sunnudagur, apríl 20, 2008

20. apríl 2008 - Leif Silberski

Ég hafði oft séð myndir af honum í blöðum og sjónvarpi, manninum með stóra gyðinganefið sem hafði komið hverjum grunuðum afbrotamanninum á fætur öðrum frá fangelsisvist. Það var ekki hægt annað en að bera virðingu fyrir honum þótt ég fyrirliti flesta skjólstæðinga hans. Hann var Sigurður Líndal og Jón Steinar Gunnlaugsson í sömu persónunni. Maðurinn sem vissi allt og varði lítilmagnann þegar ríkið vildi dæma hann í fangelsi. Og nú sátum við tvö ein í biðstofunni hjá TV2 í Stokkhólmi og áttum að fara í viðtöl í “Kastljósi” eða “Svíþjóð í dag” þeirra Svíanna

Við fórum að spjalla saman. Hann átti að útskýra einhver vafaatriði varðandi morð bandarískrar ruðningshetju á eiginkonu sinni (O.J.Simpson), ég að ræða um árangur leiðréttinga á kyni í Svíþjóð. Eftir að hafa kynnst íslenskri lögfræði lítillega, gat ég ekki annað en spurt stjörnulögfræðinginn spurninga og hann svaraði brosandi og af þekkingu. Við vorum vissulega bæði kunnug Rolf Luft ,helsta sérfræðingi Svíþjóðar og heimsins í innkirtlafræðum, en samt, Leif Silberski var höfuðið á vitneskjunni þegar kom að lögfræðinni. Eftir skemmtilega samverustund fór Leif Silberski inn í stúdíó og ég kortéri síðar.

Mörgum árum síðar les ég í blöðum að Leif Silberski er ráðinn til að verja hinn ógeðslega morðingja Anders Eklund sem myrti tíu ára telpu á reiðhjóli á leið heim af íþróttaæfingu. Með verjanda eins og Leif Silberski ætti að vera tryggt að morðinginn fái réttláta málsmeðferð.


0 ummæli:Skrifa ummæli