föstudagur, júní 30, 2006

30. júní 2006 - Mengunarslys í uppsiglingu?

Síðastliðið mánudagskvöld var sagt frá því í seinni fréttum Ríkissjónvarpsins að Orkuveita Reykjavíkur hefði lagst gegn því að Atlantsolía fengi að reisa bensínstöð á gatnamótum Suðurlandsbrautar og Kringlumýrarbrautar. Þetta fannst forráðamönnum Atlantsolíu hið versta mál og bentu á bensínstöðvar Shell og ÓB (Olís) sem báðar liggja nærri heitavatnsborholum Orkuveitunnar.

Ég viðurkenni fúslega að ég hafði aldrei hugleitt þann skaða sem gæti orðið á þessum stað ef yrði alvarlegt mengunarslys. Þarna eru nokkrar mjög góðar og virkar heitavatnsborholur sem dæla allt að milljarði í verðmætum árlega upp úr jörðinni til hagsbóta fyrir íbúana. Þetta er sama neðanjarðarkerfið og hefur gefið Reykvíkingum heitt vatn í meira en þúsund ár og ein lek bensínstöð getur eyðilagt þessi verðmæti fyrir okkur til framtíðar.

Lítum aðeins á kalda vatnið. Vatnsból Reykvíkinga eru afgirt, svo rækilega að vatnsverndarsvæðin ná langt út fyrir þau svæði þaðan sem kalda neysluvatninu er dælt upp úr jörðinni. Þangað fá engar bifreiðar að koma nema þær hafi fyrst verið mengunarskoðaðar og allir efna- og olíuflutningar eru bannaðir á svæðinu. Að sjálfsögðu eru engar bensínstöðvar þar í næsta nágrenni þótt vissulega fari olíuflutningar um Suðurlandsveginn sem liggur óþarflega nærri vatnsverndarsvæðunum.

Þegar kemur að heita vatninu er allt önnur saga í gangi. Bensínstöð ÓB við Háaleitisbraut er einungis í 50 metra fjarlægð frá borholu 19 hinum megin við götuna, borholu sem gefur af sér yfir 30 sekúndulítra af 130°C heitu vatni. Bensínstöð og smurstöð Shell við Laugaveg 180 nær að lóðarmörkum að borholu 20 sem gefur af sér 50 sekúndulítra af 129°C heitu vatni. Bílaverkstæði Heklu er svo rétt við borholu 9 sem gefur af sér um 30 sekúndulítra af 128°C vatni og er borholuhúsið á miðju bílasölustæðinu fyrir notaðar bifreiðar. Nánast í miðju þessa viðkvæma svæðis eru svo gatnamót Kringlumýrarbrautar og Laugavegar/Suðurlandsbrautar. Þá má ekki gleyma bensínstöðvum allt umhverfis Laugardalinn, við Sæbraut, Suðurlandsbraut, Borgartún, allt stöðvar sem eru nærri hættumörkum hvað snertir hugsanleg mengunarslys. En fyrst og fremst þarf að hugsa um næstu bensínstöðvar og aðra mengunarvalda í nágrenninu.

Þótt borgarstjórn eigi eftir að segja sitt síðasta orð, hefur Orkuveitan mælt gegn einni bensínstöð til viðbótar á viðkvæmasta hluta þessa viðkvæma svæðis og er það vel. Nú þarf bara að losna við hinar tvær stöðvarnar sem fyrst af svæðinu áður en þær valda varanlegu tjóni til framtíðar.

-----oOo-----

Ég verð fjarri góðu gamni næstu vikuna, en mun reyna að setja inn pistla eftir mætti, komist ég í færi við netið.

fimmtudagur, júní 29, 2006

29. júní 2006 – Af kisum


Þegar ég kom heim af vaktinni á þriðjudagskvöldið og áður en ég dreif mig í baðið mitt, sleppti ég kisu út svo Hrafnhildur ofurkisa færi ekki að klóra sig í gegnum hurðina úr íbúðinni. Ég vissi að útidyrnar út í garðinn voru opnar og sá ég Hrafnhildi komna út í garð áður en ég hóf þrifin á sjálfri mér.

Klukkan ellefu um kvöldið fór ég niður og sá þá að einhver hafði lokað dyrunum út í garðinn. Ég fór út í garð og hristi lyklakippuna án afláts, en þótt Hrafnhildur ofurkisa hafi hingað til hlýtt kallinu er ég hristi lyklakippuna, þá kom hún ekki í þetta sinn. Jæja, það er bara svona gaman hugsaði ég og fór upp aftur.

Ég fór aftur niður eftir miðnættið og gekk nokkuð um garðinn hristandi lyklakippuna og engin kom kisan. Ég fór að hafa áhyggjur af litla dýrinu. Enn gekk ég einn hring um garðinn og næsta nágrenni veifandi lyklakippunni um klukkan eitt og hvergi sást til kisu litlu. Ég þorði ekki að hrista lyklakippuna mjög mikið svo nágrannarnir færu ekki að halda að ég væri komin með húsvarðarveiki, en eftir nokkra leit fór ég heim aftur kisulaus og uppfull af áhyggjum.

Ég var ekki ein um áhyggjurnar. Tárhildur litla kisa grét sem aldrei áður og saknaði systur sinnar, óð um alla íbúð og út á svalir og hrópaði á stóru systur og svo aftur inn og var ekkert sátt við að ég færi að sofa án þess að Hrafnhildur væri komin heim. Ég skreið í rúmið, sofnaði eftir nokkra stund og dreymdi að Hrafnhildur ofurkisa væri komin heim.

Ég vaknaði snemma og klæddi mig og ætlaði að fara einn hring um nágrennið og leita einu sinni enn. Um leið og ég kom að útidyrunum hjá mér, heyrði ég ámáttlegt mjálm fyrir utan dyrnar. Ég opnaði og fyrir utan dyrnar mjálmaði ofurkisan og flýtti sér inn og beint að matardallinum sínum, augljóslega orðin glorhungruð eftir ævintýri næturinnar.

Hrafnhildur ofurkisa hefur ekki nennt að fara út aftur eftir svaðilfarir næturinnar, heldur kýs að halda sig heima og lúra þess betur. Ekki veit ég hvar hún var um nóttina, en hún umlykur leyndarmálið með þögninni.

miðvikudagur, júní 28, 2006

28. júní 2006 - Mengunarslys og dramatík

Ég var á vaktinni á þriðjudaginn og sjónvarpið var í gangi inni í setustofu vaktarinnar þegar ungur reyðfirskur fréttamaður hóf að segja frá mengunarslysi á Eskifirði og af áherslum fréttamannsins fékk ég á tilfinninguna að Eskifjörður hefði þurrkast út af kortinu með manni og mús. Eftir að hafa hlustað á manninn góða stund, hafði ég gert mér nokkurn veginn grein fyrir því að drengurinn væri að yfirdramatísera atburðina, slökkti á NFS og kveikti á útvarpinu, enda stutt í áreiðanlegri fréttir en þær sem CNN-Helgi lýsti.

Með fullri virðingu fyrir fréttamönnum, þá þjónaði hegðun þessa unga manns engum tilgangi. Hann var greinilega í mikilli geðshræringu og vafalaust þekkt marga af krökkunum sem lentu í þessari gaseitrun sem sum hver eru kannski leikfélagar hans. Hið einasta sem hann áorkaði var að skapa hræðslu fyrir það fólk sem á ættingja á Austfjörðum. Það fór líka betur en á horfðist og eftirá minnist maður helst þeirra sem þjást af athyglissýki eins og slökkviliðsstjórans á Akureyri og heilbrigðisráðherrans. Það vantaði eiginlega bara menntamálaráðherrann til að þrenningin yrði fullkomin.

Sjálf á ég tvær ungar frænkur sem urðu fyrir þessari eitrun, en þar fór vel þótt þær liggi á sjúkrahúsi til eftirlits er þessi orð eru rituð.

Ég minnist annars atviks frá því ég var til sjós. Við vorum á leið til Íslands á honum Álafossi þegar skipið fékk brotsjó á sig og átta gámar í tveimur röðum slitnuðu úr festingunum og fóru í sjóinn. Þriðja röðin fór á hliðina og efnatunnur sem voru í opnum gám fóru af stað, duttu niður á þilfarið og eyðilögðust. Efnin sem voru í tunnunum láku um allt dekkið og blönduðust sjó, láku að nokkru leyti niður um samskeyti á gámalyftu og komust þar niður í trailerlest skipsins og gaus þar upp hinn megnast óþefur.

Á þessu frambyggða skipi var leiðin frá íbúðunum og afturí vélarúm í gegnum trailerlestina. Þessa tæplega tvo daga sem við áttum eftir til Reykjavíkur var nánast ólíft í lestinni sem og í vélarúmsganginum aftan við göngubrúna í lestinni. Þessu fylgdi mikill sviði í öndunarvegi, höfuðverkur og flökurleiki. Þegar til Reykjavíkur var komið, mættu fulltrúar frá Vinnueftirlitinu á staðinn og lögðu blátt bann við því að byrjað yrði að losa lestina fyrr en búið væri að loftræsta og hver sá verkamaður sem þurfti starfs síns vegna að fara um borð, var skyldaður til að vera með gasgrímu, enda efnin náskyld blásýru. Það skipti hinsvegar engu máli með áhöfn skipsins. Hún þurfti enga sérstaka vörn. Aukinheldur hafði Tollgæslan innsiglað blásaraklefann fyrir loftræstingu íbúðanna til að tryggja enn frekar fljótan dauðdaga ef loftræstikerfið bilaði eða rafmagn færi af því. Slíkt kallast að fara offari í embættisskyldunum, en vaktstjóri Tollgæslunnar við komuna til Reykjavíkur treysti ekki innsiglismöguleika frystikistu sem var inni í blásaraklefanum.

Á þessum tíma var ekki búið að finna upp dramatíseríngu, NFS né Stöð 2 og Helgi Seljan fréttamaður enn með bleyju. Því fór lítið fyrir fréttum af þessu atviki. Ég minnist þess reyndar ekki að nokkuð hafi komið um þetta í íslenskum fjölmiðlum. Ég held við getum þakkað Guði fyrir að engum ungum fréttamanni tókst að gera múgæsingu úr hlutunum.

Af hverju þurfa fréttir af svona hlutum annaðhvort að vera of eða van?

þriðjudagur, júní 27, 2006

27. júní 2006 - Orri og Bush


Ég sá í netútgáfu Morgunblaðsins að George Bush væri væntanlegur til landsins og brá illilega í brún. Svo komst ég að því að þetta var vitlaus Bush, kannski ekki beinlínis vitlaus, en engu að síður faðir hins vitlausa George Dobbljú Bush. Í fréttinni var síðan sagt frá því að hann ætlaði að koma hingað í boði Ólafs Ragnars Grímssonar, en ætlaði svo í laxveiði í boði Orra Vigfússonar.

Mér létti við að uppgötva að sá alversti væri ekki á leiðinni hingað til lands og gladdist við frétt þess efnis að Bush ætli að stunda laxveiðar með vini sínum Orra Vigfússyni. Þeir hafa vafalaust heilmikið að ræða um. Bush getur t.d. frætt Orra um það hvernig hann sprengdi Bagdað aftur á steinöld árið 1991 og Orri getur sagt Bush frá óskadraumi sínum sem er að rífa fyrstu rafstöð Reykvíkinga sem er um leið lifandi minnisvarði um rafvæðingu Íslands og getur hann í leiðinni fengið ráð hjá Bush um hvernig hann geti sprengt Elliðaárstöð og stíflumannvirkin aftur á steinöld. Þeir geta svo velt fyrir sér hvernig hægt verði að pynta ætlaða talíbana til segja sér frá því er talíbanar sprengdu ævaforn líkneski í Afganistan sumarið áður en Bandaríkin réðust á landið. Síðan munu þeir væntanlega reyna að útrýma eins mörgum löxum og þeir komast yfir að drepa, en það virðist helsta markmið Verndarsjóði villtra laxastofna, að útrýma laxinum samanber veiðiferð þeirra vinanna.

Einhverjum kynni að detta í hug að þarna hæfi kjaftur skel.

-----oOo-----

Ég er að velta fyrir mér af hverju Morgunblaðið er orðið helsta vopnið í rógsherferð Jónínu Ben og Jóns Gerald Sullabergs eða hvað hann nú heitir sá ágæti maður á hendur bleika svíninu og Jóni Ásgeiri Jóhannessyni. Blaðið hefur verið svo uppfullt samsæriskenninga síðustu tvo dagana að ég man vart annað eins og á það bæði við um Baug og Suðurlandsslysið.

-----oOo-----

Loks ber að fagna góðum áfanga í átt að réttindum samkynhneigðra sem hafa öðlast lagagildi í dag, 27. júní á tíu ára afmæli stóra dagsins þegar lögin um staðfesta samvist öðluðust lagagildi.

-----oOo-----

Svo á Elliðaárstöð 85 ára starfsafmæli í dag og er hún enn keyrð á daginn á veturna með fullum afköstum 3,2 MW. Geri önnur raforkuver slíkt hið sama. Þvílík gersemi sem Reykvíkingar eiga þarna.

mánudagur, júní 26, 2006

26. júní 2006 – Vinstrisinnaðir bloggarar?

Ég hefi verið að velta fyrir mér þessum merkilega hópi fólks í samfélaginu sem kallast bloggarar. Þessar sömu vangaveltur komu upp hjá gönguhópnum Blogg þar sem hann kleif þrítugan hamarinn í gærmorgun og miklaði sig af afrekum sínum.

Af reynslu minni af bloggi í tvö ár, fæ ég á tilfinninguna að skipta megi bloggurum í þrjá meginhópa, unglinga, heimavinnandi húsmæður og vinstrisinnað menntafólk eða það sem kalla má “intellektuella” hópinn. Það eru auðvitað til bloggarar sem tilheyra öðrum hópum samfélagsins, en þeir eru fáir. Stundum getur þetta ruglað mann í ríminu. Þegar ég hrósaði Valgerði Sverrisdóttur fyrir störf hennar að virkjanamálum var ég umsvifalaust skotin í kaf. Sama skeði einnig þegar ég hrósaði heimsmethafanum geðþekka í Formúla-saumavél.

Fyrir sveitastjórnarkosningarnar um daginn fékk ég á tilfinninguna að vinstrigrænir myndu gjörsigra kosningarnar, svo mikill var meirihluti þeirra í þeim hópum sem ég les bloggið frá. Af sömu uppsprettu fékk ég á tilfinninguna að bæði Íhald og Framsókn myndu þurrkast út og Samfylkingin yrði sem hækja með Vinstrigrænum eftir kosningar. Allir vita hvernig það fór. Íhaldið sigraði atkvæðagreiðsluna hér í Reykjavík, en Framsókn stóð uppi sem sigurvegari eftir að hafa fengið þá verstu útreið sem hann hefur fengið í hálfa öld í borgarstjórnarkosningum.

Það er ljóst að sumir hópar blogga ekki. Það er fullt af fjölmiðlafólki sem bloggar, en fáir trésmiðir. Einasti vélfræðingurinn sem ég veit um sem bloggar er ég sjálf, en ég er líka alveg einstaklega mikið gæðaeintak af vélfræðing eins og alþjóð ætti að vera kunnugt(?). Hvar eru blogg pípulagningarmeistarans og hárgreiðslukonunnar? Eða viðskiptafræðingsins? Á móti kemur að sagnfræðingar virðast áhugasamir um blogg, en fáir verkfræðingar, en nokkrir þó. Þá eru kennarar mjög áhugasamir um blogg og margir iðnir við kolann.

Tveir sjóarar sem ég kannast við eru áhugasamir bloggarar, en annar þeirra er hættur til sjós í blóma lífsins og kennir nú innfæddum að stýra skipum suður í Afríku. Örlög hins eru öllu verri, því hann er orðinn fullgildur limur í gönguhópnum Blogg.

-----oOo-----

Ég hefi ákveðið að skrifa ekkert um saumavélarkappaksturinn sem fram fór í Kanada á sunnudaginn. Óþarfi að valda sárindum í litlum gönguhóp.

sunnudagur, júní 25, 2006

25. júní 2006 - Fjallganga


Það hefur fjölgað í gönguhópnum og Þórður sjóari orðinn fullgildur limur í hópnum. Í tilefni af því var haldið á Grímannsfellið á laugardagsmorguninn. Það var lagt af stað fyrir allar aldir eða klukkan níu og farið upp í Mosfellsdal. Þar var síðan farið eftir bókinni, bílnum lagt hjá Túnfæti og haldið þaðan upp fjallið. Þótt Grímannsfellið sé hærra en fjöll þau sem við höfum farið áður í sumar, reyndist það mun auðveldara viðfangs, en einnig var hægt að ganga talsvert eftir hábungunni til suðausturs áður en komið var á Háahnúk sem er talinn vera 482 metrar.

Eftir að hafa hvílst neðan við Háahnúk um stund var haldið til austurs niður brattann að Bringnagili, en þaðan var Köldukvísl fylgt til norðurs í átt að Gljúfrasteini og áfram þaðan að Túnfæti og síðan heim aftur.

Öll ferðin tók rúmlega sex tíma. Sit ég nú hér heima og vorkenni sjálfri mér, sólbrunnin á öxlum og hálsi og væntanlega verð ég með harðsperrur í dag eftir að hafa gengið á þúfum að hætti Bobby Fishers. Að venju stóðu ferðafélagarnir sig mun betur en ég, en ég læt svo nokkrar myndir fylgja á myndablogginu mínu undir liðnum 2.4. Fjallaferðir.

laugardagur, júní 24, 2006

24. júní 2006 – Útvarpsviðtal

Á fimmtudaginn var hringt í mig og ég beðin um að koma í viðtal á útvarpsstöð einni í eigu þrjúhundruðsextíuogfimm miðla á föstudagsmorguninn. Fyrir bragðið dreif ég mig á fætur fyrir allar aldir á föstudagsmorguninn svo ég yrði örugglega vöknuð klukkan níu þegar viðtalið átti að byrja, ók niðureftir í hendingskasti og var komin á staðinn löngu fyrir ætlaða útsendingu. Það kom fljótlega í ljós að tvö þeirra sem áttu að yfirheyra mig eru barnabörn Sigga Vídó í Vestmannaeyjum og annað þeirra átti að vera vondi kallinn í viðtalinu.

Viðtalið gekk ljómandi vel fannst mér og ég fékk nokkrar “eitraðar” spurningar, en þar sem ég hafði verið vöruð við slíku fyrirfram, komu þær spurningar ekkert á óvart og ég svaraði þeim eins og öðrum. Eftir viðtalið labbaði ég svo yfir í næsta hús og drakk meira kaffi áður en ég hélt heim á leið.

Eftir að ég var komin heim, fékk ég símtal norðan úr landi. Það var ljóst að sumt fólk hafði ekki áttað sig á því að leikur hefði verið settur á svið í viðtalinu og að viðtalið hefði allt verið undirbúið. Að minnsta kosti fannst sumum spyrillinn ganga alltof langt gagnvart mér með spurningum sínum. Ég held að minnsta kosti að ég hafi ekki þurft að skammast mín fyrir svör mín í þessu viðtali.

-----oOo-----

Ég hefi stundum verið að hnýta í fólk sem veit ekki til hvers litla sveifin vinstra megin við stýrið á bílnum er. Í gær fylgdist ég með einum á bifreiðinni MH-703 sem kunni alls ekki að nota stefnuljósin. Ekki nóg með það, heldur hélt hann að það væri í lagi að beygja til vinstri á gatnamótum af miðakrein. Mér finnst að mætti bjóða þessum unga manni að fara í nokkra ökutíma með áherslu á umferðarreglurnar.

föstudagur, júní 23, 2006

23. júní 2006 - Grúskað í ættfræði

Ég nenni ekki að blogga þessa dagana. Það er hvort eð er algjör gúrkutíð í landsmálunum og Björn Ingi búinn að máta peysufötin hans Halldórs Ásgrímssonar í von um að geta lagað kynjahlutföllin í nefndum og ráðum borgarinnar. Þá hefi ég verið á fullu á vöktum að undanförnu auk einnar aukanæturvaktar og ekki getað sinnt nýjasta áhugamálinu, að labba á fjöll.

Eitt hefi ég þó getað gert að undanförnu. Ég hefi unnið í því að undanförnu á vaktinni að skrásetja niðja áa minna í fimmta lið, þeirra Magnúsar Benediktssonar (1831-1902) frá Varmadal á Kjalarnesi og Sigríðar Erlendsdóttur (1840-1934) frá Herdísarvík í Selvogi. Ég er búin að skrá niður beinagrindina að niðjatalinu, en á eftir að vinna að nánari kynnum á því fólki sem komið er af þeim sambýlingunum. Ekki get ég sagt hjónum því þau giftust aldrei og opinberlega var Sigríður bústýra hjá Magnúsi sem var ekkill er sambúðin byrjaði.

Ég er nú komin með tæplega 600 niðja, en samt vantar enn mikið upp á að ná öllum, þá helst þeim sem búa erlendis. Þannig vantar mig flesta afkomendur Ragnhildar Magnúsdóttur í Kanada sem og einnar konu sem flutti til Bandaríkjanna. Það er þó ljóst að meirihluti niðja Magnúsar Benediktssonar kemur frá tveimur barnabörnum hans, Ragnhildi Egilsdóttur í Stapakoti í Njarðvíkum og Arndísi Benediktsdóttur á Lokastíg 28 í Reykjavík. Ég sé að þetta verður skemmtilegt niðjatal ef það kemst einhverntímann út á netið eða á prent.

fimmtudagur, júní 22, 2006

22. júní 2006 - 40 ár

Ég man það eins og að það hefði skeð í gær. 22. júní 1966. Ég hafði suðað í móðurbróður mínum sem nú er nýlátinn að lofa mér að fara nokkrar ferðir á togaranum hans. Að lokum gafst hann upp á þrjóskunni í mér og samþykkti að ég fengi að fara eina ferð sem hálfdrættingur um borð í togarann Jón Þorlákson RE-204. Þetta var gamall síðutogari, smíðaður 1949 og í eigu Bæjarútgerðar Reykjavíkur. Ég var ekki langyngsti hásetinn í flotanum. Einn bekkjarbróðir minn var háseti á Ingólfi Arnarsyni þar sem faðir hans var skipstjóri. Að fara á togara einungis 14 ára að aldri var talið hraustleikamerki.

Kvöldið áður en lagt var úr höfn tók pabbi mig á eintal. Passaðu þig á hinu og passaðu þig á þessu, strákarnir munu efalaust reyna að gera grín að þér. Það gera þeir við alla sem eru að byrja til sjós svo þú verður að sjá við þeim. Mundu ef þú finnur fyrir sjóveiki á útstíminu, að fara þá í koju og liggja í hnipri. Þá verður sjóveikin vægari. Ég sagði já og amen við öllu og flýtti mér niður í bæ þar sem lögreglukórar allra Norðurlandanna skemmtu borgarbúum með kórsöng í blíðskaparveðri.

Ég leit á fermingarúrið mitt þegar endum var sleppt og bakkað frá togarabryggjunni, Faxagarði. Hún var 14.15 þann 22. júní 1966 og svo var haldið til veiða. Þetta var góður túr. Við fylltum skipið og komum í land með nærri 300 tonn af blönduðum fiski eftir tæpar tvær vikur á sjó og það var blíðskaparveður allan túrinn. Ekki tókst skipsfélögunum að plata mig til að gefa kjölsvíninu né að trekkja upp togklukkuna. Ég hafði verið vöruð við slíku af pabba. Þegar þeir fóru að tala um að póstbáturinn kæmi á morgun með nýjustu blöðin hló ég bara. Tveimur dögum áður en haldið var í land og menn höfðu haldið áfram að tala um póstbátinn, vaknaði ég eftir frívaktina og þegar ég kom afturí messa, voru menn að lesa nýjustu blöðin. Hafði þá sagan um póstbátinn verið sönn eftir allt saman? Svo kom sannleikurinn í ljós, því skipverji á skipi sem var nýkomið á miðin, hafði veikst og komið yfir til okkar sem vorum rétt að ljúka ferðinni og halda í land og tók nýjustu blöðin með sér.

Ég var til sjós í rúmlega tvo áratugi eftir þetta, lengst af í vélarúmi sem vélstjóri um borð og á nokkrum skipum sem yfirvélstjóri. Ég hætti til sjós í föstu starfi eftir að hafa lent í vinnuslysi um borð í M.s. Álafossi í ágúst 1987 og flaug þá heim frá Hamborg. Síðan þetta var hefi ég einungis verið á sjó í afleysningum og oft frekar sjálfri mér til gamans eða tekjuauka, því ég get ekki hugsað mér sjómennsku sem ævistarfs, en mikið skelfing lærði ég mikið á lífið á þessum rúmlega tveimur áratugum sem ég var á sjó samtímis því sem ég var að berjast við mínar eigin tilfinningar sem eru auðvitað allt önnur saga og er ekki rakin hér í fáeinum orðum.

Ég fann enga mynd af fyrsta skipinu, en fann hinsvegar mynd af systurskipinu, Hallveigu Fróðadóttur RE-203. Hún verður að nægja að sinni. Fyrirgefðu mér Hafdís mín.

miðvikudagur, júní 21, 2006

21. júní 2006 - 2. kafli – Klukk

Þá er enn eitt klukkið komið í gang og Hildigunnur hefur áveðið að ná sér niður á mér með því að láta mig svara því:

1. Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?
Ég get ekki nefnt neina eina bók sem hefur haft mest áhrif á mig, en til þess að nefna eitthvað, ætla ég að nefna Innansveitarkróníku Halldórs Laxness, því hún kenndi mér að meta þann gamla.

2. Hvernig bækur lestu helst?
Ættfræði, þjóðlegan fróðleik, ævisögur og bækur um transgender málefni.

3. Hvaða bók lastu síðast?
“Becoming a Visible Man” eftir Jamison Green er enn á náttborðinu.

Með þessu ætla ég að klukka eftirfarandi aðila:
Kristín V., Guðrún Helga, Pollý-Gunna og Þórður.

21. júní 2006 - Og blogg dagsins er....


Ég hefi haft fyrir reglu að setja inn blogg dagsins á miðnætti, en í síðasta lagi snemma að morgni. Nú fór allt úr skorðum hjá mér því ég var ekki nærri neinni nettengdri tölvu frá því um miðjan dag í gær og þar til klukkan að ganga tíu að morgni. Ég hefi heldur ekki látið mér detta neitt gáfulegt til hugar þar sem ég var á aukalegri næturvakt um borð í skipi í Sundahöfn. Ég gæti auðvitað bloggað um dásemdirnar við 15 MW aðalvél skipsins, en ég er hrædd um að fólk fengi þá fljótt leið á mér og hætti að lesa bloggið mitt. Ég held ég sleppi því og skrifi eitthvað gáfulegt í kvöld í staðinn.

þriðjudagur, júní 20, 2006

20. júní 2006 - Jarðarför

Ég fór í jarðarför í gær. Það var verið að kveðja minn kæra móðurbróður sem dó á dögunum og var ágætlega mætt, hinsvegar einungis eitt þriggja eftirlifandi systkina hans. Hin tvö treystu sér ekki til að mæta af heilsufarslegum ástæðum. Það er orðið dálítið merkilegt, að einustu skiptin sem stórfjölskyldan hittist, er við jarðarfarir. Afi minn og amma áttu níu börn og heildarfjöldi niðja að verða 180. Það gefur því auga leið að einustu skiptin sem megnið af þessum stóra hóp hittist, er við ættarmót og jarðarfarir.

-----oOo-----

Önnur kveðjuathöfn fór líka fram í gær og skilst mér að þar hafi ölið runnið óspart. Ég skrópaði þar, enda lítil ástæða til fagnaðar er fráfarandi stjórn Orkuveitunnar var kvödd og ný stjórn tók við. Ég hefi aldrei farið leynt með mínar pólitísku skoðanir og er ekki viss um að framtíðin verði sú tryggð sem hefur verið síðustu tólf árin undir stjórn Alfreðs Þorsteinssonar. Þá er mér kunnugt um að á æðstu stöðum var tekist á um ráðningu mínu til Hitaveitunnar fyrir nærri áratug síðan og grunar mig að Alfreð hafi tekið af skarið til minna hagsbóta.

mánudagur, júní 19, 2006

19. júní 2006 - Þvottalaugarnar

Það er ekki úr vegi að minnast lítillega á Þvottalaugarnar í Laugardal í tilefni dagsins.

Í árhundruð stunduðu reykvískar húsmæður þvotta í Þvottalaugunum í Laugardal og urðu laugarferðir almennar og jafnvel vinsælar eftir að Reykjavík fór að byggjast eftir 1750. Húsmæður og vinnukonur fóru frá Reykjavík snemma morguns í öllum veðrum og á öllum tímum árs og inn í Þvottalaugar með óhreinan þvott á bakinu, þvoðu hann og þurrkuðu eins og hægt var áður en þær tóku hann aftur á bakið og héldu heim á leið að kvöldi. Þrátt fyrir mikla vosbúð sem fylgdu þessum laugaferðum og mörg slys, var það ekki fyrr en eftir 1880 sem reist var skýli fyrir þvottakonurnar svo þær gætu haft örlítið afdrep á meðan á þvottunum stóð og ekki voru reistar grindur yfir laugarnar fyrr en um aldamótin 1900. Þá ber þess og að geta að lengi héldu þvottakonurnar meðfram sjónum inneftir og var ekki lagður vegur þangað inneftir fyrr en á níunda áratug nítjándu aldar, Laugavegurinn.

Í lok þriðja áratugs tuttugustu aldar var hafist handa um tilraunaboranir í Laugardal og í framhaldinu byggð lítil dælustöð við Þvottalaugarnar. Hún var tekin formlega í notkun í nóvember 1930 og fyrsta húsið í Reykjavík sem tengdist hinni nýju hitaveitu var hinn nýbyggði Austurbæjarskóli. Í framhaldinu fengu nokkur stórhýsi til viðbótar hitaveitu, hinn nýbyggði Landsspítali og Sundhöllin, en auk þess um 60 hús á milli Laugavegar og Bergþórugötu.

Hin góða reynsla af fyrstu árum hitaveitu í Reykjavík varð hvatning til borgaryfirvalda að flýta frekari hitaveituvæðingu og í framhaldinu var Reykjaveitan tekin í gagnið 1943 og vita allir hvernig það ævintýri fór.

Ástæða þess að ég get Þvottalauganna hér, er að enginn einn staður í Reykjavík er meiri miðpunktur kvennasögu í Reykjavík og þarna hefi ég talið að reisa ætti blandað kvennasögusafn og safn til sögu hitaveitu. Á þeim árum sem ég sá um eftirlit með Þvottalaugunum reyndi ég ítrekað að reka áróður fyrir slíku safni á þessum stað, en ýmist hummuðu stjórnendur það af sér eða þá að mér var bent á að Orkuveitan ræki þegar Rafminjasafnið í Elliðaárdal. Rafminjasafnið er vissulega gott og þarft verkefni um sögu rafvæðingar í Reykjavík og stendur að auki við fyrsta raforkuver Reykvíkinga sem að auki er enn er rekið með fullu afli á veturna, en það er ekki í Laugardal. Minjasafn um sögu hitaveitu á hvergi heima annars staðar en í Laugardal, hjá Þvottalaugunum og borholunum auk þess sem fyrsta dælustöðin stendur þar enn með leifunum af gömlu dælunum í kjallaranum, við endann á einni lauginni.

Með þessum orðum vil ég hvetja konur til að sýna samstöðu í baráttunni og að taka þátt í kvennamessunni við Þvottalaugarnar á mánudagskvöldið 19. júní og hefst messan klukkan 20.30.

sunnudagur, júní 18, 2006

18. júní 2006 – Og þakið lyftist af höllinni....

Í gær fór fram landsleikur í handknattleik í Laugardalshöllinni í Reykjavík þar sem Íslendingar og Svíar áttust við. Ég sá minnst af þessum leik, enda var ég á vaktinni og þurfti að sinna öðrum mikilvægari þáttum tilverunnar en þeim að horfa á íþróttaleik. Sjónvarpið var hinsvegar í gangi og komst ég ekki hjá því að heyra eitthvað af því sem gekk á. Eitt skil ég til dæmis alls ekki. Af hverju eru allir dómarar á móti Íslendingum? Það er alveg sama hverjum Íslendingar eru að leika á móti, alltaf eru dómararnir vondu karlarnir. Það er aldrei neitt að leik Íslendinganna sem veldur því að þeir eru reknir útaf í hrönnum og fá á sig fjölda víta. Nei nei, það eru bara vilhallir dómarar.

Þessi leikur var engin undantekning. Þegar leiknum var að ljúka voru lætin orðin svo mikil að ég fór athuga hvort eitthvað væri að þarna í Laugardalshöllinni. Ekki reyndist svo vera, heldur voru Íslendingar bara að tapa fyrir Svíum í handbolta. Þegar leiknum lauk með sigri Svíþjóðar, fögnuðu Íslendingarnir svo ákaft að lá við að þakið lyftist af höllinni. Þetta var sannkallaður olympíuandi. Aðalmálið er ekki að vinna, heldur að vera með.

-----oOo-----

Þegar ég kom heim af vaktinni fór ég með báðar kisurnar út í garð og skyldi þær eftir þar svo ég gæti grátið tapið í friði. Hrafnhildur ofurkisa ákvað þá að vernda litlu systur sína og hvæsti að fressinum Púka sem á heima í næsta stigagangi og er ósköp indæll köttur, en hvæsti samt á móti Hrafnhildi, kolsvartur frá hvirfli til þófa. Tárhildur var ekki alveg á því að láta einhverja frekjukisu vernda sig og labbaði í makindum sínum að trýninu á Púka og byrjaði að sleikja hann í framan. Þá flúði Púki heim, en kom fljótlega aftur. Ég fór að velta því fyrir mér, hvort Tárhildur væri svona heimsk eða kjörkuð.

-----oOo-----

Loks er við hæfi að óska Paul McCartney til hamingju með 64 ára afmælisdaginn og nú eiga allir að syngja í kór: “When I´m sixtyfour”

föstudagur, júní 16, 2006

17. júní 2006 - Heiðarleikinn uppmálaður?

Fyrir nokkrum árum bauðst mér að kaupa örlítinn hlut í nýstofnuðu netfyrirtæki sem gaf góðar vonir um framtíðarávöxt, enda ný tækni lögð til grundvallar stofnun fyrirtækisins. Ég sló til og eignaðist þennan hlut sem mér bauðst á þreföldu nafnverði. Ekki versnaði útlitið fyrst eftir þetta og bréfin ruku upp í verði á gráa markaðnum. Þegar ég hafði átt þennan hlut í örfáa mánuði var haft samband við mig og óþekktur aðili óskaði þess að kaupa bréfið mitt. Ég var hæstánægð með tilboðið sem maðurinn gerði mér og seldi bréfið með hraði, mætti síðan í bankann daginn eftir, undirritaði afsal af bréfinu og fékk það greitt á fjórföldu því verði sem ég hafði keypt það tæpum fjórum mánuðum áður, þ.e. á genginu 12. Aldrei sá ég þó kaupanda hlutabréfsins og veit ekki enn hver hann er.

Mikill og neikvæður opinber áróður gegn þessu ágæta fyrirtæki var þá þegar í fullum gangi og illa gekk að komast gegnum ýmsa byrjunarörðugleika, oft vegna glataðra viðskiptatækifæra sem stöfuðu af hinum neikvæða áróðri. Smám saman dró af því máttinn og á síðasta hausti lagði það upp laupana og rann inn í Og Vodafón, en þeir aðilar sem enn áttu hlut í því fengu hluti sína greidda út á einföldu nafnverði og töpuðu því umtalsverðum peningum frá því sem þeir höfðu keypt bréfin.

Á hverju skattframtali eftir þetta, þurfti ég að taka fram að ég ætti ekki hlutabréfið sem enn var skráð á mínu nafni hjá hinu opinbera þótt ég hefði afsalað mér eignarrétti á því löngu áður. Þegar fyrirtækið var svo lagt niður fékk ég tilkynningu þess efnis frá Og Vodafón, en ég tilkynnti þeim hið sama og skattinum, að ég ætti ekkert bréf lengur í umræddu fyrirtæki. Ekkert gekk og einn góðan veðurdag var búinn til nýr innlánsreikningur á mínu nafni í banka með einföldu nafnverði bréfanna sem ég hafði átt. Þrátt fyrir eilífðar blankheit, er þessi innlánsreikningur enn óhreyfður á mínu nafni, því ekki get ég farið að taka út þessa peninga ef réttur eigandi peninganna gefur sig fram sex árum eftir að hann hafði keypt af mér hlutinn. Svona er ég hræðilega heiðarleg.

Þetta rifjaðist upp fyrir mér á föstudag þar sem ég var á vaktinni. Ég fór að athuga tölvupóstinn minn og sá að það hafði komið bréf til mín frá einum yfirmanni á efstu hæðum. Þegar ég opnaði bréfið sá ég að það var stílað á forstjórann, þrjá af fjórum framkvæmdastjórum, lögfræðinginn og mig og virtist innihalda viðkvæmt skjal.

Ég horfði lengi á bréfið í tölvunni og velti fyrir mér hvort ég ætti að opna fylgiskjalið. Það var freistandi, en um leið gerði ég mér grein fyrir því að sendandinn hafði farið mannavillt og að mér hafði verið sent bréf sem var ætlað fjórða framkvæmdastjóranum sem er nafna mín. Tveir andar sátu á sitthvorri öxlinni á mér, engill á vinstri öxlinni á mér, örvhentri manneskjunni og ljótur púki á þeirri hægri og forvitnin kvaldi mig. Á ég að opna fylgiskjalið? Það gæti verið eitthvað viðkvæmt með upplýsingum sem gott væri að vita, en það væri þó alls ekki víst. Það gæti auðvitað líka verið 17. júní kveðja á milli fólks á sjöttu hæðinni þótt nafn skjalsins benti frekar til þess að það væri viðkvæmt. Það gat einnig verið sent “óvart” til mín til að kanna viðbrögðin. Eftir allnokkra umhugsun ákvað ég að gerast heiðarleg, endursendi það til sendandans með athugasemdum þess efnis að ég hefði ekki opnað viðhengið og ætlaði að eyða því, enda gæti það ekki verið til mín aumrar vélstýrunnar og síðan eyddi ég því ásamt fylgiskjalinu úr tölvunni.

Núna nagar mig samviska heiðarleikans um leið og ég og kisurnar mínar óskum öllum gleðilegrar þjóðhátíðar.

16. júní 2006 – Eiður útherji

Ég man þá tíð er fótboltakappar fóru frægðarför um bæinn og spörkuðu bolta. Margir voru röndóttir og báru nöfn og síðar númer í samræmi við stöðu sína á knattspyrnuvellinum. Einn var Gunnar Felixson miðframherji eða senter, Hörður bróðir hans fyrir aftan hann sem framvörður og enn aftar var Bjarni bróðir þeirra sem var fúlbakk eða bakvörður og loks var Heimir Guðjónsson í markinu. Í framlínunni voru margir merkismenn auk Gunnars, Ellert Schram, Sveinn Jónsson, Þórólfur Beck og Gunnar Guðmannsson sem mig minnir að hafi verið útherji. Allt voru þetta hörkukarlar sem unnu sina vinnu allan daginn og skruppu á völlinn eftir kvöldmat og unnu glæsta sigra.

Menn fengu númer í samræmi við stöðu sína í liðinu, markmaðurinn var númer eitt og útherjarnir númer sjö og ellefu. Ef menn höfðu hærra númer voru þeir varamenn, varamarkmaðurinn var þá númer 12 og hægri varaútherji númer 22. Auk þessa héldu menn sig í sama liðinu alla sína tíð. Ef þeir voru fæddir í vesturbænum, urðu þeir KR-ingar og spiluðu með KR og loks jarðaðir með KR-fána ofan á kistunni.

Nú er öldin önnur. Sagan segir að Jói útherji hafi byrjað að spila sem innherji hjá Val áður en hann hækkaði í tign og varð útherji hjá KR, Þórólfur Beck var seldur til Skotlands og Pétur Pétursson spilaði með ÍA og svo Feyenoord. Svo varð þetta að bissniss. Nú eru nýjustu fréttirnar þær, að Eiður varamaður hjá ensk-rússneska liðinu Seltjörn hefur nú verið seldur mansali fyrir rúman milljarð og er nú kominn með töluna 7 hjá Barþelóna á Spáni og ætti þar af leiðandi að fá að spila sem útherji í aðalliðinu.

Ekkert skil ég í því af hverju Barþelóna auglýsti ekki bara eftir hæfum útherja í liðið í stað þess að standa í svona vafasömum fjárfestingum?

Þeir voru mun ódýrari Íslendingarnir sem voru seldir mansali sunnan við Njörvarsundið árið 1627.

-----oOo-----

Ég bíð þess enn að hin nýja stjórn Orkuveitunnar komi og kynni sig fyrir aumu starfsfólkinu. Það er ekki seinna vænna því kveðjuathöfn um gömlu góðu stjórnina verður haldin á mánudaginn kemur.

fimmtudagur, júní 15, 2006

15. júní 2006 - Baðferðin

Þegar ég var komin heim úr vinnu á miðvikudagseftirmiðdaginn, byrjaði ég á því að láta renna í baðið því svo vill til, þótt suma gruni annað, að ég fer stundum í bað eftir vinnu. Þegar ég var búin að láta renna í baðkarið heitt og gott vatn, alveg á mörkum þess að vera of heitt, skrapp ég fram í forstofu að hringja eitt símtal sem ég hafði gleymt.

Þar sem ég var að tala í símann heyrði ég skyndilega skerandi óp og hávaða innan úr baðherbergi. Ég stökk þangað og í sömu mund og ég kom að baðherbergisdyrunum veltist kolsvartur og rennblautur hnoðri fram af baðherberginu og beint inn í litla herbergi og undir rúm. Það fór ekkert á milli mála að þarna var Hrafnhildur ofurkisa á ferðinni og hafði greinilega ákveðið að fara í bað á undan mér. Merkilegt, hún hefur aldrei viljað fara í bað áður.

Það tók mig langan tíma að þurrka upp af gólfinu og síðan Hrafnhildi sjálfa og sleikja úr henni fýluna aftir baðið áður en ég komst sjálf í bað. Ég var þó vart búin að láta renna úr baðinu og þrífa það, þegar Hrafnhildur var komin ofan í baðkarið og farin að leika sér þar.

-----oOo-----

Í dag mun ríkisstjórn Halldórs Ásgrímssonar láta af störfum og ný stjórn undir forsæti Geirs Hilmars taka við. Geir hefur margsinnis lýst því yfir að þetta sé sama stjórnin með nýjum andlitum og er það ver. Þó er einn munur á. Framsóknarmenn sem eru studdir af einungis örfáum kjósendum, halda áfram valdastöðu sinni og bæta við sig ráðherra.

Í Reykjavík er ástandið enn verra eftir kosningarnar. Hér höfðu kjósendur lýst frati á Framsóknarflokkinn svo eftir var tekið. Samt kemur flokkurinn út sem sigurvegari kosninganna eftir ótrúlega klaufalega myndun nýs borgarstjórnarmeirihluta undir stjórn Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar og einn óvinsælasti borgarfulltrúi stjórnarandstöðu íhaldsins síðustu tólf árin og sem loksins gafst upp á að reyna að stjórna borginni, fékk alveg sérstaka sárabót frá Villa sem nýr stjórnarformaður stærsta fyrirtækisins í meirihlutaeigu borgarinnar.

Getur það verið, út frá orðum Vilhjálms Þ. um að hreinsa til í borginni, að hann ætli sér að þvo kjaftinn á umræddum fyrrverandi borgarfulltrúa með grænsápu svo hann geti átt samskipti við Framsóknarmanninn?

P.s.
Fimmtudagsmorgunn.
Batnandi fólki er best að lifa. Við lestur á fimmtudagsblaði Morgunblaðsins, sé ég að húsfreyjan á Mosfelli og fráfarandi umhverfisráðherra hefur ákveðið að friða kúluskítinn.

miðvikudagur, júní 14, 2006

14. júní 2006 - Af borgarstjórn

Ég var búin að skrifa pistil um nýja borgarstjórn Reykjavíkur og þá sér í lagi um nýja stjórn Orkuveitu Reykjavíkur. Ég hefi ákveðið að birta hann ekki að sinni af skiljanlegum ástæðum

Svo á sonardóttirin 7 ára afmæli í dag. :)

þriðjudagur, júní 13, 2006

13. júní 2006 – Tónleikar

Ég fór á tónleika á mánudagskvöldið. Það var ljóst löngu áður en ég kom á staðinn að eitthvað mikið var í vændum. Rúmlega klukkutíma áður en tónleikarnir áttu að hefjast voru allar aðkomuleiðir fullar af bílum og ég sá mitt óvænna og lagði mínum bíl við dælustöðina í Grafarholti því ég sá ekki möguleika á að komast að dælustöðinni við Víkurveg þar sem ég hafði hugsað mér að leggja bílnum.

Ég var snemma á ferðinni og var komin að Egilshöll klukkan hálfátta og var þá löng biðröð fyrir utan. Ég verð að viðurkenna að ég var ekkert hress með fyrirkomulag á staðnum, enda finnst mér óþarfi að bæta sjálfspíningu á öll þrengslin, en þau fólust í því að ég vissi ekki af neinum möguleika til að setjast niður fyrr en ég var á leiðinni út eftir tónleikana og settist því ekki niður fyrr en eftir fulla fjóra tíma

Öfugt við tónleikahaldarana, stóð Roger Waters sig með prýði og hefur greinilega engu gleymt frá fyrri árum og vafalaust hefur Nick Mason gert honum kleyft að halda sig við efnið. Það var gaman að sjá þá tvo skila Dark Side of the Moon með hjálp frábærra söngkvenna sem ég vissi ekki nöfnin á og allnokkrum hóp góðra hljóðfæraleikara. Ekki var það til að skemma fyrir, að sjá fólk á öllum aldri, gamla karla með skalla og ístru og hálfberar táningsstelpur dilla sér í takt eftir hljómunum í þeirri geysimiklu breidd tónleikagesta sem sjá mátti á staðnum og greinilegt að Pink Floyd og Roger Waters eiga sér aðdáendur á öllum aldri..

Mér tókst ekki að ná góðum myndum, en sonurinn var upp við sviðið og hann og vinnufélagi hans náðu mörgum myndum af kappanum sem ég vonast til að geta sett inn á þriðjudagskvöldið. Hinsvegar náði ég mynd af einum sem stóð rétt hjá mér og greinilega á svipuðum aldri og Roger Waters sjálfur.

-----oOo-----

Á forsíðu Fréttablaðsins á mánudag var mynd af hópi Íslendinga vera að fagna sigri Íslands yfir Svíþjóð í handbolta. Til vinstri á myndinni (hægra megin við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur) er maður sem sagður er vera Göran Persson forsætisráðherra Svíþjóð og fagnar hann einnig innilega úrslitunum. Mér finnst þetta alvarlegt mál hve Göran Persson er orðinn hræðilega líkur Júlíusi Hafstein þeim sem grunaður er um að hafa klúðrað Kristnihátíð og stjórnarráðsafmæli um árið!

mánudagur, júní 12, 2006

12. júní 2006 - Að sækja sér fé

Í síðustu viku birtist viðtal við Odd Helgason fyrrum sjómann og sjálfskipaðan ættfræðing á Rás 2 í útvarpinu og datt þá mörgum í hug að nú vantaði karlinn peninga til starfsemi sinnar. Þegar svo kom annað viðtal við sama mann í Morgunblaðinu í gær, 11. júní, gat ég ekki lengur orða bundist.

Ástæða þessa er sú að Oddur hefur setið á kontór sínum um rúmlega tíu ára skeið og skráð gögn sem áður hafa birst í bókum og kallar það rannsóknavinnu. Í hvert sinn sem út kemur nýtt niðjatal eða byggðatal sem unnið hefur verið á löngum tíma af áhugafólki um ættfræði, mætir Oddur og kaupir sér eintak af ritinu, skráir það inn í gagnagrunn sinn og kallar það ættfræði. Það að skrá inn gögn eftir annað fólk án þess að leggja neitt fram sjálfur af rannsóknavinnu, gefur lítið af sér í peningum. Maður gefur ekki aftur út ættfræðirit sem búið er að gefa út og fyrir bragðið hefur aldrei neitt verið gefið út af Ættfræðiþjónustunni ORG.

Það þarf samt að reka skrifstofuna og kaupa inn bækur og greiða laun til framkvæmdastjórans, Odds Helgasonar svo hann eigi fyrir neftóbaki í baukinn sinn. En þar sem engar eru eigin tekjur, verður að sækja styrki til starfseminnar. Þess vegna sækir Oddur mjög í að komast í viðtöl í fjölmiðlum svo hann geti miklað sig af afrekum sínum sem lítil eru og sent viðtölin við sig sem fylgirit með umsóknum sínum um nýja styrki. Þegar styrkirnir eru komnir í hús, getur hann haldið áfram að skrá inn nýjustu bækurnar og montað sig af fjölgun í gagnagrunni sínum.

Fyrir nokkrum árum síðan lenti afrit af gagnagrunni Odds Helgasonar á flæking úti í þjóðfélaginu. Þá var gagnagrunnurinn orðinn um 510.000 manns. Mér var sýnt þetta afrit og sá strax veigamikla galla á þessum gagnagrunni. Oddur hafði skráð inn alla Vigurættina, níu bindi auk registurs. Til þess að spara sér tíma við skráninguna, var öllum öðrum upplýsingum en grunnupplýsingum sleppt. Vinnufélagi minn einn er skráður með rangt föðurnafn í bókunum og hann er líka skráður með sömu villu í gagnagrunni Odds Helgasonar. Munurinn er þó sá að auðvelt er að leita sér upplýsinga um þessa villu eftir upplýsingunum í Vigurætt, en með því að Oddur hefur ekki skráð nema fæðingardag mannsins, er mjög erfitt að finna villuna eftir þeim upplýsingum einum. Með því að skrá einungis grunnupplýsingarnar úr Vigurætt, gerði hann aðalhöfundi ritanna um Vigurættina, Ásgeiri Svanbergssyni, illan leik. Sigurður Hermundarson hefur unnið í þrjú ár við að afla upplýsinga og skrá Grundarættina, mikið verk sem telur um 11000 niðja. Þegar ritverkið kemur út, mun Oddur Helgason verða fyrstur til að kaupa bækurnar og pikka upplýsingarnar inn í tölvuna sína.

Eitt sinn lenti ég á spjalli við karlinn á skrifstofu hans sem þá var við Hjarðarhaga í Reykjavík. Hann sýndi mér gögn um langalangömmu mína og varð ég að mótmæla þessu, vitandi að ég var ekki komin af ættinni Welding. Um svipað leyti var hægt að sækja upplýsingar um framættir í prentuðu formi frá Íslendingabók og þar kom sama villan fram þótt ljóst væri að ætluð langalangamma mín hefði dáið tíu ára gömul árið 1840. Þetta benti til að báðir aðilar hefðu sótt villuna í sama grunninn, niðjatal Welding ættarinnar í Hafnarfirði.

Skömmu síðar skrifaði ég grein um Íslendingabók í fréttabréf Ættfræðifélagsins þar sem ég benti meðal annars á þessa villu og af illkvittinni gamansemi minni, nefndi ég að þarna hefði Íslendingabók gengið í smiðju til Odds Helgasonar. Öfugt við það sem ég átti von á, hefi ég átt gott samstarf við Íslendingabók allar götur síðan. Oddur Helgason hefur hinsvegar aldrei heilsað mér aftur og sagði sig úr Ættfræðifélaginu skömmu eftir þetta.

Starfsemi Odds Helgasonar er nánast ónýt vinna sem einungis mun nýtast þeim sem sættast á hálfkák og heimildaleysi í ættfræði. Við hin greiðum sjálf fyrir bækurnar okkar og notum frítímann frá brauðstritinu til að sækja sannleikann í kirkjubækurnar á Þjóðskjalasafnið.

-----oOo-----

Þegar ég var að fletta sunnudagsblaði Morgunblaðsins rak ég augun í atvinnuauglýsingu frá einu stærsta og virtasta flutninga- og útgerðarfyrirtæki í heimi og sem ég hefi hrósað áður á þessari síðu. Í auglýsingunni var auglýst eftir vélstjórum á glæsifleytur fyrirtækisins og með auglýsingunni fylgdi mynd af skutnum á gámaskipinu Adrian Mærsk sem ber 6600 TEUs (gámaeiningar). (Stærstu skipin hjá Mærsk bera 7668 TEUs, en stærra skip er í smíðum. Dettifoss og Goðafoss bera 1457 TEUs hvort). Ég varð að lesa tvisvar og þrisvar yfir þessa auglýsingu og hugsa mig um enn oftar áður en ég gerði mér grein fyrir því að ég get ekki fengið neitt betra eða þægilegra starf en ég hefi í dag sitjandi fyrir framan stjórntölvu einungis einni skipslengd frá heimili mínu. Ég viðurkenni þó að þetta kitlar hégómagirndina.

Ég ætti kannski bara að sækja um launalaust frí í nokkra mánuði og skreppa eitt úthald? hmmm?

-----oOo-----

Mér leiðist handbolti!

sunnudagur, júní 11, 2006

11. júní 2006 - Enn af Framsókn

Ég veit að flest ykkar eru búin að fá upp í kok af ástríðuþrungnum frásögnum mínum af Framsóknarflokknum síðustu vikurnar, en ég er samt ekki hætt því Framsóknarflokkurinn veit að illt umtal er betra en ekkert umtal.

Í gær var skipt um nokkra ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Eins og búast mátti við fékk fjarskyldur ættingi minn feitasta embætti Framsóknarmannanna og yfirgaf þar með erfiðasta ráðuneytið. Þá lentu forvígismenn flokksins í vandræðum, því þeir áttu ekki til neitt fólk til að gegna veigameiri embættum. Ekki var hægt að kalla í krakkana í norðausturkjördæmi þau Dagný og Birki Jón. Ekki var heldur talið óhætt að setja hjartveikan Hjálmar í embættið og Kristinn H. Gunnarsson fær ekki ráðherraembætti. Því sló Halldór tvær flugur í einu höggi, tók flokksbróður sinn úr Seðlabankanum og gerði að ráðherra og losaði um stöðu fyrir sjálfan sig í leiðinni.

Skyndilega er Valgerður Sverrisdóttir orðin valdamesti Framsóknarmaðurinn. Ég er hinsvegar ekki viss um að hún verði formaður flokksins eftir landsfundinn í ágúst. Þótt hún sé hæfasti ráðherrann, hefur hún ekki gegnt neitt vinsælu embætti og það getur komið henni í koll þegar á reynir. Finnur Ingólfsson gegndi þessu embætti á undan henni og er hann enn talinn illræmdur af ýmsum andstæðingum iðnaðaruppbyggingar á Íslandi. Því mun hvorugt þeirra auka flokknum fylgi verði þau kosin í feit embætti í flokknum.

Það þarf kannski engan nýjan formann. Eðlilegast verður að leggja flokkinn niður eftir næstu kosningar og láta eigur og atkvæði hans renna óskipt til Sjálfstæðisflokksins þar sem þau eiga heima. Þá hætta íslenskir hægrimenn að berjast eins og forljótur tvíhöfða þurs.

-----oOo-----

Um leið og ég vil óska íslenskum sjómönnum til hamingju með daginn, þá vil ég lýsa furðu minni á því af hverju Geir Haarde notaði ekki tækifærið til að losa sig við óvinsælasta ráðherrann sinn úr því hann þurfti að fækka um einn ráðherra. Sturla Böðvarsson hefur sýnt af sér furðulega vanhæfni í starfi sem samgönguráðherra t.d. með því að útrýma íslenskri farmannastétt og brottrekstur hans hefði glatt hjarta margra sjómanna sem eiga um sárt að binda eftir margra ára aðgerðarleysi ráðherrans.

laugardagur, júní 10, 2006

10. júní 2006 - Af píslarvætti Framsóknarflokksins

Fyrir löngu átti ég í talsverðum erfiðleikum vegna persónulegra vandamála og öll sund sýndust vera lokuð. Það hvorki gekk né rak í baráttu minni fyrir því að fá að vera ég sjálf og ég vorkenndi sjálfri mér. Ég barmaði mér stöðugt úr því að allir voru svo vondir við mig og það var fullt af fólki í kringum mig sem fylltist hluttekningu og vorkenndi mér. Ein vinkona mín hegðaði sér öðruvísi. Í stað þess að taka þátt í vorkunnarkórnum, gerði hún grín að sjálfsvorkunn minni og hluttekningu annars fólks. Eins og hún sagði sjálf, þá fengi ég fullt af tárum en engan árangur. Ég hætti að vorkenna sjálfri mér og barðist öllu betur fyrir réttindum mínum og þá fór allt að ganga betur.

Vinkona mín orðaði það á þá leið að sá eða sú sem gerist píslarvottur, vinnur enga sigra en getur endað sem lúser.

Framsóknarflokkurinn hefur hegðað sér á þann háttinn að undanförnu. Það var öllu tjaldað til að tryggja flokknum eitt sæti í borgarstjórn og sífellt klifað á því að allir væru svo vondir við Framsóknarflokkinn. Þvílíkir aumingjar. Þótt ég sé aumingjagóð, datt mér ekki til hugar að gefa slíkum lúserum atkvæði mitt í borgarstjórnarkosningunum. Á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins í gær, kvartaði Halldór Ásgrímsson sárlega yfir því hve allir væru vondir við sig og forvera sína í formannsstöðu í flokknum. Það er kannski eðlilegt og verða formennirnir að gjalda fyrir það sem þeir hafa misfarið með. Þeir einir sem eru með hreinan skjöld, sleppa frá skömmunum.

Hermann Jónasson slapp ekki. Hann var staðinn að verki við að skjóta á æðarkollur úti í Örfirisey á sama tíma og hann var lögreglustjóri í Reykjavík og fékk viðurnefnið kollubani fyrir vikið. Hann hefði alveg getað sleppt þessum glæp og komist hjá því að verða atyrtur fyrir þetta athæfi. Ólafur Jóhannesson gerði sig sekan um meiðyrði þegar hann var dómsmálaráðherra og bætti ekki úr skák með því að sinna ekki kvaðningu til dóms. Steingrímur Hermannsson var grunaður um að misnota almannafé þegar hann var forstjóri Rannsóknarráðs ríkisins (grænubaunamálið) Loks gerði núverandi formaður sig sekan um að bendla íslensku þjóðinni við innrás í fjarlægt land og dauða tuga þúsunda Íraka. Hann hefur ekki enn beðið íslensku þjóðina afsökunar á þessum glæp sínum né heldur írösku þjóðina. Hann mun vonandi bera þennan klafa um langa hríð í viðbót. Ætli Eysteinn Jónsson sé ekki einasti formaðurinn í Framsóknarflokknum sem sé nokkurn veginn með hreinan skjöld.

Í stað þess að fara í naflaskoðun og finna út hvað sé að í flokksstarfinu og reyna að bæta úr því sem hefur misfarist, beitir Halldór Ásgrímsson gömlu aðferðinni og gerist píslarvottur. Það er ekkert að Framsóknarflokknum, heldur er íslenska þjóðin bara svo vond við Framsóknarflokkinn. Það er verst að Framsóknarflokkurinn á enga vinkonu sem bendir honum á að hann er á villigötum og einasta ráðið er að bæta innviði flokksins.

Sveiattan!

föstudagur, júní 09, 2006

9. júní 2006 - Pétur frændi

Pétur Þorbjörnsson móðurbróðir minn dó í gær 83 ára gamall. Hann var fæddur á Lokastíg 28 í Reykjavík 25. október 1922, næstelst barna afa míns og ömmu, elsti bróðir móður minnar og eyddi ævinni á sjónum. Hann var lengi stýrimaður og skipstjóri á togurum, var skipstjóri á b.v. Pétri Halldórssyni RE-207 í Nýfundnalandsveðrinu 1959 þar sem skip og áhöfn voru hætt komin, en tókst að komast heim með laskað skip en heila áhöfn og er sú lífsreynsla hans skráð í bækur af þessu hræðilega veðri þar sem einn bræðra hans fórst með bv. Júlí GK-21.

Hann var síðan skipstjóri á b.v. Pétur Halldórssyni RE-207, Jóni Þorlákssyni RE-204 og Þorkeli mána RE-205, en 1969 fór hann í land og gerðist verkstjóri við fiskiðjuver Bæjarútgerðar Reykjavíkur. Það fannst honum lítt spennandi og ekki leið langur tími uns hann fór aftur til sjós, þá á tvö skip með nafninu Freyja RE-38. Hið seinna var skuttogari sem síðar var keypt af Bæjarútgerð Reykjavíkur, síðar Granda hf. og fékk þá nafnið Hjörleifur RE-211.

Ekki man ég hvenær Pétur fór í land og gerðist uppboðshaldari hjá Faxamarkaðinum hf, en þar eyddi hann síðustu árum starfsævinnar. Hinsvegar átti hann sinn þátt í að koma mörgum börnum systkina sinna til manns með því að taka þau að sér er þau voru komin yfir fermingu og talin fær um að vinna fyrir sér. Þannig hóf ég sjómennsku mína hjá Pétri á bv. Jóni Þorlákssyni RE-204 vorið 1966 og sigldi með honum á þremur skipum, Jóni Þorlákssyni, Þorkeli mána RE-205 og Freyju RE-38. Einnig sigldi ég um fimm ára skeið með syni hans á bv.Vestmannaey VE-54.

Eiginkona Péturs, Sigríður Eyjólfsdóttir frá Laugardal í Vestmannaeyjum, lést haustið 1994.

Það gefur auga leið að Pétur átti mikið í mér. Mér þótti virkilega mikið vænt um hann og ég held að það hafi verið gagnkvæmt. Hann var hetjan í fjölskyldunni og hann var sá sem við litum öll upp til. Mig langar til að votta fjölskyldu hans mínar dýpstu samúðarkveðjur.

fimmtudagur, júní 08, 2006

8. júní 2006 – Á 117 km hraða og Keilir

Um daginn var ég á ferð eftir Keflavíkurveginum þar sem búið að tvöfalda hann. Þar sem ég ók í hinum mestu makindum, kom skyndilega sportútgáfa af BMW framúr mér, hvissssssssss og svo var hann horfinn út í náttmyrkrið. Þótt mér fyndist ég vera stopp á veginum, labbaði ég ekki út úr bílnum, en bætti örlítið við bensíngjöfina um leið og ég fór framúr hægfara vöruflutningabíl. Rétt um leið og ég náði framúr flutningabílnum voru mér sýnd blá ljós lögreglubíls sem stóð kyrrstæður á milli akreina.

Jahérna, er verið að safna fyrir lögreglukórinn hugsaði ég um leið og ég gaf stefnuljós af veginum og stöðvaði minn vinstrigræna eðalvagn. Síðan fór ég úr bílnum og að lögreglubílnum þar sem ég settist afturí og átti ýmislegt vantalað við lögregluna.

“Af hverju tókuð þið ekki manninn á undan mér” spurði ég, hann var á að minnsta kosti 200 ef ekki enn meira. Það var enginn á undan þér svaraði lögreglan, en við mældum þig á 117”.

Það var greinilegt að lögreglan vildi ekkert tala um manninn á Bimmanum og vildi bara skrifa skýrslu. Ekki var til að bæta úr að samkvæmt skýrslunni sem blessaður maðurinn skrifaði, var hann úr Hafnarfirði og því vonlaust að halda uppi rökræðum við hann. Samt reyndi ég.

Hann skrifaði að minn eðalvagn væri grænn. Ég mótmælti og benti honum á að hann væri vinstrigrænn. Hann gerði enga tilraun til að leiðrétta sína eigin skýrslu. Svo varð ég slegin út af laginu því vinkona mín sem ég hafði sótt til Keflavíkur kom að og fór einnig að kvarta yfir Bimmanum svo varla var hann nein ímyndun. Ég reyndi að vera kurteis, en ég get bara ekki skilið hvernig Hafnarfjarðarlögreglan missir af fólki á yfir 200 km hraða til þess að ná bíl sem kemur í kjölfarið og sem rétt kemst yfir hundraðið.

Daginn eftir keypti ég mér hljómdiskinn með Lögreglukórnum. Hann er allavega þægilegri refsing en einhverjir þúsundkallar í tilgangslausa sekt.

-----oOo-----

Í gær montaði ég mig af göngunni á Keili og því til staðfestingar fylgja myndir merktar fjallgöngu á myndasíðunni minni til hliðar við bloggið. Þegar ég var uppi á toppnum, spáði ég ekkert í þessa rauðu málningu sem hafði verið spreyjað neðan á kassann sem geymir gestabók fjallsins. Í afslöppun kvöldsins fór ég að skoða myndir frá Keili, þar með taldar myndir sem Norðmaður einn tók. Þar kemur greinilega í ljós að kassinn utan um gestabókina er gjöf frá ALCAN, þ.e. álverinu í Straumsvík, en einhverjir svokallaðir umhverfisverndarsinnar hafa séð ástæðu til að fara upp á Keili til að má út nafn fyrirtækisins af kassanum. Þetta finnst mér lélegt og ættu þeir sem standa að slíkum skemmdarverkum að skammast sín.

Það er hægt að setja ýmislegt út á starfsemi álvera í heiminum. Það er þó staðreynd, að sérstaklega ÍSAL (ALCAN) og síðar Bechtel (ALCOA) hafa gjörbreytt vinnuöryggismálum á Íslandi. Lengi vel stóð ALCAN eitt í því að innleiða öryggisstjórnunarkerfi á Íslandi, en svo smám saman fylgdu fleiri fyrirtæki á eftir, þar á meðal Orkuveita Reykjavíkur. Á sama tíma og ALCAN var með mjög strangt kerfi til öryggis starfsmanna sinna, voru íslenskir útgerðarmenn enn að svipta íslenska sjómenn lífinu. Betur að þeir hefðu fylgt öryggisstjórnunarkerfi ALCAN. Þá væru fleiri íslenskir sjómenn á lífi í dag.

ALCOA á Reyðarfirði er að innleiða mun strangara öryggisstjórnunarkerfi en ALCAN hefur gert. Úr fjarlægð hlæja Íslendingar og finnst þetta öryggiskjaftæði sem grín. Sem betur fer eru til Íslendingar sem meta öryggið umfram gróðavon útgerðarmannsins. Við sem það gerum, fögnum gestabókum á Keili og víðar sem hafa verið færð þangað sem gjöf. Takk Rannveig.

miðvikudagur, júní 07, 2006

7. júní 2006 - Keilir ofl.


Loksins hafði ég það af að komast upp á alvöruhól í gær. Gönguhópurinn lagði af stað fyrir hádegið og hóf gönguna frá einhverju borstæði við Höskuldarvelli. Við fórum alveg eftir bókinni og villtumst bara lítið í úfnu hrauninu áður en við komumst að fjallinu þar sem svitnað var og grátið af aumingjaskap á leiðinni upp fjallið (þ.e. ég grét og barmaði mér, er ferðafélaginn rak á eftir mér). Eftir tveggja tíma gang frá bílnum stóðum við loks á toppnum og gátum notið rigningarinnar og þess einasta sem sást í nágrenninu, þyrlna frá LHG og síðar frá hernum. Ekki var fjarlægara útsýn fagurt, þykkir skýjabakkar og dimmviðri yfir byggðu bóli. En fjallið var sigrað og nú var bara að koma sér niður aftur og heim með hraði.
Til sönnunar afrekinu eru myndir frá fjallinu inni á myndasíðunni.


Um leið og heim var komið var skipt um föt og farið á aukavakt, en eins og þeir vita sem þekkja mig, þá vantar orðið nei í orðabókina mína. Því samþykkti ég að taka vélavaktina um borð í Dettifossi og varð að fara beint þangað eftir að heim var komið. Fyrir bragðið seinkaði bloggfærslu dagsins um nokkra klukkutíma og birtist hún hér með. Strákarnir biðja að heilsa Þórði.

þriðjudagur, júní 06, 2006

6. júní 2006 - Að kjafta frá leyndarmáli

Um daginn ákvað Halldór Ásgrímsson að segja af sér, setja Finn Ingólfsson inn í embættið sitt óskaplega hljótt og varlega og skella svo tíðindunum fyrirvaralaust framan í þjóðina. Ætlunarverkið mistókst. Einhver Framsóknarmaður eða Sjálfstæðismaður gat ekki setið á sér og lak fréttinni út til þjóðarinnar og ráðagerð Halldórs fór út um þúfur. Ellefu Framsóknarmenn ruddust fram á völlinn og vildu verða formenn og sumir þeirra einnig ráðherrar og sættu sig ekki við að einhver sem væri löngu hættur, yrði tekinn upp af götunni og gerður að formanni og jafnvel ráðherra.

Stóra trompið varð að floppi. Þetta tromp sem átti að bjarga flokknum frá glötun varð kannski til þess að sýna íslensku þjóðinni þá miklu sundrungu sem ríkir innan Framsóknarflokksins þessa dagana. Það skiptir ekki máli hver kjaftaði, en það er óþarfi fyrir Halldór að draga Guðna Ágústsson með sér í fallinu. Allavega man ég ekki eftir opinberum yfirlýsingum Guðna þess efnis að hann styddi innrásina í Írak. Það gerði hinsvegar Halldór Ásgrímsson og ber að gjalda fyrir það með þeirri einu refsingu sem stjórnmálamenn skilja, fylgishruni.

Ég þekki ekki mikið til verka Finns Ingólfssonar. Hann er vafalaust hinn vænsti drengur, en rétt eins og hann sté af stalli árið 1999, fengum við ágætan ráðherra í hans stað, valkyrjuna Valgerði Sverrisdóttur. Af hverju ekki að bjóða henni formannsstólinn? Sjálf hefi ég lengi verið hrifin af þeirri stjórnsemi og ákveðni sem einkennt hefur Valgerði í ráðherraembætti og tel hana fullkomlega hæfa til að leiða Framsóknarflokkinn nú þegar Halldór Ásgrímsson er fallinn af stalli sínum.

mánudagur, júní 05, 2006

5. júní 2006 - Walter Wachenfeld - endurtekið

Ég var að klippa til einhverjar hárlufsur á höfðinu á mér og þar sem ég mundaði skærin af meiri vilja en mætti, rifjuðust upp fyrir mér gamlar minningar frá mínum velmektarárum.

Einhverntímann endur fyrir löngu var ég beðin um að fara ferðir á þýskum leiguskipum Eimskipafélagsins í þeim tilgangi að leiðbeina áhöfnum skipanna meðferð og eftirlit með frystigámum. Á einu þessara skipa var miðaldra yfirstýrimaður að nafni Walter Wachenfeld. Hann var mjög óvenjulegur maður, nákvæmur með afbrigðum, vinnusamur, forvitinn, en samansaumaður og illa klipptur, þótti vænt um aurana sína og eyddi aldrei einu einasta marki í óþarfa.

Einhverju sinni var kominn tími fyrir klippingu hjá honum og hann rölti upp á rakarastofu í Danmörku með 50 danskar krónur í vasanum og ætlaði að fá klippingu fyrir þann pening. Þegar hann frétti að klippingin kostaði 57 krónur, fór hann óklipptur um borð aftur og bar sig aumlega. Einhver sá aumur á kallinum og gaf honum 7 krónur svo hann gæti hresst upp á útlit sitt. Walter Wachenfeld þakkaði fyrir sig og stakk krónunum í vasann, fór inn í herbergi sitt og klippti sig sjálfur, en varð að aðhlátursefni um borð fyrir vikið.

Þetta skeði nokkru áður en ég fór um borð, en þegar ég mætti var enn áberandi á höfði Walters Wachenfeld að sá sem hafði farið höndum um hár hans, kunni ekkert til verka. En nú fór að glaðna yfir kappanum. Það var nefnilega skipt um hluta áhafnarinnar þegar við komum til Hamborgar og um borð kom þýsk valkyrja sem 2. stýrimaður.

Walter Wachenfeld hóf þegar tilraunir til að fá næstráðanda sinn til að klippa sig, en hún þvertók fyrir að klippa hann. Hún kynni ekkert með skæri að fara, en væri öllu betri að stýra skipum um öll heimsins höf í ýmsum veðrum, enda menntuð í slíku en ekki í hársnyrtingu. Walter Wachenfeld hélt samt áfram að þrábiðja hana eins og sá sem aldrei gefst upp og að lokum lét stúlkan undan og réðist að höfðinu á kappanum með greiðu og skæri að vopni.

Eftir klippinguna mætti Walter Wachenfeld í borðsalinn glaður í bragði og himinlifandi ánægður með klippinguna. Sömu sögu var að segja um aðra áhafnarmeðlimi, því sjaldan hefur jafnmikið verið hlegið um borð í þýsku kaupfari, en þarna sannaðist að valkyrjan hafði einungis sagt sannleikann um hæfileika sína í hársnyrtingu.

Stundum getur verið best að láta fagmanninn um verkið.

sunnudagur, júní 04, 2006

4. júní 2006 - Af Alþingi ofl.

Þá er Alþingi farið heim í sumarfrí og mætir ekki aftur fyrr en í byrjun október. Ekki get ég sagt að ég hafi fylgst mikið með því, minnug orða ónefndrar varaþingkonu sem settist á þing í forföllum Hannibals Valdimarssonar fyrir rúmlega þremur áratugum. Eftir að hafa setið þar í nokkra daga, fannst henni kominn tími til að kveða sér hljóðs og sagði frá því, er hún fór til Reykjavíkur til að setjast á þing, ætlaði hún að nota tímann og skreppa í leikhús úr því hún væri í Reykjavík á annað borð. Það hefði þó fljótlega komið í ljós að hún þyrfti ekkert að skreppa í Þjóðleikhúsið því hún væri stödd í helsta leikhúsi þjóðarinnar, sjálfu Alþingi.

Afstaða mín gagnvart Alþingi þetta vorið er eitthvað svipað. Ég hefi lítið getað fylgst með raunverulegum umræðum né afgreiðslu mála, því fjölmiðlarnir hafa ekki haft nokkurn áhuga á að fræða okkur almúgann um það sem raunverulega gerðist, en eyddu öllum tímanum í að fjalla um leiklistartilburði alþingismanna. Einhversstaðar heyrðist mér þó sem að ný tóbaksvarnarlög hefðu verið samþykkt þar sem reykingar verða bannaðar á öllum opinberum stöðum frá miðju ári 2007.

Ég hefi marglýst því yfir hér að ég er ekki hrifin af þessari lögleiðingu reykingabanns. Ég hefði kosið að veitingamönnum yrði í sjálfsvald sett hvort þeir vildu banna reykingar á veitingastöðum sínum eður ei. Afstaða mín stjórnast ekki af eiginhagsmunahvötum, því ég hefi ekki reykt síðan í ágúst árið 2000. Hinsvegar tók ég þá ákvörðun þegar ég hætti að reykja, að hætta án fordóma gagnvart reykingafólki. Þannig hefi ég ekki bannað gestum mínum að reykja og ekki rekið þá út á svalir. Það er einungis ef mér finnast reykingarnar ganga út í öfgar sem ég áminni fólk um að reykja aðeins minna. Ég óttast hinsvegar að margt skemmtilegt fólk sem ég hitti stundum á Næstabar, muni hætta að sjást þar eftir að bannið tekur gildi.

Annað þingmál sem ég er óhress með afgreiðsluna á, er breytingatillagan við frumvarpið um réttindi samkynhneigðra. Breytingatillagan gekk út á að prestum yrði heimilt að gifta samkynhneigð pör, en mér skilst að hún hafi verið dregin til baka eða felld. Því miður segi ég, því með slíkri tillögu hefði verið hægt að ýta öllum málefnum samkynhneigðra út af borðinu í eitt skipti fyrir öll með því að þá hefði samkynhneigðum verið tryggð full mannréttindi. Í þetta sinn tókst kirkjunni að tefja fyrir framgangi málsins og er það miður.

-----oOo-----

Síðustu viku gekk ég í samtals 60 kílómetra. Þetta er tvöfalt meira en áætluð göngulengd vikunnar og þarf ég nú einungis að ganga tíu kílómetra til að ná markmiði nýrrar viku. Ætlunin er þó að ganga töluvert, enda bíða mín tvö léttfarin fjöll í nágrenni Reykjavíkur, en eru þó nauðsynleg til æfinga fyrir erfiðari göngur síðsumarsins. Þetta verða Keilir og Grímannsfell og nú er það spurningin hvort mér takist ætlunarverkið?

laugardagur, júní 03, 2006

3. júní 2006 – Hinsta kveðja Framsóknar

Sú var tíðin að til var fólk sem hafði hugsjónir. Einnig Framsóknarmenn sem höfðu hugsjónir. Þeir trúðu á framgang samvinnuhreyfingar og félagslegra afla í atvinnulífi jafnt sem félagslífi og þeir voru reiðubúnir að leggja mikið í sölurnar fyrir málstaðinn. Svo kom Jónas frá Hriflu og með honum hagsmunapotið. Einhversstaðar hefi ég heyrt því fleygt að Jónas hafi innleitt þá bitlingapólitík sem löngum hefur einkennt Framsóknarflokkinn, en til þess að tryggja flokknum framgang, hefur löngum verið nauðsynlegt að tryggja flokksmönnum feit og safarík embætti á meðan hinn þurfandi lýður horfir hungraður á. Til þess að ná þessum markmiðum, hafa atkvæðin skipt minna máli en völdin. Hugsjónirnar gleymdust.

Einhverntímann fyrir skömmu hélt Halldór Ásgrímsson því fram að Framsóknarflokkurinn hafi einungis verið utan ríkisstjórnar í fjögur ár á þeim áratugum sem hann hefur setið á Alþingi. Það eru þá væntanlega árin fjögur sem Viðeyjarstjórnin sat undir stjórn Davíðs Oddssonar 1991-1995. Allt starfið hefur gengið út á að sitja að völdum. Framsóknarflokkurinn náði sæmilegri kosningu 1995 eftir alldapran níunda áratug tuttugustu aldar, en síðan hefur leiðin verið frekar á niðurleið. Tveir krónprinsar flokksins sáu hvert stefndi og yfirgáfu hið sökkvandi skip á meðan formaðurinn reið asnanum á eftir húsbónda sínum inn í stórveldisdrauma og hernaðarhyggju og gat ekkert að gert. Formaðurinn var löngu búinn að glata hugsjóninni og hið einasta sem hann átt eftir var draumurinn um völd. Því hlýddi hann húsbóndanum og hirti valdamolana sem féllu af allsnægtaborði hins fyrrnefnda.

Senn líður að leikslokum hjá formanninum. Hann hefur smám saman verið að komast upp á kant við suma flokksmenn sem telja að tími sé kominn til að skipta út forystunni. Öfugt við húsbónda sinn sem hætti þegar leikur stóð sem hæst, stefnir í að Halldór Ásgrímsson muni yfirgefa hripleka skútuna á leið í strand.

Ég á ekki von á því að íslenskir friðarsinnar muni sakna Halldórs Ásgrímssonar þegar hann stígur af stalli sínum.

föstudagur, júní 02, 2006

2. júní 2006 - Letilíf

Ég nenni varla að blogga núna. Kannski er enn einhver þreyta í mér frá því á miðvikudag, en þá var ég á útopnuðu allan eftirmiðdaginn, bæði við síðasta opna húsið hjá Ættfræðifélaginu á þessu vori, eina litla fjallgöngu og að sækja eina vinkonu mína suður á flugvöll, en hún hafði misst af fyrra flugi.

Gönguferðin að þessu sinni, var upp á Helgafellið í Mosfellssveit, lágt fell og auðfarið, nema þar sem við fórum upp, því auðvitað erum við komnar í svo góða þjálfun, að valin er erfiðasta leiðin, ef fjallið sýnist auðvelt viðureignar. Því var farið upp skriðurnar að austanverðu frá Skammadal og upp á toppinn. Síðan var þvælst aðeins um toppinn í lélegu skyggni, farið niður að sunnanverðu hjá bænum á Helgafelli og gengið þaðan norður fyrir fjallið og inn Mosfellsdalinn og til baka í Skammadalinn.

Loksins gat ég látið ljós mitt skína, sagt sögur úr sveitinni og rifjað upp ýmis atvik úr æskunni og aðrar góðar sögur, sem hafðar eru eftir Halldóri nokkrum Laxness og Agli Skallagrímssyni. Með þessu labbi er ég komin upp í ca 46 kílómetra þessa vikuna. Ef miðað er við 30 kílómetra meðaltal sem ég setti mér sem gönguáætlun sumarsins, er ég nú búin að ná því og sex kílómetrum fyrir næstu viku.

fimmtudagur, júní 01, 2006

1. júní 2006 - Tíu ár

Nú eru komin nákvæmlega tíu ár frá því ég hætti störfum hjá Orkuveitu Stokkhólmsborgar og flutti aftur til Íslands eftir sjö ára útlegð frá Íslandi. Það er full ástæða til að minnast þessa með nokkrum orðum því betri vinnuveitanda hefi ég aldrei haft, hvorki fyrr né síðar, og hefi ég þó oft unnið hjá fólki sem sýnt hefur mér vinsemd og virðingu.

Árið 1993 þurfti ég að ganga út á meðal samstarfsfólks míns við Hässelbyverket í Stokkhólmi og tilkynna hvað ég væri á leiðinni í gegnum, þ.e. leiðréttingu á kyni. Ég hafði þá lifað tvöföldu lífi um skeið, í kvenhlutverki heimavið en í karlhlutverki í vinnunni. Það var hinsvegar kominn tími á að brjóta múra og ljúka því ferli sem ég hafði byrjað mörgum árum áður á Íslandi og nú var komið að örlagastundu og tilkynningaskyldu. Ég valdi þá leið að skrifa bréf til vinnufélaganna sem og yfirmanna orkuversins þar sem ég útskýrði transsexualisma í fáeinum orðum og hvernig ég tengdist slíku tilfinningalífi og meðferðum. Ég vissi ekkert hver viðbrögðin yrðu, hvort ég yrði rekin eða útskúfuð á annan hátt. Í besta falli reiknaði ég með því að fá að halda vinnunni.

Viðbrögðin komu mér gjörsamlega á óvart. Af tæplega hundrað manna starfsliði fékk ég næstum ótakmarkaðan stuðning og varð ég fyrir smávegis fordómum frá einungis einum manni og sá var snarlega kallaður á fund og bað mig afsökunar á framferði sínu nokkru síðar. Yfirmenn vinnustaðarins gerðu gott betur en þetta. Þeir kölluðu í Dr. Bengt Lundström ráðgefandi læknir við Socialstyrelsen og sérfræðing í transsexualisma sem og Dr. Jan Eldh lýtalækni sem síðar framkvæmdi aðgerðina á mér til leiðréttingar á kyni og héldu þeir kynningarfund fyrir starfsfólk orkuversins. Eftir þetta fékk ég algjöran stuðning frá starfsfólkinu og hélt honum í gegnum súrt og sætt. Vorið 1994 mætti ég í fyrsta sinn í sjónvarpsviðtal í þætti í sænsku sjónvarpi sem fjallaði um transsexualisma. Tveir vaktfélagar mínir mættu sömuleiðis í sama sjónvarpsþátt mér til stuðnings. Ég lenti í viðtali í tímariti sænska Vinnueftirlitsins þar sem fjallað var um viðbrögðin á vinnustað gagnvart óskum mínum. Öll vaktin mín stóð með mér í myndatökum fyrir þetta viðtal.

Það má furða sig á því afhverju ég yfirgaf þennan góða vinnustað vorið 1996 og hélt heim á vit örlaga minna. Það hafa oft komið þær stundir að ég hafi fyllst eftirsjá að hafa kvatt þetta góða fólk og haldið aftur til Íslands, en um leið er ég fædd og uppalin á Íslandi og hér búa flestir ættingjar mínir. Hér bjuggu foreldrar mínir og systkini, börn og síðar barnabörn. Ég er alin upp með Esjuna fyrir augum alla daga og ég sá Esjuna í huga mínum hvern einasta dag, öll þessi ár sem ég bjó erlendis.

Á þessum tíu árum sem liðin eru síðan ég flutti til Íslands hefi ég kynnst mörgum góðum og jákvæðum einstaklingum sem hafa hvatt mig áfram og staðið með mér í baráttunni fyrir mannsæmandi lífi á Íslandi. Að öllum öðrum ólöstuðum, vil ég nefna tvo menn sem mér eru kærari en aðrir þegar þessi mál ber á góma og hafa komið í veg fyrir að ég gæfist upp og færi aftur til Svíþjóðar, enda hafa þeir sýnt mér slíka alúð og kærleika að gengur langt umfram venjulegan náungakærleika. Þessir tveir menn, báðir mér algjörlega óháðir, ótengdir og óskyldir, eru Arnar Hauksson kvensjúkdómalæknir í Reykjavík og Emil K. Thorarensen fyrrum útgerðarstjóri hjá Eskju hf. á Eskifirði, nú verktaki á Eskifirði. Án þessara tveggja manna væri ég löngu búin að yfirgefa þetta land fyrir fullt og allt. Þeir eru mínar hetjur.