laugardagur, júní 06, 2009

6. júní 2009 - Litli farsímamaðurinn?

Eins og allir vita er Lynghálsinn hvorki breið né sérlega löng gata. Þó þykir hún merkilegri en margar aðrar götur fyrir þá sök að margir sem aka þar um eru með bílana sína fulla af dýrindis veigum sem þeir keyptu í Heiðrúnu, en sú ágæta verslun stendur við ofanverðan Lynghálsinn sem er í Hálsaskógi ef menn vita ekki betur.

Á föstudag átti ég erindi í Heiðrúnu. Hvert erindi mitt var geta lesendur mínir getið sér til en þegar erindi mínu var lokið, ók ég vestur Lynghálsinn og ætlaði niður Hálsabrautina. Þegar ég kom að Hálsabrautinni gaf ég stefnuljós að venju um að ég ætlaði niður götuna, en þá veitti ég athygli bifreiðinni UY-287 sem var búin að troða sér við hlið mér, vinstra megin við mig, beygði síðan fyrir mig um leið og ég ók af stað og varð ég að nauðhemla til að lenda ekki á bílnum sem svo freklega hafði verið ekið fyrir mig.

Maðurinn sem ók bifreiðinni UY-287 réði mjög illa við bílinn sinn enda var hann upptekinn af að tala í síma samanber atvikið er hann ók fyrir mig. Ég fór í humátt á eftir honum þar sem hann ók niður Hálsabrautina og síðan inn á Vesturlandsveginn til vesturs og aldrei gaf hann stefnuljós. Hann notaði allar akreinar þegar kom að Ártúnsbrekkunni, ók mjög hratt og var ýmist lengst til vinstri eða lengst til hægri og stefnuljósin biluð nema auðvitað að hann hafi ekki kunnað á ljósin og talaði í símann allan tímann sem ég sá til hans.

Smám saman hvarf hann úr augsýn við mig og ég ræddi þann möguleika við farþega minn að tilkynna háttalag hans til lögreglu áður en tjón eða slys yrði af hans völdum. Ég gerði það þó ekki, enda vildi ég ekki láta háttalag hans eyðileggja fyrir mér ánægjulegt kvöld framundan. Þótt ekki væri hegðun mannsins tilkynnt í þetta sinn, velti ég því enn fyrir mér hvort ég hafi breytt rétt með því að tilkynna ekki hegðun hans til lögreglu, enda er mér ókunnugt um andlegt og líkamlegt ástand hans.


0 ummæli:







Skrifa ummæli