föstudagur, mars 27, 2015

27. mars 2015 - Af Skagfirska efnahagssvæðinu


Þegar ég var formaður Skólafélags Vélskóla Íslands hafði eldri vélstjóri samband við okkur og bar sig ekki vel.  Hann hafði haldið til Svíþjóðar og ráðið sig til sænska útgerðarfyrirtækisins Broström Line, en þrátt fyrir að hafa lokið vélstjórnarnámi á Íslandi, neituðu sænsk yfirvöld að samþykkja réttindi hans og starfaði hann því sem aðstoðarvélstjóri hjá sænsku útgerðinni.

Hér var um að ræða Svavar Guðmundsson fyrrum kaupmann í Ási í Reykjavík, en hann hafði farið í Vélskólann þegar grundvellinum hafði verið kippt undan verslunarrekstri hans og lokið skólanum með sæmd orðinn 56 ára gamall er hann lauk náminu, en sonur hans hafði lokið námi við skólann tveimur árum áður.

Á þessum árum áttunda áratugarins voru baráttufólk í flestum skólafélögum og við tókum þessu óréttlæti með baráttuhug, reyndum að fá skýringar á málinu og komumst að því að Íslendingar hefðu aldrei skrifað undir samninga um norræn vélstjórnarréttindi.  Svörin sem við fengum frá ráðuneytinu voru sömuleiðis á þá leið að aldrei hefði verið skrifað undir þessa samninga til að koma í veg fyrir að Ísland fylltist af atvinnulausum vélstjórum frá Norðurlöndunum sem tækju þannig störfum frá Íslendingum, en um leið var okkur bent á að raunverulega skýringin væri önnur, þ.e. að koma í veg fyrir stórfelldan flótta íslenskra vélstjóra til Norðurlandanna þar sem kjörin voru miklu betri.

Síðar breyttist þetta allt.  Með útflöggun íslenskra farskipa komu upp vandamál þar sem gamlir vélstjórar þurftu að fara í skriflegt próf til að sanna getu sína á skipum skráðum í Panama og víðar og endingin varð sú að gefin voru út alþjóðleg vélstjóraskírteini fyrir íslenska vélstjóra sem lokið höfðu viðbótarnámi í öryggismálum. Ekki kann ég þá sögu alla, enda var ég í Svíþjóð fyrri hluta tíunda áratugarins og einungis á sjó í afleysningum eftir það og er enn.

Síðan þá hefur það gerst að farskip í eigu Íslendinga eru flest skráð erlendis, einungis fáeinar ferjur og varðskip skráð á Íslandi. Í dag færðu ekkert að skrá þig á þessi skip nema vera með alþjóðaskírteini og gildir þá jafnt um íslensk skip eins og varðskip og ferjur og farskip í eigu Íslendinga eins og Fossa Eimskipafélagsins og Fell Samskipa.


Mér þykir samt vænt um vélstjóraréttindin mín og hefi reynt að halda þeim við, tekið öll þau öryggisnámskeið sem þarf til viðhalds réttindunum, fer á sjóinn hvenær sem tækifæri gefst og held þannig áfram að safna í reynslusarpinn.  Auk þess hefi ég verið  vélstjóri á björgunarskipinu Ásgrími S. Björnssyni í tómstundum mínum frá  störfum mínum í landi sem að sjálfsögðu eru ekki tengd sjó, en eru samt þess eðlis að krafist er vélstjórnarréttinda og mikillar starfsreynslu þar sem vélstjórar þurfa að bjarga sér án utanaðkomandi aðstoðar til að sinna þeim.

Á síðasta ári þegar ljóst var að réttindin mín voru að renna út á tíma hóf ég að endurnýja þau með því að sækja öll nauðsynleg námskeið sem krafist er til að endurnýja réttindin á fimm ára fresti.  Ég þurfti að endurnýja grunnnámskeið í öryggisfræðslu sjómanna, framhaldsnámskeið eldvarna, námskeið í notkun líf- og léttbáta, framhaldsnámskeið fyrstu hjálpar, hóp- og neyðarstjórnarnámskeið, verndarskyldu gagnvart sjóræningjum (þessum alræmdu Pírötum) og síðast en kannski ekki síst, mannauðsstjórnun til sjós, atriði sem ég hefði gjarnan mátt taka nokkrum áratugum fyrr. 

Þegar ég hafði lokið flestum námskeiðunum fór ég fram á það við útgefanda alþjóðlegra vélstjóraskírteina, þ.e. Samgöngustofu,  að ég fengi nýtt skírteini til fimm ára en svarið var nei. Þú verður að bíða í nokkra mánuði því verið er að vinna að nýrri reglugerð um alþjóðleg atvinnuréttindi. Þetta var á síðasta ári og ég samþykkti enda langur tími þar til réttindin rynnu út.  Svo leið árið og ég ítrekaði beiðni mína. Sama svar og verið væri að ljúka vinnu við reglugerðina.  Í febrúar 2015 runnu réttindin mín út og ég átti þess kost að endurnýja þau til bráðabirgða í skamman tíma fyrir stórfé sem ég kaus að gera ekki enda með tómt veski, en kvartaði þess í stað til Samgöngustofu.  Svarið kom að vörmu spori:

Við sendum nánast tilbúið uppkast að nýrri reglugerð til Innanríkisráðuneytisins í byrjun desember.

Ég sendi fyrirspurn til Innanríkisráðuneytisins, taldi mig eiga örlitla hönk upp í bakið á þeim eftir ágæta samvinnu með þeim á meðan ég var í Siglingaráði á árunum 2009-2013, en svarið var jafnískalt og ætla má af ókunnugum:

Drög að reglugerð um menntun, þjálfun og atvinnuréttindi farmanna eru nú til vinnslu hér í ráðuneytinu. Erfitt er að segja hvenær því verki lýkur þar sem drögin eru mjög umfangsmikil. Verkefnið er þó í forgangi og mun vonandi ekki dragast óhóflega.


Síðan eru liðnir nærri tveir mánuðir. Ég hefi verið beðin um að leysa af til sjós, en orðið að hafna því þar sem ég er orðin réttindalaus. Öll þessi námskeið sem ég hefi tekið og kosta mig nærri fjórum hundruðum þúsunda íslenskra króna eru mér einskis nýt í atvinnuréttindum þótt vissulega nýtist þau öllum í daglegu lífi og ég fer að velta fyrir mér hver er ástæðan fyrir þessum töfum?  Frá stéttarfélaginu fæ ég einungis loðin svör.

Innan ríkisstjórnar Íslands eru miklir andstæðingar alþjóðlegar samvinnu, baráttumenn fyrir vexti og viðgangi Skagfirska efnahagssvæðisins, menn sem víla ekki fyrir sér að berja á einstaklingsfrelsinu fyrir Flokkinn sinn. Nú eftir að búið er að þagga niður í starfsfólki Innanríkisráðuneytisins eftir síðasta lekamál er spurningin hvort búið er að þagga svo rækilega í þeim að þau þora ekki lengur að gefa út reglugerðir án þess að Kaupfélag Skagfirðinga samþykki.

Allavega get ég ekki beðið mikið lengur.   Allavega er ég ekki tilbúin til að hverfa aftur til þeirrar miðaldahugsunar sem gilti í ráðuneytinu 1976.


0 ummæli:







Skrifa ummæli