miðvikudagur, júní 03, 2009

3. júní 2009 - Sjómannalögin

Þegar ég vaknaði á mánudag og kveikti á útvarpinu rann upp fyrir mér ljósið. Samkeppnin um besta sjómannadagslagið var komin í gang og lögin kynnt hvert á fætur öðru og búast má við því að keppnin nái nýjum hæðum og hámarki á föstudag fremur en á sjálfan sjómannadaginn á sunnudag.

Ég heyrði ávæning af einhverjum þeirra laga sem náð hafa lengst í keppninni í ár, textarnir fjölluðu um það hve dásamlegt væri að vera á sjónum og koma helst aldrei í land, hve slagvatnsfýlan er yndisleg og sjóveikin heilnæm. Síðan voru brælur, veltingur og slor dásömuð í hæstu hæðir svo ætla hefði mátt að Friðrik J. Arngrímsson hefði samið lögin í samkeppni við Kristján Ragnarsson í tilraunum sínum til að plata unga menn á sjóinn því ávallt vantar nýtt blóð á flugbeittan aðgerðarhnífinn. Ef ekki þeir tveir, þá einhver sem er á launaskrá hjá þeim félögum.

Ég fór að hugsa til fyrri daga og ljóðsins um gamlan skútukarl sem hugsaði um sínar rollur af mikilli natni og Þórð sjóara (ekki Þórð vin minn stórkaptein) sem var ástfanginn af timbrinu á dekkinu hjá sér sbr. ljóðið þar sem hann elskaði þilför hann Þórður. Svo flýtti ég mér að slökkva áður en ég yrði sjóveik og fann mér eitthvað skemmtilegra að gera.

Samt finnst mér enn örlítið gaman að þessum lögum um hetjur hafsins sem lifðu og dóu fyrir sílspikaðan sægreifann sem beið þess að þeir skiluðu aflanum til hafnar.


0 ummæli:







Skrifa ummæli