laugardagur, júní 24, 2006

24. júní 2006 – Útvarpsviðtal

Á fimmtudaginn var hringt í mig og ég beðin um að koma í viðtal á útvarpsstöð einni í eigu þrjúhundruðsextíuogfimm miðla á föstudagsmorguninn. Fyrir bragðið dreif ég mig á fætur fyrir allar aldir á föstudagsmorguninn svo ég yrði örugglega vöknuð klukkan níu þegar viðtalið átti að byrja, ók niðureftir í hendingskasti og var komin á staðinn löngu fyrir ætlaða útsendingu. Það kom fljótlega í ljós að tvö þeirra sem áttu að yfirheyra mig eru barnabörn Sigga Vídó í Vestmannaeyjum og annað þeirra átti að vera vondi kallinn í viðtalinu.

Viðtalið gekk ljómandi vel fannst mér og ég fékk nokkrar “eitraðar” spurningar, en þar sem ég hafði verið vöruð við slíku fyrirfram, komu þær spurningar ekkert á óvart og ég svaraði þeim eins og öðrum. Eftir viðtalið labbaði ég svo yfir í næsta hús og drakk meira kaffi áður en ég hélt heim á leið.

Eftir að ég var komin heim, fékk ég símtal norðan úr landi. Það var ljóst að sumt fólk hafði ekki áttað sig á því að leikur hefði verið settur á svið í viðtalinu og að viðtalið hefði allt verið undirbúið. Að minnsta kosti fannst sumum spyrillinn ganga alltof langt gagnvart mér með spurningum sínum. Ég held að minnsta kosti að ég hafi ekki þurft að skammast mín fyrir svör mín í þessu viðtali.

-----oOo-----

Ég hefi stundum verið að hnýta í fólk sem veit ekki til hvers litla sveifin vinstra megin við stýrið á bílnum er. Í gær fylgdist ég með einum á bifreiðinni MH-703 sem kunni alls ekki að nota stefnuljósin. Ekki nóg með það, heldur hélt hann að það væri í lagi að beygja til vinstri á gatnamótum af miðakrein. Mér finnst að mætti bjóða þessum unga manni að fara í nokkra ökutíma með áherslu á umferðarreglurnar.


0 ummæli:Skrifa ummæli