miðvikudagur, apríl 16, 2008

16. apríl 2008 - Af fjárlagasvindli

Einhverntímann endur fyrir löngu sat ég í skólanefnd Vélskóla Íslands og það þurfti að vinna að fjárveitingabeiðnum til tækjakaupa fyrir ört stækkandi skóla sem þó var í fjársvelti. Þegar óskirnar voru komnar í gegnum allt kerfið og allir sem höfðu farið höndum um beiðnina, höfðu skorið lítinn part af beiðninni, stóðu eftir einungis 10% af upphaflegri beiðni í frumvarpi til fjárlaga. Þá hélt skólanefndin grátandi á fund fjárlaganefndar og tókst að hækka fjárveitinguna í 20% af óskaðri fjárhæð.

Fyrir stóran og stækkandi skóla sem þá var, dugðu 20 prósentin skammt og því þurfti að plata kerfið til að fá sem mest fyrir aurana. Það voru keyptir tveir góðir rennibekkir. Til að fá verðið niður tók góðviljuð togaraútgerð að sér að kaupa bekkina fyrir skip sín og slapp þannig við gjöldin en að nafninu til voru gamlir rennibekkir í skipunum seldir skólanum þótt nýju bekkirnir færu stystu leið í skólann.

Þarna var ríkið að svindla á ríkinu til að fá sem mest fyrir peningana og dugði þó engan veginn til að laga bágborið ástandið í blönkum skólanum sem var í eigu ríkisins.

Þetta kom upp í hugann þegar ég heyrði um viðvarandi fjárhagshalla Landhelgisgæslunnar og skammir ríkisendurskoðunar vegna umframeyðslunnar. Það er ekkert eðlilegt að Landhelgisgæslan sem er í eigu ríkisins, skuli þurfa að kaupa olíuna á skip sín í Færeyjum til að sleppa við að greiða gjöld til ríkisins. Það má vera að hún sé hætt slíku svindli, en það breytir ekki því að hún þurfti að gera þetta í nokkur ár.

Á sama tíma og ekki er hægt að halda uppi öflugu eftirliti í hafinu umhverfis Ísland vegna fjárskorts, er örríkið Ísland að henda peningum í stríðsleiki í austurlöndum í trássi við vilja íbúa viðkomandi landa. Allavega get ég ekki túlkað júníformsleiki Íslendinga í Afganistan á annan hátt.

http://ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item201838/


0 ummæli:







Skrifa ummæli