föstudagur, febrúar 28, 2014

28. febrúar 2014 - Græðgisvæðing íslenskrar náttúru


Þessa dagana kemur hver landeigandinn á fætur öðrum og ætlar að græða á náttúrunni, landeigendur við Geysi ætla að rukka ferðamenn fyrir að koma inn á Geysissvæðið þótt Geysir sé í eigu þjóðarinnar, landeigendur ætla að rukka þá sem skoða Dettifoss af því að ferðamenn gætu þurft að fara í gegnum þeirra landssvæði til að komast að fossinum sem er í eigu þjóðarinnar og sömu sögu er að segja um aðrar náttúruperlur.

Þetta byrjaði í fyrra. Þeir sem höfðu keypt Kerið girtu umhverfið af og settu upp skúr og byrjuðu að innheimta peninga.  Ég ók tvisvar sinnum framhjá með útlendinga sem höfðu ekki áhuga á að greiða fyrir aðgang og við héldum för okkar áfram að Geysi og Gullfossi þar sem náttúran var enn frjáls. Nú á að byrja að rukka og græða fullt af peningum á náttúrunni. Nú ætla allir að græða og fá fullt af peningum frá vesalings túristunum. Það verður rukkað við Kerið, það verður rukkað við Geysi og það verður rukkað við Dettifoss og það verður rukkað við Námaskarð. Það er talað um að rukka fyrir aðgang að Þórsmörk, Seljalandsfoss og Skógafoss og það mun ekki líða á löngu uns farið verður að rukka fyrir aðgang að Þingvöllum, að Gullfossi, að Laugaveginum og víðar. Látum helvítis túristana borga! Þeir eiga hvort eð er fullt af peningum.

Hvað sagði Jónsbók um óheftan aðgang að landinu?

Þessi nýja græðgisvæðing mun  veita fullt af fólki vinnu við að innheimta gjöld og setja upp girðingar, en ekki mjög lengi, ekki frekar en síðasta græðgisvæðing. Eftir eitt til tvö ár af græðgi mun ferðamannaiðnaðurinn hrynja eins og spilaborg, ferðamenn hætta koma til Íslands. Eftir situr fjöldi fólk með sárt ennið, menn sem veðjuðu á áframhaldandi aukningu ferðamanna á Íslandi, sem byggðu hótel og dýra afþreyingastaði.

Ég hefi ekkert á móti hóflegri innheimtu gjalda fyrir átroðning og jafnvel greiðslu fyrir einstöku viðburði þar sem krefjast þarf leiðsögu sérmenntaðra aðila. Það er hinsvegar ekki hið sama og gjald á hverjum stað fyrir sig. Setjum á náttúrupassa þar sem lagður er þúsundkall á sérhvern flugfarseðil til landsins sem rennur óskiptur til náttúruverndar á Íslandi. Innheimtum eitt hóflegt gjald sem náttúrupassa  fyrir sérhvert skemmtiferðaskip sem kemur til Íslands, en í guðanna bænum, setjið ekki upp gjaldhlið við sérhvern afleggjara af þjóðvegi eitt eins og nú stendur til að gera. Það mun valda hruni í ferðaþjónustu á Íslandi.

mánudagur, febrúar 10, 2014

10. febrúar 2014 - Neil Young


Það verður seint sagt um mig að ég sé mikil áhugamanneskja um tónlist. Á unglingsárunum var ég sein að tileinka mér nýjustu straumana í tónlist sem þá voru að ryðja sér til rúms, Bítlana, Rolling Stones og þær hljómsveitir sem komu í kjölfar þeirra þegar leið á sjöunda áratuginn og ég fór hvorki á tónleika Kinks né Led Zeppelin. Ekki bætti úr skák að fljótlega eftir að ég byrjaði til sjós varð ég fyrir varanlegum heyrnarskemmdum vegna vinnu í vélarúmi og ég hefi aldrei beðið þess bætur.  Það breytir ekki því að ég hefi löngum getað notið góðrar tónlistar. Ég hefi þó ákveðnar reglur í heiðri. Ég kaupi tónlistina sem ég hlusta á, fáu er stolið og tónlistarfólkið fær sitt frá mér. Kannski þess vegna sem ég hefi ekki efni á að fara á tónleika.

Ég heyrði fyrst í Neil Young á árunum eftir 1970 þegar ég sigldi fyrst til Bandaríkjanna og hann var ungur og myndarlegur og söng Heart of Gold og fleiri dásemdir. Hann var þó ekki einn um hituna á þeim tíma og margir tónlistarmenn og konur dreifðu athygli minni á milli sín, evrópskir jafnt og bandarískir, en framar Young voru þó þeir fyrrum félagarnir Lennon og McCartney sem gerðu dásamlega hluti á áttunda áratugnum auk fjölda frábærra söngvara og hljómsveita á borð við Chicago, Mike Oldfield, Queen og flottasta band allra tíma, Pink Floyd.

Árið 2006 kom fyrrum forsprakki  Pink Floyd til Íslands og glöð greiddi ég 9500 krónur fyrir að standa upp á endann í fleiri  klukkutíma í Egilshöll. Það var ekki boðið upp á neitt annað  og þótt ég reyndi að hvíla mig með því að vera á hreyfingu um salinn mestallan tímann var ég hætt að njóta tónleikanna í lokin og var þeirri stundu fegnust er þeim lauk og ég þurfti að ganga hálfa leiðina heim því engin voru bílastæðin nærri Egilshöll. Einum tveimur árum síðar voru svo aðrir tónleikar í Egilshöll með sama sniði þar sem Eric Clapton var í aðalhlutverki og verðið var svipað. Ég sleppti þeim tónleikum, gat ekki hugsað mér að standa upp á endann í fleiri klukkutíma. Um svipað leyti var Mark Knopfler með tónleika í Berlín og ég var í Berlín á sama tíma. Verðið fyrir dýrustu sæti með þjónustu á þá tónleika var svipað og að standa upp á endann í Egilshöll. Ekki datt mér til hugar að taka Eric Clapton framyfir Mark Knofler.

Fyrir tveimur eða þremur árum síðan var ég á tónleikum Cyndi Lauper í Hörpu. Enn og aftur var miðaverðið innan við tíu þúsund krónur, en nú á besta stað í salnum og í þægilegu sæti rétt hjá sviðinu og er söngdívan kom fram í sal fór hún upp á sætið einum metra fyrir framan mig og söng og nær frábærri söngkonu verður varla komist.

Nú er boðið upp á að kaupa miða á Neil Young þar sem einvörðungu er boðið upp á standandi pláss á 17.900 krónur hvern miða. Þetta er nærri 90% dýrara en Roger Waters kostaði mig árið 2006, en einn er þó munur á. Launin mín hafa ekki hækkað um 90% á þessum tíma, aðeins um rúmlega 50% þótt allt hafi hækkað mun meira. Fátt hefur þó hækkað jafnmikið og verðið fyrir tónleika.

Það er of mikið að greiða 17.900 fyrir tónleika með Neil Young og ég læt mér nægja að setja disk með kappanum undir geislann og njóta þess að hlusta á Harvest og Heart of gold og fleiri góð lög með honum og aurarnir fara ekkert frá mér.

mánudagur, febrúar 03, 2014

3. febrúar 2014 - Leit á sjó


Ég lenti í útkalli á björgunarskipi á sunnudag sem væri vart til frásagnar nema vegna þeirra aðstæðna sem boðið er upp á við leit á sjó.

Þarna er farið á sjó í leiðindaveðri í leit að horfnum bát. Björgunarskipið ýmist veltur eins og korktappi eða lemur í ölduna (stampar) eftir því hvernig keyrt er í ölduna. Menn (og konur) standa útkíkk og reyna að greina hvort eitthvað sé í yfirborðinu á milli öldutoppanna og ískaldur sjórinn pusar reglulega yfir fólkið á útkíkkinu. Það er ekki stætt á dekkinu og fólkið skorðar sig niður með böndum til að kastast ekki á næsta bita og marblettunum fjölgar eftir því sem líður á leitina. Auk okkar báts taka aðrir svipaðir bátar þátt í leitinni, auk minni báta allt niður í slöngubáta og þyrlur sveima yfir í von um að sjá eitthvað. Á slöngubátunum er ástandið enn verra en hjá okkur.  Þar er enginn möguleiki á að komast í skjól fyrr en komið er til hafnar að nýju.

Ekki eru þetta allt vanir sjómenn og ein og ein gusa kemur frá sumum sjálfboðaliðunum sem reyna að bera sig mannalega og halda áfram að rýna út í hafið í von um að sjá eitthvað á sjónum  þótt líkurnar fyrir því að finna eitthvað séu ekki meiri en að finna nál í heystakki.  Margir verða samt þeirri stundu fegnastir þegar komið er til hafnar og skipt um áhöfn og þeir komast frá volkinu um stund.  Við næsta útkall eru þessir sömu sjálfboðaliðar fyrstir á staðinn og tilbúnir í nýja svaðilför, jafnvel strax við næstu áhafnarskipti nokkrum klukkustundum síðar því að sjálfsögðu er hvíldaraðstaðan lítil eða engin um borð í litlu björgunarskipi.

Þetta fólk sem leggur alla þessa vinnu á sig í sjálfboðavinnu á alla mína aðdáun.  Það mætir aftur og aftur og gjarnan þegar aðstæður eru sem verstar í von um að geta bjargað mannslífum og jafnvel þótt björgunin takist verður þakklætið oft lítið, kannski sneið af flatböku eftir að verkefninu lýkur, stundum ekkert.

Á sunnudag voru t.d. tveir piltar sem voru með í erfiðu verkefni á síðastliðnu sumri og maður velti fyrir sér eftir þá ferð hvort þeir hefðu ekki fengið nóg af sjómennskunni. Í gær voru þeir komnir aftur einu sinni enn eins og svo oft í millitíðinni. 
 
Ekki má heldur gleyma því að andinn í björgunarsveitunum er mjög góður og fordómar ekki leyfilegir í hópnum. Þetta eru einfaldlega sannar hetjur.

laugardagur, febrúar 01, 2014

1. febrúar 2014 - Mannréttindi eru ekki söluvara



Í síðustu viku janúar voru samþykkt lög frá Alþingi. Þetta voru engir lagabálkar né umfangsmiklar aðgerðir. Einu orði  var bætt inn í tvær greinar hegningarlaganna, inn í 180. grein laganna þar sem fjallað um að ekki megi mismuna fólki um þjónustu, sem  og 233a grein þar sem kveðið er á um mismunun á annan hátt. Þetta eina orð var kynvitund. Nú er óheimilt að neita fólki um þjónustu af völdum þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar.  Um leið er gert refsivert að beita háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt vegna kynvitundar á sama hátt og áður var gagnvart þjóðerni, litarhætti, kynþætti, trúarbrögðum eða samkynhneigð.

Að bæta þessu eina orði inn í hegningarlögin nr 19 frá 1940 er ekki einungis mikilvægt fyrir transfólk á Íslandi heldur lífsnauðsynlegt. Svipað orðalag er þegar víða um Evrópu og talið gefa ákveðinn status um mannréttindi transfólks sem víða hefur þurft að sæta ofsóknum, misþyrmingum og jafnvel morðum. Þetta var ákvæðið sem vantaði til þess að Ísland teldist meðal fremstu þjóða Evrópu í mannréttindum transfólks en nú er það komið til allrar Guðsblessunar.

Hatursglæpir og mismunum gagnvart transfólki eru engin nýlunda í heiminum. Samkvæmt nýlegri skrá Evrópsku transgendersamtakanna (TGEU) hafa vel yfir þúsund transmanneskjur verið myrtar í þeim ríkjum heimsins þar sem tekist hefur að halda skrá yfir hatursglæpi á síðustu fimm árum og er þá ekki talið með hundruð þúsunda misþyrminga eða hatursglæpa af öðru tagi.


Ísland er ekkert undanskilið þegar hatursglæpir gagnvart transfólki eiga sér stað. Það hafa átt sér stað á Íslandi nokkur ljót dæmi um ofbeldi og misþyrmingar vegna kynvitundar og sjálf hefi ég ekki alveg sloppið við háðið og ofbeldið þótt það teljist vera minniháttar miðað við önnur dæmi á Íslandi. Með nýju lögunum er hinsvegar hægt að skrá slíka glæpi sem hatursglæpi og það eitt hjálpar mikið í baráttunni fyrir jafnrétti minnihlutahópa á Íslandi.


Frumvarpið var búið að vera nokkurn tíma í meðförum Alþingis. Við ræddum þessi mál ítarlega þegar við unnum að frumvarpinu að réttarstöðu transfólks sem varð að lögum 2012 og eftir lagasetninguna áttum við sem börðumst fyrir réttarbótum til handa transfólki góð samtöl við stöku alþingismenn, þar á meðal Eygló Harðardóttur núverandi félagsmálaráðherra sem lagði fram frumvarp svipaðs efnis haustið 2012 ásamt þingmönnum annarra flokka.


Það er full ástæða til að þakka það sem vel er gert, þar á meðal því ágæta fólki sem studdi þessa baráttu með vinnu sinni á Alþingi og þá sérstaklega Eygló Harðardóttur, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, Svandísi Svavarsdóttur og fleirum og á síðari stigum einnig Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra sem lagði málið fram öðru sinni í síðasta ári og þá sem stjórnarfrumvarp. Þá var og gleðilegt að sjá málið fá jafnvíðtækan stuðning og raun ber vitni þar sem 53 alþingismenn greiddu því atkvæði sitt en einungis þrír sátu hjá við lokaafgreiðslu frumvarpsins og ég fór að velta því fyrir mér eftir að hafa lesið athugasemdir þeirra hvort þeir teldu að mannréttindi ættu að vera söluvara.


Ég vona ekki, en orð þeirra og hjáseta særðu mig tilfinningalega, enda taldi ég þau vera baráttumanneskjur fyrir mannréttindum.