mánudagur, júlí 31, 2006

31. júlí 2006 – Hinsegindagar í Stokkhólmi

Eitt af því sem ég hreifst mjög af í stefnuskrám litlu rauðlituðu hópanna sem voru til vinstri við Alþýðubandalagið á áttunda áratug síðustu aldar, var afdráttarlaus stuðningur þeirra við fólk sem þorði að koma út úr skápnum og tjá sig um tilfinningar sínar, um samkynhneigð, tvíkynhneigð og transgender, löngu áður en samfélagið þorði að tjá sig um hlutina, hvað þá ég sem var á þessum tíma harðlokuð inni í skáp minna eigin fordóma.

Frá og með sunnudeginum 30 júlí til og með sunnudagsins 6. ágúst er Pridevikan í Stokkhólmi, viku á undan sambærilegum hátíðarhöldum í Reykjavík og mun Gay Pride gangan verða þar í borg 5. ágúst n.k. Í tilefni af hinseginvikunni birtist viðtal við Kristinu Börjesson kynningarfulltrúa hjá RFSL (Sambærilegt við Samtökin 78) í sunnudagsblaði Dagens Nyheter þar sem hún bendir á hve skammt á veg kynjajafnréttisbaráttan er komin á sænskum vinnustöðum. LGBT fólk í Svíþjóð er samkynhneigt nú þegar það er í sumarleyfi, en um leið og það mætir í vinnuna eftir sumarfrí hverfur það aftur inn í skápinn alræmda.

Ég fór að hugleiða hvernig staða þessara mála er á Íslandi eftir góða sigra í jafnréttisbaráttunni. Ég vinn hjá 600 manna fyrirtæki og við erum tvær sem erum yfirlýstar, önnur lesbísk og ég transsexual og báðar meðlimir í Samtökunum 78. Bara tvær? Það getur ekki verið! Ef 5% fólks telst vera í þessum hópi, þ.e. samkynhneigt, tvíkynhneigt eða transgender, þá eru það 30 persónur hjá þessu eina fyrirtæki. Hvar eru þá hin 28?

Ég veit að starfsmannastefna fyrirtækisins er okkur hliðholl. Það þekki ég af eigin reynslu og þeirri staðreynd að ég hefi lifað opið sem transsexual (transgender) í fjölda ára. Það hefur verið tekið hart á þeim brotum á jafnréttisstefnu fyrirtækisins sem hefur komist upp um og á Orkuveita Reykjavíkur hrós skilið fyrir gott fordæmi á þessu sviði. En samt. Við erum bara tvær af þrjátíu sem höfum þorað að láta sjá okkur utan við skápinn illræmda. Getur það verið að andrúmsloftið meðal starfsfólksins sé enn svo neikvætt að fjöldinn þori ekki að koma fram í dagsljósið?

Ég heyri iðulega talað um “Saurbæinga” og “kynvillinga” í vinnunni og þá í þeirri merkingu að átt sé við samkynhneigt fólk. Þeir hinir sömu sem nota slíkt orðbragð gera það í háði og halda að það sé í lagi að gera grín að fólki á þennan hátt, en þeir gleyma því að í hvert sinn sem slíkt orðbragð er notað, er verið að segja við þann sem enn er í skápnum: “Vertu áfram í skápnum. Þú ert í umlukinn hatri gegn þér og þínum líkum.” Ég mótmæli í hvert sinn og mun gera það áfram þótt ég gangi ekki um og kæri í hvert sinn sem slíkt er gert. Um leið er mér fullkunnugt um fólk í vinnunni sem talar um mig á versta veg í hvert sinn sem ég heyri ekki til. Mér sárnar, en læt sem ég viti ekki af því. Smám saman hefur tekist að byggja upp jákvæðan trúnað að vissu leyti um leið og tíminn hefur snúið nokkrum fyrrum andstæðingum mínum á mitt band.

Með tímanum mun ástandið lagast, en ég vil sjá fleiri koma út úr skápnum. Baráttan vinnst ekki fyrr en fólki verður alveg sama um kynhneigð eða fortíð náungans.

RFSL = Riksförbundet för sexuellt likaberättigande
LGBT = Lesbian, Gay, Bisexual, Transgender

-----oOo-----

Í dag hefði hún móðir mín orðið 82 ára og Jóna Hildiberg, föðursystir mín orðið níræð hefðu þær lifað. Þær eru báðar látnar fyrir alllöngu, föðursystir mín lést árið 1969 og móðir mín árið 2003. Blessuð sé minning þeirra. Það er um leið athyglisvert að Jóna Hildiberg fæddist sex mánuðum eftir að föðurafi minn lést þannig að hún sá aldrei föður sinn. Er hún fluttist til Reykjavíkur frá Stykkishólmi voru gerð þau mistök að hún var skráð fædd 1917 og við það sat. Alla tíð eftir þetta var hún skráð fædd 1917 og dó sem slík og þarafleiðandi fædd einu og hálfu ári eftir andlát föður síns. Það er margt sem við ættfræðigrúskararnir þurfum að huga að svo réttar upplýsingar komist til seinni kynslóða.

-----oOo-----

Hver verður númer 30.000 á nýja blogginu?


0 ummæli:







Skrifa ummæli