föstudagur, ágúst 12, 2016

12. ágúst 2016 - Um loftskeytamenn og sendisveinaÉg man þá tíð þegar ekkert fyriræki þóttist fyrirtæki með öðrum fyrirtækjum nema að sendisveinn á unglingsaldri á reiðhjóli sæi um ýmis léttari aðföng,  sá um að skreppa í bankann og jafnvel að sækja pantaða nælonsokka fyrir skrifstofustúlkurnar sem þurftu að vera huggulegar til fara í vinnunni en máttu ekki yfirgefa vinnustaðinn fyrir slíkan munað.

Ég man einnig þá tíð þegar ekkert skip þóttist skip með skipum nema að loftskeytamaður væri um borð. Hann hamaðist á morselyklinum daginn út og daginn inn og taka á móti skeytum og sinna nauðsynlegum símtölum áhafnarmeðlima við land sem og að gefa upp aflatölur til annarra togara eða skrá veðurlýsingar á Ameríkuskipum og senda í land.

Hvað eiga þessar tvær stéttir sameiginlegt? Jú svarið er einfalt, það er nánast búið að útrýma þeim. Síðasti loftskeytamaðurinn sem ég var með til sjós var hann Andrés sem kom um borð í hann Álafoss eftir að skipið var lengt árið 1985 og fór þar með yfir þau stærðarmörk þar sem ekki var krafist loftskeytamanns. Það má svo deila um það af hverju mestur hluti af lestarrými skipsins var skráður sem opið rými til að minnka brúttórúmlestatölu skipsins. Síðar var svo loftskeytamaðurinn endanlega afskráður og þekkist vart lengur á öðrum skipum en stærstu skemmtiferðaskipum.

Sendisveinninn fékk álíka útreið. Þegar ég byrjaði hjá Hitaveitunni fyrir tveimur áratugum var Elli sendill. Öfugt við sendla fyrri tíma var hann á bíl og að nálgast eftirlaunaaldur og hann sá um aðföng og bankaerindi og ýmislegt annað sem sendlum er uppálagt að gera. Um svipað leyti og Orkuveitan flutti á Bæjarhálsinn komst Ellert á aldur og enginn ráðinn í hans stað. Tölvutæknin hafði gert hann óþarfan að mestu.

Ég rifja upp tímann þegar ég var sendill hjá Ræsi hf frá tólf ára og til fjórtán ára aldurs þegar öll almennileg fyrirtæki voru með sendla á reiðhjóli, hálfan daginn á veturna, allan daginn á sumrin og í skólaleyfum. Einhverntímann ca 1965 taldist mér til að ég væri með tvær milljónir króna í reiðufé í hliðartöskunni minni, einkennistösku sendisveinsins og það voru nokkur bílverð þess tíma geymd í töskunni góðu, kannski verð 15-20 Volkswagen bifreiða sem þá kostuðu rúmlega 100 þúsund krónur stykkið. Það þurfti að tæma pósthólfið á pósthúsinu daglega, fara með bréf í póst og afgreiða póstkröfur og aðrar póstsendingar og allt gert af reiðhjóli. Ég sé í anda fólk senda tólf til þrettán  ára barn í bankann með margar milljónir í töskunni í dag. Gleymdu því! Eða þegar setið var fyrir bankastjóranum fyrir hönd forstjórans. Þetta var samt góður tími og ég sakna hans að vissu leyti.

Öll þessi ævintýri æskunnar rifjuðust upp fyrir mér þegar ég var á vaktinni og þurfti nauðsynlega að skreppa út í bæ með nauðsynleg skjöl vegna bílasölu og enginn til að leysa mig af þar sem ég má ekki yfirgefa vinnustaðinn á vaktinni. Sem betur fer bjargaði deildarstjórinn mér með því að hann þurfti að fá sér göngutúr í hádeginu og tók skjölin með sér til Frumherja og lét skrá þau. Ég er honum þakklát fyrir greiðann en samt saknaði ég sendisveinsins góða sem var í öllum stærri fyrirtækjum á árum áður.

Heimur versnandi fer, eða hvað?
Eru fleiri stéttir sem fólk man að búið er að útrýma?

mánudagur, ágúst 01, 2016

1. ágúst 2016 - Takk Ólafur Ragnar Grímsson


Já, takk Ólafur Ragnar Grímsson fyrir þín tuttugu ár á forsetastól. Við hittumst einungis einu sinni, þá við jarðarför náins frænda þíns Ólafs Þórðar Friðrikssonar Hjartar bókasafnsfræðings og góðs vinar míns. Við vorum sjaldnast sammála þótt við værum lengi í sama flokki. Þegar þú varst kosinn formaður Alþýðubandalagsins kaus ég að draga mig í hlé og hætti störfum fyrir þann ágæta flokk.

Síðar flutti ég til Svíþjóðar og sinnti ekki borgaralegum skyldum mínum við Ísland í nokkur ár, en þegar ég kom til baka varstu í framboði til forseta Íslands. Þú fékkst ekki mitt atkvæði en vannst samt. Ég varð að sætta mig við úrslitin og reyndi að sættast við þig eftir það. Það var ekki alltaf auðvelt, en andstaða sameiginlegs andstæðings okkar sem sat á stól forsætisráðherra á þeim tíma hjálpaði mér til að sætta mig við þig á þessum mikilvæga forsetastól. Það var samt ekki auðvelt að sjá Framsóknarmann undir fölsku flaggi á forsetastól.

Ég var samt ekki alltaf ósammála þér. Ég neyddist til að greiða þér atkvæði mitt árið 2004, skömmu eftir að þú neitaðir fjölmiðlalögunum staðfestingar, ekki vegna þess að ég væri hrifin af frumkvæði þínu, heldur því að þú varst að berjast við óhæfa mótframbjóðendur og þar sem ég sat í kjörstjórn átti ég erfitt með hægrisinnuðu kjósendurna sem hötuðu þig eins og pestina, en urðu síðar þinn besti stuðningur.

Síðar gerðir þú þér dælt við útrásarræningja, ekki aðeins rússneska oligarka heldur og íslenska glæpamenn sem sumir hafa fengið sína dóma en alls ekki allir sem settu Ísland á hausinn.

Svo kom hrunið og Icesave og allur sá pakki. Þú samþykktir fyrstu Icesave lögin. Það var ekki mikil skynsemi í því, en Bretar og Hollendingar höfnuðu samkomulaginu og því komst sá samningur aldrei í framkvæmd. Svo komu Icesave 2 og Icesave 3 sem þú hafnaðir hvorutveggja. Var það vel? Það lítur vel út á pappírunum en hvernig kemur það út fyrir okkur vesalingana sem skuldum lán í bönkum.  Við erum enn að borga himinháa grunnvexti af húsnæðislánunum okkar auk verðtryggingarinnar. Er það kannski afleiðing af því að þú neitaðir að undirrita lögin sem þjóðin síðan hafnaði í atkvæðagreiðslu? Ég veit ekki en það veit ég að ég er að greiða himinháa vexti af húsnæðisláninu mínu auk verðtryggingar. Hið einasta sem ég get þakkað fyrir er að ég gætti þess að reisa mér ekki hurðarás um öxl á sínum tíma og því komst ég yfir þetta. En ég spyr, eiga okurvextirnir sem ég greiði af húsnæðisláninu mínu orsök í höfnun á þriðja og síðasta Icesave saminingnum?

Nú ert þú búinn að kveðja okkur með drottningarviðtali þar sem þú hældir sjálfum þér út í eitt. Um leið og þú ferð á eftirlaun mun Guðni Thorlacius Jóhannesson taka við keflinu. Ég fagna honum í embætti forseta Íslands um leið og ég kveð þig af forsetastóli.

Ég er kannski ekki alveg laus við þig. Mér þykir pínulítið vænt um þig eftir öll þessi ár og ekki er síðra að vita að það eru einungis 60 metrar frá borholu MG-6 að húsinu þínu í Mosfellsbæ og því möguleiki á því að við munum eiga samskipti í framtíðinni í gegnum vinnuna mína.

Takk Ólafur Ragnar Grímsson fyrir störf þín á forsetastóli í tvo áratugi, góð og kannski slæm, um leið og ég fagna nýjum forseta Íslands, Guðna Thorlacius Jóhannessyni.