miðvikudagur, apríl 09, 2008

9. apríl 2008 - Köttur kemur út úr skápnum!

Þegar kisurnar mínar vilja reka mig á fætur hafast þær ólíkt að. Tárhildur reynir að stanga mig þótt engin séu hornin, en Hrafnhildur ofurkisa byrjar að klóra í skáphurðina í svefnherberginu vitandi að slíkt er bannað.

Aðfararnótt þriðjudagsins var klórið í skáphurðina öllu meira en venjulega. Ég sá þó ekki ástæðu til róttækra aðgerða eins og þeirrar að fara á fætur heldur hvæsti á móti um leið og ég sneri mér á hina hliðina og hélt áfram að sofa. Klórið hélt áfram öllu ákafar en áður og loks sá ég engan annan möguleika en þann að senda Hrafnhildi fram. En þá var engin kisa sjáanleg að klóra í skáphurðina.

“Hvað hefur nú skeð?” hugsaði ég sem er vön að loka skáphurðunum á eftir mér í hvert sinn þegar ég hefi sótt eitthvað í skápinn.

Ég opnaði þá skáphurðina þaðan sem klórið kom og út kom Hrafnhildur ofurkisa fremur fúl á svipinn. Hún hafði þá læðst inn um leið og ég sótti eitthvað í skápinn áður en ég skreið uppí og ekkert látið á sér bæra fyrr en undir morgun þegar aðrar þarfir hennar fóru að gera vart við sig og henni fór að leiðast biðin í skápnum. Um leið má þess geta að Hrafnhildur ofurkisa er vel uppalin og var ekki búin að gera neitt það í skápnum sem orsakað hefði fýlu hjá mér.

Og þið sem hélduð að ég ætlaði að skrifa um samkynhneigð katta!

-----oOo-----




Norsk fuglalífsmynd sem var í sjónvarpinu á þriðjudagskvöldið vakti athygli Tárhildar litlu væluskjóðu. Ég hafði hingað til haldið að hún væri svo saklaus og gerði ekki fugli mein! Það verður erfitt að halda henni inni nú í sumar ef hún ætlar að halda áfram að fylgjast með fuglum á þennan hátt!


0 ummæli:







Skrifa ummæli