fimmtudagur, apríl 10, 2008

10. apríl 2008 - Leiðinlegt blogg.

Ég ætla að vara ykkur við. Þessi bloggfærsla er ákaflega leiðinleg enda ætla ég að nefna hér nokkra leiðinlega menn að mínu mati.

Fyrstan skal nefna Al Gore. Ég man ekki betur en að hann hefði þótt ákaflega þurr og leiðinlegur þegar hann var var varaforseti Bandaríkjanna, jafnvel svo leiðinlegur að sá öfgafyllsti vann hann í kosningum árið 2000. Það má vera að hann hafi bætt ráð sitt og sé orðinn skemmtilegri en áður. Allavega vann hann Nobelsverðlaun og eitthvað þarf til slíkra hluta.

Næstur í röðinni er sá blörraði. Maðurinn er með svo leiðinlega rödd að það fer hrollur um mig þegar ég heyri í honum. En rétt eins og Al Gore, hefur sá blörraði gefið sig út fyrir að vera náttúruverndarsinni. Að vísu er hann ekki alveg heill í trúnni samanber flugvallarást sína og óskir um að setja jarðýtur á Laugaveginn og breyta honum í 19. aldar mynd sína. Þó grunar mig að hann hafi skopskyn. Þannig stóð ég í þeirri trú að Spaugstofan hefði verið að gera grín að honum með þætti sínum um Einn, tvo og Reykjavík, eða var það Einn, tveir og Borgarfjörður eystri? Í gær kom miði í póstkassann hjá mér þar sem minnt er á fund með þeim blörraða um Einn, tvo og Norðlingaholt, Grafarholt, Árbæ, Selás og Ártúnsholt. Með þessu er ég hætt að skilja hver er að gera grín að hverjum með þessari fíflalegu upphrópun.

Mig langar til að nefna tvo til viðbótar, þá Árna Finnsson og Hjörleif Guttormsson. Báðir þykja þeir með eindæmum þurrir og húmorslausir í tali og skrifum sínum.

Ég er viss um að ef allir umhverfisverndarsinnar væru jafnskemmtilegir og Ómar Ragnarsson væri miklu skemmtilegra að vera á móti virkjunum og stóriðju á Íslandi. Ég legg því til að hinir fjórir fyrrnefndu verði sendir á námskeið í bakföllum og skemmtilegheitum hjá Ómari. Þá væri líka svo miklu skemmtilegra að vera á móti þeim. Sjáið bara Hannes Hólmstein. Hann á sér fáa fylgismenn, en ég held að enginn geti haldið því fram að hann sé leiðinlegur! Þótt ég fyrirlíti skoðanir hans, get ég ekki annað en dáðst að mælsku hans.


0 ummæli:







Skrifa ummæli