fimmtudagur, ágúst 17, 2006

17. ágúst 2006 - Bush, Blair og Olmert

Árið 1933 komst Adolf Hitler til valda í Þýskalandi. Hann hafði ekki verið lengi við völd er hann hóf að herja á nágranna sína, fyrst Austurríki, síðar Bæheim og Mæri og síðan alla Tékkóslóvakíu. Vesturveldin gerðu lítið til hjálpar þessum ríkjum sem lentu undir járnhælnum, en þegar Hitler fann hversu auðveld bráð andstæðingarnir voru, gekk hann enn lengra, samdi við vini sína í Róm og Tókýó og með þá að bakhjarli gat hann haldið áfram. Næst var það Pólland sem hann náði í blóðugri styrjöld og síðan fjöldi annarra ríkja, ýmist í nafni Þýskalands eða að bandamenn hans náðu ríkjunum með hans stuðningi. Að lokum varð græðgin honum að falli og hann svipti sig lífi vinafár í neðanjarðarbyrgi í Berlín árið 1945 eftir rúm 12 ár við völd.

Árið 2001 komst George Dobbljú Bush til valda í Bandaríkjunum. Sama árið lagði hann til atlögu við eitt fátækasta ríki heims með stuðningi Breta, Ísraela og fleiri og sendi aftur á steinöld. Tveimur árum síðar réðist hann á gamlan óvin sem faðir hans hafði sent aftur á steinöld nokkrum árum áður og sendi þá þjóð öðru sinni aftur á steinöld með hjálp Breta, Ísraela og nokkurra leppríkja sinna. Næst var það Ísraels að gera slíkt hið sama og sendu þeir hið margmolaða ríki Líbanon aftur á steinöld með hjálp Bush og Blair. Að auki hefur Bush haldið við ógnarstjórnum í öðrum ríkjum eins og Úsbekistan sem berst hatrammlega gegn þjóðinni þar í landi.

Ýmis þjóðarbrot og ríki sem sloppið höfðu við árás Þjóðverja bundust samtökum og reiðin óx og loksins tókst þeim að velta af sér oki nasismans. Nú er viðbúið að þjóðir og þjóðarbrot í arabaheiminum og víðar í heiminum fari að svíða nauðgun Bush og félaga á þjóðunum og er þá viðbúið að draga muni til tíðinda.

Bandaríkin hafa þó einn kost framyfir Þýskaland nasismans. Hámarkstími Bandaríkjaforseta á valdastóli er átta ár, en Hitler ríkti í tólf ár.

-----oOo-----

Ég hefi enn ekki heyrt Halldór Ásgrímsson fráfarandi formann Framsóknarflokksins biðja íslensku þjóðina afsökunar á stuðningi sínum við innrás og fjöldamorð í Írak. Ætlar hann virkilega að láta arftaka sinn á formannsstól Framsóknarflokksins bera þessa blóðugu byrði skammarinnar með sér inn í framtíðina?

-----oOo-----

Kynlífsfræðsla í skólum er í molum, var sagt í útvarpinu í gær. Hefur hún þá verið einhver? Ég fór að velta fyrir mér þeirri kynlífsfræðslu sem ég fékk í gaggó. Kynlífsfræðslan var nákvæmlega ein setning:
"Það þarf ekki að lesa blaðsíður 82-83 til prófs!"


0 ummæli:







Skrifa ummæli