mánudagur, júlí 31, 2006

31. júlí 2006 – Hinsegindagar í Stokkhólmi

Eitt af því sem ég hreifst mjög af í stefnuskrám litlu rauðlituðu hópanna sem voru til vinstri við Alþýðubandalagið á áttunda áratug síðustu aldar, var afdráttarlaus stuðningur þeirra við fólk sem þorði að koma út úr skápnum og tjá sig um tilfinningar sínar, um samkynhneigð, tvíkynhneigð og transgender, löngu áður en samfélagið þorði að tjá sig um hlutina, hvað þá ég sem var á þessum tíma harðlokuð inni í skáp minna eigin fordóma.

Frá og með sunnudeginum 30 júlí til og með sunnudagsins 6. ágúst er Pridevikan í Stokkhólmi, viku á undan sambærilegum hátíðarhöldum í Reykjavík og mun Gay Pride gangan verða þar í borg 5. ágúst n.k. Í tilefni af hinseginvikunni birtist viðtal við Kristinu Börjesson kynningarfulltrúa hjá RFSL (Sambærilegt við Samtökin 78) í sunnudagsblaði Dagens Nyheter þar sem hún bendir á hve skammt á veg kynjajafnréttisbaráttan er komin á sænskum vinnustöðum. LGBT fólk í Svíþjóð er samkynhneigt nú þegar það er í sumarleyfi, en um leið og það mætir í vinnuna eftir sumarfrí hverfur það aftur inn í skápinn alræmda.

Ég fór að hugleiða hvernig staða þessara mála er á Íslandi eftir góða sigra í jafnréttisbaráttunni. Ég vinn hjá 600 manna fyrirtæki og við erum tvær sem erum yfirlýstar, önnur lesbísk og ég transsexual og báðar meðlimir í Samtökunum 78. Bara tvær? Það getur ekki verið! Ef 5% fólks telst vera í þessum hópi, þ.e. samkynhneigt, tvíkynhneigt eða transgender, þá eru það 30 persónur hjá þessu eina fyrirtæki. Hvar eru þá hin 28?

Ég veit að starfsmannastefna fyrirtækisins er okkur hliðholl. Það þekki ég af eigin reynslu og þeirri staðreynd að ég hefi lifað opið sem transsexual (transgender) í fjölda ára. Það hefur verið tekið hart á þeim brotum á jafnréttisstefnu fyrirtækisins sem hefur komist upp um og á Orkuveita Reykjavíkur hrós skilið fyrir gott fordæmi á þessu sviði. En samt. Við erum bara tvær af þrjátíu sem höfum þorað að láta sjá okkur utan við skápinn illræmda. Getur það verið að andrúmsloftið meðal starfsfólksins sé enn svo neikvætt að fjöldinn þori ekki að koma fram í dagsljósið?

Ég heyri iðulega talað um “Saurbæinga” og “kynvillinga” í vinnunni og þá í þeirri merkingu að átt sé við samkynhneigt fólk. Þeir hinir sömu sem nota slíkt orðbragð gera það í háði og halda að það sé í lagi að gera grín að fólki á þennan hátt, en þeir gleyma því að í hvert sinn sem slíkt orðbragð er notað, er verið að segja við þann sem enn er í skápnum: “Vertu áfram í skápnum. Þú ert í umlukinn hatri gegn þér og þínum líkum.” Ég mótmæli í hvert sinn og mun gera það áfram þótt ég gangi ekki um og kæri í hvert sinn sem slíkt er gert. Um leið er mér fullkunnugt um fólk í vinnunni sem talar um mig á versta veg í hvert sinn sem ég heyri ekki til. Mér sárnar, en læt sem ég viti ekki af því. Smám saman hefur tekist að byggja upp jákvæðan trúnað að vissu leyti um leið og tíminn hefur snúið nokkrum fyrrum andstæðingum mínum á mitt band.

Með tímanum mun ástandið lagast, en ég vil sjá fleiri koma út úr skápnum. Baráttan vinnst ekki fyrr en fólki verður alveg sama um kynhneigð eða fortíð náungans.

RFSL = Riksförbundet för sexuellt likaberättigande
LGBT = Lesbian, Gay, Bisexual, Transgender

-----oOo-----

Í dag hefði hún móðir mín orðið 82 ára og Jóna Hildiberg, föðursystir mín orðið níræð hefðu þær lifað. Þær eru báðar látnar fyrir alllöngu, föðursystir mín lést árið 1969 og móðir mín árið 2003. Blessuð sé minning þeirra. Það er um leið athyglisvert að Jóna Hildiberg fæddist sex mánuðum eftir að föðurafi minn lést þannig að hún sá aldrei föður sinn. Er hún fluttist til Reykjavíkur frá Stykkishólmi voru gerð þau mistök að hún var skráð fædd 1917 og við það sat. Alla tíð eftir þetta var hún skráð fædd 1917 og dó sem slík og þarafleiðandi fædd einu og hálfu ári eftir andlát föður síns. Það er margt sem við ættfræðigrúskararnir þurfum að huga að svo réttar upplýsingar komist til seinni kynslóða.

-----oOo-----

Hver verður númer 30.000 á nýja blogginu?

sunnudagur, júlí 30, 2006

30. júlí 2006 – 2. kafli - Upp komast svik um síðir.

Það þykir ekki við hæfi að fagna einhverju réttlæti sem á sér stað í miðju árásarstríði þar sem fjöldamorð eru framin á saklausu fólki, en þó get ég ekki annað en fagnað einu litlu dæmi slíks frá Líbanon, ekki síst vegna þess að stríðið varð þess valdandi að upp komst um svikin.

Það var í ágúst árið 1991 sem nýlega fráskilinn líbanskur faðir tveggja ára stúlku í Nordmaling í Västerbotten í Svíþjóð, fór með hana í labbitúr og tilkynnti móðurinni sama dag að barninu hefði verið rænt frá sér. Sterkur grunur komst strax á kreik þess efnis að hann hefði sent stúlkuna til ættingja sinna í Líbanon og var reyndar dæmdur og sat í fangelsi um tíma fyrir barnsránið, sem hann þó neitaði alla tíð að hafa framið.

Í síðustu viku birtist barnið í Svíþjóð eftir fimmtán ára fjarveru, í hópi flóttafólks frá Líbanon og var henni að sjálfsögðu vel fagnað af móðurinni.

http://www.dn.se/DNet/jsp/polopoly.jsp?d=147&a=562017&previousRenderType=1

-----oOo-----

Það er ekki hægt annað en að orða hlutina svo að hinn tapsári íþróttafréttamaður Morgunblaðsins, Ágúst Ásgeirsson, hafi séð rautt, er heimsmethafinn geðþekki, Michael Schumacher, bætti nokkur heimsmeta sinna með glæsilegum sigri á Hockenheim brautinni í Þýskalandi í dag. Hvað ætli gangi Morgunblaðinu til að vera með svona ótrúlega vilhallan fréttaskussa í sinum röðum á tímum sem blaðið er að reyna að skapa sér ímynd sem hlutlaust á sem flestum sviðum? Þess ber að geta að fréttinni af sigri Schumachers var nokkuð breytt nokkru eftir að hún birtist og fyrirsögninni um hundleiðinlegan kappakstur hent út og önnur fyrirsögn sett inn í staðinn. Ekki veit ég hver lét breyta fyrirsögninni, en það var örugglega ekki Ágúst Ásgeirsson.

http://www.mbl.is/mm/sport/frett.html?nid=1215217

30. júlí 2006 - Af jarðgöngum til Eyja

Eins og þessir fáu sem hafa lesið bloggið mitt að staðaldri vita, þá er ég ákaflega hrifin af gerð jarðganga allsstaðar þar sem þeirra er þörf og finnst hið besta mál að borað sé í gegnum sem flest fjöll og undir firði í þeim tilgangi að stytta vegalengdir á milli byggðarlaga. Ég tel Hvalfjarðargöng vera eina mestu samgöngubót Íslandssögunnar á eftir veginum yfir Skeiðarársand árið 1974 og fagnaði mjög ákvörðun um göng á milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar sem nú eru orðin að veruleika. Svo er um fleiri göng á borð við Vestfjarðagöngin og ekki hefi ég sett mig á móti Héðinsfjarðargöngum þótt þjóðhagslega séu þau dýr fjárfesting.

Ein eru þó þau göngin sem ég er mjög efins um, en það eru göng til Vestmannaeyja. Heyrst hafa kostnaðartölur við gerð þeirra allt frá tuttugu milljörðum til hundrað milljarða og er þá enn ekki útséð um hvort þau séu yfirleitt framkvæmanleg sökum lélegra berglaga.

Þegar Hvalfjarðargöngin voru gerð á árunum 1996-1998, reyndust þau miklu ódýrari en upphaflega var ráðgert vegna heppilegra ytri skilyrða, góðra berglaga og lítils leka úr berginu. Þá tókst að ljúka þeim á styttri tíma en upphaflega var áætlað og öll framkvæmdin tókst betur en nokkur þorði að vona í upphafi. Þó nam kostnaður við göngin rúmlega 800.000 krónum á hvern lengdarmetra ganganna á verðlagi ársins 1996. Ætli megi ekki áætla kostnaðinn rúmlega milljón á metrann á verðlagi dagsins í dag, tíu árum síðar.

Nú birtast skyndilega nýjar kostnaðartölur fyrir göngin til Vestmannaeyja og er kostnaðurinn nú kominn niður að milljóninni á hvern metra í Eyjagöngum. Samkvæmt nýjustu tölum sem Ægisdyr hf hafa birt, kosta 18 kílómetra löng göngin um 1,65 milljarða norskra króna eða 19.4 milljarða íslenskar krónur. Það er nú ánægjulegt að heyra að hriplegt gosbergið og setlögin á miðju eldstöðvasvæðinu er nú orðið sambærilegt að gæðum við bergið sem Hvalfjarðargöngin voru gerð í gegnum.

Einhvernveginn fæ ég það á tilfinninguna að þessar nýju tölur séu hreinn lobbýismi. Ef hægt er að fá ríkissjóð til að leggja fram tuttugu milljarða í gangagerð til Eyja er erfitt að hætta við, þótt langt sé eftir þegar peningarnir verða búnir. Og ekki munu Magnús Kristinsson og Árni Johnsen leggja fram krónu úr eigin vasa til þessarar framkvæmdar þótt hún stöðvist vegna vöntunar á fjármunum sem gætu reyndar í versta tilfelli numið nokkrum tugum milljarða.

Þá líst mér betur á höfn í Bakkafjöru.

laugardagur, júlí 29, 2006

29. júlí 2006 - Galdramaðurinn Þórður

Eins og ég nefndi í þriðjudagsbloggi mínu, þá heyrðist ekkert skrölt í mínum vinstrigræna Súbarú þegar Þórður ferðafélagi sat mér við hlið í fjallaferðum okkar. Ég mat þetta sem svo að Þórður væri galdramaður úr því ekkert heyrðist í drifinu þegar hann sat í bílnum.

Í gær rölti ég yfir í Kópavog og endurheimti minn ástkæra vinstrigræna Súbarú úr viðgerð og viti menn. Skröltið var horfið úr bílnum. Er ég spurðist fyrir um bilunina reyndist skröltið koma úr framdrifi hægra megin og var liður á drifinu byrjaður að gefa sig. Þegar hár og myndarlega vaxinn maður á borð við Þórð settist í framsætið hægra megin, kom ný afstaða á drifið og þar með hætti hljóðið að heyrast. Semsagt, það var annað hvort að hafa Þórð alltaf í bílnum eða skipta um hjöruliðinn.

Þótt vissulega væri gott að hafa Þórð alltaf í bílnum, var tekin sú ákvörðun að skipta um hjöruliðinn.

-----oOo-----


Ég þurfti aðeins að skreppa á mínum vinstrigræna eðalvagni áður en ég fór á vaktina, en þegar ég kom heim aftur var þessi glæsivagn búinn að leggja í innkeyrsluna og eins gott að ég var á liprum bíl með alla liði í lagi svo ég slapp framhjá honum. Ég viðurkenni að ég mældi ekki vegalengdina frá bílnum að gatnamótunum, en ég náði í myndavélina og tók mynd af flottheitunum.

-----oOo-----

Þess má loksins geta að ég hefi stækkað margar myndir á myndasíðunum mínum svo auðveldara verði að njóta þeirra.

föstudagur, júlí 28, 2006

28. júlí 2006 - Banaslys!


Í desember síðastliðnum var öryggisnefnd Orkuveitu Reykjavíkur á ferð um framkvæmdasvæði á Austurlandi þar á meðal hjá Bechtel á Reyðarfirði sem annast byggingu álvers þar eystra. Eftir góða kynningu á öryggismálum og framkvæmdum og við vorum komin í langferðabifreiðina sem ók okkur á milli staða, vorum við að spjalla saman í rútunni, einhverjir stóðu, en bílstjórinn sat og beið.
“Á ekki að keyra af stað?” spurði einhver.
“Við erum ennþá inni á athafnasvæði Bechtel og ég hreyfi ekki bílinn fyrr en þið eruð öll sest og búin að spenna á ykkur öryggisbeltin, annars fæ ég bara kæru á mig frá Bechtel” svaraði bílstjórinn.

Á þriðjudagsmorguninn varð banaslys skammt frá Hellisheiðarvirkjun, nánar tiltekið við nýja spennistöð Landsnets sem verið er að byggja til flutnings raforku frá virkjuninni. Slíkt slys er ávallt mjög sorglegt og áfall fyrir fjölskyldu og vini hins látna sem og nærstadda og þá sem koma að slysinu og skiptir þá engu hvers lenskur maðurinn er sem lést.

Þetta slys var að því leyti öðruvísi að ýmislegt bendir til að það hafi verið fyrirsjáanlegt. Samkvæmt dagblöðum virðist maðurinn sem lést hafa staðið á vörubretti framan á skotbómulyftara sem var færður til svo maðurinn gæti athafnað sig betur í 7-9 metra hæð. Við það gaf jarðvegur sig undir lyftaranum og hann féll á hliðina, maðurinn féll til jarðar og hlaut slík höfuðmeiðsl að hann hlaut bana af.

Ég fór að velta fyrir mér hvað fór úrskeiðis, ekki síst eftir að myndir frá slysstað voru sýndar í sjónvarpi um kvöldið. Það er ljóst að margt fór öðruvísi en ætlað var. Þá er ég ekki að benda sérstaklega á hjálminn sem lá við hliðina á lyftaranum á sjónvarpsmyndum. Það ber hinsvegar að hafa í huga að auðvelt er að koma fyrir hjálmi eftir að slys hefur orðið. Sömuleiðis að óbundinn hjálmur gerir jafnmikið gagn og enginn hjálmur þegar unnið er í einhverri hæð.

Ég viðurkenni fúslega að ég hefi aldrei farið á vinnuvélanámskeið á Íslandi. Mitt lyftarapróf er frá Svíþjóð og leyfi ég mér að ætla að öryggisreglurnar séu svipaðar á Íslandi og Svíþjóð. Þá hefi ég farið á öryggisnámskeið hjá Vinnueftirlitinu. Því leyfi ég mér að ætla að margt sé líkt þegar kemur að öryggismálum í þessum tveimur löndum.

Eitt grundvallarskilyrði þegar fólk er híft upp á lyftara, er að fólk sé með fastspenntan hjálm, að notuð sé viðurkennd karfa og að sá sem lyft er, sé í öryggisbelti sem fest er við körfuna. Mér sýnist í fljótu bragði að öll þessi atriði hafi verið brotin. Í tilfellum þar sem hætta er á höggi, t.d. við umferðargötu, að stuðningslappir séu úti og látnar styðja við tækið. Ég veit ekki hvort slíkar lappir hafi verið á lyftaranum, en hefði að sjálfsögðu átt að nota við þessar aðstæður þar sem manninum er lyft í margra metra hæð. Þá er að sjálfsögðu ekki hægt að færa lyftarann á meðan sem gerir ekkert til, enda hefði það bjargað mannslífi í þessu tilfelli. Það eitt að maðurinn var ekki fastspenntur í körfu, er annað veigamikið atriði, því færa má rök að því að maðurinn hafi kastast af brettinu við hnykkinn sem kom á lyftarann áður en hann féll á hliðina. Höggið hefði vafalaust orðið mýkra ef maðurinn hefði fylgt körfunni í fallinu og hjálmurinn hefði hugsanlega bjargað höfðinu.

Það er margt sem ég veit ekki varðandi þetta slys. Hver vildi færa lyftarann þegar maðurinn var í 7-9 metra hæð? Hver var ábyrgðaraðili þessa verkþáttar? Hversu mikil var tímapressan? Hversu gírugur var arðræninginn (verktakinn) sem seldi vinnu þessara manna? Hvernig var eftirliti verkkaupans háttað?

Það er óþarfi að dæma neinn í dag. Hinsvegar er nauðsynlegt að skoða málið í minnstu smáatriðum og fela síðan þar til bærum yfirvöldum að dæma hvers sökin er og senda dóminn til allra sem telja sig hafa hag af öryggismálum til góðs eða ills. Síðan má dæma hinn seka til vinnu hjá Bechtel svo hann eða hún kynnist því hvernig á að standa að öryggismálum. Einungis þannig er hægt að uppræta óþarfa slys.

Það er löngu kominn tími til að hætta að gera grín að öryggismálum.

miðvikudagur, júlí 26, 2006

27. júlí 2006 - Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.

Síðasta mánuðinn hefur miði hangið uppi í strætisvagnabiðskýlinu við Bæjarháls, því sem næst er heimili mínu. Á miðanum hefur verið tilkynning þess efnis að stofnleið S5 væri lögð niður þar til í ágúst vegna sumarleyfa. Ekki vil ég koma í veg fyrir sumarleyfi strætisvagnsstjóra með nöldri mínu þótt ég hefði fremur kosið að einhver önnur leið yrði lögð af meðan á sumarleyfi stendur en einmitt hraðferðin heiman frá mér og til miðborgarinnar, t.d. leið 1 Njálsgata-Gunnarsbraut eða leið 13 Kleppur hraðferð.

Í gærmorgun er ég var á leið til vinnu, varð ég fyrir miklu áfalli. Ég veitti því nefnilega athygli að miðinn góði var horfinn. Það var ekkert sem minnti lengur á þann dag sem strætisvagnaleið númer S5 hefur göngu sína að nýju eftir sumarleyfi strætisvagnsstjórans. Ekki bara það, heldur var glugginn á gafli biðskýlisins þar sem miðinn hafði verið límdur, horfinn líka. Þetta þótti mér hið versta mál, enda var biðskýlið horfið og hið einasta sem minnti á nýfengna frægð þess var útsléttuð malarhrúga.

Það setti ákafa sorg að mér því enginn veit hvað átt hefur, fyrr en misst hefur. Að hugsa sér öll tækifærin sem ég hefi misst af því að ferðast með stofnleið S5. Sjálf hefi ég einungis einu sinni orðið svo fræg að setja í Árbæjarstrætó, enda hefi ég búið í Árbænum í minna en tvö ár, bý í sex mínútna göngufæri frá vinnunni og tíu mínútna gang í Heiðrúnu. Einasta skiptið sem ég notaði vagninn góða, var þegar ég þurfti að sækja bílinn niður í bæ eftir að hafa fengið mér öl á kránni kvöldið áður, enda veit ég enga almennilega krá hér í hverfinu og flestar þær góðu í námunda við Ingólfsstræti.

Ég hefði örugglega farið oftar með stofnleið 5 hefði ég lent oftar í því að drekka öl í miðborginni, frekar en að gera eins og fyrrum borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem ólst upp í Árbænum og réðist á ljósastaur eftir öldrykkju skömmu fyrir kosningar.

þriðjudagur, júlí 25, 2006

26. júlí 2006 - Riddarar hringvegarins

Haustið 1996 er ég hafði nýlega flust til Íslands aftur skrapp ég nokkrar ferðir á nótaskipinu Jóni Kjartanssyni SU-111 frá Eskifirði. Þótt eldgos í Gjálp væri nýafstaðið og beðið væri flóðbylgju á Skeiðarársandi, fór ég austur á bílnum, enda var margt óvisst með þessar ferðir mínar. Þótt veðrið væri dásamlegt er ég ók meðfram suðurströndinni, breyttist það heldur betur til hins verra þegar austar dró og þurfti ég að fara mjög varlega er ég ók Hvalsnes- og Þvottárskriður, enda þá þegar komin ausandi rigning eins og hún verður verst fyrir austan. Síðan rétt slapp ég yfir hvarf á veginum í Berufirði þar sem vegurinn grófst svo í sundur seinna um kvöldið, en er ég ók Vattarnesskriðurnar kom ég að stórum stein sem fallið hafði mitt á veginn úr skriðunum fyrir ofan. Mér hætti að lítast á þetta. Ég komst þó alla leið til Eskifjarðar á mínum Heimdallarbláa Súbarú og hélt á sjóinn daginn eftir eins og um hafði verið rætt.

Á meðan ég var um borð í skipinu kom flóðið mikla yfir Skeiðarársand og ruddi í burtu vegum og brúm. Þegar afleysningu minni lauk var suðurlandsvegurinn enn lokaður eftir flóðið og þurfti ég að fara norðurleiðina til Reykjavíkur. Það var kominn vetur. Ég var með ónegld heilsársdekk undir bílnum, en kunni annars lítið að aka í snjó og hálku. Á leiðinni kom ég að tveimur flutningabílum sem höfðu farið útaf vegna hálkunnar, hinn fyrri á Jökuldalsheiði, en hinn seinni hafði oltið á leiðinni upp eftir Ljósavatnsskarðinu og voru björgunarsveitir þar við störf við að bjarga dýrmætum farminum úr gámi bílsins.

Ég stoppaði stutta stund hjá vinafólki mínu á Akureyri, en hélt síðan áfram för minni og náði loksins til Reykjavíkur seinnihluta nætur eftir fjórtán stunda ferð.

Þetta rifjaðist upp fyrir mér í gær er ég heyrði af mengunarslysi í Ljósavatnsslysi og þar sem vegurinn var lokaður í margar klukkustundir vegna slyssins. Ég fór að skoða hringveginn á korti. Það er engin varaleið ef Suðurlandsvegurinn lokast af einhverjum ástæðum og gildir það um mestalla leiðina frá Eyjafjöllum og austur til Berufjarðar, einungis hægt að snúa við og fara öfugan hring. Sömu sögu er að segja um Ljósavatnsskarðið og Vaðlaheiðina, sömuleiðis hluta af þjóðveginum í gegnum Húnavatnssýslur. Þá er ég ekki að tala um ófærð vegna vetrar og snjóa, heldur fyrst og fremst náttúruhamfarir eða slys.

Það verður vissulega mikil samgöngubót að Héðinsfjarðargöngum, en betur má ef duga skal. Með hugsanlegum göngum undir Vaðlaheiði og alvörugöng frá Bolungarvík til Ísafjarðar sem og víðar á Vestfjörðum og Austfjörðum má vissulega létta mjög á þessum viðkvæmu þáttum í vegakerfinu. Ekki má heldur gleyma nýjum vegi og göngum undir Lónsheiði. Hvernig best er að leysa önnur vandamál í vegakerfinu skal ósagt látið að sinni, en það er kominn tími til að byrja að gera eitthvað.

Ef ríkisstjórnin þarf að halda niðri vöxtum, væri nær að leggja spítalamonstrið á ís, notast áfram við lágtæknisjúkrahúsin sem fyrir eru og bæta vegakerfið. Ekki veitir af.

-----oOo-----

Ég er ekki með neinar harðsperrur í dag og langar til að labba á eitt eða tvö fjöll. Því miður er ekki á allt kosið því vinnan kallar næstu dagana og verð ég því að labba Elliðaárhringinn daglega næstu kvöld. og svo þarf ég að rölta suður í Kópavog og endurheimta eðalvagninn minn

25. júlí 2006 - Af leyndarmálum náttúrunnar


Ég hefi um nokkurra mánaða skeið þurft að búa við það ergelsi að eitthvað skrölt heyrist í drifinu á mínum vinstrigræna Súbarú. Ég hefi ekki getað fundið út orsökina, en hefi farið með bílinn á tvö verkstæði sem bæði gerðu við bílinn og 58 þúsund krónum síðar sit ég enn með skröltið í drifinu.

Á laugardaginn var hélt ég austur á Hellisheiði með Þórð sem farþega og þá heyrðist ekkert í drifinu. Í morgun bauð ég Þórði aftur far og ekkert heyrðist í drifinu. Þegar ég hafði skilað honum af mér nokkrum klukkustundum síðar, byrjaði hávaðinn aftur þegar ég var á leiðinni heim. Ég skildi bílinn eftir fyrir utan viðurkennt Súbarúverkstæði í þeirri veiku von að þeir finni ástæðuna á þriðjudag.

-----oOo-----

Guðrún Helga og Þórður eru ákveðin í að ná sér niðri á mér fyrir bloggfærslur síðustu daganna. Á mánudagsmorguninn var fólkinu safnað í minn vinstrigræna Súbarú og haldið á Helgafell ofan Hafnarfjarðar. Það hafði gleymst að taka myndavél með þegar við réðumst til uppgöngu 20. maí og nú skyldi bætt úr því.

Ég lagði bílnum úti í guðsgrænni náttúrunni og fjarri öllum mannabyggðum. Ég hafði að vísu veitt athygli brunahana eigi fjarri frá bílnum og þótt það vel til fallið að hafa brunahana úti í náttúrunni. Hafnfirðingar geta þá allavega sótt sér vatn í brunahana við Kaldársel ef kviknar í heima hjá þeim. Við héldum síðan á Helgafellið, tókum myndir, hittum álfadrottningu og fórum niður aftur. Eitthvað fannst mér grunsamlegt hve Guðrún Helga var oft að hringja í gemsann sinn, en skýringin kom í ljós þegar niður var komið. Brunahaninn hafði færst til um nokkra metra og kominn fast að mínum vinstrigræna eðalvagni. Mátti ég víst þakka fyrir að sleppa við hina þyngstu refsingu fyrir þetta hræðilega afbrot.

Mig grunar að þetta hafi verið samantekin ráð hjá Guðrúnu Helgu og Þórði og að ég sé fórnarlambið. Sönnunargögnin eru á myndasíðunni.

mánudagur, júlí 24, 2006

24. júlí 2006 - Það blæs ekki byrlega fyrir Þórði

Ég vil taka það skýrt fram áður en lengra er haldið, að meðfylgjandi mynd er ekki af hinum hávaxna og myndarlega Þórði, heldur af náunga einum vestanhafs sem þekktur er fyrir annað og verra en guðrækni og góða siði, sjálfum illvirkjanum George Dobbljú Bush.

Sunnudagurinn hefur verið haldinn heilagur eins og þykir siða á kristnu heimili, mínu og tveggja katta. Það veit ekki á gott. Ég svaf til klukkan tíu á sunnudagsmorguninn og komst svo ekki framúr rúminu fyrr en um hádegi vegna stirðleika. Það hefði mátt ætla að ég hefði verið að kljást við Stekkjastaur á laugardaginn, en ekki sambýlisfólkið, þau Giljagaur og Gilitrutt. Ofan á allt saman er ég komin með slæmt kvef, en ég veit skýringuna á því. Pollý-Gunna reiddist mér svo eftir síðasta pistil að hún sendi mér kvefpest með hugskeyti.
Ég ætla samt að klífa lítinn hól á morgun, með eða án ferðafélaganna. Það verður bara lítill hóll, rétt til að viðhalda áunnu þrekinu.

Fyrirsögn frásagnar gærdagsins af hreystiverkum Þórðar fór vel í lesendur bloggsíðna, enda ekki á hverjum degi sem baráttan við Gilitrutt kemst í fyrirsagnir. Ég ákvað því að nota nýja fyrirsögn í dag, tengda hinum sama Þórði.

-----oOo-----

Það berast okkur váleg tíðindi frá Noregi. Það vita allir að Norðmenn eru reglugerðarpúkar, enda varð allt vitlaust í Noregi þegar kóngurinn þar í landi slapp frá refsingu fyrir að aka á 71 km hraða þar sem hámarkshraðinn var 70 km. Þessir Norðmenn. Þetta minnir mig reyndar á sænskan kunningja minn sem skrapp til Noregs í sumarfríinu með fjölskylduna. Hann var tekinn fyrir að aka of nálægt næsta bíl og var sendur heim með áætlunarbílnum. Hann ætlar aldrei aftur til Noregs og berst nú fyrir því að Svíar slíti stjórnmálasambandi við Noreg. Þá er fræg sagan af Norðmanninum sem missti bílprófið sitt fyrir að aka garðsláttuvél undir áhrifum áfengis.

Nú berst enn ein fréttin frá Noregi af svipuðum toga. Er hún svo sannarlega dæmigerð fyrir reglugerðarpúka og munu nágrannar þeirra í austri og vestri hlæja dátt næstu dagana.

-----oOo-----

Ég rakst á góða mynd á einhverjum unglingavefnum í gær. Myndin lýsir ágætlega hvað ónefndur Bandaríkjaforseti er að gera þjóð sinni undir yfirskyni baráttunnar gegn hryðjuverkum. Muna bara að það þarf að klikka á hana til að fá hana stærri.

sunnudagur, júlí 23, 2006

23. júlí 2006 - Hverju reiddist Gilitrutt?


Um hádegi á laugardegi var kominn tími á nýja fjallgöngu því nú skyldi Hengillinn klifinn og tækifærið notað og heilsað upp á jólasveininn Giljagaur og hann áminntur um góðar gjafir í skóinn um næstu jól. Guðrún Helga komst ekki með og því fór ég ásamt ferðafélaga einum sem óþarfi er að nefna, en við skulum kalla hann Þórð. Þórður þessi er hár maður vexti, ljóshærður og þrekinn, semsagt óskaprins allra ungra meyja.

Við héldum úr Árbænum á mínum vinstrigræna Súbarú og héldum austur, framhjá Hellisheiðarvirkjun og að skíðaskála þeim við Kolviðarhól sem kenndur er við Víking. Þar var bílnum lagt og haldið áfram fótgangandi og klifrandi og gekk ferðin vel framanaf. Við fórum framhjá Sleggju og upp á Húsmúlann, fikruðum okkur eftir einstigi í átt að Henglinum og Þórður kallaði reglulega í Giljagaur vitandi að hann var þarna einhversstaðar.

Er við komum að heilmikilli klettaborg sem mig grunar að sé kennd við Sleggjubeinsskarð, birtist sambýliskona Giljagaurs, hún Gilitrutt, þreif í Þórð og vildi fá hann til eignar. Hann vildi hinsvegar ekkert með hana hafa og bara ræða málin við Giljagaur undir fjögur augu um hvað væri hæfilegt í skóinn fyrir næstu jól. Þá reiddist Gilitrutt og hrinti Þórði útaf einstiginu sem hann hafði verið að fikra sig eftir svo hann rann á rassinum á fullri ferð niður í grjóturðina fyrir neðan. Ég var komin yfir, þakkaði almættinu fyrir að Gilitrutt ýtti ekki Þórði niður vestanverðunni þar sem voru hundruð metra niður á fastlendi, en gat ekkert frekar gert Þórði til bjargar, greip í farsímann og reyndi að hringja í Pollý-Gunnu sem hafði áður lofað að hafa tilbúnar þrjár þyrlur til björgunar Þórði. Það reyndist rangt. Það var alltaf á tali hjá Pollý-Gunnu og þarna lá vesalings Þórður í urðinni.

Úr því ég gat ekkert gert frekar Þórði til hjálpar, hélt ég för minni áfram í átt að sjálfum Henglinum, hágrátandi og vissi vart mitt rjúkandi ráð. Það var fremur einmanaleg ganga og erfið enda er ég enn með gamlar harðsperrur sem ekkert virðast lagast og því ákvað ég að snúa við er ég kom að síðasta áfanganum upp á sjálfan Skeggja og hélt eftir ómerktu skarði sem ég sá í átt að Innstadal. Ekkert hafði ég í höndunum sem gat sagt mér réttu leiðina því Þórður tók öll kort og gépéessa með sér í fallinu. Ég fann þarna ágætis einstigi sem ég taldi mér óhætt að fikra mig eftir, en eftir allnokkra stund við sífellt verri aðstæður fór ég að skoða sporin sem voru í þessu einstigi og reyndust þau öll vera eftir kindur. Einhvernveginn tókst mér að mjaka mér úr þessum aðstæðum, illa lyktandi rauðar ár og annan ósóma uns ég komst í Innstadal.

Úr litlu gili undir Sleggjubeinsskarði veitti ég athygli reyk. Ahaa, útilegumenn á ferð hugsaði ég með mér og er ég nálgaðist, reyndist Landroverjeppi staðsettur við gilið. Ekki þorði ég að hóa hátt af ótta við að útilegumennirnir yrðu varir við mig og læddist síðustu metrana að fólkinu sem gat hugsanlega verið að grilla nýveitt lambakjöt.

Það varð mikill léttir er ég loksins sá fólkið, einn jarðfræðinganna hjá Orkuveitunni var ásamt frú sinni að grilla vel fengið lambakjöt úr Nóatúni og þarna sat Þórður í góðu yfirlæti og reyndi að éta björgunarfólk sitt út á gaddinn. Ég þakkaði Gretari og Önnu Dís kærlega fyrir veitta björgun og dró Þórð frá grillinu og áleiðis niður að Víkingsskála og í minn vinstrigræna Súbarú sem hafði beðið þolinmóður eftir okkur í sex klukkutíma og héldum við síðan til Reykjavíkur eftir að hafa skoðað aðeins virkjunarsvæðið.

Merkilegt hvað starfsfólk Orkuveitunnar hefur gaman af að vera í vinnunni í frítímanum sbr. Gretar sem er á Hengilssvæðinu alla daga í vinnutímanum og fer svo í útilegu á Hengilssvæðið um helgar.

Auðvitað voru teknar myndir og sjást þær í myndaalbúmi merktar 2.4.4. Hengill 22. júlí 2006

laugardagur, júlí 22, 2006

22. júlí 2006 – Tvö ár af bulli

Nú eru liðin tvö ár frá þeim tíma er ég byrjaði að blogga. Það var 21. júlí 2004 sem ég fékk hana Pollý-Gunnu til að aðstoða mig við að setja upp bloggsíðu á blog.central.is sem þá var stjórnað af ungum tölvunarfræðinemum sem dunduðu sér við bloggið í frístundum og sem hluta af náminu í skólanum. Takk Gunna.

Upphaflega setti ég mér það markmið að reyna að blogga annan hvern dag, en fljótlega varð þó ljóst að sú ætlun mín stæðist ekki, því svo margt lá mér á hjarta. Á síðastliðnu hausti tóku nýir eigendur að blog.central.is sig til, hentu út ýmsum aukahlutum þar á meðal historik, fylltu bloggið með auglýsingum og kröfðust þess að ég greiddi fyrir að fá aukahlutina aftur inn. Ég gerði það og hélst það inni í einhverjar vikur síðasta vetur, en brátt fór allt á sömu leið.

Vegna þessarar ófyrirleitni hjá blog.central.is hætti ég frekari pistlaskrifum hjá þeim, en byrjaði með nýtt blogg um síðustu jól á blogspot.com. Þar hefur allt gengið mun betur, og er ég sátt við skiptin. Þá telst mér til að heildarfjöldi heimsókna á gamla bloggið hafi verið um 72944, en frá því um síðustu jól hefi ég fengið um 28404 heimsóknir á nýja bloggið eða samtals um 101348 heimsóknir að eigin innliti meðtöldu.

Frá þriðja degi hefi ég því bloggað daglega og stundum oftar en einu sinni á dag. Því ætla ég að heildarpistlafjöldi sé um 750 frá upphafi, en þessi pistill er númer 219 hjá blogspot. Þessir 750 pistlar hafa verið af ýmsum toga, mikil pólitík þar sem ég hefi lagt Framsóknarflokkinn í einelti. Hann á það reyndar skilið, enda með alltof mikil völd miðað við atkvæðamagn á bakvið völdin. Því fyllist ég stolti í hvert sinn sem ég heyri Framsóknarmann kvarta yfir því að flokkurinn sé lagður í einelti og eigna mér hluta heiðursins. Auk pólitísku pistlanna hafa flestir pistlar verið tómt bull, en stöku sinnum ratast kjöfugum satt orð á munn og á það líka við um mig. Mér hefur tekist að grobba mig aðeins af afrekum fyrri ára, sagt sögur af sjónum og af skemmtilegum samferðamönnum í lífinu, bæði lífs og liðnum.

Nokkrir samferðamenn mínir hafa hvatt mig ákaft til að hætta þessu bulli. Ég skil ótta þeirra vel. Ég myndi líka biðja pistlahöfund að hætta skrifum ef ég hefði eitthvað að óttast. Ég ætla því að láta orð þeirra sem vind um eyrun þjóta og halda áfram að bulla, halda áfram að leggja Framsóknarflokkinn í einelti og svo er aldrei að vita nema eitt og eitt sannleikskorn fljóti með svo ekki sé talað um myndirnar mínar.

Ég er enn með harðsperrur eftir Esjugönguna á fimmtudag. Ég verð orðin góð til næstu göngu um hádegi á laugardag.

föstudagur, júlí 21, 2006

21. júlí 2006 - Jólasveinn á ferð?


Það var haldið á bæjarhól Reykvíkinga í gær, þennan fagra hól sem ég hefi haft fyrir augunum hálft lífið, en dreymt hinn hlutann, þar sem móðurætt mín veðurbarin og vindþurrkuð, ól aldurinn mann fram af manni og konu fram af konu. Ég er að sjálfsögðu að tala um Esjuna. Þótt ég hafi haft hana fyrir augunum öll þessi ár, hafði ég aldrei klifið hana og nú var kominn tími til.

Guðrún Helga og Þórður sjóari komu heim til mín og ræstu mig af værum blundi eftir næturvaktina um hádegisbilið og svo var lagt í hann, bílnum lagt að Mógilsá með nesti og nýja skó og haldið á brattann. Þetta var erfið ferð í blíðskaparveðri. Ég var enn dálítið þreytt eftir næturvaktina og var alls ekki í góðu formi fyrir erfiða fjallgöngu, en lét mig samt hafa það að klifra fjallið með hvíldum. Og við klifum hærra og hærra. Stundum fór ég að velta því fyrir mér hvort ég væri einasti auminginn á fjallinu þennan dag, svo margt fólk fór framúr okkur og á tímabili var mannmergðin slík að ætla mátti að við værum að ganga í Gay Pride á Laugaveginum.

Hærra komumst við og hærra. Við þurftum að klífa síðustu klettana upp Þverfellshornið áður en við komumst alla leið á toppinn. Þangað komumst við með erfiðismunum og skráðum nöfn okkar í bók sem þar var geymd.

Þegar upp var komið var ekki farið að hlaupa niður aftur, heldur var stefnan tekin á Hábungu. Það var nokkur leið þangað og fremur seinfarin. Þó mættum við manni einum sem þar var einn á ferð. Er hann nálgaðist okkur sáum við að hann var rauðklæddur, með rauða húfu og mikið alskegg. Slíkur maður á toppi Esjunnar getur vart verið af okkar sauðahúsi og þóttumst við vita að þetta væri heimamaður á fjallinu, einn hinna frægu bræðra sem heimsækja okkur um hver jól.

Við héldum áfram og brátt komum við að snjóskafli. Fylgdarfólk mitt gladdist mjög við þetta og var snarlega sett upp húfa kennd við Kimi Raikkonen eða annan álíka fýr og þau síðan mynduð í bak og fyrir. Ég lét mér þó fátt um finnast og vildi halda för okkar áfram að Hábungu. Brátt fór Guðrún Helga að kvarta og tilkynnti okkur að hún þyrfti að sækja barnið sitt á leikskólann. Í hógværð minni lét ég sem þetta væri heilagur sannleikur þótt ég vissi mætavel að hún ætti ekkert barn á leikskóla. Það var þó ekkert annað í spilunum en að snúa við og halda til baka í átt að Þverfellshorni og síðan niður af fjallinu. Við hittum einn breskan náunga sem var í bol sem í fyrstu virtist vera Rassenalbolur og vildi ég taka mynd af honum fyrir Polly sem komst ekki með á fjallið. Það var sjálfsagt, en Bretinn neitaði því þó að bolurinn væri frá Rassenal. Við héldum svo áfram niður í fylgd stjórnarformanns EFFELL grúpp og fjölskyldu hans og gekk ferðin vel eftir það, ef frá er talið hrufl og mar sem ég hlaut á niðurleið eftir nærri sjö klukkutíma göngu.

Myndir frá ferðinni prýða svo myndaalbúmið mitt.

-----oOo-----

Nú eru komin 2 ár síðan ég byrjaði að blogga og mun ég tjá mig um það nánar að kvöldi, því eitthvað verð ég að skrifa á föstudagskvöldið.

fimmtudagur, júlí 20, 2006

20. júlí 2006 - Sörrý stelpur, ekkert blogg í nótt

Þegar ég mætti á næturvaktina mína reyndist tölvusambandið við hinar ýmsu dælustöðvar vera í lamasessi. Svo er enn, þ.e. sumt komst í lag, en annað var tengt inn á PC vélar til bráðabirgða fyrir nóttina. Þar sem engar viðvaranir eru tengdar inn á þær, get ég ekki einu sinni lokað öðru auganu yfir blánóttina. Þetta er skelfilegur þrældómur. Þvílík fórn sem ég færi Reykvíkingum til handa. Þetta veldur því að skáldskapargyðjan mun ekki vera með mér á vaktinni og því verður mjög fátæklegt blogg að sinni.

Annað kvöld verð ég komin í helgarfrí og væntanlega búin að fá mér í glas á þessum tíma og nýbúin að skola af mér svitann eftir hetjudáð dagsins. Þá verður sko bloggað!!!

miðvikudagur, júlí 19, 2006

19. júlí 2006 - Hreinsunarátak Sjálfstæðisflokksins.....

fór fram í Breiðholtinu í gær. Það hófst með því að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson setti á sig hjálm, gleymdi að draga andlitshlífina fyrir og hóf að háþrýstiþvo blátt veggjakrot. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra. Brátt kom rauður grunnurinn í ljós undan málningunni og ljóst að maðurinn hafði farið offari í hreinsunarátakinu. Gísli Marteinn sást á bakvið og var hann óvopnaður sem var kannski eins gott, því ef hann fer jafn óhönduglega með riffil og Vilhjálmur fer með háþrýstibyssu, er mikil hætta á að eitthvað fari úrskeiðis. Ekki veit ég hvort það sé táknrænt, að Gísli vill skjóta á allt sem kennt er við máva, en Vilhjálmur býr einmitt við Máshóla.

Þeir félagar, Gísli og Vilhjálmur, hafa hótað að halda átakinu áfram. Sjálf er ég búin að yfirgefa Gólanhæðirnar fyrir allnokkru og flutt í næsta hverfi fyrir norðan. Þar hafa þeir félagar þegar tekið til höndunum með því að minnka verulega þjónustuna við strætisvagnafarþega. Hvað frekara hreinsunarátak af þeirra völdum þýðir fyrir íbúa Árbæjarhverfis veit ég ekki, en ég óttast hið versta.

-----oOo-----

Í gær flutti flugvél á vegum Utanríkisráðuneytisins fjölda fólks frá Damaskus í Sýrlandi til Kaupmannahafnar. Með í för voru nokkrir misgáfaðir fréttamenn. Ekki sá ég mikinn tilgang í ferð þeirra því þeir spurðu heimskulegra spurninga og tóku að auki upp pláss frá einhverjum sem hefðu vafalaust viljað komast með vélinni frá Damaskus á öruggari stað. Það hefði að auki verið nóg að spyrja þessara spurninga við komuna til Keflavíkur. Var þetta kannski enn eitt dæmið um gúrkutíð íslenskra fréttamanna?

þriðjudagur, júlí 18, 2006

18. júlí 2006 - AumingjabloggÞað verður fátt sagt að sinni. Ég var á dagvakt allan daginn og hafði ekkert hugsað út í blogg þegar ég kom heim. Ég var rétt komin heim af vaktinni þegar ég fékk heimsókn og þurfti svo að hlaupa í burtu að bjarga Hrafnhildi ofurkisu niður úr tré, en einn stór og mikill nágrannaköttur hafði reynt að koma fram vilja sínum við hana með þessum afleiðingum. Fyrir bragðið var ég gjörsamlega tóm í höfðinu er ég átti að semja eitthvað, því eins og haft er eftir Wittgenstein: “Um það er menn eigi vita, eiga þeir að þegja.”

Athugið, að til að fá aðeins skýrari mynd er bara að klikka á þær.

mánudagur, júlí 17, 2006

17. júlí 2006 - Átök fyrir botni Miðjarðarhafs


Aðalfréttin á textaræmu NFS sunnudaginn 16. júlí 2006:

“Að minnsta kosti níu Ísraelar létust í sprengjuárás Hespollah-samtakanna á lestarstöð í Haifa í morgun.”

Eins og sjá má, er þetta frétt sem er samin í Ísrael. Hvergi var minnst á fjölda Líbana sem féllu í loftárásum Ísraels á Beirút. Það hefur enginn áhuga fyrir afdrifum araba, hvorki Palestínumanna né Líbana. Íslenskar fréttastofur, sérstaklega hinar svokölluðu frjálsu fréttastofur, eru ekkert betri en þær bandarísku. Þær túlka bara fréttir sigurvegaranna. Í fréttum ríkisútvarpsins mátti þó heyra að nærri fjórir tugir Líbana hefðu fallið í árásum Ísraela í kjölfar árásarinnar á Haifa. Hvað hafa þá margir fallið samanlagt í þessu árásarstríði Ísraels á hendur nágrönnum sínum?

Þegar haft er í huga að stríðið byrjaði vegna tveggja manna sem voru í fullu starfi sem byssufóður, þá spyr maður þess hvaða líkindi eru á milli þessa stríðs og annars þar sem pólskir landamæraverðir voru taldir hafa ráðist á granna sína í ágústlok árið 1939.

-----oOo-----

Mér finnst það flott hvernig Valgerður Sverrisdóttir tók á málunum þegar Norðmenn vildu ekki lofa Íslendingum að fara með sér til Damaskus frá Líbanon. Afstaða Norðmanna er skiljanleg í ljósi þess að þeir eru að verja sína hagsmuni og norskra ríkisborgara, ekki íslenskra. Það hefði sennilega allt orðið vitlaust í Noregi hefðu Norðmenn boðið Íslendingum að fara á undan í flugvél sem er að sækja Norðmenn.

Til að höggva á hnútinn leigði utanríkisráðuneytið flugvél til að fara til Damaskus og sækja þessa sex íslensku strandaglópa og bauð öðrum Norðulandabúum að fylla vélina með Íslendingunum. Þetta er vissulega dýrt ævintýri, en öðru eins hefur verið tjaldað til að koma fólki í öruggt skjól, auk þess sem þetta er snilld að snúa við málunum sér í hag. Í stað þess að verða skuldbundnir Norðmönnum, fá aðrir að njóta gestrisni ríkisstjórnar Íslands.

-----oOo-----

Hún Tárhildur kisa hefur verið lasin að undanförnu, étið illa og verið aum og vesældarleg. Á laugardagskvöldið tók hún upp á því að byrja að æla hér og þar, svo mjög að mér hætti að standa á sama. Áður en ég fór á vaktina á sunnudagsmorguninn þurfti ég að byrja á að þrífa upp nokkrar ælur eftir kisuna sem hún hafði skilið eftir sig um nóttina. Þá var hún óttalega vesældarleg og ég vissi ekki mitt rjúkandi ráð, hvað ég gæti gert í málinu.

Að reyna að fá einhvern til að leysa sig af á vaktinni á sunnudegi er nánast vonlaust. Því reyndi ég hvað ég gat að fá einhvern til að kíkja heim og á kisuna. Ekkert gekk og þegar vaktinni loksins lauk flýtti ég mér heim og bjóst við hinu versta. Það varð þess ánægjulegra að mæta tveimur glorhungruðum kisum kvartandi og kveinandi yfir lélegu atlæti þegar heim var komið. Tárhildur er að vísu enn óttalega horuð og vesældarleg eftir lasleika síðustu daganna, en allt horfir til betri vegar. Ég hafði ekki ekki bara skilið eftir of lítið handa tveimur kisum í svanginn, heldur hafði ég og gleymt að kveikja á útvarpi og sjónvarpi og þannig tekist að hafa af þeim þá ánægju að sjá heimsmethafann geðþekka bæta heimsmet sín í Formúlu saumavél. Skamm ég.

sunnudagur, júlí 16, 2006

16. júlí 2006 – Stofnleið númer fimm

Þá er hin nýja borgarstjórn Reykjavíkur farin að taka til hendinni. Nú skal tekið til á Klambratúni og lögð niður stofnleið fimm hjá strætó. Daginn eftir að þessi sparnaður er tilkynntur, segir Mogginn svo frá að samdráttur farþega hjá Strætó bs hafi einungis verið 1.7% síðasta árið. Er það virkilega nóg til að leggja af heila stofnleið?

Það sem enn hefur komið fram hjá þessari nýju borgarstjórn er pópúlismi. Ekkert annað. Hreinsa Reykjavík. Var Reykjavík virkilega svo góð á tíma R-listans að ekki sé hægt að bæta um betur? Ég skal viðurkenna að ég var hrifin af hugmyndinni um mislæg gatnamót á mótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar, en þau áform gat Sjálfstæðisflokkurinn framkvæmt á árunum milli 1965 og 1978, en gerði ekki. Núna var þetta aftur orðið aðalkosningamálið, enda búið að rífa rampinn við Tollstöðina sem átti að verða að hraðbraut gegnum miðbæinn í kosningaplaggi Sjálfstæðisflokksins frá 1965.

Það sem sýnir best aumingjaskapinn er niðurlæging strætisvagnakerfisins. Það eru enn til börn, aldraðir og öryrkjar í Reykjavík og þeim þarf einnig að koma á milli hverfa þótt þau hafi ekki efni á einkabílnum. Sjálf hefi ég sárasjaldan notast við strætó á undanförnum árum, en þykir gott að geta gripið til hans þegar svo stendur á að ég hafi skilið bílinn eftir í bænum. Það er þó betra en að aka ölvuð heim. Þetta ættu Sjálfstæðismenn að hafa lært af biturri reynslu vorsins. Sjálf hefi ég oft gengið framhjá nýju biðskýli strætó við Bæjarháls að undanförnu og eftir að nýtt leiðarkerfi tók gildi. Það voru nánast alltaf farþegar að bíða eftir strætó þar inni þótt einungis hafi verið tíu mínútur á milli vagna. Núna er enginn farþegi lengur, en hvítur miði þar inni sem tilkynnir okkur að ferðirnar hafi verið lagðar af tímabundið. Þetta þykir mér synd.

Sjálfstæðismenn hljóta að geta gert betur en þetta, auk þess að snúa styttunni af Einari Ben við svo hann þurfi ekki lengur að snúa baki í sólinni og umferðinni af stalli sínum á Klambratúni.

Ég er farin að bíða eftir nýjum borgartjórnarkosningum. Þar mun ég greiða atkvæði gegn því að Framsóknarflokknum verði boðin aðild að nýjum R-lista. Hann á það ekki skilið.

laugardagur, júlí 15, 2006

15. júlí 2006 - Gengið á Þorbjörn


Litli gönguhópurinn gekk á Þorbjörn á föstudagskvöldið. Það þykir ekki mikil þolraun og oft höfum við komist í verri aðstæður en þessa kvöldstund. Það var hinsvegar rigning og leiðindaveður er lagt var að heiman, en er við komum að rótum fjallsins hafði létt svo mikið til og lygnt að uppgangan varð létt og löðurmannleg.

Eitt þótti okkur fremur hvimleitt á fjallinu. Það var sóðaskapurinn, ekki einungis sá sóðaskapur sem fylgir allskyns hernaðartækni og mætti rukka ónefndar ríkisstjórnir fyrir, heldur og tómar plastflöskur og rusl eftir göngugarpa nútímans. Rétt eins og að bæjarstjórn Bessastaðahrepps, hvað sem hann heitir nú á þessum síðustu og verstu tímum mætti senda vinnuskólann sinn í að hreinsa fjörurnar, mætti bæjarstjórn Grindavíkur senda vinnuflokka upp bæjarhólinn sinn til tiltektar. Þetta fjall gæti orðið algjör perla ef rétt yrði að staðið og það auglýst sem heppilegt fyrir hressilegar heilsubótargöngur, t.d. fyrir eða eftir bað í Bláa lóninu. Svo má Hitaveita Suðurnesja alveg koma fyrir gestabók á toppnum fyrir gesti og gangandi.

Ég tók nokkrar myndir og setti á myndavefinn minn.

föstudagur, júlí 14, 2006

14. júlí 2006 - Af Framsóknarflokknum

Ég verð að viðurkenna að ég hefi ekki miklar áhyggjur af Framsóknarflokknum þessa dagana þótt hann virðist vera í forystukreppu. Einungis er rúmur mánuður þar til formaðurinn stígur af stalli sínum lúinn og rúinn trausti eftir stuðning við innrásir og borgarastyrjaldir í fjarlægum löndum og enn hefur einungis eitt framboð fram til formanns. Sá formannskandidat er þó eldri í árum en fráfarandi formaður sem kominn er að fótum fram. Er Framsóknarflokkurinn farinn að líkjast kínverska kommúnistaflokknum í mannavali þessa dagana. Það getur verið að Framsóknarmönnum finnist Jón Sigurðsson vera heppilegur formaður, en fyrir okkur hin er hann bara gamall og lúinn flokksgæðingur á sjötugsaldri sem hefur litla reynslu af að standa í eldlínunni og vafamál hvort hann muni nokkru sinni ráða við þetta embætti. Hann er einfaldlega fulltrúi gamla tímans í flokknum.

Ástandið er lítt betra hjá varaformanninum. Bæði núverandi varaformaður og hinn kornungi mótframbjóðandi eru komin vel yfir fimmtugt þótt mótframbjóðandann vanti ár í að ná mér í aldri svo hún telst barnung og vart nógu þroskuð til að gegna svo mikilvægu embætti sem felst í varaformennsku í Framsóknarflokknum.

Verður þetta svo? Siv Friðleifsdóttir er áratugnum yngri og ætlar sér frama í flokknum. Þá hefur hún verið óvenjudugleg að auglýsa sig í fjölmiðlum án þess að hafa neitt fram að færa síðustu dagana svo eitthvað býr undir. Það kæmi mér ekki á óvart þótt Siv byði sig fram til formanns með Guðna sem varaformannsefni.

Mér skilst að Siv hafi bjargað Framsóknarflokknum frá hruni 1995, rétt eins og Valgerður gerði 2003. En nægir það í dag? Ég er ekki viss. Kannski er einfaldast að leyfa flokknum að deyja drottni sínum í friði.

-----oOo-----

Ég setti inn nokkrar myndir í albúmið mitt á miðvikudagskvöldið og er sá kaflinn sem merktur er Hampsons með skýringartextum að nokkru leyti. Þar er fjallað vítt og breitt um heimsókn mína til ættingjanna í Reykholtsdalnum (Rochdale) í síðustu viku og afleiðingar heimsóknar minnar. Mér skilst að ekki sé lengur þorandi að bjóða mér í heimsókn, önnnur eins rigning hefur ekki sést frá síðustu öld og ölið kláraðist.

-----oOo-----

Loks fá Viktoría litla Bernadotte og franska þjóðin hamingjuóskir í tilefni dagsins.

fimmtudagur, júlí 13, 2006

13. júlí 2006 – Gúrkutíð


Þegar fyrsta frétt í ríkisútvarpinu byrjar með orðunum: “Sif Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra segir ...”, veit ég að það er gúrkutíð í fjölmiðlum. Þannig byrjaði hádegisfréttatíminn í útvarpinu einn daginn í vikunni og þar með var mér það ljóst að það væri ekkert í fréttum. Það er heldur ekkert í fréttum af mér.

Ég var að dunda mér við að útbúa geisladiska með myndum í gær og senda út um hvippinn og hvappinn og undirbúa þannig að hreinsa vel út úr tölvunni hjá mér. Á millum þess dundaði ég mér við að klappa köttunum og sofa aðeins meira áður en ég fór á næturvaktina.

Jú, eitt gerði ég. Ég setti inn fjölda nýrra mynda á myndavefinn minn, myndir frá fundi TGEU í Manchester, en einnig setti ég inn allnokkrar myndir frá opinberri heimsókn minni til Halifaxhrepps og frá öldrykkju með frændfólki mínu í Reykholtsdalnum (Rochdale). Einnig setti ég inn mynd sem sönnunargagn þess að rollurnar í Halifaxhreppi eru alveg jafnheimskar og þær í Lundarreykjadalnum. Með öldrykkjunni er kannski komin skýringin á magakveisunni sem ég þjáðist af.

Ég á enn eftir að setja inn texta með fjölda mynda, en mun gera það eftir því sem ég nenni.

miðvikudagur, júlí 12, 2006

12. júlí 2006 - Allt á afturfótunum

Ég eyddi gærdeginum í að taka afrit af myndum og gögnum í tölvunni hjá mér áður en ég hreinsa til í henni. Um leið ætlaði ég að taka afrit af öllum þeim myndum sem ég hefi tekið á hinum ýmsu TGEU fundum, en það hefur heldur betur gengið illa. Ég var búin að skrifa heildarafrit á fjölda diska sem ég ætlaði að senda með sniglapósti til hlutaðeigandi, en þegar ég var búin að ljúka verkinu, áttaði ég mig á að ég hafði gert slæm mistök og ekki safnað nema stórum hluta þeirra mynda sem ég ætlaði að senda. Fremur en að senda það sem ég hafði þegar skrifað, henti ég tuttugu diskum í ruslið og skrifaði allt upp á nýtt. Fyrir bragðið er bloggið óskaplega fátæklegt.

Ekki get ég gefið þessa diska. Hver vill svo sem eiga geisladiska af tugum furðufugla af mínu tagi samankomna á fundum eða þá drekkandi öl á vafasömum slóðum í skemmtanahverfum evrópska stórborga. Ekki ég! Ef einhverjir vilja svala forvitni sinni, þá er slíkar myndir að finna í myndaalbúminu mínu undir liðum númer 3.1, 3.2 og 3.3. þar sem nýjustu myndirnar eru samankomnar.

-----oOo-----

Þá er blessaður drengurinn hann Syd Barret farinn yfir móðuna miklu. Hann var vafalaust hinn ágætasti piltur, en mikið skelfing held ég að heimurinn hefði farið margs á mis, ef hann hefði ekki þurft að yfirgefa Pink Floyd á unga aldri. Allavega er ég sannfærð um að Roger Waters hefði aldrei náð eins langt eins og hann gerði ef Syd Barret hefði haldið sönsum. Annars var dálítið forvitnilegt að að heyra Guðna Má og fleiri tönnlast í sífellu á að Syd hefði látist fyrir tveimur dögum þótt þegar hafi dánardagur hans verið kominn á alfræðisafnið Wikipedia sem 7. júlí. “Couple of days ago” getur nefnilega verið dálítið teygjanlegt hugtak þegar ekki er vitað nákvæmlega hvenær þau orð voru sögð.

þriðjudagur, júlí 11, 2006

11. júlí 2006 - Magakveisa

Þær hafa verið erfiðar tvær síðustu næturvaktirnar. Ekki er það vegna mikils vinnuálags, heldur sökum þess að ég hafi orðið að sæta lagi til að ná af einu settinu yfir á annað. Eftir seinni næturvaktina fór vandræðunum eitthvað að linna og grunar mig að ástandið fari að lagast. Ég hefi allavega verið laus við vandræðin og Gustavsberg frá hádegi á mánudag.

Með því að að ég er að hressast, hefur andlega þrekið sömuleiðis batnað. Ég ætlaði að setja inn nokkrar myndir í kvöld, en borðtölvan er orðin slíkur garmur að ég verð sennilega að því fram á miðvikudag ef það tekst þá.

mánudagur, júlí 10, 2006

10. júlí 2006 - Wetherspoons

Tim Martin er stór maður og mikill um sig, tveir metrar á hæð. Þegar hann þvældist á milli skóla á yngri árum voru hans helstu áhugamál að spila squash, (hvað sem það nú er) drekka öl og æfa lyftingar. Fyrir bragðið þótti hann fremur lélegur námsmaður.

Kennari einn að nafni Wetherspoon sem reyndi að bæta atferli hans, lét svo um mælt að Tim Martin væri gjörsamlega glataður nemandi og að ekkert yrði úr honum. Tim Martin tókst samt að skrapa saman aurum og kaupa sér krá skömmu fyrir 1980. Í dag eru krár í eigu Tim Martins orðnar yfir 650 um allt Bretland, lausar við óþarfa tónlist, margar reyklausar, sami matseðill allsstaðar og því ódýrt að fá sér snæðing þar inni.

Þótt krár þessar beri hin ýmsu nöfn, er þó samheiti þeirra hið sama og fyrirtækisins sem rekur þær og lýsir það ágætlega skemmtilegu hugmyndaflugi stofnandans, en þær bera nafn kennarans sem skammaði Tim Martin forðum daga, Wetherspoon.

Ég ætla að vona að Wetherspoon sé ekki ábyrgður fyrir magakveisu þeirri sem hefur hrjáð mig undanfarna þrjá daga, enda borðaði ég síðustu stórsteikina í Englandi á veitingastað sem er kenndur við miklu virðulegri mann en nýsjálenskan kennaragarm, sjálfan Winston Churchill.

sunnudagur, júlí 09, 2006

9. júlí 2006 - Lessan á Mannshestaflugvelli

Ég er búin að losa eitthvað úr töskum, sumt komið á herðatré og ein þvottavél búin og ég komin á vaktina.

Ferðin heim var tíðindalítil. Mearl eiginmaður Sonju skutlaði mér á flugvöllinn og reyndist ferðin eingöngu taka rúman hálftíma í stað þess klukkutíma sem rætt var um. Hann keyrði með öðrum létt drengurinn, enda greinilega að verða búinn að ná sér eftir síðasta mótorhjólaslys. Það þýddi um leið að ég þyrfti að sitja á flugvellinum í fulla þrjá tíma áður en flugvélin færi í loftið. Þegar ég kom að örygginu var ég komin með bullandi ógleði og þráði Gustavsberg fremur öllu öðru. Eftir að hafa afrekað að standa í biðröð í rúman hálftíma var loksins komið að mér að fara í gegn. Þá tók ekki betra við (eða verra myndu einhverjar segja). Blessuð konan sem stóð handan við píphliðið var greinilega ekkert ánægð með að ekkert píp heyrðist og rak mig til baka. Ekkert píp heyrðist og enn einu sinni var ég rekin út í hliðið og til baka.

Mér fór að leiðast þófið, en þá tók næsta atriði við því nú ákvað hún að þukla mig. Það var ekkert venjulegt þukl. Þar sem hún dundaði sér við að káfa á brjóstunum á mér fór ég að velta fyrir mér hvort hún hefði séð mig niður á Canal Street (Gay Village) um fyrri helgi. Hún lét sér ekki nægja brjóstin, heldur allan líkamann frá toppi til táar og dundaði sér vel og lengi við káfið og var mér þá ljóst að kenndir hennar voru aðrar en þær, að kanna hvort ég væri með sprengju á milli brjóstanna.

Eftir að ég komst loksins í gegnum Gullna hliðið (með sælusvip kynnu einhverjar að segja) flýtti ég mér á næsta salerni þar sem ég dundaði mér í óratíma við að faðma Gustavsberg. Síðan fór ég fram í kaffiteríu og fékk mér eina kók að drekka. Skammt þaðan frá var hávaðasamt leiktæki og maðurinn á næsta borði rak augun í yfirgefinn plastpoka við hliðina á þessu sama leiktæki og kallaði í þjónustuna. Nær samstundis birtist hópur öryggisvarða, rak okkur í burtu og ætlaði að girða af nánasta svæði. Áður en af því varð, mætti eigandi pokans og heimtaði sinn poka og fékk hann og þar með leystist það mál. Ekki varð þessi uppákoma til að bæta heilsufarið hjá mér.

Loksins kom vélin og eftir það gekk allt vel. Það var farið frá Mannshestaborg í ljósaskiptum og klukkutíma síðar tók sólin á móti okkur. Flugfreyjurnar voru hinar sömu sem flugu mér til Mannshestaborgar fyrir viku og voru enn jafn ágætar og fyrrum. Á Keflavíkurflugvelli ætlaði einhver ungur tollvörður að gera athugasemdir við alla Fríhafnarpokana sem ég hafði meðferðis, en komst snarlega að því að þetta var bara Tóblerón og Aftereit og sennilega of lítið af áfengi. Miðað við leitina á Mannshestaflugvelli, hefði stórleit í Keflavík orðið til að fylla mælinn, en þeir vildu ekkert við mig tala úr því ég hafði ekkert umframáfengi í pokum.

En heim komst ég og skreið snarlega í rúmið og tvær litlar kisur fylgdu mér eftir.

laugardagur, júlí 08, 2006

8. júlí 2006 - Heimkoman

Ég lofaði góðum pistli hér í nótt, en sökum einhverrar slæmsku í maga, ælupest, niðurgangi, höfuðverk og almennum slappleika frá því um miðjan dag í gær og stendur enn yfir (sennilega afleiðingar frá allri öldrykkjunni í Englandi), fór ég beint undir sæng þegar heim var komið og allar birgðirnar af Tóbleróni, Aftereit og Extra Strong Mint liggja enn í pokum hér frammi unidr vökulum augum Hrafnhildar og Tárhildar. Reyni að koma einhverju inn í kvöld.

fimmtudagur, júlí 06, 2006

7. juli 2006 - Endir godrar ferdar

Thessari viku i Mannshestahreppi og vidar lykur senn. Eg akvad stutt blogg ad sinni, en betri saga verdur a netinu annad kvold. Hafa ber i huga ad lending er skommu fyrir midnaetti svo naesta blogg verdur um klukkan eitt annad kvold og tha fra Reykjavik.
Eg man eftir hvitu Tobleroni og Aftereit og ollu hinu i Frihofninni. Eitthvad fleira?

6. júlí 2006 – Kisan Bína frænka


Ég er búin að komast að því af hverju formaður aðdáendafélags fótboltaklúbbs Halifaxhrepps á Íslandi, sjálfur Gísli Einarsson fréttamaður og fyrrum ritstjóri Skessuhorns, er svona hrifinn af þessu ágæta hreppsfélagi. Rollurnar í Halifaxhreppi hegða sér nefnilega á sama hátt og frænkur þeirra í Lundarreykjadalnum, bíða þar til bílar nálgast og ryðjast þá út á vegina. En nóg um það.

Um hádegið í gær kom Sonja frænka og sótti mig í Reykholtsdalinn (Rochdale) og síðan var haldið í sveitina. Eftir góðan akstur gegnum sveitasælu Englands var komið til Halifaxhrepps þangað sem förinni var heitið. Þar var strax þefað uns við fundum lyktina af The Shay og við héldum þangað. Er komið var að leikvanginum var allt lokað og læst, völlurinn í endurbyggingu og ekkert um að vera. Samt ruddumst við inn á völlinn og þóttumst eiga hann.

Sonja heimtaði afgreiðslu og fékk hana. Þegar hún tjáði gamla manninum sem vísaði okkur inn á völlinn að ég væri Halifaxaðdáandi fra 'Islandi, yppti sá gamli öxlum og þóttist vita að það væri fjöldi aðdáenda Halifaxhrepps á Íslandi. Hann náði jafnvel að nefna einn þeirra, sjálfan formann klúbbsins, Gísla Einarsson fréttamann.

Við fengum góða afgreiðslu á vellinum og ung stúlka seldi okkur allt sem vildum kaupa, könnur, lyklakippur, penna og regnjakka. Síðan fengum við leiðsögn um völlinn og stúkurnar sem eru í endurbyggingu og kvöddum með virktum eftir góða ferð á völl Halifaxhrepps.

Í framhaldinu var haldið í miðbæinn og drukkinn einn öl á ónefndri bæjarkrá, farið um og verslað. Ég viðurkenni að hafi ég verið að grínast að Halifaxhreppi áður, þá get ég hætt því í dag. Þessi staður er hreinlega yndislegur. Ég á eftir að koma hingað aftur.

Á leiðinni til baka var farið framhjá þekktum fótboltanöfnum á borð við Oldham Athletics og Huddersfield Town. Sjálf hafði ég séð hina einu sönnu Róm og get dáið glöð í bragði. Á leiðinni heim var komið við á sveitakrá sem ekki var kennd við Whetherspoons og þar fylltum við okkur af góðum mat áður en við héldum heim á leið.

-----oOo-----

Örlítið kráarkvöld hafði verið ákveðið og við komum okkur fyrir á “The Brown Cow” í Rochdale og fengum okkur öl. Þar var svo drukkið og notið lífsins. Eftir skamma stund kom lítil og sæt kisa til okkar. Hún var bröndótt, svört, rauð og ljós á lit og vildi ekki yfirgefa okkur. “Komdu og heilsaðu mömmu” sagði Pétur frændi og kynnti mig fyrir kisunni Bínu sem virtist líka vel athyglin sem hún fékk. Ég fékk að heyra sögu kisunnar.

Þegar Bína frænka dó fyrir tæpum tveimur árum síðan, var hún jörðuð í kirkjugarðinum andspænis þorpskránni. Þar sem líkfylgdin var á leiðinni í kirkjugarðinn með kistuna veitti einhver ókunnri kisu eftirtekt þar sem hún slóst í för með hópnum, fylgdist með jarðsetningunni og fylgdi síðan með útfarargestum að þorpskránni þar sem Bína frænka hafði oft drukkið og þar sem nú var haldin erfidrykkja hennar. Enn í dag er hún fastagestur á kránni, á sinn eiginn dall og virðist líka vel og nafnið Bína fylgir henni allar götur frá jarðarförinni. Börnin segja allavega að þarna sé Bína endurfædd og ég trúi því alveg. Mynd af henni mun koma á netið um helgina. Hún verður að sjálfsögðu höfð með öðrum kisumyndum þótt sumir telji að hún eigi heima í fjölskyldualbúminu.

þriðjudagur, júlí 04, 2006

5. juli 2006 - Enn i Mannshestahreppi

Deginum var eytt i ad skoda sofn. Thad var haldid ad nyju i Mannshestahreppinn, skodad Science & Industry Museum og vaentanleg haesta venjulega bygging Evropu (ad turnum fratoldum) ur fjarlaegd, nyja Hilton Hotelid. Somuleidis var farid um nokkur vaenleg hverfi, Pakistanahverfid, gydingahverfid og Chinatown. Einnig var drukkid ol i Gay Village og verslad litilshattar.

A midvikudag er aetlunin ad fara i pilagrimaferd a stad einn her naerri en meira af thvi sidar.

4. júlí 2006 – Laus við Bush

Áður en ég hélt að heiman bárust þær fregnir til Íslands, að George gamli Bush ætlaði að koma til Íslands og myrða laxa með Orra vini sínum Vigfússyni. Eins og allir vita sem lesa bloggið mitt, flúði ég af landi brott á meðan og færði enskum rigningu ofan í hitabylgjuna sem hefur gengið um England að undanförnu. Nú er í alvöru rætt um að senda mig eitthvert þangað sem rigning hefur ekki komið í hundrað ár í þeirri von að koma mín þangað geti valdið því að eyðimerkur fái nýtt líf. Helst er rætt um að senda mig til Súdan eða Eþíópíu í von um að hægt sé að græða á óheillakrákunni mér. Ég er þó ekki jafnviss og tel þessa rigningu vera heillamerki.

Af rigningu sunnudagskvöldsins er það að frétta að útköllin voru um 630 á einum klukkutíma. Fólkið í húsinu á móti Pétri frænda er ekki í þeim hópi, því síminn bilaði á meðan og enn er lélegt samband gegnum farsíma auk þess sem næsta útsendingarmastur BBC varð fyrir eldingu og er enn óvirkt. Vesalings fólkið þurfti því að treysta á Guð og lukkuna og bíða af sér rigninguna og ausa íbúðina sína um leið og rigningunni slotaði.

Mánudeginum var eytt í lítilsháttar verslunarferð í miðbæ Rochdale auk þess sem heimili gamla Peters og Bínu var skoðað, svæðið umhverfis heimili þeirra sem nú er í eigu yngsta sonar þeirra sem og næstum fjögur hundruð ára hús í eigu hans sem hann hefur dundað sér við að endurbyggja á undanförnum árum. Palli (Benedikt Paul Hampson) færði húsið til um tvo metra um leið og hann endurbyggði það, stein fyrir stein. Þetta er algjört þrekvirki sem hann hefur framkvæmt á þessum stað.

Í dag þriðjudag, ætla Sonja og Lesley að sýna mér ýmislegt það sem Mannshestaborg hefur að bjóða, en ég ætla að þakka þeim hjartanlega með því að sýna þeim lífið í Gay Village. Hin opinbera heimsókn til Halifaxhrepps verður að bíða þar til á miðvikudag. Lúðrasveitin klikkaði á þjóðsöngnum og fór illa með Eldgamla Ísafold auk þess sem rauði dregillinn var enn í hreinsuninni.

Myndir koma seinna.

mánudagur, júlí 03, 2006

3. júlí 2006 – Hjá the Hampsons (not the Simpsons)


Það var að sjálfsögðu vaknað eldsnemma á sunnudagsmorguninn, kannski óþarflega snemma, því eftir að hafa drukkið nokkur glös á laugardagskvöldinu, hafði ég gleymt því að ég hafði flýtt klukkunni minni og mætti hálftíma of snemma á framhald miðstjórnarfundarins í TGEU í stað þess að mæta hálftíma of seint. Ýmsar ályktanir voru samþykktar og sömuleiðis var ákvörðun um næsta þing samtakanna frestað þar til séð yrði hvort dönsku samtökin réðu við slíkt verkefni. Næsti fundur var síðan ákveðinn í Tórínó á Ítalíu (heimabæ Ferrari) í nóvember n.k.

Eftir fundinn var sest að snæðingi um stund og kvartað og kveinað yfir 30 °C hita og glaðasólskini áður en fólkið hélt til sína heima. Sjálf hafði ég ákveðið að dvelja hjá ættingjum í nokkra daga og hélt með allt mitt hafurtask út í hið fræga Gay Village og að gatnamótunum á Canal Street og Princess Street þar sem ég beið um stund uns Pétur frændi sótti mig.

Þar sem við héldum frá Manchester og komumst yfir bæjarmörkin til Haywood, datt skyndilega upp úr Pétri:
“The street is wet”
Það var rétt hjá honum. Gatan framundan var blaut eins og að rigningarskúr hefði gengið yfir og vart sást ský á himni. Við héldum áfram í gegnum Haywood og til Rochdale og heim til Péturs. Þar var systkinahópurinn sem allur býr í sama hverfinu samankominn, því nú átti að grilla.

Vart hafði Pétur kveikt upp í grillinu þegar skall á þrumuveður með slíku úrhelli að ég man vart annað eins í Evrópu. Gatan fyrir neðan hjá Pétri varð eins og stórfljót og vatnið náði bílum í bílastæðum uppá miðjar felgur og jafnvel enn ofar. Veðrið gekk yfir á um þremur tímum og vesalings fólkið í húsinu á móti Pétri komst ekki út á meðan til að vatnselgurinn inn í húsið yrði ekki enn verri. Lesley systir og eiginmaður áttu í basli því 20 centímetra hátt vatnsborð var í bílskúrnum hjá þeim sem var yfirfullur af drasli og ljóst að þau höfðu orðið fyrir tilfinnanlegu tjóni. Bæjarkránni var lokað vegna vatnselgs þar inni og síðar fréttum við að nokkrir tugir húsa hefðu verið rýmdir vegna flóða auk þess sem björgunarsveitir fengu mörg hundruð útköll vegna veðursins.

Til að bæta gráu ofan á svart fór rafmagnið skömmu eftir að regninu slotaði og var rafmagnslaust í um þrjá tíma. Þegar haft er í huga að ágætis veður hefur verið á Íslandi um helgina eftir að ég fór og að rigningin byrjaði í Rochdale þegar ég kom þangað, er rætt um það í fúlustu alvöru að banna mér að koma aftur til bæjarins

Verst var þó að netsambandið hjá Pétri bilaði og ég kom engum fréttum út á netið fyrr en núna.

-----oOo-----

Það hefur löngum þótt góður siður hjá sigurvegurum að nudda ekki salti í sárin hjá þeim sem tapaði. Ég ætla því ekkert að tala um Formúla saumavél sem fram fór í Indianapolis á sunnudeginum, en fagna úrslitunum þess betur. Ég sá hvort eð var ekki nema hluta af keppninni vegna látanna í veðrinu.

sunnudagur, júlí 02, 2006

2. júlí 2006 – Fundað í Mannshestahreppi


Það var mikið rætt og ritað á miðstjórnarfundi Evrópsku transgendersamtakanna á laugardeginum. Ekki veitti af því loksins er að komast mynd á þessa ómynd okkar sem byrjaði með ráðstefnunni í Vín fyrir átta mánuðum síðan. Það er komin þriggja manna stjórn sem á að sjá um framkvæmdirnar, formaður, ritari og gjaldkeri. Við hin höldum áfram að ferðast og njóta lífsins á þessum endalausu fundum okkar. Þá færði Erwin Jöhnk mér nýju bókina sína TS-Jyden og sömuleiðis skoðuðum við helsta afrek samtakanna fram að þessu, heimildarmyndina um Gisbertu sem var myrt í Portúgal í febrúar síðastliðnum.

Eftir velheppnaðan fundardag var okkur boðið í garðveislu og grill heima hjá Stephen Whittle í 25°C hita og glampandi sólskini. Það var margt girnilegt á grillinu, meðal annars makríll og náttúrulega risatrönsur úr hafinu, sömu gerðar og þessar sem Don Alfredo hefur reynt að ala austur í Ölfusi á vegum Orkuveitunnar.

-----oOo-----

Meðan við funduðum þurfti England að spila fótboltaleik við Portúgal og bárust okkur reglulega fréttir af gangi leiksins inn í fundarsalinn. Þegar fundinum var frestað til morguns var staðan ennþá 0-0 og stefndi í framlengingu. Við flýttum okkur á hótelið að gera okkur sætar fyrir heimboðið hjá Stephen, en þegar við fórum af hótelinu á þann stað þar sem hann ætlaði að sækja okkur, var vítaspyrnukeppni að hefjast.

Þegar við gengum um mannlausar göturnar og framhjá nokkrum krám, heyrðust skyndilega gífurleg fagnaðarlæti frá öllum þessum krám í nágrenninu og bílar þeyttu flautur. Greinilegt að England hafði skorað sitt fyrsta mark í vítaspyrnukeppninni. Við biðum spennt eftir næstu fagnaðarlátum, en aldrei kom neitt. Er við sáum hnugginn Englending með vonleysissvip úti á gangstétt fyrir utan krá, þóttumst við vita úrslitin, enda var ekki sagt eitt orð um fótbolta allt kvöldið.

laugardagur, júlí 01, 2006

1. júlí 2006 - Í Mannshestahreppi

Föstudagurinn var erfiður. Hann byrjaði með því að ég var á næturvakt. Það kemur ekki til mála að ég viðurkenni að hafa sofið einn tíma eða tvo á vaktinni, en um miðja nótt var rafmagnið tekið af Lögbergslínu og með henni lokahúsinu á Reynisvatnsheiði. Þar með var öllum möguleikum á að loka öðru auganu á næturvaktinni lokið.

Ég var ósofin þegar ég hélt heim eftir vaktina og erfiður dagur framundan. Ég þurfti að sjá um tvær kisur, þvo og strauja og pakka og fara í bankann og kaupa gjaldeyri og ósofin hélt ég á Miðnesheiðarflugvöll þegar klukkan var að verða þrjú með hjálp Dagbjartar vinkonu minnar. Á flugellinum sá ég Ragnheiði Hrefnudóttur álengdar en þorði ekki að gefa mig á tal við hana. Hún er á leið til Kanada í verkefnið “Snorri West” og á allar mínar hvatningarkveðjur í huganum.

Mín vél fór í hina áttina, til Mannshestaborgar í Bretaveldi, ekki langt frá Halifaxhreppi sem er orðinn mér svo kær. Flugfreyjurnar vöktu mig ekki á leiðinni, en voru ósköp indælar, reyndu ekki einu sinni að pranga inn á mig vörum sem ég hefi ekkert að gera við, en sáu til þess að ég yrði ekki hungurmorða á leiðinni.

Eftir vel heppnaða lendingu í Mannshestahreppi tók við passaskoðun. Það var martröð. Ekki vegna þess að neitt væri að, en að byrja í röð í öðrum sal við vegabréfaskoðun er ekki þægilegt og svo leið meira en hálftími áður en ég komst í gegn. Þá var að sækja töskur og svo eins hratt og hægt var út úr kvalræðinu.

Fyrir utan biðu Pétur frændi og Margaretha eiginkona hans eftir mér og við fundum leiðina á hótelið sem ég ætla að gista á, meðan á fundi TGEU stendur. Eftir að hafa bókað mig inn á hótelið, fórum við upp á Canal Street, líflegustu götuna í Mannshestahreppi, þar sem við hittum restina af miðstjórn TGEU og varð þar fagnaðarfundur.

Eftir að hafa skipst á myndum og kveðjum og skálað í öli var haldið aftur á hótelið og sé ég fram á skemmtilega daga í þessari merkisborg, en mér hefur verið lofað kynnisferð um Halifaxhrepp og Mannshestahrepp auk Reykholtsdalsins sjálfs sem Gísli Einarsson kallar Rochdale í Lancasterskíri.

Engar nýjar myndir fyrr en ég hefi lært á nýju myndavélina sem ég keypti í Fríhöfninni.