Ég hefi aldrei prófað hass eða önnur efni af því tagi,
aldrei kókaín eða heróín. Í gegnum allt lífið hefi ég forðast þessi efni og
kannski barist gegn notkun þeirra, kannski ekki barist gegn, en sýnt þessum
efnum megnustu andúð. Ég hefi tekið þátt í að upplýsa um smygl á dópi og tel
mig manneskju að meiri fyrir bragðið. Dóp hefur aldrei verið mín megin í lífinu
og ég vona að ég komist í gegnum lífið án notkunar á skemmtanadópi.
Þar sem ég var á sjó man ég sárasjaldan eftir að einhverjir notuðu kannabisefni. Ég man eftir því að einhverjir hásetar komust yfir kannabis í Líbanon fyrir nærri 40 árum og reyktu þetta um borð og einhverjir unglingar voru fiktandi við þetta þegar ég var í Ameríkutúrunum, en þeir voru umsvifalaust kærðir þegar upp um þá komst og heim var komið.
Ég segi skemmtanadópi því oft er talað um læknadóp í sömu andrá og skemmtanadópið. Þar er ég ekki eins saklaus. Ég rifja upp dagana sem ég lá á spítala í Stokkhólmi í Svíþjóð sundurskorin í klofinu og mænustungan og deyfingarpillur losuðu mig við þær kvalir sem annars hefðu fylgt erfiðri aðgerð til leiðréttingar á kyni. Ég notaði slíkt þó af mikilli varúð og er enn sömu skoðunar og þegar ég braut á mér öxlina og lenti á spítala í Antwerpen og afþakkaði þrautalyfin, ég ætti nóg af áfengi um borð til að sefa sársaukann þar til ég kæmist heim.
Af hverju er ég að rifja þetta upp núna? Jú, það kom upp atvik um daginn þar sem ellefu manns á skipum Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum voru reknir fyrir notkun á skemmtanadópi. Ég var í fyrstu sátt við hörkuna uppfull fyrirlitningar á dópinu, en ekki lengur. Svona harka á ekki að líðast. Þarna er gengið á hlut fólks sem eiga ekki möguleika á að verja sig.
þegar ég á dagvakt í vinnunni, byrja ég gjarnan daginn á að rölta við í bakaríinu í Árbæjarhverfi og kaupi mér eitt rúnstykki með skinku og osti og borða það síðan með kaffinu eftir að komið er á vaktina. Þvílíkur glæpur!!! Notkun á birkifræjum er nefnilega hið versta mál. Hún getur gefið merki um notkun á dópi ef ég lendi í dóptesti fljótlega eftir að rúnstykkisins var neytt og miðað við hörkuna hjá Vinnslustöðinni fengi ég þá reisupassann með hraði eftir að hafa neytt rúnstykkisins með osti og skinku. Er þetta sanngjarnt? Ég held ekki.
Fyrstu viðbrögð við hugsanlegri notkun á dópi hlýtur ávallt að vera viðvörun, ef þú verður staðinn að slíku aftur verður þú rekinn! Af blaðafregnum virðist slíku ekki fyrir að fara hjá Vinnslustöðinni. Fyrsta brot og þú ert rekinn! Þrátt fyrir andstöðu mína gegn dópi get ég vart orða bundist. Þetta er hreinlega brot á mannréttindum. Forystumenn Vinnslustöðvarinnar geta kannski bent á að þeir hafi varað starfsfólk sitt við notkun skemmtanadóps, en það er engan veginn ásættanleg ástæða slíkrar hörku.
Kannski hafa Vestmannaeyjar orðið svo illa fyrir barðina á dópneyslu að komin er ástæða til að grípa til aðgerða og af hverju ekki byrja hjá Vinnslustöðinni af öllum vinnustöðum í bænum? Getur það virkilega verið að Vestmannaeyjar séu orðnar svo gegnsýrðar af dópi að þurfi að grípa til aðgerða? Má kannski búast við að einnig verði alkóhólmælir við landganginn á skipum í Eyjum sem og við stimpilklukkuna á vinnustöðum bæjarins í framtíðinni?
Kannski er þetta allt yfirskin. Það þurfti kannski að losna við óþekka einstaklinga úr bæjarfélaginu, óþekka einstaklinga sem ekki styðja Sjálfstæðisflokkinn og hvað er betra en að reita af þeim æruna um leið og þeir eru hýrudregnir og reknir úr bænum? Eða hvað?