þriðjudagur, júní 20, 2006

20. júní 2006 - Jarðarför

Ég fór í jarðarför í gær. Það var verið að kveðja minn kæra móðurbróður sem dó á dögunum og var ágætlega mætt, hinsvegar einungis eitt þriggja eftirlifandi systkina hans. Hin tvö treystu sér ekki til að mæta af heilsufarslegum ástæðum. Það er orðið dálítið merkilegt, að einustu skiptin sem stórfjölskyldan hittist, er við jarðarfarir. Afi minn og amma áttu níu börn og heildarfjöldi niðja að verða 180. Það gefur því auga leið að einustu skiptin sem megnið af þessum stóra hóp hittist, er við ættarmót og jarðarfarir.

-----oOo-----

Önnur kveðjuathöfn fór líka fram í gær og skilst mér að þar hafi ölið runnið óspart. Ég skrópaði þar, enda lítil ástæða til fagnaðar er fráfarandi stjórn Orkuveitunnar var kvödd og ný stjórn tók við. Ég hefi aldrei farið leynt með mínar pólitísku skoðanir og er ekki viss um að framtíðin verði sú tryggð sem hefur verið síðustu tólf árin undir stjórn Alfreðs Þorsteinssonar. Þá er mér kunnugt um að á æðstu stöðum var tekist á um ráðningu mínu til Hitaveitunnar fyrir nærri áratug síðan og grunar mig að Alfreð hafi tekið af skarið til minna hagsbóta.


0 ummæli:Skrifa ummæli