föstudagur, nóvember 29, 2013

29. nóvember 2013 - Didda


Það var sumarið 1996. Ég var atvinnulaus, nýflutt til Íslands og nagaði mig í neglurnar fyrir þá slæmu ákvörðun mína að hafa sagt upp góðu starfi mínu í Svíþjóð til þess eins að flytja til landsins sem hafði að geyma Esjuna og Mosfellsdalinn og fáeina ættingja og vini en fátt annað sem heillaði. 

Þetta voru erfiðir dagar. Sumir virtust leggja sig í líma um að sýna mér fyrirlitningu og enga fékk ég vinnuna þrátt fyrir fjölda umsókna um borg og bý. en ég gat þó þakkað fyrir að veðrið var gott á Íslandi fyrrihluta sumarsins 1996 og það var gaman  að rölta um bæinn þótt það ylli ákveðinni kvíðaröskun að sjá að fólk hafði vinnu þótt mér væri hafnað allsstaðar.

Það voru þó ljós í myrkrinu. Ég man eftir lítilli stelpu, kannski sjö ára gamalli sem kom til mín þar sem ég steig úr bíl heima hjá systur minni í Kópavogi og sagðist hafa séð mig í sjónvarpi og fallegt bros hennar var alveg fölskvalaust þegar hún lýsti því hve henni þætti vænt um að sjá mig. Bros hennar situr enn í hjarta mínu.

Annað atriði var mér einnig ógleymanlegt. Þar sem ég var að mæla göturnar í eirðarleysi atvinnuleysis og gekk eftir Austurstræti ók bíll framhjá. Allt í einu stöðvaði bíllinn, út úr honum kom bílstjórinn til mín, ung kona, og faðmaði mig og óskaði mér til hamingju með að vera ég sjálf. Síðan þurfti hún að flýta sér aftur inn í bílinn sinn og aka í burtu undan reiðum bílstjórum bílanna sem á eftir höfðu verið.

Síðar komst ég að því að þetta var Didda, Sigurlaug Didda Jónsdóttir, rithöfundur og leikkona með meiru, einhver fordómalausasta manneskja sem ég hefi á ævi minni fyrirhitt.

Þessi hugvekja er í tilefni þess að Sigurlaug Didda Jónsdóttir á afmæli í dag, 29. nóvember eða svo segir Facebook mér.  0 ummæli:Skrifa ummæli