þriðjudagur, apríl 29, 2008

29. apríl 2008 - Ljótasti garður í Árbæjarhverfi

Á vorin fer fólk að huga að görðum sínum, allir nema ég og nágrannar mínir. Svo mætti alltént halda því garðurinn okkar er ljótasti garðurinn í gervöllu Árbæjarhverfi.
Hér er allt í niðurníðslu. Grasbletturinn við gangstíga sem snúa að Hraunbæ er orðinn að moldarflagi vegna þess að bílum hefur verið lagt á grasinu. Trén eru ofsprottin og leiktækin ónýt. Göngustígar skakkir og skældir.

Næsti garður við, það er lóðin sem tilheyrir Hraunbæ 62-100, er gömul verðlaunalóð. Íbúarnir þar kosta til milljón á ári í lóðina auk framkvæmdafjár. Við horfum yfir til þeirra og fyllumst öfund.

Nágrannakona mín og ég fengum garðyrkjufræðing til að meta kostnað við lagfæringu lóðarinnar að frátöldum stækkunum bílastæða. Upphæðin nam fjórum milljónum. Það er sú upphæð sem það kostar að trassa viðhaldið í mörg ár. Við getum reynt að finna sökudólga, en það er sama hversu marga sökudólga við finnum. Hinir raunverulegu sökudólgar erum við sjálf sem búum innan marka lóðarfélagsins okkar. Það er okkar að taka til hendinni og það er okkar að framkvæma, ekki einhverra ímyndaðra sökudólga.

Á þriðjudagskvöldið verður haldinn aðalfundur lóðarfélagsins. Nágrannakonan hefur dregið mig á eftir sér og hvatt fólk til að mæta á fundinn og bent á að góða umhirðu garðsins er hægt að meta til fjár, því enginn vill kaupa íbúð í fjölbýli ef garðurinn er í rusli.

Mér skilst að formaðurinn sem kosin var til bráðabirgða í fyrra ætli að hætta. Ég veit um snilldarformann til að taka við, nágrannakonu mína sem af eldmóði sínum fær mig til að ganga með sér í hús og vekja fólk til umræðu og framkvæmda.


0 ummæli:Skrifa ummæli