og nágrannar mínir. Svo mætti alltént halda því garðurinn okkar er ljótasti garðurinn í gervöllu Árbæjarhverfi.
Hér er allt í niðurníðslu. Grasbletturinn við gangstíga sem snúa að Hraunbæ er orðinn að moldarflagi vegna þess að bílum hefur verið lagt á grasinu. Trén eru ofsprottin og leiktækin ónýt. Göngustígar skakkir og skældir.

Næsti garður við, það er lóðin sem tilheyrir Hraunbæ 62-100, er gömul verðlaunalóð. Íbúarnir þar kosta til milljón á ári í lóðina auk framkvæmdafjár. Við horfum yfir til þeirra og fyllumst öfund.

Nágrannakona mín og ég fengum garðyrkjufræðing til að meta kostnað við lagfæringu lóðarinnar að frátöldum stækkunum bílastæða. Upphæðin nam fjórum milljónum. Það er sú upphæð sem það kostar að trassa viðhaldið í mörg ár. Við getum reynt að finna sökudólga, en það er sama hversu marga sökudólga við finnum. Hinir raunverulegu sökudólgar erum við sjálf sem búum innan marka lóðarfélagsins okkar. Það er okkar að taka til hendinni og það er okkar að framkvæma, ekki einhverra ímyndaðra sökudólga.

Á þriðjudagskvöldið verður haldinn aðalfundur lóðarfélagsins. Nágrannakonan hefur dregið mig á eftir sér og hvatt fólk til að mæta á fundinn og bent á að góða umhirðu garðsins er hægt að meta til fjár, því enginn vill kaupa íbúð í fjölbýli ef garðurinn er í rusli.

Mér skilst að formaðurinn sem kosin var til bráðabirgða í fyrra ætli að hætta. Ég veit um snilldarformann til að taka við, nágrannakonu mína sem af eldmóði sínum fær mig til að ganga með sér í hús og vekja fólk til umræðu og framkvæmda.

mánudagur, apríl 28, 2008

28. apríl 2008 - Af blörruðum borgarstjóra og verkum hans

Í viðtali sem fréttastofa Sjónvarpsins átti við blörraða borgarstjórann velti fréttamaðurinn fyrir sér hárri upphæð sem fyrri meirihluti hafði áætlað til Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkur, en mig minnir að áætlaðar hefðu verið um 85 milljónir í verkefnið. Sá blörraði sem hafði nokkru áður keypt ónýt fúasprek við Laugaveginn á 580 milljónir vildi gera sem minnst úr Mannréttindaskrifstofunni og nefndi önnur verkefni mikilvægari þótt ekki hefði hann nefnt fúaspýtubruðlið sem ítrustu nauðsyn núverandi meirihluta sem virðist þó vera miðað við áherslurnar.

Ég hefi átt góð samskipti við Amnesty síðustu árin og er þar virkur meðlimur. Sömuleiðis hefi ég átt góð samskipti við Mannréttindaskrifstofu Íslands og ber mikla virðingu fyrir þeirri litlu en mikilvægu stofnun þótt Framsóknarflokkurinn hafi lagt stein í götu þessa skilgetna afkvæmis síns með því að minnka verulega veitingu fjármuna úr ríkissjóði til hennar á sínum tíma. Ég átti því von á góðu frá Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkur. Nú hefur sá blörraði ásamt sexmenningaklíkunni tekist að koma í veg fyrir að Mannréttindaskrifstofan geti sannað tilverurétt sinn.

Enn ein ástæðan til að losna við þennan ömurlega svokallaða meirihluta og senda hann í gott frí sem fyrst og ekki síðar en í næstu kosningum þegar oddviti íhaldsins og sá blörraði munu væntanlega hverfa af sviði stjórnmálanna.

Annars er margt líkt með skyldum. Sá blörraði og íhaldið í Reykjavík hafa fallist í faðma rétt eins og ónefndur bæjarfulltrúi og íhaldið í Bolungarvík. Svo er fólk að tala illa um Framsóknarflokkinn.

Allavega finnast mér ákaflega skrítnar áherslurnar í borgarpólitíkinni þessa dagana.

sunnudagur, apríl 27, 2008

27. apríl 2008 - Sprengikraftur

Hann var heppinn maðurinn á Kvisthaganum að ísskápurinn hans sprakk áður en hann hafði neytt innihaldsins.

Það hefur ekki verið neitt smádúndur sem geymt var í ísskápnum aðfaranótt laugardagsins. Allavega hefði ég ekki viljað neyta þess. Og þó. Kannski var maturinn í ísskápnum slíkur að gæðum að mátti líkja við sprengikraft.

-----oOo-----

Mér finnst að Spaugstofan hefði átt að hafa þann blörraða áfram blörraðan þó ekki væri nema vegna baráttu hans gegn mannréttindum samanber viðtal við hann í sjónvarpinu á laugardagskvöldið þar sem hann tók afstöðu gegn mannréttindum og Mannréttindastofu Reykjavíkur. Megi hann hverfa af sjónarsviði stjórnmálanna sem fyrst og vonandi löngu fyrir næstu kosningar.

laugardagur, apríl 26, 2008

26. apríl 2008 - 30 ára afmælisrit Samtakanna 78

Fyrstu kynni mín af Samtökunum 78 eru frá því 1984. Nokkrum árum áður, áður en Samtökin 78 voru stofnuð hafði ég reynt að komast í samband við Trixí, Guðmund Sveinbjörnsson til að ræða við hann þau vandamál sem ég taldi mig eiga við að etja, en tókst ekki, en sem forsvarsmaður samtaka sem kölluðu sig Iceland Hospitality, hafði hann neyðst til að flýja land og bjó í Kaupmannahöfn um tíma vegna fordóma samfélagsins. Því náði ég engum tengslum við fólk sem ég taldi mig helst eiga vissa samleið með í lífinu þótt ekki væri það á sviði kynhneigðar, fremur sem minnihlutahóps.

Það var því ekki fyrr en 1984 sem ég kynntist Elsu Þorgeirs í gegnum Stellu Hauks frá Vestmannaeyjum og síðan flestu því fólki sem hafði komið út úr skápnum á Íslandi á þeim tíma. Fram að því var ég sjálf í skápnum og þorði ekki að segja nokkurri lifandi manneskju frá tilfinningum mínum, þó með örfáum undantekningum. Ég hélt þó áfram að vera í skápnum opinberlega í nokkur ár til viðbótar, fordæmdi samkynhneigð þegar fólk heyrði til, en dáðist að hetjunum í laumi.

Það var svo ekki fyrr en um haustið 1987 fremur en vorið 1988 sem ég rak litla fingurinn útúr skápnum og enn fleiri árum síðar sem ég kom öll út sem transsexual.

Ég var að fá í hendurnar afmælisrit Samtakanna 78 og verð að lýsa yfir stórkostlegri hrifningu minni á ritinu og baráttu frumherja Samtakanna fyrir tilveru sinni á Íslandi, ættingjum mínum tveimur, þeim Herði Torfasyni og Sigurgeir Þórðarsyni sem hló ávallt svo dátt að hann fékk viðurnefnið Flissfríður. Þá má ekki gleyma Elsu og Stellu; Boggu og Gunnsu, Þorvaldi, Katli, Veturliða, Donna, síðar Jónasi og Ragnari, Stig og Einari Þór og fleirum sem veltu ekki bara steinum og fluttu fjöll, heldur gjörbyltu þjóðfélagi sem hataði þá. Og vopnin voru aðallega bros og hlýja og vinátta.

Alnæmið tók suma þessa menn, meðal þeirra Flissfríði og Trixí, Ketill og Jónas hafa einnig kvatt þennan heim, aðrir og aðrar eru enn í fullu fjöri og veita okkur hjartahlýju hvar sem þau fara um. Allt þetta ofangreinda fólk eru mínar hetjur og án þeirra brautryðjendastarfs hefði barátta mín mátt sín einskis.

Um leið og ég slít mig frá nostalgíunni sem fór um mig þegar ég las yfir 30 ára afmælisritið, vil ég óska Samtökunum 78 til hamingju með hið glæsilega afmælisrit sem og afmælisbarninu Boggu sem hefur haldið tryggðarvináttu við mig alla tíð frá fyrstu kynnum og fram á þennan dag.

föstudagur, apríl 25, 2008

25. apríl 2008 - Menntaskólinn við Hamrahlíð

Ég var mætt upp í MH fyrir klukkan átta í morgun, fór beint þangað eftir næturvaktina og hefði alveg getað óskað mér betri tíma til verkefnisins, að ræða við nemendur í sálfræðiáfanga um transgender. Það var búið að gera miklar breytingar á skólanum frá því ég lauk þar námi í öldungadeild fyrir réttum tveimur áratugum, stækka hann talsvert með hinni nýju viðbyggingu sem hýsir íþróttahúsið en um leið var svo margt sem var eins og á árum áður. Nokkra kennara rakst ég á sem höfðu ekkert breyst í áranna rás. Kannski höfðu þeir bara elst eins og ég, nema að þeir hafi staðið í stað á meðan ég hélt áfram á reynslubrautinni.

Þar sem ég gekk um skólann ásamt kennaranum og fylgdist aðeins með nemendum að dimmittera, þyrluðust upp minningarnar því það var hér sem ég fékk fyrstu jákvæðu viðbrögðin að því sem síðar var . Því var ég á réttum stað þar sem allt byrjaði.

Fyrirlesturinn gekk sæmilega, held ég. Sumir nemendanna voru vissulega misjafnlega syfjaðir eins og gefur að skilja á síðasta kennsludegi annarinnar, en um leið spurðu þeir spurninga sem ég reyndi að svara af bestu getu. Þó er ég víst vanhæf um mat á ágæti mínu og orða minna. Auðvitað missti ég úr eitt og annað af því sem ég ætlaði að segja og sömuleiðis saknaði ég þess að hafa ekki útbúið myndasýningu með erindinu, en þess ber að geta að þetta er í fyrsta sinn sem ég held fyrirlestur í þessum dúr þar sem möguleiki er á myndasýningu (powerpoint). En samt. Ég var ánægð að fyrirlestrinum loknum og gat farið heim að sofa með góðri samvisku.

Er ekki kominn tími á öldungadeild reunion?

fimmtudagur, apríl 24, 2008

24. apríl 2008 - Nýtt líf!

Sumir dagar eru mikilvægari en aðrir í lífi sérhverrar manneskju. Í ár ber sumardaginn fyrsta upp á einn mikilvægasta daginn í lífi mínu á eftir sjálfum afmælisdeginum og afmælisdögum barna minna. Til að til að koma ekki með sömu langlokuna og í fyrra, læt ég mér nægja að vísa til pistilsins sem ég setti inn fyrir ári síðan um leið og ég óska öllum nær og fjær gleðilegs sumars

http://velstyran.blogspot.com/2007/04/24-aprl-2007-goodbye-cruel-world.html

miðvikudagur, apríl 23, 2008

23. apríl 2008 - Ef ég væri lögga...

Ef ég væri lögga og myndi hlaupa um hjálmlaus, öskrandi gas í tíma og ótíma eins og hálfviti og sprautandi piparúða á vegfarendur, væri ég heppin ef ég fengi bara einn stein í höfuðið en ekki heilt malarhlass.

Ef ég væri aðgerðarstjóri lögreglu frammi fyrir mótmælendum og ætlaði að sýna vald mitt með því að brjóta mótmælin á bak aftur með ofbeldi, myndi ég senda löggu með hlífðarbúnað til að sprauta piparúða á mótmælendur en ekki aðra af tveimur löggum sem ekki voru með hjálm.

Ef ég væri dómsmálaráðherra í landi þar sem lögreglan hegðaði sér eins og ofangreind dæmi sýna, myndi ég segja af mér eins og skot í stað þess að heimta stofnun hryðjuverkasveita á borð við her og varalið.

Um leið er ég sannfærð um að þær fáu löggur sem ég þekki, myndu hegða sér öllu betur og skynsamlegar en ofangreind dæmi sýna, enda dagfarsprúðar manneskjur sem kunna lag á fólki.

23. apríl 2008 - Ég er ekkert hætt að blogga!

Gylfi bloggvinur minn er farinn að hafa áhyggjur af því að ég sé hætt að blogga. Það er fjarri sanni að ég sé hætt. Vandamál mitt er bara að síðustu dagana hefi ég einfaldlega verið á kafi í skemmtilegum verkefnum. Tvö þeirra eru þess eðlis að ég fórna jafnvel blogginu vegna þeirra. Það er annars vegar vinnsla á niðjatali sem þarf að vera komið í hendurnar á prentaranum fyrir helgina, hitt er enn skemmtilegra. Auk þessara verkefna eru þrír aðalfundir þessa dagana þar sem ég er í stjórn og þarf að sinna félögunum í tæpum frítíma mínum.

Ég tók að mér lítið en ánægjulegt verkefni fyrir skóla einn. Þótt verkefnið sé lítið, vil ég vanda til verka minna og sýna að ég sé traustsins verð. Vegna alls þessa ákvað ég að taka mér frí frá bloggi í nokkra daga.

Ég er þó ekkert hætt og mun blogga af endurnýjuðum krafti um leið og ég sé fram á hvíld. Það er helst að kisurnar mínar þurfi að líða fyrir dugnaðinn í mér.

sunnudagur, apríl 20, 2008

21. apríl 2008 - Bloggleti

Ég hefi eytt allri helginni í að leiðrétta og bæta við upplýsingum í lítið niðjatal fyrir ættarmót sem á að halda í sumar. Það er einfaldlega engin orka eftir til að semja skemmtilegt blogg.

Frekar en að bulla einhverja vitleysu um manninn sem keypti löngu útrunninn og notaðan farmiða með Titanic 96 árum eftir að skipið sökk, ætla ég að þegja næsta sólarhringinn.

20. apríl 2008 - Leif Silberski

Ég hafði oft séð myndir af honum í blöðum og sjónvarpi, manninum með stóra gyðinganefið sem hafði komið hverjum grunuðum afbrotamanninum á fætur öðrum frá fangelsisvist. Það var ekki hægt annað en að bera virðingu fyrir honum þótt ég fyrirliti flesta skjólstæðinga hans. Hann var Sigurður Líndal og Jón Steinar Gunnlaugsson í sömu persónunni. Maðurinn sem vissi allt og varði lítilmagnann þegar ríkið vildi dæma hann í fangelsi. Og nú sátum við tvö ein í biðstofunni hjá TV2 í Stokkhólmi og áttum að fara í viðtöl í “Kastljósi” eða “Svíþjóð í dag” þeirra Svíanna

Við fórum að spjalla saman. Hann átti að útskýra einhver vafaatriði varðandi morð bandarískrar ruðningshetju á eiginkonu sinni (O.J.Simpson), ég að ræða um árangur leiðréttinga á kyni í Svíþjóð. Eftir að hafa kynnst íslenskri lögfræði lítillega, gat ég ekki annað en spurt stjörnulögfræðinginn spurninga og hann svaraði brosandi og af þekkingu. Við vorum vissulega bæði kunnug Rolf Luft ,helsta sérfræðingi Svíþjóðar og heimsins í innkirtlafræðum, en samt, Leif Silberski var höfuðið á vitneskjunni þegar kom að lögfræðinni. Eftir skemmtilega samverustund fór Leif Silberski inn í stúdíó og ég kortéri síðar.

Mörgum árum síðar les ég í blöðum að Leif Silberski er ráðinn til að verja hinn ógeðslega morðingja Anders Eklund sem myrti tíu ára telpu á reiðhjóli á leið heim af íþróttaæfingu. Með verjanda eins og Leif Silberski ætti að vera tryggt að morðinginn fái réttláta málsmeðferð.

laugardagur, apríl 19, 2008

19. apríl 2008 - Um lagfæringu á kyni

Við sem höfum farið í gegnum aðgerðarferli til leiðréttingar á kyni höfum iðulega mátt berjast við fordóma samfélagsins á margan hátt. Við höfðum ekki einungis þurft að verja heiður okkar í orðum heldur einnig í verstu tilfellum þurft að verjast líkamsárásum, bæði á Íslandi og erlendis.

Eitt af því sem hefur viðhaldið fordómunum eru orð á borð við kynskipti og kynskiptinga sem minnir óneitanlega á kynvillinga. Við höfum því mótmælt þessum orðum og bent á að sál okkar er kvenkyns og því er einungis verið að leiðrétta kyn okkar til samræmis við sálina þótt vissulega tökum við heilmikið með okkur yfir í kvennaheiminn við leiðréttinguna.

Um leið og ég fagna breyttu orðalagi Morgunblaðsins gagnvart okkur, þakka ég þeim fyrir ánægjulega þróun í orðalagi og virðingu fyrir baráttu okkar.

Þessarar ánægjulegu þróunar í íslenskri fjölmiðlun verður getið á ráðstefnu Transgender Europe í Berlín í byrjun maí næstkomandi um leið og tilkynnt verður um ánægjulega þróun í málum transgender fólks á Íslandi.

http://mbl.is/mm/folk/frettir/2008/04/18/sjonvarpsstod_i_libanon_fjallar_um_kynlagfaeringu/

19. apríl 2008 - Bjarki brást mér.

Mínir menn voru að keppa í spurningakeppninni í sjónvarpinu á föstudagskvöldið, hörkulið og tveir Dalbúar af þremur keppendum Mosfellinga. Það gerist ekki betra. En svo bregðast krosstré sem önnur tré. Enginn keppenda hvorugs liðsins gat svarað auðveldustu spurningum kvöldsins, spurningunum um Juan Manuel Fangio, Keke Rosberg og hinn sjöfalda meistara meistaranna, hinn háæruverðuga ellilífeyrisþega Michael Schumacher.

Og ég sem hélt að Bjarki vissi allt um bíla. Ég man meira að segja ennþá eftir Landróvernum sem presturinn faðir hans átti og græna Willýs steisjóninum sem Jóel faðir Kela og tengdafaðir Diddúar átti lengi, reyndar löngu áður en Diddú flutti í Dalinn góða.

Af hverju gat hann ekki komið til móts við minni mitt af bílnum hans föður síns og svarað einföldustu spurningum úr kappakstri? Ekki gerði steinaldartáningurinn betur með því að byrjað að tala um Emerson Fittipaldi sem varð heimsmeistari einungis tvisvar, 1972 og 1974, en átta menn hafa unnið fleiri titla en hann.

Reyndar held ég að mitt fólk hafi átt við ofurefli að etja. Hið einasta sem getur hjálpað öðrum liðum um stig í keppni við Garðbæingana er að eiga góða hlaupaskó.

föstudagur, apríl 18, 2008

18. apríl 2008 - Um gamalt frímerki á uppboði.Fyrir einhverjum áratugum síðan mátti lesa frétt um gamalt frímerki í gamla DV og látið að því liggja að ef einhver ætti slíkt frímerki, gæti sá hinn sami eytt restinni af ævinni í suðurhöfum með romm og kók og lúxus það sem eftir væri. Ég gat ekki annað en hlegið því ég vissi að umrætt frímerki, elsta frímerki í heimi, var metið á fáeinar þúsundir íslenskra króna. Enn í dag er hægt að fá þetta ágæta elsta frímerki í heimi á fáeinar þúsundir íslenskra króna ef marka má ebay.

Síðustu tvo dagana hafa borist fréttir af fágætu frímerki á uppboði. Um leið spruttu fram ýmsir spekúlantar sem minnti að þeir hefðu átt slíkt frímerki og ættu kannski enn. Það þyrfti bara að láta meta merkið sem þeir ættu í eigu sinni og þeir gætu eytt ævinni í suðurhöfum með romm og kók og lúxus það sem eftir væri. Aftur hló ég.

Allt frá barnæsku safnaði ég frímerkjum. Það gekk misjafnlega og seldi ég hluta safns míns er ég keypti fyrsta bílinn minn 17 ára að aldri. Ég hélt þó áfram að safna í nokkur ár uns safnið mitt lenti í kassa og í geymslu. Fyrir nokkrum árum síðan er rýmkaðist um hjá mér, tók ég safnið mitt upp úr kössunum og hefi ég haft ánægju af safninu þótt enn vanti mig sama eldmóð og fyrrum hvað snertir frímerkjasöfnun, kom við á frímerkjauppboði fyrir nokkru síðan og fór heim með gullfallegt grafiklistaverk.

Það breytir ekki þeirri staðreynd að ég á þrjú frímerki í eigu minni sem bera hina frægu yfirprentun “þrír” eins og frímerkið fræga frá 1897 sem senn verður boðið upp vestur í Bandaríkjunum. Um leið verður að hafa í hug að frímerki með yfirprentuninni “þrír” er ekki bara eitt, heldur sex mismunandi og fer það eftir mismunandi tökkun, stóru eða litlu formati á “þrír” og loks hvort rauð yfirprentun “3” er á merkinu eður ei.


Verðmæti þessara fátæklegu frímerkja minna er einungis skráð um fimmtíu þúsund krónur fyrir hvert þeirra, en raunverulegt verðmæti kannski fjórum sinnum lægra enda hefur verulega dregið úr frímerkjasöfnun á síðustu áratugum. Einungis dýrustu frímerkin halda verðgildi sínu en þau eru líka mjög mjög sjaldgæf.

miðvikudagur, apríl 16, 2008

16. apríl 2008 - Af fjárlagasvindli

Einhverntímann endur fyrir löngu sat ég í skólanefnd Vélskóla Íslands og það þurfti að vinna að fjárveitingabeiðnum til tækjakaupa fyrir ört stækkandi skóla sem þó var í fjársvelti. Þegar óskirnar voru komnar í gegnum allt kerfið og allir sem höfðu farið höndum um beiðnina, höfðu skorið lítinn part af beiðninni, stóðu eftir einungis 10% af upphaflegri beiðni í frumvarpi til fjárlaga. Þá hélt skólanefndin grátandi á fund fjárlaganefndar og tókst að hækka fjárveitinguna í 20% af óskaðri fjárhæð.

Fyrir stóran og stækkandi skóla sem þá var, dugðu 20 prósentin skammt og því þurfti að plata kerfið til að fá sem mest fyrir aurana. Það voru keyptir tveir góðir rennibekkir. Til að fá verðið niður tók góðviljuð togaraútgerð að sér að kaupa bekkina fyrir skip sín og slapp þannig við gjöldin en að nafninu til voru gamlir rennibekkir í skipunum seldir skólanum þótt nýju bekkirnir færu stystu leið í skólann.

Þarna var ríkið að svindla á ríkinu til að fá sem mest fyrir peningana og dugði þó engan veginn til að laga bágborið ástandið í blönkum skólanum sem var í eigu ríkisins.

Þetta kom upp í hugann þegar ég heyrði um viðvarandi fjárhagshalla Landhelgisgæslunnar og skammir ríkisendurskoðunar vegna umframeyðslunnar. Það er ekkert eðlilegt að Landhelgisgæslan sem er í eigu ríkisins, skuli þurfa að kaupa olíuna á skip sín í Færeyjum til að sleppa við að greiða gjöld til ríkisins. Það má vera að hún sé hætt slíku svindli, en það breytir ekki því að hún þurfti að gera þetta í nokkur ár.

Á sama tíma og ekki er hægt að halda uppi öflugu eftirliti í hafinu umhverfis Ísland vegna fjárskorts, er örríkið Ísland að henda peningum í stríðsleiki í austurlöndum í trássi við vilja íbúa viðkomandi landa. Allavega get ég ekki túlkað júníformsleiki Íslendinga í Afganistan á annan hátt.

http://ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item201838/

þriðjudagur, apríl 15, 2008

15. apríl 2008 - Beðið á gatnamótum.

Ég var úti að aka í morgun. Þar sem ég beið á rauðu ljósi voru þrír bílar á undan mér og tveir þeir fyrstu óku samviskusamlega af stað um leið og grænt ljós kom. Bílstjórinn á þriðja bílnum sat kyrr uns bíll númer tvö var farinn í burtu og fór þá að dunda sér við að setja bílinn hjá sér í gír og ók svo rólega af stað og rétt náði yfir áður en rautt ljós kom aftur.

Hugsanlega hefur maðurinn verið í vinnutímanum hjá hinu opinbera. Allavega fannst mér engin ástæða til þess að æsa mig, enda í vinnutímanum hjá opinberu fyrirtæki.

Spurningin er bara hvað bílstjórunum fyrir aftan mig fannst um svona töf? Hvort ætli svona háttalag valdi því að allir bílstjórar aka rólegar í kjölfarið með bros á vör eða að þetta valdi auknu stressi í umferðinni? Ég læt ykkur um að svara því.

mánudagur, apríl 14, 2008

14. apríl 2008 - Kisa sem þjáist af átröskun.

Ég er mað hálfgerðar áhyggjur af henni Tárhildi vælukisu. Ekki er það bara vegna þess að hún vælir svona mikið, fremur vegna þess hve hún er horuð.

Vegna þess hve hún er horuð hefi ég tvisvar leitað ráða hjá dýralækni. Enginn finnur samt neitt að henni, ekki heldur þegar ég bendi á að þrátt fyrir góða matarlyst, þá á hún erfitt með að halda niðri matnum sínum. Eins og ég hefi áður bent á, þá þykir henni fiskur góður og slíkar krásir getur hún sett í sig af miklum móð, en svo ælir hún þessu aftur. Ég hefi reynt að skammta henni matinn og þá hefur allt gengið betur. Ekki get ég kennt henni systur hennar um að éta frá henni því það er frekar á hinn veginn, að Tárhildur étur frá Hrafnhildi ofurkisu sem þó er feit og sælleg.

Spurningin er hvort ekki þurfi að fara með Tárhildi vælukisu til dýrasálfræðings?

sunnudagur, apríl 13, 2008

13. apríl 2008 - Jónas Hallgrímsson og Sævar Ciesielski

Árið 1845 féll Jónas Hallgrímsson niður stiga í Kaupmannahöfn og fótbrotnaði. Í framhaldinu fékk hann blóðeitrun sem dró hann til bana. Nærri 163 árum síðar féll Sævar Ciesielski niður stiga í Kaupmannahöfn og brákaði á sér lærbein. Í framhaldinu fékk hann blóðeitrun og lenti á spítala þar sem hann mun vonandi hafa náð fullum bata.

Svo eru menn að tala um Jón og séra Jón!!!!

http://www.visir.is/article/20080411/FRETTIR01/254458248

13. apríl 2007 - Af refsigleði bloggsamfélagsins

Stundum blöskrar mér refsigleði fáeinna bloggritara sem ég hefi lesið og skiptir þá ekki máli hvort einhver hafi litið af hraðamælinum hjá sér til að fylgjast með umferðinni og gleymt sér augnablik eða hvort einhver hafi talið hundinn Lúkas pyntaðan til ólífis.

Þar sem ég er ekki fylgismanneskja harðari refsinga tel ég að ef endurskoða eigi refsilöggjöfina, eigi að gera það í heild sinni en ekki taka út einstöku refsiákvæði og þyngja þau sem veldur í framhaldinu innbyrðis skekkju í refsidómum samfélagsins. Þannig var þynging refsinga í fíkniefnamálum ákaflega varhugaverð á sínum tíma því hún gat kallað á breytt hegðunarmunstur afbrotamanna, en sá sem sér fyrir sér 12 ára dóm fyrir fíkniefni mun hugsanlega meta hvort það borgi sig að myrða til að sleppa við dóm sem gefur af sér 16 ára fangelsi.

Í fyrradag var ungur maður dæmdur til 7 ára fangelsisvistar af undirrétti í Færeyjum. Ég ætla ekki að deila um hvort sá dómur hafi verið of harður, en mig minnir að höfuðpaurinn í málinu hafi fengið um níu ára dóm á Íslandi fyrir sama brot. Samt snérist hluti bloggsamfélagsins við, fór að aumkvast yfir afbrotamanninn og kallað var í þekktan lögfræðing sem fann dómnum allt til foráttu. Til að fá fram enn frekari samúð var rætt við móður piltsins og málinu þannig gefið tilfinningalegt gildi því auðvitað þykir öllum mæðrum vont að sjá börn sín á bakvið rimla.

Það má svo í framhaldinu velta því fyrir sér hvort þessi tvískinnungur sé vegna þess að pilturinn er íslenskur?

Ef að líkum lætur, mun dómnum verða áfrýjað til Hæstaréttar Danmerkur. Sjálf ætla ég ekkert að segja álit mitt fyrr endanlegur dómur hefur verið kveðinn upp, ekki frekar en á öðrum undirréttardómum sem telja má of þunga eða létta eftir atvikum. Ef þeir sem eru málsaðilar una við dóm sinn er ekkert við því að segja, en annars frestast málið uns Hæstiréttur hefur kveðið upp sinn dóm.

Því er algjör óþarfi fyrir bloggsamfélagið að hengja dómarana. Þetta breytir auðvitað engu um að hin langa einangrunarvist að óþörfu í gæsluvarðhaldi er forkastanleg og á ekki að líðast í neinu samfélagi.

föstudagur, apríl 11, 2008

12. apríl 2008 - Ég man þá tíð er olíufatið kostaði aðeins hundrað dali!

Það var fyrir mörgum árum síðan að skipið sem ég var á, kom til hafnar í Felixstowe í Englandi. Ég þurfti aðeins að skreppa í land og sá þá eldgamlan bíl á flutningafleti sem átti að fara á einhverja sýningu í Englandi. Ekki man ég hvað bíllinn hét og ekki fannst mér hann fagur, furðaði mig reyndar í byrjun á því hve silfurgrár bíllinn var mattur að sjá. Það var ekki fyrr en ég fór að skoða bílinn þar sem hann beið eftirlitslaus á bryggjunni að ég rak augun í sýningarskilti sem lá hirðuleysislega í aftursæti bílsins með ýmsum upplýsingum um bílinn. Þá sá ég að yfirbyggingin var ekki bara silfurgrá, heldur var hún úr silfri, enda var hann sagður einn dýrasti bíll í heimi framleiddur um miðjan þriðja áratug tuttugustu aldar fyrir einhvern mahajara af Indlandi hvað svo sem það þýðir.

Á spjaldinu var þyngd bílsins gefin upp og vóg hann á við þokkalegan vörubíl og þótt ekki væri hann með rafmagnsupphalara var hann með tvöfalt gler og hægt að velja um ólitað gler eða litað. Ekki man ég hvað bíllinn var talinn eyða miklu, en þær tölur voru hrikalegar, svo mikið man ég.

Þessa dagana hafa verið hávær mótmæli vegna hins háa bensínverðs á Íslandi. Ég skil það vel því vissulega kemur bensínverðið við budduna hjá velflestum sem nota bíl að staðaldri. Það er um leið ljóst hverjum sem vill vita, að bensínverðið er mjög lágt í dag miðað við það sem það verður eftir nokkur ár. Það má vera að það taki einhverjar smádýfur en í heildina mun það stíga og stíga og verða óviðráðanlegt fyrir fjölda fólks eftir nokkur ár. Ef ekki verður fundin ódýr leið til framleiðslu eldsneytis sem getur leyst bensín af hólmi munu stórir bensínhákar verða verðlitlir. Enn meiri áhersla verður lögð á léttari bíla. Þyngri málmar í bílum munu hverfa að mestu, en ál og aðrir ódýrir léttmálmar leysa þá af hólmi.

Þessi dökka framtíð er engin framtíð. Hún er þegar orðin nútíð. Níðþungar lúxuskerrur eru að hverfa af götunum. Vegna þessa hefi ég ekki hirt um að styðja mótmæli bílstjóra þótt ég skilji þeirra sjónarmið.

George Dobbljú Bush fór í stríð vegna olíu. Það orsakaði hærra olíuverð og því tapaði hann stríðinu.

-----oOo-----

Systurnar Tárhildur og Hrafnhildur liggja afvelta eftir ýsusporðinn og síðan rjómalagaðan rækjukokteil í eftirrétt ;)

11. apríl 2008 - Viltu sjá Björgvin Halldórsson á sviði í Kaupmannahöfn á sumardaginn fyrsta?

Samkvæmt gömlum niðjatölum taldist Björgvin Helgi Halldórsson stórsöngvari fjórmenningur við mig. Þetta þótti mér hið besta mál uns ég rakst á villu í skráningum sem ég fékk svo staðfestar af mér betra fólki og allnokkur fjöldi hins ágætasta mektarfólks féll úr ætt við mig og ég fékk nánast enga í staðinn. Þetta breytir þó engu um að Björgvin heldur áfram að vera í sömu metum hjá mér og fyrrum.

Undanfarna daga hafa dunið á okkur vesælum auglýsingar frá Popplandi útvarpsins og Æslander sem mega ekki lengur heita Flugleiðir þar sem boðið er upp á ferð til Kaupmannahafnar til að hlýða á söng Björgvins Halldórssonar. Ég efa ekki að hann muni standa sig þar með prýði eins og hans er von og vísa, en drottinn minn. Ég verð seint það mikil grúppía að ég fari að eltast við jafnaldra minn Björgvin Halldórsson til útlanda, ekki frekar en Stuðmenn eða aðra þá Íslendinga sem hafa gaman af að syngja í útlöndum.

-----oOo-----

Frægðarljónin tvö, Tárhildur vælukisa og Hrafnhildur ofurkisa, eiga þriggja ára afmæli í dag og bíður þeirra vegleg fiskmáltíð þegar ég kem heim af vaktinni á föstudagskvöldið.

fimmtudagur, apríl 10, 2008

10. apríl 2008 - Með illu skal illt út reka....

..... sagði Davíð Oddsson um peningamálastefnu Seðlabankans á blaðamannafundi á fimmtudag þar sem tilkynnt var um enn eina vaxtahækkunina.

Fyrir rúmu ári þegar Breiðavíkurmálið komst í hámæli varð fólki tíðrætt um harðneskju Þórhalls Hálfdánarsonar forstöðumanns í Breiðavík árin 1964 – 1972. Einhverjir spekingar voru fljótir að finna út að Þórhallur hefði sennilega farið eftir ævafornum uppeldisreglum um að með illu skuli illt út reka. Allir vita nú hvernig það endaði og hver urðu eftirmælin eftir Þórhall Hálfdánarson.

Nú má velta fyrir sér hver verða eftirmælin um Davíð Oddsson?

10. apríl 2008 - Leiðinlegt blogg.

Ég ætla að vara ykkur við. Þessi bloggfærsla er ákaflega leiðinleg enda ætla ég að nefna hér nokkra leiðinlega menn að mínu mati.

Fyrstan skal nefna Al Gore. Ég man ekki betur en að hann hefði þótt ákaflega þurr og leiðinlegur þegar hann var var varaforseti Bandaríkjanna, jafnvel svo leiðinlegur að sá öfgafyllsti vann hann í kosningum árið 2000. Það má vera að hann hafi bætt ráð sitt og sé orðinn skemmtilegri en áður. Allavega vann hann Nobelsverðlaun og eitthvað þarf til slíkra hluta.

Næstur í röðinni er sá blörraði. Maðurinn er með svo leiðinlega rödd að það fer hrollur um mig þegar ég heyri í honum. En rétt eins og Al Gore, hefur sá blörraði gefið sig út fyrir að vera náttúruverndarsinni. Að vísu er hann ekki alveg heill í trúnni samanber flugvallarást sína og óskir um að setja jarðýtur á Laugaveginn og breyta honum í 19. aldar mynd sína. Þó grunar mig að hann hafi skopskyn. Þannig stóð ég í þeirri trú að Spaugstofan hefði verið að gera grín að honum með þætti sínum um Einn, tvo og Reykjavík, eða var það Einn, tveir og Borgarfjörður eystri? Í gær kom miði í póstkassann hjá mér þar sem minnt er á fund með þeim blörraða um Einn, tvo og Norðlingaholt, Grafarholt, Árbæ, Selás og Ártúnsholt. Með þessu er ég hætt að skilja hver er að gera grín að hverjum með þessari fíflalegu upphrópun.

Mig langar til að nefna tvo til viðbótar, þá Árna Finnsson og Hjörleif Guttormsson. Báðir þykja þeir með eindæmum þurrir og húmorslausir í tali og skrifum sínum.

Ég er viss um að ef allir umhverfisverndarsinnar væru jafnskemmtilegir og Ómar Ragnarsson væri miklu skemmtilegra að vera á móti virkjunum og stóriðju á Íslandi. Ég legg því til að hinir fjórir fyrrnefndu verði sendir á námskeið í bakföllum og skemmtilegheitum hjá Ómari. Þá væri líka svo miklu skemmtilegra að vera á móti þeim. Sjáið bara Hannes Hólmstein. Hann á sér fáa fylgismenn, en ég held að enginn geti haldið því fram að hann sé leiðinlegur! Þótt ég fyrirlíti skoðanir hans, get ég ekki annað en dáðst að mælsku hans.

miðvikudagur, apríl 09, 2008

9. apríl 2008 - Köttur kemur út úr skápnum!

Þegar kisurnar mínar vilja reka mig á fætur hafast þær ólíkt að. Tárhildur reynir að stanga mig þótt engin séu hornin, en Hrafnhildur ofurkisa byrjar að klóra í skáphurðina í svefnherberginu vitandi að slíkt er bannað.

Aðfararnótt þriðjudagsins var klórið í skáphurðina öllu meira en venjulega. Ég sá þó ekki ástæðu til róttækra aðgerða eins og þeirrar að fara á fætur heldur hvæsti á móti um leið og ég sneri mér á hina hliðina og hélt áfram að sofa. Klórið hélt áfram öllu ákafar en áður og loks sá ég engan annan möguleika en þann að senda Hrafnhildi fram. En þá var engin kisa sjáanleg að klóra í skáphurðina.

“Hvað hefur nú skeð?” hugsaði ég sem er vön að loka skáphurðunum á eftir mér í hvert sinn þegar ég hefi sótt eitthvað í skápinn.

Ég opnaði þá skáphurðina þaðan sem klórið kom og út kom Hrafnhildur ofurkisa fremur fúl á svipinn. Hún hafði þá læðst inn um leið og ég sótti eitthvað í skápinn áður en ég skreið uppí og ekkert látið á sér bæra fyrr en undir morgun þegar aðrar þarfir hennar fóru að gera vart við sig og henni fór að leiðast biðin í skápnum. Um leið má þess geta að Hrafnhildur ofurkisa er vel uppalin og var ekki búin að gera neitt það í skápnum sem orsakað hefði fýlu hjá mér.

Og þið sem hélduð að ég ætlaði að skrifa um samkynhneigð katta!

-----oOo-----
Norsk fuglalífsmynd sem var í sjónvarpinu á þriðjudagskvöldið vakti athygli Tárhildar litlu væluskjóðu. Ég hafði hingað til haldið að hún væri svo saklaus og gerði ekki fugli mein! Það verður erfitt að halda henni inni nú í sumar ef hún ætlar að halda áfram að fylgjast með fuglum á þennan hátt!

þriðjudagur, apríl 08, 2008

8. apríl 2008 - Enn af útigangsfólki

Það var sumarið 1974. Ég var stödd á krá í hinni ítölsku hafnarborg Genúa og drakk mitt öl ásamt dönskum skipsfélögum mínum af tankskipi sem ég var ráðin á milli bekkja í Vélskólanum og sem var í þurrkví í Genúa. Inn á krána kom drukkinn maður og lét okkur “baunana” fá það óþvegið á dapurri íslensku. Ég svaraði hástöfum í sömu mynt og sljákkaði þá nokkuð í manninum og gaf hann sig á tal við mig.

Hann kvaðst heita Gunnar og var frá Vestfjörðum. Hann hafði farið til Svíþjóðar ungur að árum og álpast þar um borð í flutningaskip, eða eins og hann sagði sjálfur, skrapp í sumarfrí til Svíþjóðar og var ekki enn kominn úr fríinu. Hafði síðan starfað um borð í sænskum og norskum skipum í hátt í tvo áratugi uns hann var settur í land ásamt öðrum Íslending vegna drykkjuskapar og óláta um borð í norsku skipi í Malaga á Spáni. Eftir þrjú ár á bísanum á Spáni höfðu hann og félaginn lent í útistöðum við réttvísina á Spáni og lögreglan náð félaganum og sent heim í flugpósti. Gunnar komst hinsvegar sem laumufarþegi með dönsku skipi til Genúa þar sem hann hafði verið á bísanum síðan þá þ.e. þremur árum betur.

Ári síðar ræddi ég mál þessa manns við Jónas Árnason rithöfund og alþingismann, enda taldi ég sögu hans best geymda í bók ritaðri af reynsluhöfundi á borð við Jónas. Því miður tókst aldrei að hafa uppi á manninum aftur og veit ég ekki hvort hann hafi endað lífið í eymd og volæði á sólarströndum Ítalíu eða hvort hann komst heim aftur.

Félaga Gunnars af bísanum á Spáni kynntist ég síðar í Vestmannaeyjum og staðfesti hann við mig einhverjar af þeim sögum sem Gunnar hafði sagt mér. Um leið skildi ég mætavel af hverju félagarnir höfðu verið settir í land því það þykir ekki til eftirbreytni að kaupa lifandi asna á markaði á Spáni, drösla honum um borð í skipið í skjóli nætur og reka hann inn til félaga asnans, norska yfirstýrimannsins á skipinu. Slíkt getur ekki annað en komist upp og valdið vandræðum!

Sennilegra er þægilegra að vera útigangsmaður á Ítalíu en á Íslandi, allavega sagðist maðurinn engan áhuga hafa fyrir að flytja heim aftur!

mánudagur, apríl 07, 2008

7. apríl 2008 - Formúlublogg eða hvað?

Sú var tíðin að ég var Formúluaðdáandi og missti helst ekki úr keppni ef mér var það unnt. Ég vaknaði jafnvel á nóttunni til að horfa á beinar útsendingar frá Formúlu 1 þótt vissulega hafi komið upp þau tímabil að áhuginn minnkaði eins og þegar fremsti heimsmeistari allra tíma lá heima í fótbroti haustið 1999.

Minnkaður áhugi tók sig svo upp aftur á síðasta ári þegar þessi sami fremsti heimsmeistari allra tíma fór á eftirlaun saddur keppnisdaga og liðu þá einhver mót sem ég lét mér nægja að heyra fréttirnar af keppninni. Sömu sögu var að segja af tveimur fyrstu mótum þessa árs.

Á sunnudagsmorguninn ákvað ég að horfa á eina keppni til athugunar á því hvort keppnisneistinn væri endurvakinn og kveikti á sjónvarpinu. Síðan þurfti ég að leita uppi hjáleigu Stöðvar 2 þar sem Formúlan átti að vera og fann hana fljótlega, að vísu mjög óskýra þar sem tvær myndir virtust ofan í hvorri annarri. Þrátt fyrir nokkra leit fann ég hvergi skýra rás á sjónvarpinu mínu þótt aðrar sjónvarpsstöðvar væru ágætlega skýrar þar á meðal Ríkissjónvarpið, Skjár 1 og Stöð 2. Þess má geta að ég er ekki með áskrift að Stöð 2 og þarafleiðandi engan myndlykil.

Það var ómögulegt að fylgjast með útsendingunni á þennan hátt og því þurfti ég að fylgjast með atburðum á brautinni á beinni útendingu http://formula1.com/ en þar er ekki um að ræða lifandi mynd af brautinni, einungis allar upplýsingar frá brautinni.

Ég er að velta því fyrir mér hvort þetta sé aðferð Stöðvar 2 til að þvinga fólk sem ekki er með áskrift, að kaupa áskrift til að sjá skýra mynd af keppninni. Það er hinsvegar kolólöglegt því í samningi við sjónvarpsstöðvar er krafa um að keppnin skuli sýnd í óruglaðri útsendingu. Með þessu móti getur Stöð 2 hugsanlega haldið því fram að þeir hafi uppfyllt skilmálana þótt svo sé ekki.

Það væri fróðlegt að vita hvort þessi hálfruglaða útsending hafi verið víðar en hjá mér?

-----oOo-----

Ég fór í bíó á sunnudagskvöldið og sá Stóra planið hans Poppóla deFleur. Ágætlega brosleg mynd en hefði mátt vera aðeins lengri. Það hefði kannski mátt beita skærunum aðeins minna á kostnað fjölda trailera sem voru sýndir á undan myndinni.

sunnudagur, apríl 06, 2008

6. apríl 2008 - Hvað á að gera við rónana?

Það var á þeim tíma sem Þórskaffi var nýlega orðið að skemmtilegum vínveitingastað og Klúbburinn á fallanda fæti að ég fór ásamt hóp af fólki í Þórskaffi til að fagna einhverju sem man ekki lengur hvað var. Þarna inni hitti ég tvo gamla skipsfélaga frá upphafsárum mínum til sjós á nýsköpunartogurunum. Þeir voru að skemmta sér og létu það óspart í ljósi. Öfugt við flesta sem voru að skemmta sér í Þórskaffi þetta kvöld, voru þeir bláedrú. Þeir voru hættir að drekka.

Báðir þessir menn voru undan Jökli. Annar þeirra hafði haldið vinnu alla tíð þrátt fyrir mikla drykkju og óreglu, hinn hafði endað á götunni áður en honum var komið til bjargar og sendur í afvötnun. Hvorugur smakkaði áfengi eftir meðferðina. Ég man vel eftir H. þar sem hann var betlandi fyrir kogga á götum Reykjavíkur. Hann leit hræðilega út og var eins og flak að sjá, öllu verri en sá H. sem ég mætti síðar í Þórskaffi.

Örlög hans voru mér lengi hugleikin. Hvernig leið honum þar sem hann bjó á götunni? Hvernig líður þessu fólki sem hefur tapað öllu, þar á meðal reisn sinni á altari Bakkusar eða fíkniefnadjöfulsins? Hvað verður um þetta fólk? Ég veit að Samhjálp hefur lengi stutt þetta fólk til sjálfshjálpar og jafnvel komið því í meðferð. En þeirra góða framlag nægir ekki alltaf.

Við vitum að gamla farsóttarheimilið nægir engan veginn sem gististaður fyrir heimilislausa karlmenn. Þessvegna finnast þeir öllum að óvörum þar sem kviknar í húsum, venjulega vegna þess að þeir voru að reyna að halda á sér hita. Nú á að negla fyrir allar hurðir og glugga. Stundum finnast þeir dánir undir runna eða á öðrum þeim stað sem engum er ætlaður á köldum vetrarmorgni.

Ég komst ekki í afmælið þegar Svarkurinn hélt upp á 75 ára afmælið með stæl eins og fyrrverandi drykkjumanni sæmir. Hugur minn var samt hjá honum meira en tveimur áratugum eftir að hann drakk sinn síðasta sjúss. Þremur dögum eftir afmælið var hann látinn eftir hjartabilun. Það var miður því hann hafði svo sannarlega margt að segja frá. Ég veit hinsvegar ekki hvar H. er niðurkominn eða hvort hann sé enn ofanjarðar.

Þessir tveir ágætu menn kenndu mér að bera virðingu fyrir fólki, líka þeim sem hafa orðið undir í lífinu.

laugardagur, apríl 05, 2008

5. apríl 2008 - Ekki gera ekki neitt???

Systir mín vann í banka í nokkra áratugi, reyndar nýlega látin fara vegna aðhaldsaðgerða bankans. Mágkona mín vinnur í öðrum banka þar sem hún er í góðum metum rétt eins og systir mín taldi sig vera. Þrátt fyrir náin fjölskyldutengsl versla ég við hvoruga.

Þegar ég flutti heim frá Svíþjóð þurfti ég að finna mér banka til að eiga viðskipti við. Eðlilegast væri auðvitað að versla við minn gamla banka, Sparisjóð vélstjóra, en þá kom babb í bátinn. Minn fyrsti vinnustaður á Íslandi var á Eskifirði undir verndarvæng Aðalsteins Jónssonar, Alla ríka, og einasti bankinn á staðnum var Landsbankinn. Því var eðlilegast að hefja viðskipti þar.

Ég fékk fasta stöðu hjá Hitaveitunni og fljótlega eftir að ég hóf störf þar, átti ég erindi í Landsbankann við Grensásveg skammt frá vinnustað mínum. Þá hittist svo skemmtilega á að gjaldkerinn reyndist vera kona sem birtist mér eins og engill með skóflu þar sem ég sat föst í snjóskafli á Nesjavallavegi seint að kvöldi um hávetur og reyndi að krafla snjóinn frá bílnum með hulstri af viðvörunarþríhyrning. Auðvitað hélt ég áfram að versla við þennan sama banka.

Smám saman urðu viðskiptin að föstum viðskiptum og ég tryggði mér fastan þjónustufulltrúa í bankanum. Við settumst niður yfir greiðsluþjónustunni og gerðum greiðsluáætlun. Þegar henni var lokið sagði þjónustufulltrúinn við mig eftirfarandi orð sem brenndu sig inn í hugann: “Mér er sama hverju þú lendir í, ef þú lendir í greiðsluvandræðum, talaðu við mig áður en allt fer úr böndunum.”

Hinn fræga dag 11. september 2001 kom stóra vandamálið. Ég hafði skrifað upp á skuldabréf fyrir ungan mann sem nú hafði verið gjaldfellt og sent í lögfræðiinnheimtu.
Ég talaði við þjónustufulltrúann og hún gekk frá málinu með bros á vör án þess að ég þyrfti að fara á hausinn vegna greiðasemi minnar. Ég var komin út í bíl og að gatnamótum Fellsmúla og Grensásvegar þegar útsending útvarps var rofin vegna flugvélar sem flaug á WTC í New York.

Eins og gefur að skilja hefi ég haldið viðskiptunum við sama banka áfram. Mér hefur verið sýnt traust og ég reyni að svara því trausti, m.a. með því að vera ekki að fela neitt fyrir þjónustufulltrúanum eða bankanum jafnframt því sem ég hefi notað orð þjónustufulltrúans þegar ég hefi reynt að gefa sömu góðu ráðin til fólks sem hefur átt í vandræðum í fjármálum.

Síðar kom í ljós að langamma mín og langalangamma þjónustufulltrúans voru systur vestur í Helgafellssveit á Snæfellsnesi.

föstudagur, apríl 04, 2008

4. apríl 2008 - Sá blörraði málar hús í miðbænum!

Fyrir nokkrum árum varð hús eitt í eigu hins opinbera fyrir töluverðum árásum veggjakrotara. Ég sá verksummerkin þar sem ég átti leið framhjá umræddu húsi á leið til vinnu, hringdi í þann sem sá um ytra viðhald hússins og lét hann vita af ástandinu. Hann sendi menn sína tafarlaust á staðinn og máluðu þeir yfir skemmdirnar með hraði. Nokkrum dögum síðar var veggjakrotið endurtekið og málararnir mættu að morgni og máluðu yfir. Ekki veit ég hvort peningarnir fyrir spraybrúsum hafi klárast hjá drengjunum, en eftir nokkrar tilraunir gáfust þeir upp og hefur umrætt hús fengið að vera í friði að mestu eftir þetta.

Drengirnir sem þarna voru að verki voru listamenn og ekki hægt annað en að dást að verkum þeirra um leið og málað var yfir þau. Þeir gerðu þetta bara á vitlausum stað og á vitlausum tíma og synd að þeir fengu ekki góðan vegg til að skreyta.

Á fimmtudag boðaði sá blörraði til blaðamannafundar í Reykjavík þar sem hann tilkynnti stofnun nefndar til að ráðast gegn veggjakroti í miðbænum. Með honum voru helstu jólatré bæjarins, lögreglustjóri og slökkviliðsstjóri auk einhverra deildarstjóra hjá Reykjavíkurborg, en enginn málari. Samt tilkynntu þeir að þeir ætluðu að mála yfir veggjakrotið í bænum.

Gósentíð framundan fyrir veggjakrotara hugsaði ég. Blaðamannafundir af því tagi sem sá blörraði og félagar hans héldu eru um leið einhver vitlausasta aðferðin við að byrja baráttuna gegn veggjakroti og vandalisma. Það á bara að byrja, ekki í dag né á morgun, heldur strax og fyrsta veggjakrotið sá dagsins ljós. Þetta átti að ske steinþegjandi og hljóðalaust fyrir löngu síðan og án allra fréttamanna til að koma í veg fyrir að veggjakrotið yrði auglýst. Nú bíða drengirnir eftir því að málararnir komi og máli yfir gamalt veggjakrot svo hægt verði að byrja aftur með nýjar skreytingar.

Það á einfaldlega að beita aðferðum veggjakrotaranna sjálfra við að mála yfir verkin þeirra, framkvæma án kjánalegra blaðamannafunda.

Um leið velti ég því fyrir mér hvar vesalings rónarnir eiga að sofa þegar búið verður að negla fyrir öll op á mannlausum húsum í bænum, því einhversstaðar þurfa þeir að vera rétt eins og sá vondi. Það er hinsvegar efni í allt annan og heilan pistil.

fimmtudagur, apríl 03, 2008

3. apríl 2008 - Ekki borga fyrir ekki neitt

Einhver góður bloggari var að benda okkur vesælum á að það geti borgað sig að þræta í viðskiptum og nefndi dæmi til sönnunar máli sínu þar sem hann hafði nánast verið hlunnfarinn í viðskiptum, en einungis þrjóskan bjargaði honum frá miklum útgjöldum. Ekki man ég hver þetta var en upp í hugann rifjaðist gamalt ævintýri við stöðumælafyrirtæki.

Það mun hafa verið sumarið 1991 sem ég fór ásamt fleira fólki á flóamarkað suður í Älvsjömässan skammt sunnan (miðborgar) Stokkhólms. Þegar við höfðum átt einhver viðskipti og komum út í bíl, var kominn sektarmiði á bílinn. Í sakleysi mínu hafði ég lagt í gjaldstæði en ekki ókeypis bílastæði.

Ég fór í fýlu. Ég hafði ekki séð neinar tilkynningar um að greiða ætti í bílastæði á þessum stað, hvað þá séð greiðslukassa, sem ég reyndar fann eftir nokkra leit. Eftir að heim var komið settist ég niður og samdi bréf til bílastæðafyrirtækisins og tilkynnti þeim að ég neitaði að greiða sektina upp á 700 sænskar krónur sökum ónógra merkinga um greiðslur á bílastæðunum við Älvsjömässan. Fyrirtækið (einkafyrirtæki)svaraði mér og tilkynnti mér að ef ég greiddi ekki ekki sektina innan viss tíma yrði sektin send til innheimtu fyrir borgardómi Stokkhólms (Stockholms tingsrätt). Ég svaraði í sömu mynt, með hótunum um hið sama.

Málið fór í dóm. Þar var ég sýknuð af kröfunni sökum ónógra upplýsinga um gjaldskyldu á áður umræddum bílastæðum og fékk auk þess fáeinar krónur í bætur fyrir sviða og verk. Næst þegar ég kom að Älvsjömässan voru komin risastór skilti um gjaldskyldu á bílastæðum við sýningarsvæðið.

Nokkru síðar fékk ég bréf frá stöðumælafyrirtækinu sem ég gat um í upphafi þessa pistils. Þar var mér hótað öllu illu og ef ég greiddi ekki áður umrædda sekt myndi málið fara í dóm. Ég svaraði og tilkynnti fyrirtækinu að ef ég fengi svona bréf aftur, myndi ég kæra það fyrir tilraun til fjárkúgunar. Síðan hefi ég ekkert frá því heyrt.

miðvikudagur, apríl 02, 2008

2. apríl 2008 - Af hverju 19. aldar Laugavegur?

Ég heyrði einhversstaðar umræðu úr borgarstjórn þar sem Hanna Birna borgarfulltrúi talaði um 19. aldar Laugaveginn eins og ekkert væri sjálfsagðara en að breyta Laugaveginum í 19. aldar götumynd sína. Vafalaust hefur hún þetta eftir blörraða kallinum í Spaugstofunni, en gerir þetta fólk sér enga grein fyrir því hvernig Laugavegurinn leit út á 19. öld?

Það er alveg á hreinu að þetta fólk var ekki á Laugaveginum á þeim tíma sem um er rætt því þá myndi ekki heyrast múkk í því einfaldlega vegna þess að mestalla 19. öldina var enginn Laugavegur. Ofan við Bakarabrekkuna lá Suðurlandsvegurinn en Laugavegurinn fékk nafn sitt í lok aldarinnar (1888?) þegar vegur var lagður að Þvottalaugunum og lá að hluta til á gamla Suðurlandsveginum þar sem hann lá austur frá Bakabrekkunni. Ofan Bakarabrekkunnar voru nokkur kotbýli sem nú eru flest horfin, ef ekki hrunin vegna fúa, þá af mannlegum völdum.

Ef Hanna Birna og sá blörraði væru sjálfum sér samkvæm myndu þau láta setja jarðýtur á mestallt svæðið austan við kvosina og breyta svæðinu í græn tún fyrir kýr og kindur bænda í Reykjavíkurkaupstað. Við skulum vona að þeim verði ekki að ósk sinni.

þriðjudagur, apríl 01, 2008

1. apríl 2008 -Ekkert aprílgabb í ár!

Því miður hefi ég ekki haft tíma til að skrifa neitt síðasta sólarhringinn. Því hefur mér ekki auðnast að skálda eins og einni góðri aprílsögu frá fyrri árum og vísa bara á söguna frá því í fyrra sem er dagsönn,

http://velstyran.blog.is/blog/velstyran/entry/164167/


Ég er ekkert viss um að ég hafi tíma til bloggfærslna aftur fyrr en á miðvikudagskvöldið. Það kemur þó í ljós.