mánudagur, júní 05, 2006

5. júní 2006 - Walter Wachenfeld - endurtekið

Ég var að klippa til einhverjar hárlufsur á höfðinu á mér og þar sem ég mundaði skærin af meiri vilja en mætti, rifjuðust upp fyrir mér gamlar minningar frá mínum velmektarárum.

Einhverntímann endur fyrir löngu var ég beðin um að fara ferðir á þýskum leiguskipum Eimskipafélagsins í þeim tilgangi að leiðbeina áhöfnum skipanna meðferð og eftirlit með frystigámum. Á einu þessara skipa var miðaldra yfirstýrimaður að nafni Walter Wachenfeld. Hann var mjög óvenjulegur maður, nákvæmur með afbrigðum, vinnusamur, forvitinn, en samansaumaður og illa klipptur, þótti vænt um aurana sína og eyddi aldrei einu einasta marki í óþarfa.

Einhverju sinni var kominn tími fyrir klippingu hjá honum og hann rölti upp á rakarastofu í Danmörku með 50 danskar krónur í vasanum og ætlaði að fá klippingu fyrir þann pening. Þegar hann frétti að klippingin kostaði 57 krónur, fór hann óklipptur um borð aftur og bar sig aumlega. Einhver sá aumur á kallinum og gaf honum 7 krónur svo hann gæti hresst upp á útlit sitt. Walter Wachenfeld þakkaði fyrir sig og stakk krónunum í vasann, fór inn í herbergi sitt og klippti sig sjálfur, en varð að aðhlátursefni um borð fyrir vikið.

Þetta skeði nokkru áður en ég fór um borð, en þegar ég mætti var enn áberandi á höfði Walters Wachenfeld að sá sem hafði farið höndum um hár hans, kunni ekkert til verka. En nú fór að glaðna yfir kappanum. Það var nefnilega skipt um hluta áhafnarinnar þegar við komum til Hamborgar og um borð kom þýsk valkyrja sem 2. stýrimaður.

Walter Wachenfeld hóf þegar tilraunir til að fá næstráðanda sinn til að klippa sig, en hún þvertók fyrir að klippa hann. Hún kynni ekkert með skæri að fara, en væri öllu betri að stýra skipum um öll heimsins höf í ýmsum veðrum, enda menntuð í slíku en ekki í hársnyrtingu. Walter Wachenfeld hélt samt áfram að þrábiðja hana eins og sá sem aldrei gefst upp og að lokum lét stúlkan undan og réðist að höfðinu á kappanum með greiðu og skæri að vopni.

Eftir klippinguna mætti Walter Wachenfeld í borðsalinn glaður í bragði og himinlifandi ánægður með klippinguna. Sömu sögu var að segja um aðra áhafnarmeðlimi, því sjaldan hefur jafnmikið verið hlegið um borð í þýsku kaupfari, en þarna sannaðist að valkyrjan hafði einungis sagt sannleikann um hæfileika sína í hársnyrtingu.

Stundum getur verið best að láta fagmanninn um verkið.


0 ummæli:Skrifa ummæli