miðvikudagur, júní 07, 2006

7. júní 2006 - Keilir ofl.


Loksins hafði ég það af að komast upp á alvöruhól í gær. Gönguhópurinn lagði af stað fyrir hádegið og hóf gönguna frá einhverju borstæði við Höskuldarvelli. Við fórum alveg eftir bókinni og villtumst bara lítið í úfnu hrauninu áður en við komumst að fjallinu þar sem svitnað var og grátið af aumingjaskap á leiðinni upp fjallið (þ.e. ég grét og barmaði mér, er ferðafélaginn rak á eftir mér). Eftir tveggja tíma gang frá bílnum stóðum við loks á toppnum og gátum notið rigningarinnar og þess einasta sem sást í nágrenninu, þyrlna frá LHG og síðar frá hernum. Ekki var fjarlægara útsýn fagurt, þykkir skýjabakkar og dimmviðri yfir byggðu bóli. En fjallið var sigrað og nú var bara að koma sér niður aftur og heim með hraði.
Til sönnunar afrekinu eru myndir frá fjallinu inni á myndasíðunni.


Um leið og heim var komið var skipt um föt og farið á aukavakt, en eins og þeir vita sem þekkja mig, þá vantar orðið nei í orðabókina mína. Því samþykkti ég að taka vélavaktina um borð í Dettifossi og varð að fara beint þangað eftir að heim var komið. Fyrir bragðið seinkaði bloggfærslu dagsins um nokkra klukkutíma og birtist hún hér með. Strákarnir biðja að heilsa Þórði.


0 ummæli:Skrifa ummæli