laugardagur, júlí 22, 2006

22. júlí 2006 – Tvö ár af bulli

Nú eru liðin tvö ár frá þeim tíma er ég byrjaði að blogga. Það var 21. júlí 2004 sem ég fékk hana Pollý-Gunnu til að aðstoða mig við að setja upp bloggsíðu á blog.central.is sem þá var stjórnað af ungum tölvunarfræðinemum sem dunduðu sér við bloggið í frístundum og sem hluta af náminu í skólanum. Takk Gunna.

Upphaflega setti ég mér það markmið að reyna að blogga annan hvern dag, en fljótlega varð þó ljóst að sú ætlun mín stæðist ekki, því svo margt lá mér á hjarta. Á síðastliðnu hausti tóku nýir eigendur að blog.central.is sig til, hentu út ýmsum aukahlutum þar á meðal historik, fylltu bloggið með auglýsingum og kröfðust þess að ég greiddi fyrir að fá aukahlutina aftur inn. Ég gerði það og hélst það inni í einhverjar vikur síðasta vetur, en brátt fór allt á sömu leið.

Vegna þessarar ófyrirleitni hjá blog.central.is hætti ég frekari pistlaskrifum hjá þeim, en byrjaði með nýtt blogg um síðustu jól á blogspot.com. Þar hefur allt gengið mun betur, og er ég sátt við skiptin. Þá telst mér til að heildarfjöldi heimsókna á gamla bloggið hafi verið um 72944, en frá því um síðustu jól hefi ég fengið um 28404 heimsóknir á nýja bloggið eða samtals um 101348 heimsóknir að eigin innliti meðtöldu.

Frá þriðja degi hefi ég því bloggað daglega og stundum oftar en einu sinni á dag. Því ætla ég að heildarpistlafjöldi sé um 750 frá upphafi, en þessi pistill er númer 219 hjá blogspot. Þessir 750 pistlar hafa verið af ýmsum toga, mikil pólitík þar sem ég hefi lagt Framsóknarflokkinn í einelti. Hann á það reyndar skilið, enda með alltof mikil völd miðað við atkvæðamagn á bakvið völdin. Því fyllist ég stolti í hvert sinn sem ég heyri Framsóknarmann kvarta yfir því að flokkurinn sé lagður í einelti og eigna mér hluta heiðursins. Auk pólitísku pistlanna hafa flestir pistlar verið tómt bull, en stöku sinnum ratast kjöfugum satt orð á munn og á það líka við um mig. Mér hefur tekist að grobba mig aðeins af afrekum fyrri ára, sagt sögur af sjónum og af skemmtilegum samferðamönnum í lífinu, bæði lífs og liðnum.

Nokkrir samferðamenn mínir hafa hvatt mig ákaft til að hætta þessu bulli. Ég skil ótta þeirra vel. Ég myndi líka biðja pistlahöfund að hætta skrifum ef ég hefði eitthvað að óttast. Ég ætla því að láta orð þeirra sem vind um eyrun þjóta og halda áfram að bulla, halda áfram að leggja Framsóknarflokkinn í einelti og svo er aldrei að vita nema eitt og eitt sannleikskorn fljóti með svo ekki sé talað um myndirnar mínar.

Ég er enn með harðsperrur eftir Esjugönguna á fimmtudag. Ég verð orðin góð til næstu göngu um hádegi á laugardag.


0 ummæli:







Skrifa ummæli