mánudagur, júní 26, 2006

26. júní 2006 – Vinstrisinnaðir bloggarar?

Ég hefi verið að velta fyrir mér þessum merkilega hópi fólks í samfélaginu sem kallast bloggarar. Þessar sömu vangaveltur komu upp hjá gönguhópnum Blogg þar sem hann kleif þrítugan hamarinn í gærmorgun og miklaði sig af afrekum sínum.

Af reynslu minni af bloggi í tvö ár, fæ ég á tilfinninguna að skipta megi bloggurum í þrjá meginhópa, unglinga, heimavinnandi húsmæður og vinstrisinnað menntafólk eða það sem kalla má “intellektuella” hópinn. Það eru auðvitað til bloggarar sem tilheyra öðrum hópum samfélagsins, en þeir eru fáir. Stundum getur þetta ruglað mann í ríminu. Þegar ég hrósaði Valgerði Sverrisdóttur fyrir störf hennar að virkjanamálum var ég umsvifalaust skotin í kaf. Sama skeði einnig þegar ég hrósaði heimsmethafanum geðþekka í Formúla-saumavél.

Fyrir sveitastjórnarkosningarnar um daginn fékk ég á tilfinninguna að vinstrigrænir myndu gjörsigra kosningarnar, svo mikill var meirihluti þeirra í þeim hópum sem ég les bloggið frá. Af sömu uppsprettu fékk ég á tilfinninguna að bæði Íhald og Framsókn myndu þurrkast út og Samfylkingin yrði sem hækja með Vinstrigrænum eftir kosningar. Allir vita hvernig það fór. Íhaldið sigraði atkvæðagreiðsluna hér í Reykjavík, en Framsókn stóð uppi sem sigurvegari eftir að hafa fengið þá verstu útreið sem hann hefur fengið í hálfa öld í borgarstjórnarkosningum.

Það er ljóst að sumir hópar blogga ekki. Það er fullt af fjölmiðlafólki sem bloggar, en fáir trésmiðir. Einasti vélfræðingurinn sem ég veit um sem bloggar er ég sjálf, en ég er líka alveg einstaklega mikið gæðaeintak af vélfræðing eins og alþjóð ætti að vera kunnugt(?). Hvar eru blogg pípulagningarmeistarans og hárgreiðslukonunnar? Eða viðskiptafræðingsins? Á móti kemur að sagnfræðingar virðast áhugasamir um blogg, en fáir verkfræðingar, en nokkrir þó. Þá eru kennarar mjög áhugasamir um blogg og margir iðnir við kolann.

Tveir sjóarar sem ég kannast við eru áhugasamir bloggarar, en annar þeirra er hættur til sjós í blóma lífsins og kennir nú innfæddum að stýra skipum suður í Afríku. Örlög hins eru öllu verri, því hann er orðinn fullgildur limur í gönguhópnum Blogg.

-----oOo-----

Ég hefi ákveðið að skrifa ekkert um saumavélarkappaksturinn sem fram fór í Kanada á sunnudaginn. Óþarfi að valda sárindum í litlum gönguhóp.


0 ummæli:Skrifa ummæli