þriðjudagur, ágúst 01, 2006

1. ágúst 2006 – Að bera ábyrgð

Á undanförnum mánuðum hafa allnokkrir dómar fallið gegn fyrrum ritstjórum DV þeim Mikael Torfasyni, Illuga Jökulssyni og Jónasi Kristjánssyni vegna ýmiss þess efnis sem birtist á síðum blaðsins. Það skipti engu hver skrifaði, ritstjórarnir báru ábyrgð á efni blaðsins og voru dæmdir vegna ritstjórnarlegrar ábyrgðar sinnar.

Bloggsíða er eins og fjölmiðill. Allt sem birtist á bloggsíðu er opinbert efni um leið og ýtt er á enter og eftir það ber eigandi síðunnar ábyrgð á öllu sem þar birtist, að minnsta kosti ef það birtist og látið óátalið af eiganda síðunnar. Eigandi síðunnar ber fulla ábyrgð á sinni síðu, einnig athugasemdum sem aðrir gera við skrifin þótt þau séu frá aðilum sem skrifa undir nafni, þó með ákveðnum undantekningum sem geta tengst IP-tölu í eigu eiganda athugasemdanna.

Síðustu nótt skrifaði Hlerinn ákaflega neikvæðar athugasemdir um samkynhneigða sem athugasemd við skrif mín frá því á miðnætti. Ég ætlaði að láta þessi orð hans standa, honum sjálfum til háðungar, en eftir hádegið var haft símasamband við mig og mér bent á ritstjórnarlega ábyrgð mína á öllu sem birtist á minni síðu. Í framhaldi af þessu símtali ákvað ég að henda athugasemdum Hlerans út og setja IP-tölu hans í bann á athugasemdakerfinu.

Að endingu hvet ég hann til að opna sína eigin bloggsíðu þar sem hann getur ausið úr viskubrunn sínum yfir landslýð og ég lofa honum því að hann muni fá góða aðsókn að síðunni sinni.


0 ummæli:







Skrifa ummæli