mánudagur, júní 19, 2006

19. júní 2006 - Þvottalaugarnar

Það er ekki úr vegi að minnast lítillega á Þvottalaugarnar í Laugardal í tilefni dagsins.

Í árhundruð stunduðu reykvískar húsmæður þvotta í Þvottalaugunum í Laugardal og urðu laugarferðir almennar og jafnvel vinsælar eftir að Reykjavík fór að byggjast eftir 1750. Húsmæður og vinnukonur fóru frá Reykjavík snemma morguns í öllum veðrum og á öllum tímum árs og inn í Þvottalaugar með óhreinan þvott á bakinu, þvoðu hann og þurrkuðu eins og hægt var áður en þær tóku hann aftur á bakið og héldu heim á leið að kvöldi. Þrátt fyrir mikla vosbúð sem fylgdu þessum laugaferðum og mörg slys, var það ekki fyrr en eftir 1880 sem reist var skýli fyrir þvottakonurnar svo þær gætu haft örlítið afdrep á meðan á þvottunum stóð og ekki voru reistar grindur yfir laugarnar fyrr en um aldamótin 1900. Þá ber þess og að geta að lengi héldu þvottakonurnar meðfram sjónum inneftir og var ekki lagður vegur þangað inneftir fyrr en á níunda áratug nítjándu aldar, Laugavegurinn.

Í lok þriðja áratugs tuttugustu aldar var hafist handa um tilraunaboranir í Laugardal og í framhaldinu byggð lítil dælustöð við Þvottalaugarnar. Hún var tekin formlega í notkun í nóvember 1930 og fyrsta húsið í Reykjavík sem tengdist hinni nýju hitaveitu var hinn nýbyggði Austurbæjarskóli. Í framhaldinu fengu nokkur stórhýsi til viðbótar hitaveitu, hinn nýbyggði Landsspítali og Sundhöllin, en auk þess um 60 hús á milli Laugavegar og Bergþórugötu.

Hin góða reynsla af fyrstu árum hitaveitu í Reykjavík varð hvatning til borgaryfirvalda að flýta frekari hitaveituvæðingu og í framhaldinu var Reykjaveitan tekin í gagnið 1943 og vita allir hvernig það ævintýri fór.

Ástæða þess að ég get Þvottalauganna hér, er að enginn einn staður í Reykjavík er meiri miðpunktur kvennasögu í Reykjavík og þarna hefi ég talið að reisa ætti blandað kvennasögusafn og safn til sögu hitaveitu. Á þeim árum sem ég sá um eftirlit með Þvottalaugunum reyndi ég ítrekað að reka áróður fyrir slíku safni á þessum stað, en ýmist hummuðu stjórnendur það af sér eða þá að mér var bent á að Orkuveitan ræki þegar Rafminjasafnið í Elliðaárdal. Rafminjasafnið er vissulega gott og þarft verkefni um sögu rafvæðingar í Reykjavík og stendur að auki við fyrsta raforkuver Reykvíkinga sem að auki er enn er rekið með fullu afli á veturna, en það er ekki í Laugardal. Minjasafn um sögu hitaveitu á hvergi heima annars staðar en í Laugardal, hjá Þvottalaugunum og borholunum auk þess sem fyrsta dælustöðin stendur þar enn með leifunum af gömlu dælunum í kjallaranum, við endann á einni lauginni.

Með þessum orðum vil ég hvetja konur til að sýna samstöðu í baráttunni og að taka þátt í kvennamessunni við Þvottalaugarnar á mánudagskvöldið 19. júní og hefst messan klukkan 20.30.


0 ummæli:Skrifa ummæli