sunnudagur, mars 29, 2015

29. mars 2015 - Gámaskip


Eins og allir vita sem þekkja mig er ég með dálítið blæti fyrir stórum gámaskipum og þegar ég tala um gámaskip á ég við risastór gámaskip. Sjálf var ég á fyrsta gámaskipi Íslendinga sem kallað var því nafni, en Bakkafoss (II) sem var smíðaður í Þýskalandi 1970 telst vera fyrsta skip Íslendinga sem var útbúið frá upphafi sem gámaskip og keypt til Íslands 1974. Það voru vissulega nokkur önnur skip sem gátu flutt nokkra tugi gáma þar á meðal Dettifoss og Mánafoss sem voru smíðuð fyrir Eimskipafélagið 1970-1971, en þau skip voru fyrst og fremst brettaflutningaskip með möguleika á gámaflutningum, gátu þó borið rúmlega 80 gámaeiningar hvort auk annars flutnings. Flutningaskip Eimskafélagsins og Samskipa í dag bera frá um 700 gámaeiningum til 1457 gámaeininga hvert en stærstu skipin eru Goðafoss og Dettifoss, skip sem eru smíðuð fyrir danskar útgerðir um miðjan tíunda áratug síðustu aldar og keypt til Íslands eftir aldamótin og eru undir fána Antigua&Barbuda.

Þegar Mærsk lét byggja fyrir sig E-týpuna á árunum 2006-2008 (Emma Mærsk og sjö systurskip, öll smíðuð í Óðinsvéum) voru þau skip skráð fyrir 11.000 gámaeiningar miðað við 14 tonna lestun  að jafnaði í hverjum gám, en geta í reynd borið 15.500 gámaeiningar.  Síðar komu enn stærri skip og Triple-E týpan (Mærsk-McKinney Möller og 19 systurskip) bera að hámarki 18.270 gámaeiningar, en þau eru smíðuð í Suður-Kóreu og eru tæplega 400 metrar á lengd og 58 metrar á breidd og eru afhent á árunum 2013-2015.

Þau eru ekki lengur stærst. Kínverska skipafélagið CSCL hefur þegar fengið fjögur af fimm skipum afhent sem bera allt að 19.100 gámaeiningum, skipin einnig smíðuð í Suður-Kóreu sem segir allt um vantraustið gagnvart kínverskri skipasmíði, en Svissneska skipafélagið MSC hefur þegar fengið tvö enn stærri skip eða sem bera 19.224 gámaeiningar hvort. Þessi skip heita MSC Oscar og MSC Oliver, en minnst sex skip sömu stærðar eru í smíðum hjá Daewoo skipasmíðastöðinni í Suður-Kóreu, á sama stað og risaskip Mærsk eru smíðuð.Þróuninni er samt engan vegin lokið. Mitsui OSK Lines (MOL) hefur gert samning við Samsung um smíði á fjórum skipum sem munu geta borið 20.150 gámaeiningar hvert og á næstu árum fáum við að sjá fréttir af enn stærri skipum.

Ég hugsa með skelfingu til þess ef eitthvert þessara skipa ferst í hafi.  Það eru ekki mörg ár síðan eitt skip frá MOL brotnaði í sundur í miðju á leið sinni yfir Indlandshafið til Evrópu, en sem betur fer án manntjóns. Það skip, MOL Comfort var þó einungis 8.540 gámaeiningar að stærð og 316 metrar á lengd.Hér má sjá ágætt yfirlit yfir stærstu gámaskip heimsins í dag. Þess ber þó að geta að þótt talið sé að 35 manns sigli þessum skipum yfir hafið er hægt að sigla þeim með 13 manna áhöfn en t.d. hjá Mærsk er áhöfnin 18 manns:     


P.s.  Í dag, 31. mars 2015 birtust fréttir þess efnis að CMA-CGM útgerðin hefði samið um þrjú 20.600 gáma skip frá Hanjin Heavy Industries í Busan,Suður-Kóreu.

laugardagur, mars 28, 2015

28. mars 2015 - Gamlar konur?Ég man ekki árið en það eru ekki mörg ár síðan systur minni var sagt upp störfum hjá Byr sparisjóði. Hún hafði byrjað störf hjá Sparisjóði Kópavogs á áttunda áratug síðustu aldar og ég held að hún hafi ávallt staðið sig vel. Allavega fékk ég aldrei athugasemdir á störf hennar en var aldrei mikill viðskiptavinur Sparisjóðs Kópavogs en löngum hjá Sparisjóð vélstjóra sem og hjá Sparisjóð Vestmannaeyja á áttunda áratug síðustu aldar. 

Þegar Orkuveitan flutti í nýjar höfuðstöðvar við Bæjarháls 1 2002-2003 fékk Sparisjóður vélstjóra inni í höfuðstöðvunum með afgreiðslu og þangað komu nokkrar stúlkur komnar yfir fimmtugt, semsagt á mínum aldri sem náði fimmtugu árinu fyrr.  Þær voru vanar ýmsum umkvörtunum, kunnu sitt fag og leiðbeindu mér og öðrum eins og stórar systur og gáfu góð ráð. Þegar Sparisjóður vélstjóra breyttist í Byr með sameiningu við Sparisjóð Kópavogs og Sparisjóð Hafnarfjarðar tóku nýir herrar völdin og ákváðu að yngja upp, sögðu upp öllum konum yfir fimmtugt og réðu kornungar stúlkur til starfa sem vissu ekkert í sinn haust og það leið ekki á löngu uns Byr fór á hausinn.  Með þessu ætla ég ekki að mótmæla stúlkunum ungu, þær voru ekki vandamálið heldur starfsmannastefna Byrs sem og stefnan að öðru leyti, en með uppsögnum eldri kvenna hvarf mannauður úr fyrirtækinu.

Systir mín sem hafði starfað hjá Sparisjóð Kópavogs í áratugi var skyndilega orðin verðlaus á markaði þótt hana vantaði tvö ár í sextugt þegar henni var sagt upp störfum.  Hún fékk hvergi vinnu á árum gróðærisins og í dag er hún heima rétt eins og stúlkurnar sem störfuðu hjá afgreiðslu SPV við Bæjarháls. Það breytir ekki þeirri staðreynd að hún er yngri en núverandi ritstjóri Morgunblaðsins sem talinn er ábyrgur fyrir hruninu, fyrst sem alþingismaður og forsætisráðherra og afnam regluverkið og síðan sem Seðlabankastjóri þegar allt fór til fjandans og síðan ritstjóri frá 2009.  Systir mín verður að sætta sig við orðinn hlut og á enga möguleika í lífinu lengur og á þess kost einan að hlakka til þess dags er hún verður löggilt gamalmenni á hausti komanda.

Eldri konur eru ekki vandamál í samfélaginu, þvert á móti, þær eru kostur og þær eru hlunnindi þeim sem á eftir þeim koma. Þær eru fyrirmyndin sem ungar stúlkur verða að hafa. Þær vinna sína vinnu, þurfa ekki að hlaupa heim þegar börnin fá flensu eins og þær sem yngri eru. Ég horfi á móður mína sem fyrirmynd. Hún starfaði á Hrafnistu þegar sú stofnun var ný, síðar við saltfiskverkun Bæjarútgerðar Reykjavíku þar til hún var nærri sjötugu og varð að hætta vegna alvarlegra veikinda.  Hún kvartaði aldrei, stóð sína plikt og gerði betur en ungar stúlkur nútímans.  Við systkinin dáðumst að atorku hennar og reyndum að feta í fótspor hennar eins og systir mín sem var rekin úr starfi þegar stjórnendur ákváðu að yngja upp í Sparisjóðnum.

Sem betur fer er ég í góðu starfi hjá fyrirtæki sem ber virðingu fyrir starfsfólki sínu þótt margir fyrrum starfsmenn séu ósáttir eftir fjöldauppsagnir fyrri ára.

föstudagur, mars 27, 2015

27. mars 2015 - Af Skagfirska efnahagssvæðinu


Þegar ég var formaður Skólafélags Vélskóla Íslands hafði eldri vélstjóri samband við okkur og bar sig ekki vel.  Hann hafði haldið til Svíþjóðar og ráðið sig til sænska útgerðarfyrirtækisins Broström Line, en þrátt fyrir að hafa lokið vélstjórnarnámi á Íslandi, neituðu sænsk yfirvöld að samþykkja réttindi hans og starfaði hann því sem aðstoðarvélstjóri hjá sænsku útgerðinni.

Hér var um að ræða Svavar Guðmundsson fyrrum kaupmann í Ási í Reykjavík, en hann hafði farið í Vélskólann þegar grundvellinum hafði verið kippt undan verslunarrekstri hans og lokið skólanum með sæmd orðinn 56 ára gamall er hann lauk náminu, en sonur hans hafði lokið námi við skólann tveimur árum áður.

Á þessum árum áttunda áratugarins voru baráttufólk í flestum skólafélögum og við tókum þessu óréttlæti með baráttuhug, reyndum að fá skýringar á málinu og komumst að því að Íslendingar hefðu aldrei skrifað undir samninga um norræn vélstjórnarréttindi.  Svörin sem við fengum frá ráðuneytinu voru sömuleiðis á þá leið að aldrei hefði verið skrifað undir þessa samninga til að koma í veg fyrir að Ísland fylltist af atvinnulausum vélstjórum frá Norðurlöndunum sem tækju þannig störfum frá Íslendingum, en um leið var okkur bent á að raunverulega skýringin væri önnur, þ.e. að koma í veg fyrir stórfelldan flótta íslenskra vélstjóra til Norðurlandanna þar sem kjörin voru miklu betri.

Síðar breyttist þetta allt.  Með útflöggun íslenskra farskipa komu upp vandamál þar sem gamlir vélstjórar þurftu að fara í skriflegt próf til að sanna getu sína á skipum skráðum í Panama og víðar og endingin varð sú að gefin voru út alþjóðleg vélstjóraskírteini fyrir íslenska vélstjóra sem lokið höfðu viðbótarnámi í öryggismálum. Ekki kann ég þá sögu alla, enda var ég í Svíþjóð fyrri hluta tíunda áratugarins og einungis á sjó í afleysningum eftir það og er enn.

Síðan þá hefur það gerst að farskip í eigu Íslendinga eru flest skráð erlendis, einungis fáeinar ferjur og varðskip skráð á Íslandi. Í dag færðu ekkert að skrá þig á þessi skip nema vera með alþjóðaskírteini og gildir þá jafnt um íslensk skip eins og varðskip og ferjur og farskip í eigu Íslendinga eins og Fossa Eimskipafélagsins og Fell Samskipa.


Mér þykir samt vænt um vélstjóraréttindin mín og hefi reynt að halda þeim við, tekið öll þau öryggisnámskeið sem þarf til viðhalds réttindunum, fer á sjóinn hvenær sem tækifæri gefst og held þannig áfram að safna í reynslusarpinn.  Auk þess hefi ég verið  vélstjóri á björgunarskipinu Ásgrími S. Björnssyni í tómstundum mínum frá  störfum mínum í landi sem að sjálfsögðu eru ekki tengd sjó, en eru samt þess eðlis að krafist er vélstjórnarréttinda og mikillar starfsreynslu þar sem vélstjórar þurfa að bjarga sér án utanaðkomandi aðstoðar til að sinna þeim.

Á síðasta ári þegar ljóst var að réttindin mín voru að renna út á tíma hóf ég að endurnýja þau með því að sækja öll nauðsynleg námskeið sem krafist er til að endurnýja réttindin á fimm ára fresti.  Ég þurfti að endurnýja grunnnámskeið í öryggisfræðslu sjómanna, framhaldsnámskeið eldvarna, námskeið í notkun líf- og léttbáta, framhaldsnámskeið fyrstu hjálpar, hóp- og neyðarstjórnarnámskeið, verndarskyldu gagnvart sjóræningjum (þessum alræmdu Pírötum) og síðast en kannski ekki síst, mannauðsstjórnun til sjós, atriði sem ég hefði gjarnan mátt taka nokkrum áratugum fyrr. 

Þegar ég hafði lokið flestum námskeiðunum fór ég fram á það við útgefanda alþjóðlegra vélstjóraskírteina, þ.e. Samgöngustofu,  að ég fengi nýtt skírteini til fimm ára en svarið var nei. Þú verður að bíða í nokkra mánuði því verið er að vinna að nýrri reglugerð um alþjóðleg atvinnuréttindi. Þetta var á síðasta ári og ég samþykkti enda langur tími þar til réttindin rynnu út.  Svo leið árið og ég ítrekaði beiðni mína. Sama svar og verið væri að ljúka vinnu við reglugerðina.  Í febrúar 2015 runnu réttindin mín út og ég átti þess kost að endurnýja þau til bráðabirgða í skamman tíma fyrir stórfé sem ég kaus að gera ekki enda með tómt veski, en kvartaði þess í stað til Samgöngustofu.  Svarið kom að vörmu spori:

Við sendum nánast tilbúið uppkast að nýrri reglugerð til Innanríkisráðuneytisins í byrjun desember.

Ég sendi fyrirspurn til Innanríkisráðuneytisins, taldi mig eiga örlitla hönk upp í bakið á þeim eftir ágæta samvinnu með þeim á meðan ég var í Siglingaráði á árunum 2009-2013, en svarið var jafnískalt og ætla má af ókunnugum:

Drög að reglugerð um menntun, þjálfun og atvinnuréttindi farmanna eru nú til vinnslu hér í ráðuneytinu. Erfitt er að segja hvenær því verki lýkur þar sem drögin eru mjög umfangsmikil. Verkefnið er þó í forgangi og mun vonandi ekki dragast óhóflega.


Síðan eru liðnir nærri tveir mánuðir. Ég hefi verið beðin um að leysa af til sjós, en orðið að hafna því þar sem ég er orðin réttindalaus. Öll þessi námskeið sem ég hefi tekið og kosta mig nærri fjórum hundruðum þúsunda íslenskra króna eru mér einskis nýt í atvinnuréttindum þótt vissulega nýtist þau öllum í daglegu lífi og ég fer að velta fyrir mér hver er ástæðan fyrir þessum töfum?  Frá stéttarfélaginu fæ ég einungis loðin svör.

Innan ríkisstjórnar Íslands eru miklir andstæðingar alþjóðlegar samvinnu, baráttumenn fyrir vexti og viðgangi Skagfirska efnahagssvæðisins, menn sem víla ekki fyrir sér að berja á einstaklingsfrelsinu fyrir Flokkinn sinn. Nú eftir að búið er að þagga niður í starfsfólki Innanríkisráðuneytisins eftir síðasta lekamál er spurningin hvort búið er að þagga svo rækilega í þeim að þau þora ekki lengur að gefa út reglugerðir án þess að Kaupfélag Skagfirðinga samþykki.

Allavega get ég ekki beðið mikið lengur.   Allavega er ég ekki tilbúin til að hverfa aftur til þeirrar miðaldahugsunar sem gilti í ráðuneytinu 1976.

þriðjudagur, mars 24, 2015

24. mars 2015 - Af matarfíkn
Fyrir hartnær fimmtán árum hætti ég að reykja.  Í hönd fóru erfiðir mánuðir, en um leið ánægjulegir þar sem ég hafði sagt tóbaksdjöflinum stríð á hendur.  Að sex mánuðum liðnum hafði ég losað mig við öll hjálparefni til að venja mig af tóbakinu, nikótínplásturinn, tyggjóið og sogrörið.  Ekkert af þessu hefi ég notað síðan og mér leið miklu betur en áður.  En það að hætta að reykja hafði einn vondan fylgikvilla í för með sér. Á fyrstu átján mánuðunum eftir að ég hætti að reykja bætti ég á mig 26 kílóum og var nú komin í rúm 93 kg.

Ég tók þessu létt fyrstu árin, hafði þó einhverja tilburði við að reyna að halda í horfinu og hóf að hreyfa mig meira og ganga á fjöll og firnindi en illa gekk að losna við kílóin aftur og ég gekk meira og meira og náði að ganga Fimmvörðuháls og Laugaveg, Selvogsgötu og Síldarbrekkur og nánast öll fjöll í nágrenni Reykjavíkur en lítið breyttist. Ég náði vissulega að komast niður í rúm 80 kg eitt sumarið sem ég gekk sem mest, en um leið og ég settist niður um haustið komu öll kílóin aftur og enn fleiri en fyrr.

Óttinn við sykursýki og annan óþverra fóru að gera vart við sig og um þarsíðustu áramót gaf ég mér þau fyrirheit að ná af mér 15 kílóum fyrir vorið, þ.e. fara úr 95 kg og niður í 80 kg. Þetta tókst mjög vel eða hitt þó heldur því um vorið var ég orðin 97 kg og loforðið löngu farið fyrir bí.  Svo skrapp ég á sjóinn og náði af mér 2 kílóum fyrirhafnarlaust enda mikil hlaup upp og niður stiga á nútíma gámaskipi og erfitt að komast alla stigana með öll aukakílóin í farteskinu. Svo átti ég orðið erfitt með að reima skóna sökum mikils framþunga, en verst var þó þegar fólk fór að gera athugasemdir við vaxtarlagið auk þess sem ég var hætt að geta keypt mér falleg föt, fataskápurinn var svartur og mussur í yfirstærð orðnar áberandi og það fór að styttast í árshátíð hjá fyrirtækinu, einungis sex vikur.  Ég var löngu búin að kaupa gullfallegan árshátíðarkjól en hann leit hræðilega út er ég var komin í hann enda leit ég út eins og væri ég komin nærri 9 mánuði á leið.

Nokkrir aðilar sem ég þekki höfðu farið í átak, konur og karlar og svo virtist vera sem að allir sem reyndu lágkolvetnakúrinn næðu miklum árangri á stuttum tíma og enginn kvartaði yfir aukaverkunum.  Það mætti kannski alveg prófa þessa aðferð fram að árshátíð og ég setti upp exceltöflu og hóf að skrá þyngd og mittismál upp á hvern dag fram að árshátíðinni, ákvað að minnka brauðátið, kartöflurnar og öldrykkjuna.

Þegar ég sté framúr að morgni 1. september 2014 sté ég á viktina og reyndist vera 95,3 kg, þröngt mittismál rétt um 100 cm og þægilegt mittismál 105 cm. Í ísskápnum var til eitthvað af nýju frosnu fransbrauði, pylsur og pylsubrauð og fullt af áleggi og smjöri auk annars matarkyns.  Ég fór að borða minna, minnkaði kartöflurnar og brauðið, sneiddi framhjá sælgætishillunum í kjörbúðinni en ávextir, gúrkur og tómatar komu í staðinn. Viku síðar var ég komin niður í 93 kg nánast átakalaust og þetta varð mér hvatning til að halda áfram. Þær fimm vikur sem voru fram að árshátíð fóru fimm kg til viðbótar.  Pylsurnar hurfu af matseðlinum og þessar fáu brauðsneiðar sem eftir voru í frystinum voru mér sem hátíðarnammi sem ekki mátti snerta nema á hátíðarstundu.

Þegar kom að árshátíðinni var ég komin niður í 88 kg, þrönga mittismálið komið niður í 94 cm og þægilega mittismálið 98 cm.  Það sem betra var, komin í árshátíðarkjólinn var ég einungis eins og komin sex mánuði á leið, vissulega alltof feit ennþá en svo sannarlega á réttri leið og mér sem hvatning um að halda áfram. og ég setti mér markmið, að vera komin niður fyrir 83,3 kg fyrir jól og 75 kg fyrir lok maí.


Nú hljóp í mig einhver spartönsk elja.  Kartöflur hurfu gjörsamlega af disknum, brauð sömuleiðis, hrísgrjón og pasta hurfu einnig, en sykurkílóið sem ég átti í skápnum fékk að vera áfram óhreyft og ég hætti að drekka öl nema á hátíðarstundum.  Ég stóð mig að því að fá mér ekkert að borða sum kvöld kom kannski glorhungruð heim af dagvakt og lét mér nægja að borða ávexti en sleppa öllu viðbiti og árangurinn lét ekkert á sér standa.  Að morgni aðfangadags jóla var ég komin þrjú kíló niður fyrir áætlunina og orðin léttvæg 80,3 kg og þessi tvö kíló sem ég bætti á mig yfir hátíðarnar fóru fljótt og vel af mér á fyrstu dögum janúarmánaðar ársins 2015 enda sparaði ég ekkert við mig í mat og drykk yfir hátíðarnar.  Og eitt kíló á viku hélt áfram að fjúka af mér. 

Árshátíðarkjóllinn var að verða of stór á mig og ég þurfti að endurnýja fataskápinn að einhverjum hluta.  Ég fann nýjan árshátíðarkjól, en ég fór líka í geymsluna og fann talsvert af gömlum fötum sem ég hafði hætt að nota fyrir nærri fimmtán árum sökum þess að ég var orðin of feit. 15. febrúar fékk ég vinkonu mína til að smella af mynd af mér í sömu peysunni og ég var í þegar ég var sem þyngst og munurinn var skelfilegur. Myndirnar setti ég á Facebook og viðbrögðin létu ekki á sér standa. Ég fékk 1236 læk á þær og á annað hundrað athugasemda. Um morguninn hringdu þrír blaðamenn í mig til að spyrja um árangurinn (ég svaraði einungis þeim fyrsta).

Rúmum tveimur vikum síðar var ég komin niður í lokatakmarkið eða 74,8 kg. Ég ákvað samt að geyma mér árangurinn til 7. mars og tilkynnti þá árangurinn opinberlega á Facebook. Síðan þá hefi ég verið að dunda mér á milli 74 og 76 kg, fór lengst niður í 74,4 kg en hefi vissulega einnig farið í 76, en björninn er unninn. Nú þarf bara að gæta þess að fara ekki upp í þyngd á nýjan leik, enda að koma að páskum og nýjum freistingum og tvö páskaegg þegar fallin fyrir græðgi minni.  Ég játa samt að ég er ekki ennþá farin að borða brauð og lítið af kartöflum, en sykurmikil páskaeggin valda mér einungis vanlíðan.

Ég held að þetta verði í lagi svona.