fimmtudagur, júlí 06, 2006

6. júlí 2006 – Kisan Bína frænka


Ég er búin að komast að því af hverju formaður aðdáendafélags fótboltaklúbbs Halifaxhrepps á Íslandi, sjálfur Gísli Einarsson fréttamaður og fyrrum ritstjóri Skessuhorns, er svona hrifinn af þessu ágæta hreppsfélagi. Rollurnar í Halifaxhreppi hegða sér nefnilega á sama hátt og frænkur þeirra í Lundarreykjadalnum, bíða þar til bílar nálgast og ryðjast þá út á vegina. En nóg um það.

Um hádegið í gær kom Sonja frænka og sótti mig í Reykholtsdalinn (Rochdale) og síðan var haldið í sveitina. Eftir góðan akstur gegnum sveitasælu Englands var komið til Halifaxhrepps þangað sem förinni var heitið. Þar var strax þefað uns við fundum lyktina af The Shay og við héldum þangað. Er komið var að leikvanginum var allt lokað og læst, völlurinn í endurbyggingu og ekkert um að vera. Samt ruddumst við inn á völlinn og þóttumst eiga hann.

Sonja heimtaði afgreiðslu og fékk hana. Þegar hún tjáði gamla manninum sem vísaði okkur inn á völlinn að ég væri Halifaxaðdáandi fra 'Islandi, yppti sá gamli öxlum og þóttist vita að það væri fjöldi aðdáenda Halifaxhrepps á Íslandi. Hann náði jafnvel að nefna einn þeirra, sjálfan formann klúbbsins, Gísla Einarsson fréttamann.

Við fengum góða afgreiðslu á vellinum og ung stúlka seldi okkur allt sem vildum kaupa, könnur, lyklakippur, penna og regnjakka. Síðan fengum við leiðsögn um völlinn og stúkurnar sem eru í endurbyggingu og kvöddum með virktum eftir góða ferð á völl Halifaxhrepps.

Í framhaldinu var haldið í miðbæinn og drukkinn einn öl á ónefndri bæjarkrá, farið um og verslað. Ég viðurkenni að hafi ég verið að grínast að Halifaxhreppi áður, þá get ég hætt því í dag. Þessi staður er hreinlega yndislegur. Ég á eftir að koma hingað aftur.

Á leiðinni til baka var farið framhjá þekktum fótboltanöfnum á borð við Oldham Athletics og Huddersfield Town. Sjálf hafði ég séð hina einu sönnu Róm og get dáið glöð í bragði. Á leiðinni heim var komið við á sveitakrá sem ekki var kennd við Whetherspoons og þar fylltum við okkur af góðum mat áður en við héldum heim á leið.

-----oOo-----

Örlítið kráarkvöld hafði verið ákveðið og við komum okkur fyrir á “The Brown Cow” í Rochdale og fengum okkur öl. Þar var svo drukkið og notið lífsins. Eftir skamma stund kom lítil og sæt kisa til okkar. Hún var bröndótt, svört, rauð og ljós á lit og vildi ekki yfirgefa okkur. “Komdu og heilsaðu mömmu” sagði Pétur frændi og kynnti mig fyrir kisunni Bínu sem virtist líka vel athyglin sem hún fékk. Ég fékk að heyra sögu kisunnar.

Þegar Bína frænka dó fyrir tæpum tveimur árum síðan, var hún jörðuð í kirkjugarðinum andspænis þorpskránni. Þar sem líkfylgdin var á leiðinni í kirkjugarðinn með kistuna veitti einhver ókunnri kisu eftirtekt þar sem hún slóst í för með hópnum, fylgdist með jarðsetningunni og fylgdi síðan með útfarargestum að þorpskránni þar sem Bína frænka hafði oft drukkið og þar sem nú var haldin erfidrykkja hennar. Enn í dag er hún fastagestur á kránni, á sinn eiginn dall og virðist líka vel og nafnið Bína fylgir henni allar götur frá jarðarförinni. Börnin segja allavega að þarna sé Bína endurfædd og ég trúi því alveg. Mynd af henni mun koma á netið um helgina. Hún verður að sjálfsögðu höfð með öðrum kisumyndum þótt sumir telji að hún eigi heima í fjölskyldualbúminu.


0 ummæli:







Skrifa ummæli