laugardagur, ágúst 12, 2006

12. ágúst 2006 – Fanntófell, brúðkaup og umferðarslys

Á föstudaginn var farið á Fanntófellið á Kaldadalsleið. Ég viðurkenni það fúslega að Fanntófellið er erfiðasta fjall sem ég hefi farið á fram að þessu, 901 metri á hæð yfir sjávarmáli, en mjög laust í sér. Það var í sjálfu sér ekki hættulegt, en efstu skriðurnar í fjallinu voru slíkar að stundum var runnið niður tvo metra eftir að hafa gengið upp einn. Þórður tók að sér göngustafaviðgerðir og er enn í skýjunum yfir því mikla afreki að hafa gert við göngustafina mína. Það var lagt af stað frá Reykjavík um klukkan tvö, en við urðum fyrir um hálftíma töf vegna umferðarslyss í Leirársveitinni. Eitthvað var tekið af myndum, en ekki var komið til Reykjavíkur fyrr en eftir miðnættið og þá hafði ég ekki tíma til að setja inn myndir, en ég geri það á laugardagskvöldið.

-----oOo-----

Frumburðurinn minn ætlar að gifta sig í dag. Ekki veitir af eftir að hún hefur verið í sambúð í áratug og eignast tvö börn með sínum heittelskaða. Hún fær allar mínar hamingjuóskir í tilefni þessa merkisdags í lífi sínu.

-----oOo-----

Partídrottningin á Skipaskaga fær svo hamingjuóskir með afmælið sem og allar lessur og hommar sem ég þekki og ætla að halda gleðigöngu í dag.

-----oOo-----

Eins og ég nefndi áður, urðum við fyrir um hálftíma töf við Beitistaði í Leirársveit á föstudaginn vegna umferðarslyss. Við komum að bílaröðinni rétt við slysstaðinn um klukkan 14.40 og biðum þar í um hálftíma á meðan verið var að ná slösuðum úr bíl og koma í burtu með sjúkrabíl. Ég efa ekki að sjúkralið og lögregla hafi unnið starf sitt af kostgæfni og öryggi. Hinsvegar var annar þáttur málsins sem ekki var eins vel heppnaður. Ég var með Rás 2 í gangi, en aldrei var útsending rofin til að segja frá slysinu og hugsanlega að vísa bílum á aðrar leiðir. Í fréttatíma klukkan þrjú var ekki sagt orð af þessu slysi. Við sátum bara í bílnum og biðum þess að sjúkralið lyki verkefnum sínum. Fyrir mig hefði verið hægðarleikur að fara Hvalfjörðinn og upp Svínadalinn í gegnum Skorradalinn hefði ég heyrt af slysinu í tíma.

Þarna má Umferðarútvarpið bæta sig og koma betur að tilkynningum um slys sem þetta segir ein sem veit að bloggvinkonan á Umferðarstofu er í sumarfríi.


0 ummæli:







Skrifa ummæli