föstudagur, apríl 25, 2008

25. apríl 2008 - Menntaskólinn við Hamrahlíð

Ég var mætt upp í MH fyrir klukkan átta í morgun, fór beint þangað eftir næturvaktina og hefði alveg getað óskað mér betri tíma til verkefnisins, að ræða við nemendur í sálfræðiáfanga um transgender. Það var búið að gera miklar breytingar á skólanum frá því ég lauk þar námi í öldungadeild fyrir réttum tveimur áratugum, stækka hann talsvert með hinni nýju viðbyggingu sem hýsir íþróttahúsið en um leið var svo margt sem var eins og á árum áður. Nokkra kennara rakst ég á sem höfðu ekkert breyst í áranna rás. Kannski höfðu þeir bara elst eins og ég, nema að þeir hafi staðið í stað á meðan ég hélt áfram á reynslubrautinni.

Þar sem ég gekk um skólann ásamt kennaranum og fylgdist aðeins með nemendum að dimmittera, þyrluðust upp minningarnar því það var hér sem ég fékk fyrstu jákvæðu viðbrögðin að því sem síðar var . Því var ég á réttum stað þar sem allt byrjaði.

Fyrirlesturinn gekk sæmilega, held ég. Sumir nemendanna voru vissulega misjafnlega syfjaðir eins og gefur að skilja á síðasta kennsludegi annarinnar, en um leið spurðu þeir spurninga sem ég reyndi að svara af bestu getu. Þó er ég víst vanhæf um mat á ágæti mínu og orða minna. Auðvitað missti ég úr eitt og annað af því sem ég ætlaði að segja og sömuleiðis saknaði ég þess að hafa ekki útbúið myndasýningu með erindinu, en þess ber að geta að þetta er í fyrsta sinn sem ég held fyrirlestur í þessum dúr þar sem möguleiki er á myndasýningu (powerpoint). En samt. Ég var ánægð að fyrirlestrinum loknum og gat farið heim að sofa með góðri samvisku.

Er ekki kominn tími á öldungadeild reunion?


0 ummæli:Skrifa ummæli