föstudagur, desember 27, 2013

27. desember 2013 - Um jólinNú er mestu stórhátíð ársins lokið þótt vissulega eigum við eftir að kveðja árið og fagna nýju ári. Við sem vorum á vakt um jólin vorkennum okkur að sjálfsögðu í hástert og hefðum gjarnan viljað sitja að veisluborði með ættingjum og vinum. Þó er ekki yfir miklu að kvarta, vaktirnar liðu áhyggjulítið og við vorum uppfull heilagleika í tilefni af fæðingu frelsarans fyrir rúmlega tvö þúsund árum.

Sjálf læt ég oft hugann reika aftur í tímann, til áranna þegar ég var á sjó um jólin við misjafnar aðstæður og líki því ekki saman við að hanga á vaktinni á þurru landi um jólin í þægilegu gemsafæri við nánustu ættingjana. Ekki eru allir svo heppnir eins og ég þegar ég var til sjós og því birti ég orðrétt kafla úr skeyti sem mér barst tveimur dögum fyrir jólin 2013 frá æskufélaga mínum sem hefur eytt mörgum árum í að veita neyðaraðstoð til íbúa í stríðshrjáðum ríkjum Afríku:

„Nú, í þeim orðum töluðum má vel segja að Bangui sé ekki neinn draumastaður og allt byrjaði að fara fjandans til í byrjun desember þar sem stríðandi fylkingum laust saman því ansi mörgum langar að vera forseti hérna og ráða yfir hinum og eru ekki vandir af meðulunum sem þeir brúka til að fá sínu framgengt, en það er sosum  "normið" víða hérna í Afríku. Ef ekki væri fyrir afleiðingarnar, þá er þetta nærri því kómískt, því uppreisnarmenn þeir sem gerðu áhlaup á borgina voru ákkúrat þeir sem voru forseti og ríkisstjórn þangað til í mars s.l. En alltaf eru það sakleysingjarnir sem verst verða úti og er afskaplega sorglegt að horfa upp á það. Ég, eins og allir aðrir sem ekki brúka stríðsaxir, héldum okkur innanhúss í nokkra daga, sem var í lagi því nóg var að bíta og brenna, þó leiðigjarnt til lengdar.

Nú eru franskir dátar hér á hverju götuhorni sem og sambandsher Afríkuríkja og hafa komið sæmilegu skikki á málin. Það er a.m.k. kominn á "vinnufriður" svo að við húskarlar SÞ og annara hjálparstofnana getum haldið áfram að gera það sem við settum okkur með okkar tilveru hérna. Mín deild heldur úti flugrekstri um þvert og endilangt landið því vegasamgöngur eru hér nánast engar. Þó er maður ekkert að spóka sig um torg og götur nema að eiga erindi og svo höldum við okkur innandyra þegar degi tekur að halla.“

Þess má geta að vinur minn sem var alinn upp á sama barnaheimili og ég, er nú kvæntur franskri konu og búsettur í Frakklandi. Hann hefur víða farið vegna starfa sinna við matvæladreifingu og neyðaraðstoð á vegum Sameinuðu þjóðanna, en er þessa mánuðina staðsettur í Miðafríkulýðveldinu (Central African Republic). Eins og sönnum hjálparsveitarmönnum sæmir er hann ákaflega hógvær í orðum og gerir minna úr ástandinu en það raunverulega er.

Svo erum við að kvarta. Nær væri að þeir alþingismenn sem barist hafa hvað hatrammast gegn þróunar- og neyðaraðstoð Íslendinga til fátækra þjóða Afríku kynntu sér þessa aðstoð áður en þeir tjá sig opinberlega á neikvæðan hátt um þessa aðstoð.

föstudagur, nóvember 29, 2013

29. nóvember 2013 - Didda


Það var sumarið 1996. Ég var atvinnulaus, nýflutt til Íslands og nagaði mig í neglurnar fyrir þá slæmu ákvörðun mína að hafa sagt upp góðu starfi mínu í Svíþjóð til þess eins að flytja til landsins sem hafði að geyma Esjuna og Mosfellsdalinn og fáeina ættingja og vini en fátt annað sem heillaði. 

Þetta voru erfiðir dagar. Sumir virtust leggja sig í líma um að sýna mér fyrirlitningu og enga fékk ég vinnuna þrátt fyrir fjölda umsókna um borg og bý. en ég gat þó þakkað fyrir að veðrið var gott á Íslandi fyrrihluta sumarsins 1996 og það var gaman  að rölta um bæinn þótt það ylli ákveðinni kvíðaröskun að sjá að fólk hafði vinnu þótt mér væri hafnað allsstaðar.

Það voru þó ljós í myrkrinu. Ég man eftir lítilli stelpu, kannski sjö ára gamalli sem kom til mín þar sem ég steig úr bíl heima hjá systur minni í Kópavogi og sagðist hafa séð mig í sjónvarpi og fallegt bros hennar var alveg fölskvalaust þegar hún lýsti því hve henni þætti vænt um að sjá mig. Bros hennar situr enn í hjarta mínu.

Annað atriði var mér einnig ógleymanlegt. Þar sem ég var að mæla göturnar í eirðarleysi atvinnuleysis og gekk eftir Austurstræti ók bíll framhjá. Allt í einu stöðvaði bíllinn, út úr honum kom bílstjórinn til mín, ung kona, og faðmaði mig og óskaði mér til hamingju með að vera ég sjálf. Síðan þurfti hún að flýta sér aftur inn í bílinn sinn og aka í burtu undan reiðum bílstjórum bílanna sem á eftir höfðu verið.

Síðar komst ég að því að þetta var Didda, Sigurlaug Didda Jónsdóttir, rithöfundur og leikkona með meiru, einhver fordómalausasta manneskja sem ég hefi á ævi minni fyrirhitt.

Þessi hugvekja er í tilefni þess að Sigurlaug Didda Jónsdóttir á afmæli í dag, 29. nóvember eða svo segir Facebook mér.  


fimmtudagur, nóvember 28, 2013

28. nóvember 2013 - Uppsagnir á RÚV


Ég viðurkenni alveg að ég hefi verið mjög gagnrýnin á Ríkisútvarpið á undanförnum árum. Ýmislegt hefur verið öðruvísi en ég hefi kosið að sjá í ríkisútvarpi, neyðarsendingar hafa brugðist hvað eftir annað sbr 17. júní 2000 og nóttina sem gosið byrjaði á Fimmvörðuhálsi. Hvað eftir annað hefur hefðbundnum dagskrárliðum verið fórnað fyrir boltaleiki og hundamyndirnar í sjónvarpinu hafa ekki verið beinlínis fagnaðarefni.

Þrátt fyrir þetta hefur margt verið gott við RÚV, margt frábært starfsfólk og skemmtilegir útvarpsþættir á báðum rásum sem hafa haldið mér svo við efnið að ég hefi ekki haft áhuga á að leita annað flesta daga, þó með vissum undantekningum þegar völ hefur verið á einstöku góðum dagskrárliðum á öðrum stöðvum, Bylgjunni, fréttum Stöðvar 2 og erlendum stöðvum. Þrátt fyrir þetta hafa 80% af notkun minni á ljósvakamiðlum verið dagskrár RÚV.
 

Miðvikudagurinn 27. nóvember var svartur dagur í sögu RÚV. Margt gott fólk sem ég hafði fengið að njóta í gegnum rásir útvarpsins og sjónvarpið fengu að fjúka þar á meðal þau bæði sem ég hefi ávallt talið uppáhaldsútvarpsfólkið mitt, Linda Blöndal og Guðni Már Henningsson jafn ólík sem þau eru. Þá má ekki gleyma mörgum öðrum sem eru eins og vinir mínir í gegnum ljósvakarásirnar, Margrét Erla og Jóhannes Kr. frá sjónvarpinu, Ingi Þór Ingibergsson, Guðfinnur Sigurvinsson, Lana Kolbrún Eddudóttir. Fyrir sumt af þessu fólki er uppsögnin sem endalok frábærs ferils, önnur sem nýtt upphaf, en fyrir okkur hlustendurna er þetta áfall. Skyndilega er ekkert lengur sem hægt er að hlusta á, engin Linda sem ég vaknaði við á morgnanna og engir Guðni Már né Ingi Þór sem skemmtu mér á helgarkvöldum.


Ég velti fyrir mér hvort einhver tengsl séu milli útvarpsstjórans og fyrrverandi vinnuveitanda hans sem er gamall útrásarbófi og á helsta keppinaut RÚV á fjölmiðlamarkaði? Hvað eru fulltrúar minnihlutans að gera í útvarpsráði? Það er óhugnanleg tilfinning að hugsa til þess að búið er að rústa frjálsri fjölmiðlun á Íslandi. Tvö stærstu dagblöðin í eigu LÍÚ og útrásarbófa, annar helstu ljósvakamiðlanna í eigu útrásarbófa, hinn  náttúrulaus eftir niðurskurð.


Ofan á allt er boðað að niðurskurðinum sé ekki lokið. Ég kvíði framtíðinni með leifunum af RÚV þar  sem einungis verða sagðar fréttatilkynningar frá ríkisstjórninni og LÍÚ, tónlist verður spiluð án kynninga og öll dagskrárgerð steingeld. Sem betur fer er ég enn með aðgang að norrænum sjónvarpsstöðvum  ef ég vil horfa á sjónvarp og eitthvað á ég af gæðatónlist á diskum sem ég get stytt mér stundir við þar til skipt verður um stjórnendur RÚV og ríkisstjórnina.  

sunnudagur, október 20, 2013

20. október 2013 - Horst Gorda


Það eru komin nokkur ár síðan Óttar Guðmundsson geðlæknir bað mig um að vera skjólstæðingi sínum innanhandar. Ég samþykkti það og einhverjum dögum síðar hafði Horst samband við mig og ég reyndi að kynna hann fyrir fólki í sömu stöðu. Hann var að vinna í fiski í litlu fiskverkunarfyrirtæki og hafði orðið fyrir talsverðum fordómum á vinnustaðnum meðal annarra útlendra starfsmanna vegna þeirrar staðreyndar að hann var skráður sem kona í öllum opinberum gögnum, hvort heldur var íslenskum eða lettneskum. 

Löngu áður hafði ég lítillega kynnt mér stöðu transfólks í Lettlandi, meðal annars hitt lýtalækni í Riga haustið 1994, en hann hafði framkvæmt aðgerðir til leiðréttingar á kyni fólks á Sovéttímanum, en hafði enga aðgerð framkvæmt eftir hrun Sovétríkjanna og stofnun lýðveldisins Lettlands. Því skyldi ég vel örvæntingu transfólks í Lettlandi sem flúði land í þeirri von að komast í sitt rétta kynhlutverk í nýju landi. Ég hitti Horst nokkrum sinnum en svo hvarf hann mér sjónum um tíma, en síðar hitti ég hann og þá var hann orðinn landbúnaðarverkamaður austur á Flúðum. Þá var staða hans orðin öllu verri en hún hafði verið þegar hann hóf undirbúning leiðréttingar á kyni því enginn geðlæknir treystir sér til að taka á sig þá ábyrgð að sleppa illa höldnum alkóhólista alla leið í aðgerð nema hann taki sig á gagnvart fíkninni og þar hafði Horst iðulega fallið fyrir flöskunni.  Sjálf hitti ég Horst aldrei meðan hann var undir áhrifum, en hann viðurkenndi fúslega fyrir mér hina bágu stöðu sína og var uppfullur vilja til að taka sig á gegn þessum erfiða vágesti sem Bakkus er.

Ég hitti hann síðast vorið 2013. Þá var hann í vandræðum vegna erfiðleika með að fá skjöl frá Lettlandi, en hafði verið edrú í lengri tíma, búsettur á áfangaheimili fyrir fólk sem var að reyna að koma undir sig fótunum eftir að hafa fallið í gryfju alkóhólismans. Ég reyndi hvað ég gat, benti honum á að leita til Mannréttindaskrifstofu Íslands í þeirri von að þau gætu aðstoðað hann, en síðan heyrði ég ekkert meira frá honum fyrr en ég frétti af andláti hans á Klambratúni.

Sú hugmynd hefur komið upp að setja ríkisborgararétt sem skilyrði fyrir leiðréttingu á kyni. Þessu er ég algjörlega ósammála. Atriðið um fasta búsetu á Íslandi um lengri tíma er fullnægjandi. Sjálf þurfti ég að bíða í fleiri ár eftir aðgerð vegna þess að ég var Íslendingur er ég óskaði leiðréttingar á kyni í Svíþjóð og óska engum þess að lenda í þeirri aðstöðu aftur og það atriði í íslensku lögunum er einmitt það sem gerir íslensku lögin fremri en lög annarra landa í nágrenni okkar. Slík klásúla myndi einungis búa til ný vandamál en ekki leysa nein.    

Kannski hefði ég getað betur og verið Horst betri vinur, en það er of seint að iðrast. Horst er látinn og verður ekki vakinn upp aftur. Um leið er hann ekki fyrsta transmanneskjan sem fellur vegna fordóma og erfiðleika og örugglega ekki heldur sú síðasta.  Það er hinsvegar okkar eftirlifandi að sjá til þess að lög og reglur verði fordómalausar og í samræmi við almenn mannréttindi og óskir okkar um vera þær manneskjur sem við teljum okkur vera og minnka þannig hættuna á frekari ónauðsynlegum dauðsföllum.

Þar er mikið verk eftir óunnið sem verður að setja í hendur þeirra sem nú hafa tekið við keflinu í baráttunni fyrir mannréttindum transfólks á Íslandi.


miðvikudagur, október 16, 2013

16. október 2013 - Eftirsjáin (Ångrarna)Ég hugsa aftur í tímann. Við fengum nýjan gjaldkera í félagið Benjamin sem var félag transsexual fólks í Svíþjóð. Hún var miðaldra, bjó með móður sinni og hafði átt sér þann draum í mörg ár að verða kona.

Það var ekki sjálfsagt mál að verða kona í Svíþjóð í byrjun tíunda áratugs síðustu aldar. Ekki síst fyrir konur sem voru fæddar sem karlar og þar var vinkona mín engin undantekning.  Hún hafði sótt um að komast í aðgerð með breytingum á kyni og nafni í þjóðskrá en fengið neitun, einungis samþykkt breyting á nafni. Í allri kyrrð hélt hún áfram að berjast samtímis því sem hún gætti sjóða félagsins okkar af kostgæfni, var virk í litla félaginu okkar með rúmlega hundrað félaga og loks kom heimild og hún lagðist undir hnífinn og kom út sem kona.


Við ákváðum samtímis að stíga til hliðar, hún hætti sem gjaldkeri, ég sem formaður félagsins. Ég flutti til Íslands en hún hélt áfram að hjúkra aldraðri móður sinni sem lést ekki löngu síðar. Skömmu eftir þetta átti ég erindi til Stokkhólms og hitti vinkonu mína og hún tjáði mér að sér liði illa. Hún hefði vissulega fengið það sem hún sóttist eftir, en það var eitthvað sem var ekki sem hún hafði vænst.

Hún sá eftir öllu saman.

Mörgum árum síðar sá ég kvikmyndina Ångrarna þar sem vinkona mín og önnur manneskja tjáðu sig um mistökin sín í lífinu. Nú er myndin komin til Íslands og ég horfi á hana öðru sinni, finn til með báðum samtímis því sem ég horfi á eigið líf og angra einskis. Ég átti aldrei annan möguleika og gæti ekki hugsað mér að snúa til baka til karlkyns.