fimmtudagur, júní 29, 2006

29. júní 2006 – Af kisum


Þegar ég kom heim af vaktinni á þriðjudagskvöldið og áður en ég dreif mig í baðið mitt, sleppti ég kisu út svo Hrafnhildur ofurkisa færi ekki að klóra sig í gegnum hurðina úr íbúðinni. Ég vissi að útidyrnar út í garðinn voru opnar og sá ég Hrafnhildi komna út í garð áður en ég hóf þrifin á sjálfri mér.

Klukkan ellefu um kvöldið fór ég niður og sá þá að einhver hafði lokað dyrunum út í garðinn. Ég fór út í garð og hristi lyklakippuna án afláts, en þótt Hrafnhildur ofurkisa hafi hingað til hlýtt kallinu er ég hristi lyklakippuna, þá kom hún ekki í þetta sinn. Jæja, það er bara svona gaman hugsaði ég og fór upp aftur.

Ég fór aftur niður eftir miðnættið og gekk nokkuð um garðinn hristandi lyklakippuna og engin kom kisan. Ég fór að hafa áhyggjur af litla dýrinu. Enn gekk ég einn hring um garðinn og næsta nágrenni veifandi lyklakippunni um klukkan eitt og hvergi sást til kisu litlu. Ég þorði ekki að hrista lyklakippuna mjög mikið svo nágrannarnir færu ekki að halda að ég væri komin með húsvarðarveiki, en eftir nokkra leit fór ég heim aftur kisulaus og uppfull af áhyggjum.

Ég var ekki ein um áhyggjurnar. Tárhildur litla kisa grét sem aldrei áður og saknaði systur sinnar, óð um alla íbúð og út á svalir og hrópaði á stóru systur og svo aftur inn og var ekkert sátt við að ég færi að sofa án þess að Hrafnhildur væri komin heim. Ég skreið í rúmið, sofnaði eftir nokkra stund og dreymdi að Hrafnhildur ofurkisa væri komin heim.

Ég vaknaði snemma og klæddi mig og ætlaði að fara einn hring um nágrennið og leita einu sinni enn. Um leið og ég kom að útidyrunum hjá mér, heyrði ég ámáttlegt mjálm fyrir utan dyrnar. Ég opnaði og fyrir utan dyrnar mjálmaði ofurkisan og flýtti sér inn og beint að matardallinum sínum, augljóslega orðin glorhungruð eftir ævintýri næturinnar.

Hrafnhildur ofurkisa hefur ekki nennt að fara út aftur eftir svaðilfarir næturinnar, heldur kýs að halda sig heima og lúra þess betur. Ekki veit ég hvar hún var um nóttina, en hún umlykur leyndarmálið með þögninni.


0 ummæli:Skrifa ummæli