sunnudagur, júní 18, 2006

18. júní 2006 – Og þakið lyftist af höllinni....

Í gær fór fram landsleikur í handknattleik í Laugardalshöllinni í Reykjavík þar sem Íslendingar og Svíar áttust við. Ég sá minnst af þessum leik, enda var ég á vaktinni og þurfti að sinna öðrum mikilvægari þáttum tilverunnar en þeim að horfa á íþróttaleik. Sjónvarpið var hinsvegar í gangi og komst ég ekki hjá því að heyra eitthvað af því sem gekk á. Eitt skil ég til dæmis alls ekki. Af hverju eru allir dómarar á móti Íslendingum? Það er alveg sama hverjum Íslendingar eru að leika á móti, alltaf eru dómararnir vondu karlarnir. Það er aldrei neitt að leik Íslendinganna sem veldur því að þeir eru reknir útaf í hrönnum og fá á sig fjölda víta. Nei nei, það eru bara vilhallir dómarar.

Þessi leikur var engin undantekning. Þegar leiknum var að ljúka voru lætin orðin svo mikil að ég fór athuga hvort eitthvað væri að þarna í Laugardalshöllinni. Ekki reyndist svo vera, heldur voru Íslendingar bara að tapa fyrir Svíum í handbolta. Þegar leiknum lauk með sigri Svíþjóðar, fögnuðu Íslendingarnir svo ákaft að lá við að þakið lyftist af höllinni. Þetta var sannkallaður olympíuandi. Aðalmálið er ekki að vinna, heldur að vera með.

-----oOo-----

Þegar ég kom heim af vaktinni fór ég með báðar kisurnar út í garð og skyldi þær eftir þar svo ég gæti grátið tapið í friði. Hrafnhildur ofurkisa ákvað þá að vernda litlu systur sína og hvæsti að fressinum Púka sem á heima í næsta stigagangi og er ósköp indæll köttur, en hvæsti samt á móti Hrafnhildi, kolsvartur frá hvirfli til þófa. Tárhildur var ekki alveg á því að láta einhverja frekjukisu vernda sig og labbaði í makindum sínum að trýninu á Púka og byrjaði að sleikja hann í framan. Þá flúði Púki heim, en kom fljótlega aftur. Ég fór að velta því fyrir mér, hvort Tárhildur væri svona heimsk eða kjörkuð.

-----oOo-----

Loks er við hæfi að óska Paul McCartney til hamingju með 64 ára afmælisdaginn og nú eiga allir að syngja í kór: “When I´m sixtyfour”


0 ummæli:







Skrifa ummæli