fimmtudagur, júní 18, 2009

19. júní 2009 - Hvalkjöt!

Við vorum í slipp á Akureyri og á meðan borðuðum við gjarnan í mötuneyti Slippfélagsins í hádeginu. Einn daginn hafði einhver okkar rekið augun í að það yrði hrossakjöt í matinn í hádeginu. Vitandi að skipstjórinn okkar borðaði ekki hrossakjöt, fórum við um borð með þau tíðindi til hans að dýrindis hvalkjöt yrði á boðstólum í hádeginu.

Svo kom hádegi og við slöfruðum í okkur hvalkjötinu, líka skipstjórinn, og engum varð meint af fremur en allar aldir áður.

Einum eða tveimur dögum síðar varð einhver svo kvikindislegur að viðurkenna fyrir skipstjóranum að við hefðum skrökvað að honum. Eftir það fór hann sjálfur upp í mötuneyti að athuga hvað væri á matseðlinum.

Nokkrum dögum síðar hitti svo skemmtilega á að hvalkjöt var á matseðli dagsins. Við mættum að sjálfsögðu í mat að venju nema skipstjórinn sem borðaði ekki þetta helvítis hrossakjöt sem væri á boðstólum!

miðvikudagur, júní 17, 2009

18. júní 2009 - Að rífa hús annarra!

Allt frá því á eftirmiðdaginn 17. júní loga bloggheimar af hrifningu á manni sem missti húsið sitt á uppboði. Hann mætti síðan með gröfu að húsinu, reif það að stærstum hluta, gróf gröf sem hann henti bílnum sínum ofaní og fór svo í burtu. Þetta kallar fólk hetjuskap. Ekki ég.

Um leið og hamarinn sló, var húsið ekki lengur í eigu mannsins sem hafði átt það, heldur bankans sem bauð í það. Með því að rífa húsið, er maðurinn að vinna skemmdarverk á eigum annarra og mun því þurfa að sitja af sér hæfilega refsingu fyrir skemmdarverk og hugsanlega tryggingarsvik, þ.e. ef húsið er tryggt. Hann er því ekki einvörðungu að tvöfalda skuldir sínar, heldur er hann einnig að kalla yfir sig refsingu í samræmi við hegningarlög. Hann á því enn síður viðreisnar von í framtíðinni með skemmdarverkin á samviskunni.

Það er þó annað verra sem hann gerir. Skemmdarverk hans gera það að verkum að ekki er hægt að treysta því að fólk sem missir húsnæði sitt á uppboð, geti búið áfram í húsnæðinu eftir að hamarinn sló. Þeir sem eignast hús á uppboði munu því í vaxandi mæli gera þá kröfu, að húsnæði verði rýmd þegar í stað og íbúarnir bornir út. Það er ekki neinum til fagnaðar.

Þeir aðilar sem lenda í slíku geta því hugsað manninum á Álftanesi þegjandi þörfina.

mánudagur, júní 08, 2009

8. júní 2009 - Nauðasamningur!

Það þykir vondur kostur að geta ekki greitt greitt reikningana sína. Þó getur fjöldi fólks ekki borgað þá af einhverjum ástæðum, verður að sækja um frest, greiðsluaðlögun, niðurfellingu skulda eða hreinlega óskað eftir nauðasamningum um blandaðan pakka af öllu þessu. Hið versta sem við gerum í slíku ástandi er að ganga út og tilkynna að við borgum ekki.

Þegar útrásarvíkingarnir dunduðu sér við að kaupa heilu verslanakeðjurnar, bankana og fasteignirnar í útlöndum höfðu þeir lítið á bakvið sig annað en veð í sjálfri íslensku þjóðinni, í íslenska ríkinu. Ríkisvaldinu fannst þetta gott og fulltrúar þess voru glaðir því það komu peningar á móti inn í ríkiskassann í formi skatta og ríkissjóði tókst að greiða allar skuldir skuldir sínar. Þessu til staðfestingar mátti sjá fulltrúa ríkisvaldsins ganga á torg og hylla úttrásarvíkingana og verðlauna þá á ýmsan hátt, forsetann, forætisráðherrann ríkisstjórnina og fjölda annarra sem áttu að gæta þjóðarauðsins. Svo hrundi allt.

Hinn skuldlausi ríkiskassi varð allt í einu einn sá skuldugasti í heimi því útrásarvíkingarnir voru búnir að offjárfesta og eigendur skuldanna vildu ganga að veðinu, íslenska þjóðarauðnum. Einhverjir þeir fulltrúar ríkisvaldsins sem hæst höfðu látið um hyllingu útrásarvíkinganna snéru við blaðinu og lýstu því yfir að við borgum ekki skuldir óreiðumanna. Vandamálið var bara það að óreiðumennirnir höfðu veðsett þjóðarauðinn og skuldareigendur settu Ísland á svartan lista yfir hryðjuverkasamtök.

Ísland neyddist til að ganga til nauðasamninga, skríða á fjórum fótum að fótum fulltrúa skuldareigenda og reyna að semja sig frá þessum óförum. Sumum finnst sem fara hefði átt einhverja aðra leið, fara leið Davíðs og neita að borga eða þá að fara í mál sem hefði þýtt fleiri ára réttarhöld og vera stimpluð hryðjuverkaríki á meðan með öllum þeim erfiðleikum sem slíku fylgja.

Að ganga til nauðasamninga við Breta er vissulega beiskur biti að kyngja, en sannanlega betri en að vera dæmd svikahrappar og óþjóðalýður um aldur og ævi. Við verðum bara að horfast í augu við að hinir raunverulegu svikahrappar fengu of frjálsar hendur og nýttu sér það út í ystu æsar og nú þurfum við að borga brúsann.

Því tel ég ekki um annað að ræða úr því sem komið er, en að skrifa undir með harm í hjarta og gæta þess að útrásarvíkingarnir komist ekki aftur til valda.

sunnudagur, júní 07, 2009

7. júní 2009 - Hvað kostar LandCruiser?

Á dögunum var sagt frá bílafríðindum forstjóra Steypustöðvarinnar hf sem fékk afnot af bíl sem kaupauka. Það kom fram í fréttum að bíllinn væri af gerðinni Toyota Landcruiser 120 og með fréttum af þessu hræðilega máli var birt mynd af LandCruiser 200.

Ha, hver er munurinn á LandCruiser120 og LandCruiser200? Jú, bara ellefu milljónir, því LandCruiser ekki bara LandCruiser ef tölustafirnir fylgja ekki með. Vissulega keyrir Kristinn Björnsson fyrrum forstjóri Skeljungs um á LandCruser200 sem kostar 17 miljónir. Á sama tíma ekur húsvörðurinn hjá Orkuveitu Reykjavíkur á LandCruiser120 sem kostar ellefu milljónum minna og er stoltur af sínum bíl.

Ég hugsa til hans frænda míns heitins sem átti steypustöð sem var kennd við hann og ættaróðalið á Kjalarnesi, um flottu Bensana sem hann ók þegar hann var edrú og fannst ekki mikið til um þriggja ára gamlan LandCruiser120 sem forstjóri Steypustöðvarinnar ekur. Ég meina, forstjóri Steypustöðvarinnar ekur um á samskonar bíl og húsvörðurinn hjá OR.

Varla er það vegna þess að vel er gert við starfsfólk Orkuveitunnar í launum?

laugardagur, júní 06, 2009

6. júní 2009 - Litli farsímamaðurinn?

Eins og allir vita er Lynghálsinn hvorki breið né sérlega löng gata. Þó þykir hún merkilegri en margar aðrar götur fyrir þá sök að margir sem aka þar um eru með bílana sína fulla af dýrindis veigum sem þeir keyptu í Heiðrúnu, en sú ágæta verslun stendur við ofanverðan Lynghálsinn sem er í Hálsaskógi ef menn vita ekki betur.

Á föstudag átti ég erindi í Heiðrúnu. Hvert erindi mitt var geta lesendur mínir getið sér til en þegar erindi mínu var lokið, ók ég vestur Lynghálsinn og ætlaði niður Hálsabrautina. Þegar ég kom að Hálsabrautinni gaf ég stefnuljós að venju um að ég ætlaði niður götuna, en þá veitti ég athygli bifreiðinni UY-287 sem var búin að troða sér við hlið mér, vinstra megin við mig, beygði síðan fyrir mig um leið og ég ók af stað og varð ég að nauðhemla til að lenda ekki á bílnum sem svo freklega hafði verið ekið fyrir mig.

Maðurinn sem ók bifreiðinni UY-287 réði mjög illa við bílinn sinn enda var hann upptekinn af að tala í síma samanber atvikið er hann ók fyrir mig. Ég fór í humátt á eftir honum þar sem hann ók niður Hálsabrautina og síðan inn á Vesturlandsveginn til vesturs og aldrei gaf hann stefnuljós. Hann notaði allar akreinar þegar kom að Ártúnsbrekkunni, ók mjög hratt og var ýmist lengst til vinstri eða lengst til hægri og stefnuljósin biluð nema auðvitað að hann hafi ekki kunnað á ljósin og talaði í símann allan tímann sem ég sá til hans.

Smám saman hvarf hann úr augsýn við mig og ég ræddi þann möguleika við farþega minn að tilkynna háttalag hans til lögreglu áður en tjón eða slys yrði af hans völdum. Ég gerði það þó ekki, enda vildi ég ekki láta háttalag hans eyðileggja fyrir mér ánægjulegt kvöld framundan. Þótt ekki væri hegðun mannsins tilkynnt í þetta sinn, velti ég því enn fyrir mér hvort ég hafi breytt rétt með því að tilkynna ekki hegðun hans til lögreglu, enda er mér ókunnugt um andlegt og líkamlegt ástand hans.

fimmtudagur, júní 04, 2009

4. júní 2009 – Sendiherra kallaður heim.

Á dögunum þurfti einhver kínverskur sendiherra að skreppa heim til sín. Hvort hann var að heimsækja aldraða ömmu sína eða fara í jarðaför til móðursystur sinnar skal ósagt látið, en þetta kom upp á þegar íslenska blaðamenn vantaði efni til skrifa um og tíbetskur búddamunkur var staddur á Íslandi.

Allir vita hverja afstöðu kínversk stjórnvöld hafa til Dalai Lama og allir vita hver afstaða kínverskra stjórnvalda er til stjórnvalda á Taiwan. Allir vissu að Kínverjar væru ekki sáttir við að Dalai Lama væri að þvælast á Íslandi og biðu þess að Kínverjar mótmæltu komu hans til Íslands. Dalai Lama kom til Íslands og Kínverjar mótmæltu eins og reiknað var með, en um leið fór kínverski sendiherrann heim til Kína.

Íslenskir fjölmiðlar gerðu nákvæmlega það sem kínversk stjórnvöld ætluðust til af þeim, túlkuðu brottför kínverska sendiherrans sem mótmæli við komu Dalai Lama til Íslands. Með þessu tókst Kínverjum að slá tvær flugur í einu höggi, skiptu um einhvern diplómat og fengu aðra til að túlka málið á versta veg. Hrein snilld.

miðvikudagur, júní 03, 2009

3. júní 2009 - Sjómannalögin

Þegar ég vaknaði á mánudag og kveikti á útvarpinu rann upp fyrir mér ljósið. Samkeppnin um besta sjómannadagslagið var komin í gang og lögin kynnt hvert á fætur öðru og búast má við því að keppnin nái nýjum hæðum og hámarki á föstudag fremur en á sjálfan sjómannadaginn á sunnudag.

Ég heyrði ávæning af einhverjum þeirra laga sem náð hafa lengst í keppninni í ár, textarnir fjölluðu um það hve dásamlegt væri að vera á sjónum og koma helst aldrei í land, hve slagvatnsfýlan er yndisleg og sjóveikin heilnæm. Síðan voru brælur, veltingur og slor dásömuð í hæstu hæðir svo ætla hefði mátt að Friðrik J. Arngrímsson hefði samið lögin í samkeppni við Kristján Ragnarsson í tilraunum sínum til að plata unga menn á sjóinn því ávallt vantar nýtt blóð á flugbeittan aðgerðarhnífinn. Ef ekki þeir tveir, þá einhver sem er á launaskrá hjá þeim félögum.

Ég fór að hugsa til fyrri daga og ljóðsins um gamlan skútukarl sem hugsaði um sínar rollur af mikilli natni og Þórð sjóara (ekki Þórð vin minn stórkaptein) sem var ástfanginn af timbrinu á dekkinu hjá sér sbr. ljóðið þar sem hann elskaði þilför hann Þórður. Svo flýtti ég mér að slökkva áður en ég yrði sjóveik og fann mér eitthvað skemmtilegra að gera.

Samt finnst mér enn örlítið gaman að þessum lögum um hetjur hafsins sem lifðu og dóu fyrir sílspikaðan sægreifann sem beið þess að þeir skiluðu aflanum til hafnar.

þriðjudagur, júní 02, 2009

2. júní 2009 - Notuðu hamarinn hans afa síns!

Morgunblaðið segir frá því að búið er að gera við nærri tveggja alda gamlan bát, Vigur-Breið sem smíðaður var fyrir 1829. Við viðgerðina að þessu sinni var notaður hamarinn hans afa sem hann erfði frá afa sínum. Það er að vísu búið að skipta um haus tvisvar og skaft sex sinnum á hamrinum góða, en samt er þetta gamli góði hamarinn sem einnig var notaður við viðgerðina á bátnum fyrir hálfri öld og fyrir heilli öld og nokkrum sinnum áður.Annars er merkilegt hve sum skip endast vel. Gott dæmi er hið fræga skip Narfi RE-13 sem var smíðað fyrir Guðmund Jörundsson árið 1960 í Rendsburg í Þýskalandi sem síðutogari. Skipinu var breytt í frystitogara fljótlega, síðar í skuttogara um 1974. Nokkrum árum síðar var því breytt í nótaskip og selt austur á Eskifjörð og hlaut þá nafnið Jón Kjartansson SU-111 og reyndist hið mesta happaskip undir því nafni. Fyrir um áratug var skipt um framhluta skipsins og allt ofandekks, nýjar íbúðir og nýr vélbúnaður, reyndar skipt um aðalvél öðru sinni frá upphafi árið 1999.

Skipið heitir nú Lundey NS-14 og er enn gamli góði Narfi í skráningarskjölum. Það má hinsvegar velta fyrir sér hversu mikið er enn eftir af upphaflega Narfa RE-13. Svipað held ég að eigi sér stað varðandi Vigur-Breið þótt ekki ætli ég að álasa þeim sem héldu við bátnum og endurnýjuðu eftir þörfum í gegnum aldirnar, fremur þakka þeim fyrir gott verk og viðhald menningarverðmæta.-----oOo-----

P.s. Myndirnar af Narfa/Lundey eru í eigu Guðmundar St. Valdimarssonar og HB-Granda hf.

http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/06/02/vidgerd_lokid_a_elsta_skipi_landsins/

mánudagur, júní 01, 2009

1. júní 2009 - Strokufangar?

Þótt ekki þekki ég mikið til rauna fanga, hefi ég séð einhverjar kvikmyndir þar sem fangar ætla sér að strjúka, grafa heil göng með teskeið eina að vopni, gera kílómetra löng göng með því að fylla buxnavasana af mold og láta sáldrast niður á jarðveginn úr vösunum svo lítið beri á á leyfilegum útivistartímum.

Á sunnudagskvöldið komst ég að svipaðri flóttatilraun. Mínar ástkæru kisur voru búnar að gera sér áætlun um flótta frá mér, því auðvitað eru þær ekkert að tilkynna mér hvað þær aðhafast meðan ég er í vinnunni.

Eftir að heim var komið og ég búin að láta renna í bað, fannst mér grunsamlegt hve Tárhildur grátkisa hafði mikinn áhuga fyrir loftristinni við baðkarið. Ég fór að skoða ristina og sá að búið var að plokka í burtu sílikonið að þremur fjórðu sem hélt loftristinni á sínum stað, þannig að sílikonið hélt einungis ristinni að ofanverðu. Ég lyfti henni og horfði beint í flóttaleg augu Hrafnhildar ofurkisu sem hafði komið sér fyrir undir baðkarinu.

Það var mér bæði ljúft og skylt að tilkynna Hrafnhildi ofurkisu að þessi flóttaleið er ekki sú rétta ef hún vill komast út í góða veðrið. Síðan lokaði ég gatinu aftur með nýjum umgang af sílikon.

Mig grunar að Hrafnhildur ofurkisa verði mér ekki þakklát fyrir lagfæringuna á loftristinni við baðkarið, ekki frekar en fangarnir í kvikmyndinni The Great Escape.