laugardagur, apríl 26, 2008

26. apríl 2008 - 30 ára afmælisrit Samtakanna 78

Fyrstu kynni mín af Samtökunum 78 eru frá því 1984. Nokkrum árum áður, áður en Samtökin 78 voru stofnuð hafði ég reynt að komast í samband við Trixí, Guðmund Sveinbjörnsson til að ræða við hann þau vandamál sem ég taldi mig eiga við að etja, en tókst ekki, en sem forsvarsmaður samtaka sem kölluðu sig Iceland Hospitality, hafði hann neyðst til að flýja land og bjó í Kaupmannahöfn um tíma vegna fordóma samfélagsins. Því náði ég engum tengslum við fólk sem ég taldi mig helst eiga vissa samleið með í lífinu þótt ekki væri það á sviði kynhneigðar, fremur sem minnihlutahóps.

Það var því ekki fyrr en 1984 sem ég kynntist Elsu Þorgeirs í gegnum Stellu Hauks frá Vestmannaeyjum og síðan flestu því fólki sem hafði komið út úr skápnum á Íslandi á þeim tíma. Fram að því var ég sjálf í skápnum og þorði ekki að segja nokkurri lifandi manneskju frá tilfinningum mínum, þó með örfáum undantekningum. Ég hélt þó áfram að vera í skápnum opinberlega í nokkur ár til viðbótar, fordæmdi samkynhneigð þegar fólk heyrði til, en dáðist að hetjunum í laumi.

Það var svo ekki fyrr en um haustið 1987 fremur en vorið 1988 sem ég rak litla fingurinn útúr skápnum og enn fleiri árum síðar sem ég kom öll út sem transsexual.

Ég var að fá í hendurnar afmælisrit Samtakanna 78 og verð að lýsa yfir stórkostlegri hrifningu minni á ritinu og baráttu frumherja Samtakanna fyrir tilveru sinni á Íslandi, ættingjum mínum tveimur, þeim Herði Torfasyni og Sigurgeir Þórðarsyni sem hló ávallt svo dátt að hann fékk viðurnefnið Flissfríður. Þá má ekki gleyma Elsu og Stellu; Boggu og Gunnsu, Þorvaldi, Katli, Veturliða, Donna, síðar Jónasi og Ragnari, Stig og Einari Þór og fleirum sem veltu ekki bara steinum og fluttu fjöll, heldur gjörbyltu þjóðfélagi sem hataði þá. Og vopnin voru aðallega bros og hlýja og vinátta.

Alnæmið tók suma þessa menn, meðal þeirra Flissfríði og Trixí, Ketill og Jónas hafa einnig kvatt þennan heim, aðrir og aðrar eru enn í fullu fjöri og veita okkur hjartahlýju hvar sem þau fara um. Allt þetta ofangreinda fólk eru mínar hetjur og án þeirra brautryðjendastarfs hefði barátta mín mátt sín einskis.

Um leið og ég slít mig frá nostalgíunni sem fór um mig þegar ég las yfir 30 ára afmælisritið, vil ég óska Samtökunum 78 til hamingju með hið glæsilega afmælisrit sem og afmælisbarninu Boggu sem hefur haldið tryggðarvináttu við mig alla tíð frá fyrstu kynnum og fram á þennan dag.


0 ummæli:Skrifa ummæli