föstudagur, ágúst 11, 2006

11. ágúst 2006 – Að skapa ótta

Mikið var gert úr ætluðum hermdarverkum í flugvélum á milli Bretlands og Bandaríkjanna í gær. Heimavarnarráðherra Bandaríkjanna fann sér gullið tækifæri til að fá mynd af sér í heimspressunni, stillti sér upp framan við skilti frá Homeland Security og lýsti því yfir að þessar ætluðu sprengjuárásir væru skipulagðar af Al Qaida og hann veit ekki einu sinni hvað Al Qaida er. Ástandið var þó öllu verra í Bretlandi þar sem hópur fólks var handtekinn grunaður um ætluð hryðjuverk. Þetta er sorglegt mál.

Eitt veigamesta atriðið til að fá nægt fjármagn og tryggja framgang lögregluríkisins er að skapa ótta. Stundum með því að hræða almenning sem fær á tilfinninguna að lífi þess sé ógnað, stunduð með því að læða inn hjá fólki að öryggi þess sé ógnað á einhvern hátt. Dæmi um hið síðarnefnda var þegar sovéski kafbáturinn U-137 strandaði skammt undan landi fyrir utan Karlskrona árið 1981. Þótt í dag sé almennt talið að ástæða strandsins sé vanþekking og lélegur tækjabúnaður um borð, beitti sænski herinn þessu strandi óspart fyrir sig til að fá umtalsverðar fjárveitingar í baráttuna gegn ímyndaðri innrásarógn frá Sovétríkjunum.

Bresk yfirvöld eru í vondum málum þessa dagana. Þau hafa ásamt Bandaríkjunum, stutt við bakið á ísraelska hernum þar sem hann er að fremja hryðjuverk og fjöldamorð í Palestínu og Líbanon. Það er því nauðsynlegt að leiða athyglina frá þessum atburðum og hvað er betra en að láta hina hættulegu Araba fremja næstumþvíhryðjuverk á breskum flugvöllum. Ég veit ekkert hvort það sé satt, en tímasetningin gæti ekki verið betri ef leiða skal athyglina frá Miðausturlöndum og auka á hatrið gegn Aröbum. Eitt sem ýtir undir þessa kenningu er sú staðreynd að yfirvöld hafa meðvitað ýtt undir óttann með harkalegustu viðbrögðum sem um getur. Þeir segjast vera búnir að ná hryðjuverkamönnunum og þykjast vita að þar séu Al Qaida að verki þótt þeir geti ekki einu sinni sagt með fullri vissu hvað Al Qaida er fyrir samtök. Samt er ráðist í þessar ógnvænlegu öryggisráðstafanir á breskum flugvöllum og þær auglýstar um allan heim.

(Einhverntímann heyrði ég þá skýringu á Al Qaida, haft eftir sérfræðingi í málefnum Arabaþjóða, að það væri lauslega tengt tengslanet ólíkra trúarhópa innan íslamstrúar, en ekki vel skipulögð hryðjuverkasamtök).

Ég ætla ekki að fullyrða neitt í þessum málum. Það getur vel verið að satt sé og að einhverjir bjánar hafi ætlað sér að tortíma nokkrum flugvélum á leiðinni til Bandaríkjanna frá Bretlandi. Það væri þá eðlilegt svar við stuðningi Tonys Blair og George Dobbljú Bush við hryðjuverkin sem nú eiga sér stað í Miðausturlöndum.

Bretar geta auðveldlega losnað við hryðjuverkaógnina ef þeir kæra sig um. Hún felst í því að kalla þegar í stað herinn heim frá Írak og fordæma stjórn Ísraels fyrir fjöldamorðin í Palestínu og Líbanon.

Undirrituð telst vera af gyðingaættum að 1/256 hlutum og er þrátt fyrir allt, ákaflega stolt af uppruna sínum og formóður sem virðist hafa þvælst með hörmangarakaupmönnum til Íslands snemma á átjándu öld.


0 ummæli:Skrifa ummæli