sunnudagur, september 19, 2010

19. september 2010 - Gaffalbitar!

Ég var að hlusta á þáttinn Rokkland í útvarpinu þar sem rætt var við þrjá meðlimi hljómsveitarinnar Gildrunnar frá Mosfellsbæ. Ólafur Páll stjórnandi kvartaði eitthvað yfir fjarveru Þórhalls bassaleikara og var honum þá bent á að Þórhallur væri búsettur austur á Eskifirði og lögregluvarðstjóri þar.

Upp í hugann kom slæmt mál frá því snemma árs 1997 að aðkomumaður að norðan gekk berserksgang á Eskifirði og ók meðal annars gaffallyftara á lögreglubíl með tveimur mönnum innanborðs og velti honum. Báðir lögreglumennirnir í bílnum slösuðust, annar þó mun meira og var einhverja mánuði frá vinnu af þeim sökum. Gárungarnir voru fljótir að taka við sér og voru lögreglumenn staðarins kallaðir gaffalbitar á eftir.

Nokkru eftir þetta var ég stödd á balli á Eskifirði og hitti þar Þórhall lögreglumann þar sem hann hélt uppi lögum og reglu á ballinu og spurði hann auðvitað hvað hann væri að gera þarna, hvort hann ætti ekki að liggja stórslasaður í rúminu heima?
”Nei nei, það er hinn gaffalbitinn sem liggur slasaður heima!”

fimmtudagur, september 16, 2010

16. september 2010 - Úti að aka!

Ég var á ferð um Miklubrautina seinnipart fimmtudagsins. Það var þung umferð í báðar áttir og þegar ég nálgaðist gangbrautina við Skaftahlíð skipti yfir á rautt ljós fyrir umferðina til vesturs og ég stoppaði eins og lög gera ráð fyrir. Eftir það fóru fimm bílar framúr mér við gangbrautina og yfir á rauðu ljósi áður en sá sjötti staðnæmdist við hliðina á mér.

Það voru margir úti að aka í umferðinni í Reykjavík í dag!

miðvikudagur, september 15, 2010

15. september 2010 - Skýrslan!

Nú er skýrsla Vistheimilanefndar um Reykjahlíð komin út. Ég efa það ekki að nefndin hafi unnið störf sín af kostgæfni og gert sitt besta til að sannleikurinn kæmi fram, en það er ekki alltaf nóg. Það er auðvelt að beita fólk þrýstingi svo ekki sé talað um að freista þess með mögulegum peningum. Í þessu ljósi verður að skoða skýrslur sumra þeirra aðila sem gáfu skýrslu fyrir Vistheimilanefnd, ekki síst þeirra aðila sem gáfu skýrslu eftir að farið var að tala um bætur í formi peninga.

Sjálf var ég á barnaheimilinu frá því snemma vors 1959 til hausts 1963 og átti þarna bestu stundir æsku minnar. Barnaheimilið að Reykjahlíð var heimili mitt á meðan ég ólst þar upp og þótt dvöl mín hafi ekki verið eilíf sæla, er ég sannfærð um að ævi mín hefði orðið öllu verri hefði ég alist upp hjá foreldrum mínum í sárri fátækt við vondar aðstæður í Reykjavík.

Þegar Rósa Svavarsdóttir kom fyrst fram í fjölmiðlum með ásakanir áhendur Sigríði Jónsdóttur og Ara Maronssyni (1911-1966) gaf hún mjög sterklega í skyn að hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hans hálfu og að hún og stöllur hennar hefðu orðið að festa sig við rúmstokkinn með beltum svo þeim yrði ekki rænt af Ara heitnum. Nú er ekki lengur talað um að festa sig við rúmstokkinn heldur er frásögnin orðin að belti og axlaböndum.

Reyndin er þessi. Stelpunum þótti Ari býsna stór og ruddalegur sem hann virkilega var. Og oft angaði hann af áfengi er hann kom í heimsókn þótt forstöðukonan byrjaði á að loka hann inni ef hann kom í þessu ástandi. Einn strákur á heimilinu sem er um sjö árum eldri en Rósa, skrökvaði því að stelpunum að Ari ætti það til að ræna litlum stelpum og stinga af með þær. Hann ráðlagði þeim því að festa sig með beltum við rúmstokkinn svo Ari gæti ekki náð þeim. Nú er þetta orðið að belti og axlaböndum.

Sjálfri fannst mér Ari leiðinlegur. Hann forðaðist krakkana, drykkfelldur og var fremur þumbaralegur í framkomu, ekki ósvipuð manngerð og Gunnar Huseby, en vei mér ef þessir menn hefðu nokkru sinni lagt hönd á börn. Nei, þeir voru frekar af þeirri gerðinni sem forðaði sér frá börnum.

Rósa hélt því fram í sjónvarpsviðtali að einhver sextán ára stelpa hefði verið send til vistunar í Reykjahlíð og sú hefði kennt henni að stela. Skrýtið! Ég var í Reykjahlíð á sama tíma og ég man ekki eftir neinni þjófóttri sextán ára stelpu sem hafði verið send þangað. Börn voru venjulega send í burtu þegar þau voru sextán ára, ekki öfugt. Einustu tilfellin sem börn voru á heimilinu eftir fimmtán ára aldur voru þegar börn ólust upp á barnaheimilinu og voru einfaldlega ekki farin þaðan. Á mínum tíma voru aðeins tvö börn þarna sem þetta átti við um, bæði strangheiðarleg og bindindissöm.

Allt tal Rósu um miða í rútuna sem hún hélt fram öðru sinni í sjónvarpi á miðvikudagskvöldið er bull. Krakkarnir í sveitinni notuðu enga miða í rútuna. Skólataskan var nægur farareyrir. Börn á leið í og úr skóla fóru einfaldlega í rútuna og fengu sér sæti.

Sigríður forstöðukona frá 1961 fær slæma dóma í skýrslunni. Nokkur börn eru neikvæð í hennar garð, þá helst Rósa Svavarsdóttir. Ég minnist hegðunar Sigríðar ekki sem harkalegt, heldur sem ákveðið. Hún lét ekkert vaða ofan í sig og þarf að svara fyrir það í dag hátt í hálfri öld síðar.

Ég ætla ekki að halda því fram að allt hafi verið fullkomið í Reykjahlíð, en það ágæta barnaheimili var eins fullkomið og efni og aðstæður gátu leyft því að vera.

Eftir að farið var að tala um bætur var auðvelt að fá fólk til að tala illa um æskuheimili mitt. Mitt í skýrslutökunum samþykkti Alþingi að greiða börnunum bætur. Þá var að vísu orðið of seint fyrir mig að sækja um bætur þar sem ég hafði tjáð mig opinberlega um heimilið áður, en ég hefði alveg getað hugsað mér að fá sex milljónir í bætur fyrir það ranglæti sem örlögin í formi foreldra sem þótti brennivínið gott, ollu mér.

þriðjudagur, september 14, 2010

14. september 2010 - Um Landeyjahöfn

Ein ástæða þess hve illa hefur gengið að byggja upp Vestmannaeyjar að nýju eftir gosið 1973 eru samgöngurnar. Fólk sem var sífellt sjóveikt eða flughrætt átti mjög erfitt með að búa í Eyjum svo ekki sé talað um ef það leið sömuleiðis af innilokunarkennd á lítilli eyju þótt hátt sé til loft og glæsileg sýn til sjávar og fjalla. Ég er ekki viss um að þröng göng á sprungusvæði með hættu á eldgosum og jarðhræringum hefði hjálpað mikið upp á.

Með tilkomu Landeyjahafnar og þess mikla árangurs sem fyrstu vikurnar af Landeyjahöfn báru með sér, er ljóst að Landeyjahöfn er það sem koma skal. Með einungis rúmlega hálftíma ferð á milli lands og Eyja á Herjólfi ná þeir sem verst eru haldnir af sjóveiki vart að verða sjóveikir nema þá í haugabrælu.

Þessir byrjunarerfiðleikar sem há ferjusiglingum á milli lands og Eyja munu vonandi heyra sögunni til, kannski ekki strax, en alveg örugglega innan nokkurra ára. Sjálf er ég farin að hlakka til að geta skroppið dagsferð til Eyja þegar mér sýnist rétt eins og að skreppa vestur á Snæfellsnes eða á næsta fjall.

Það má vel vera að nauðsynlegt verði að lengja hafnargarðana eða gera einhverjar þær framkvæmdir sem koma í veg fyrir sandburð fyrir hafnargarðinn eins og hefur verið undanfarnar vikur, en til þess eru vandræðin að læra af þeim og gera betur næst.

Þá er ég sannfærð um að eftir að þessum byrjunarerfiðleikum lýkur, muni mannlífið í Eyjum blómstra sem aldrei fyrr og að Eyjamenn geti sannanlega haldið áfram að telja ”Norðurey” sem stærstu eyjuna í Vestmannaeyjum.

mánudagur, september 13, 2010

13. september 2010 - Landflótta!

Í eina tíð þótt ég ekkert betri en fjöldi annarra Íslendinga hvað fordóma varðar. Ég var sjálf uppfull af þeim og er kannski enn að einhverju leyti. Ég hefi þó lært ýmislegt, t.d. hætti ég með fordóma gagnvart hinsegin fólki þegar ég kom sjálf útúr skápnum og ég hefi aldrei getað skilið hvar eigi að setja mörk þess hvar eigi að setja mörkin þegar um kynþætti er að ræða, þ.e. ef setja á mörk á milli okkar og þeirra. Þess vegna er einfaldast að sleppa mörkunum og líta á alla sem jafningja.

Nú eru hafnar kynþáttaofsóknir á Íslandi. Íslenskir feðgar af kúbönskum uppruna eru flúnir land vegna aðgerða ofstækismanna. Ástandið er alvarlegt og ljóst að ef gerningsmönnunum verður ekki refsað af ítrustu hörku, en í samræmi við lagabókstafinn, munu kynþáttahatarar vaða uppi hér á landi í framtíðinni.

Bjóðum feðgunum aftur hingað aftur og stöndum vörð um þá og réttindi þeirra gegn hatursmönnum þeirra. Svo skulum við koma í veg fyrir fordómana og kennum þeim sem ala á fordómum, að skoðanir þeirra eru ekki æskilegar meðal siðaðs fólks.

laugardagur, september 11, 2010

11. september 2010 – Kærðir ráðherrar

Nú hefur meirihluti þingmannanefndarinnar svokölluðu lagt til að fjórir fyrrum ráðherrar verði dregnir fyrir landsdóm vegna brota í embætti í hruninu og að þeir verði dæmdir, ef ekki fyrir ráðherraábyrgð skv 4. gr laga um landsdóm, þá fyrir brot á 141. gr hegningarlaganna. Ég er þessu ósammála.

Það má vel vera að ég sé hlutdræg í málinu þar sem ég er málkunnug Björgvin Sigurðssyni en þekki Ingibjörgu Sólrúnu orðið sæmilega allt frá þeim tíma er hún stjórnaði Reykjavíkurborg með miklum sóma. Það breytir ekki því að ég tel málshöfðun fyrir landsdómi var mjög varhugaverðan kost í þessu tilfelli, ekki síst vegna þess að hrunið er afleiðing nýfrjálshyggjunnar og stjórnarstefnu ársins 2002 þegar bankarnir voru einkavinavæddir.

Það má vel vera að hægt verði að sakfella fjórmenningana fyrir landsdómi, en ég tel litlar líkur ef nokkrar á að slíkur dómur stæðist fyrir mannréttindadómstól Evrópu. Þarna á að dæma fólk til refsingar fyrir einföldu dómstigi án möguleika á áfrýjun til æðra dómsstigs innanlands, en það er annað verra. Alþingi kærir ráðherrana, en skipar jafnframt meirihluta dómara í sama máli, en ég hélt að slíkur málatilbúningur væri ólöglegur með dómi mannréttindadómsstólsins fyrir tuttugu árum síðan.

Að ráðherrakærunum frátöldum er ég sammála niðurstöðu þingmannanefndarinnar að svo miklu leyti sem ég hefi lesið um málið.

P.s. Ætli fyrirsögn Moggans í kvöld hafi verið tilviljun eða gleymdi Mogginn Geir Haarde viljandi:
http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/09/11/alvarleg_vanraeksla_a_starfsskyldum/

föstudagur, september 10, 2010

10. september 2010 - Röng viðbrögð við slysi?

Ég man eftir einum ágætum verkstjóra á næsta verkstæði við það sem ég var að vinna á fyrir einhverjum áratugum. Eitt sinn varð starfsmaður hjá honum fyrir því að klemmast alvarlega á hendi og úlnlið og leið hræðilega illa ef dæma mátti af sársaukaviðbrögðunum. Mikið fát greip verkstjórann og hann hóf að leita að einhverjum sem gæti keyrt hinn slasaða upp á slysadeild áður en einhver benti honum á að best væri að hringja beint í sjúkrabíl. Í framhaldi af kalli verkstjórans á sjúkrabíl komu fulltrúar frá lögreglu og Vinnueftirliti á staðinn og gerðu nauðsynlegar skoðanir og gerðu sína skýrslu.

Þetta atvik kom upp í hugann þegar ég heyrði af brunaslysi hjá veitingastofu KFC í Kópavogi á fimmtudagskvöldið.

Ekki ætla ég ásaka einn né neinn fyrir röngu viðbrögðin sem virðast hafa átt sér stað. Meginskýringin felst í ókunnugleika, ókunnugleika hverjum ber að tilkynna um slysið, en einnig ókunnugleika sem stafar af æfingaskorti. Hversu víða eru framkvæmdar neyðaræfingar á vinnustöðum á Íslandi? Hvernig hefðu vinnubrögðin orðið ef starfsfólkið á KFC hefði fengið nauðsynlega og rétta öryggisfræðslu er það hóf störf hjá fyrirtækinu? Hvað með öll hin fyrirtækin?

Hversu víða er til réttur búnaður á heimilum eða á vinnustöðum gegn brunaslysum, smáum eða stórum? Það eru vissulega víða til sjúkrakassar, en hversu víða eru til brunavarnarefni í sjúkrakössum, t.d. á veitingastöðum og annars staðar þar sem stöðugt er verið að bjástra með sjóðandi feiti og vatn?

Ég fullyrði að margir vinnustaðir og flest heimili séu án nauðsynlegs búnaðar gegn brunaslysum sem ættu þó að vera skylda á hverju heimili, sérstaklega þar sem börn eru. Þá er ég að tala um brunavarnarefni eins og BurnFree, BurnRelief og önnur slík efni og sem fást í flestum eða öllum apótekum.

Ég efast um að þessir fáu sem lesa bloggið mitt kíki í sjúkrakassann sinn og hlaupi svo út í apótek eftir nauðsynlegum efnum til að bæta öryggi barna sinna og annarra á heimilinu!

P.s. Það eru til ánægjulega undantekningar frá öryggisleysinu hjá nokkrum stórum vinnustöðum, t.d. hjá álverunum í Straumsvík og á Reyðarfirði auk OR og einhverra fleiri þar sem reynt er að minnka áhættuna eins og hægt er.

miðvikudagur, september 08, 2010

8. september 2010 - Lýður Oddsson

Jón Gnarr er snillingur á sínu sviði. Það þarf ekki að grafa lengi til að sjá að hann var á réttri hillu sem leikari hvort heldur er í sjónvarpsþáttum eða kvikmyndum og auglýsingagerðarmaður er hann af Guðs náð. Hver man ekki eftir Júdasi í frægum auglýsingum frá Símanum eða þá Lýð Oddssyni lottóverðlaunahafa? Þá má ekki gleyma Georg Bjarnfreðarsyni sem er með fimm háskólagráður frá Uppsala Universitet. Með öllum þessum hlutverkum hefur Jóni Gnarr tekist að ávinna sér sess í hjörtum íslensku þjóðarinnar svo eftir er tekið.

Það gerir ekki málin verri að Jón Gnarr var tengdasonur hins ágæta Jóhanns Gíslasonar, eins skemmtilegasta vélstjóra sem siglt hefur á skipum Eimskipafélags Íslands og var þar yfirvélstjóri í fjölda ára, en hann lést snögglega síðastliðið vor nokkru fyrir kosningarnar.

Nú má greina slæman afturkipp á íslenskum auglýsingamarkaði. Jón Gnarr hefur haslað sér völl á nýjum vettvangi. Vafasamar auglýsingar hafa heltekið auglýsingatímana þar sem Steindi sýnir sínar verstu hliðar og Síminn lætur þekkta leikara drekka bensín af stút eins og sælgæti væri. Á sama tíma felst bætt hverfalýðræði í því að trésmiður í vesturbæ Reykjavíkur og fallkandídat í borgarstjórnarkosningum er gerður að formanni hverfarás Árbæjar og annar fallkandídat, sá úr Skerjafirðinum, er gerður að formanni hverfaráðs Kjalarness. Þá eru gjaldskrár borgarfyrirtækja miskunnarlaust hækkaðar af slíku miskunnarleysi undir stjórn Besta flokksins að verstu handrukkarar blikna í samanburði.

Af einhverjum ástæðum fæ ég á tilfinninguna að bæði íbúar Reykjavíkur og auglýsinga- og skemmtanamarkaðurinn hafi þurft að líða fyrir þessi vistaskipti Jóns Gnarr.

þriðjudagur, september 07, 2010

7. september 2010 - Jenis av Rana

Jenis av Rana er starfandi heimilislæknir í Færeyjum, formaður Miðflokksins á Straumey og áhrifamaður í sértrúarsöfnuði þar. Hann hefur nú gert okkur þann heiður að neita að sitja kvöldverðarboð til heiðurs Jóhönnu Sigurðardóttur og eiginkonu hennar Jónínu Leósdóttur.

Þótt mér þyki miður að Jenis av Rana skuli hafa verið boðið í svo gott boð sem með þeim Jóhönnu og Jónínu, þá fagna ég því að hann skuli hafa afboðað sig við umrætt boð. Hann hefur ekki aðeins barist hatrammlega gegn mannréttindum í Færeyjum, heldur hefur hann og brotið gegn færeyskum barnaverndalögum sem kveða á um upplýsingaskyldu fólks sé brotið gegn þeim. Í því dæmi sem ég hefi heyrt um, ákvað hann að vernda söfnuð sinn gegn upplýsingaskyldunni er hann komst að því árið 2006 að fjölskyldufaðir hefði gert sig sekan um kynferðisofbeldi gegn dóttur sinni. Hann hafði ekki samband við yfirvöld sem honum bar lögum samkvæmt að gera og stóð auk þess með föðurnum gegn kæru dótturinnar gegn honum.

Að slíkum viðbjóði af manneskju skuli vera boðið að sitja til borðs með forsætisráðherra okkar er móðgun við íslenska þjóð, en sem betur fer hafnaði hann sjálfur boðinu.

Daginn sem færeyska þjóðin losar sig við öfgamann sem Jenis av Rana úr sviðsljósi stjórnmálanna verður stór dagur fyrir mannréttindabaráttu fólks um allan heim.

mánudagur, september 06, 2010

6. september 2010 - Á að slá út lekaliðanum?

Þessa dagana er hvatt til þess á Facebook og víðar að fólk sameinist um að slá út lekaliðum sínum í fáeinar mínútur til að mótmæla verðhækkunum á rafmagni. Það að mótmæla með því að hætta að versla tiltekna vöru eða versla í tileknum verslunum er skiljanlegt, en þessi mótmæli eru samt öllu vafasamari.

Ef fjöldi fólks slær út lekaliðanum hjá sér í fáeinar mínútur verða áhrifin hverfandi, jafnvel þótt við ímyndum okkur að fimmtíu þúsund heimili á Reykjavíkursvæðinu slái út lekaliðanum hjá sér í hálftíma eða klukkutíma að kvöldi til. Einustu áhrifin sem það veldur eru að álagstoppurinn að kvöldi verður mun seinna en annars verður og því betri dreifing á sólarhringsnotkuninni fyrir dreifingaraðila rafmagnsins. Margir geta hinsvegar skapað sér vandræði, t.d. ef þeir gleyma að slökkva á borðtölvum og öðrum mjög viðkvæmum raftækjum áður en þeir slá út lekaliðanum svo ekki sé talað um blessaðar vekjaraklukkurnar sem margar fara í núllstillingu í hvert sinn sem rafmagnið fer af.

Það er einu sinni svo að hinir stóru notendur rafmagns eru miklu stærri í heildarnotkuninni en nokkrar ljósaperur. Um kvöldmatarleytið eru margar verksmiðjur og iðnfyrirtæki stopp en aðrar þar sem unnin er vaktavinna, munu ekki tefja framleiðsluna með slíku ótímabæru stoppi. Einn bræðsluofn í álveri er stærri en öll rafmagnsnotkun í Reykjavík og útsláttur á slíkum ofni hefur áhrif á rafkerfið, ekki aðeins í Reykjavík, heldur um land allt. Fáeinar ljósaperur segja ekkert í slíku sambandi, ekki einu sinni allar ljósaperur á Íslandi.

Því kostar það aðeins vandræði fyrir mótmælendur ætli þeir sér að mótmæla með því að slá út lekaliðanum. Það er því best að finna sér aðrar aðferðir til að mótmæla og sleppa lekaliðanum.

sunnudagur, september 05, 2010

5. september 2010 - Af klaufaskap biskups

Gunnar Sigurjónsson prestur tjáði sig um starf biskups í sjónvarpsfréttum í kvöld, taldi orð hans klaufaleg en ekki svo að ástæða væri fyrir hann að segja af sér. Ég er sammála Gunnari um að biskup sé enginn sökudólgur í kynferðisbrotamálum meðal kirkjunnar þjóna. Klaufaskapur er hinsvegar réttlæting fyrir kröfu um afsögn.

Biskup tjáði sig ákaflega klaufalega í sjónvarpsviðtali um daginn um kynferðisbrotamál forvera síns í embætti og það er ekki nógu gott. Hann reyndi að sigla á milli skers og báru þegar nauðsynlegt var að taka skýra afstöðu gegn kynferðisafbrotum í þeim tilgangi að vernda látinn kollega sinn. Sá sem gegnir æðsta trúarlega embætti landsins verður að kunna skil á réttu og röngu og því brást biskup í þetta sinn. Það er um leið tæplega ástæða fyrir úrsögnum úr þjóðkirkjunni að fjölmiðlar hafi lagt kirkjuna í einelti eins og sá ágæti guðsmaður Örn Bárður Jónsson orðaði svo skemmtilega í messu sunnudagsins. Ástæðan er miklu fremur umræðan á Facebook og sú hjarðhegðun sem þar á sér stundum stað.

Eins og gefur að skilja var ekki búið að finna upp Facebook árið 1996 þegar síðustu fjöldaúrsagnir voru úr þjóðkirkjunni og sjálft netið reyndar enn að slíta barnsskónum. Þegar ofbeldisverk fyrrum biskups komust í hámæli öðru sinni fjórtán árum eftir hið fyrra hafði margt breyst í netheimum og auðvelt að kalla saman þjóðfund án atbeina fjölmiðla. Afleiðingin varð að fjöldaúrsögnum úr þjóðkirkjunni án þess að kirkja eða formlegir fjölmiðlar hefðu nokkuð um slíkt að segja.

Um það má svo deila hvort kirkjan verði nokkuð bættari með afsögn biskups þegar haft er í huga að einn þeirra sem stundum eru kallaðir svartstakkar er einmitt staðgengill biskups og vígslubiskup, séra Sigurður Sigurðsson í Skálholti.

föstudagur, september 03, 2010

3. september 2010 - Af eldhúsi OR

Eftirfarandi yfirlýsing hefur borist fjölmiðlum frá Benedikt Jónssyni yfirmatreiðslumanni OR og birtist hér óbreytt:

Rangtúlkun fjölmiðla

Starfsfólk og aðbúnaður

Það hefur sennilega ekki farið fram hjá mörgum þær fréttir að eldhús Orkuveitu Reykjavíkur sé ekkert nema bruðl og flottræfilsháttur. Starfsfólki eldhússins finnst nauðsynlegt að koma á framfæri leiðréttingu á þessari rangtúlkun. Hluti starfsfólksins hefur starfað í þessu eldhúsi frá því að það var sett á laggirnar í byrjun árs 2003 og veit því vel hvað þar hefur farið fram undanfarin ár.

Fyrst ber að leiðrétta að starfsmenn eldhússins eru samtalst 17 en ekki 31 eins og komið hefur fram í fjölmiðlum. Af þessum 17 eru 3 í hlutastarfi. Þessi starfsmannafjöldi skiptist á þrjár starfsstöðvar fyrirtækisins sem eru Nesjavellir, Hellisheiði og Bæjarháls. Meðalfjöldi starfsmanna í hádegismat er 520.

Þegar ákveðið var að byggja eldhúsið á sínum tíma var haft að leiðarljósi að Orkuveitan myndi hætta að kaupa tilbúinn bakkamat en í staðinn skyldi allur matur eldaður á staðnum. Það yrði ódýrara, heilnæmara og auðveldara að stjórna gæðunum. Í eldhúsið voru keypt hefðbundin eldhústæki sem voru valin eftir opið útboð. Þau tæki sem urðu fyrir valinu eru ekki merkilegri en hver önnur eldhústæki í stóreldhúsum og sem dæmi eru ofnarnir hefðbundnir gufusteikingarofnar og eldavélin er orkusparandi spansuðuvél.

Í eldhúsinu er starfrækt vottað gæðakerfi þar sem öllum reglum er framfylgt og önnur sambærileg fyrirtæki hafa haft sem fyrirmynd. Það er því leiðinlegt að umræðan sé þannig að það sé kallað bruðl þegar aðeins er verið að framfylgja lögum um matvælaeftirlit og hollustuhætti. Fjöldi starfsmanna Orkuveitunnar vinnur við heitt og kalt vatn daglega og því mikilvægt að ekki komi upp matarsýking/eitrun sem gæti gert starfsmenn óhæfa við störf sín.

Mikill misskilningur er að þetta sé á einhvern hátt tölvustýrt eldhús. Ofnarnir eru tengdir við HACCP gæðakerfi sem skráir allar aðgerðir, mælir og geymir kjarnhitastig sem er mjög mikilvægt þegar verið er að steikja t.d. kjúkling sem þarf að ná ákveðnu hitastigi við eldun. Þeir sem ekki vita hvað HACCP merkir þá er það innra eftirlit með kerfisbundinni aðferð sem notuð er í þeim tilgangi að tryggja gæði, öryggi og hollustu matvæla og að matvælin uppfylli að öðru leyti þær kröfur sem til þeirra eru gerðar. Innra eftirlit miðar að því koma í veg fyrir (þ.e. að fyrirbyggja) að matvæli skemmist eða mengist og geti þannig valdið heilsutjóni eins og matareitrun eða matarsýkingu.

Flestir ofnar hafa þennan möguleika á tölvutengingu en fáir matreiðslumenn hafa viljað tileinka sér þessa aðferð við skráningu mælinga og geymslu gagna, sem sagt enginn aukakostnaður við þetta aðeins hagræðing og meira öryggi við skráningu nauðsynlegra gagna. Í þessum ofnum er hægt að baka brauð eins og í flestum ofnum. Ekkert sérstakt bakarí er í eldhúsinu þó svo að öll brauð séu bökuð á staðnum og er það mikill sparnaður.

Myndbandið og leiðrétting á misfærslum

Myndbandið sem gert var um eldhúsið var að frumkvæði matreiðslumanna sem starfa í eldhúsinu. Mikill áhugi var á meðal fagfólks í matvælaiðnaði með að skoða aðstöðuna en erfitt þótti að sýna eldhúsið þar sem takmarkaður aðgangur var leyfður. Það má alveg deila um hvort það hafi verið nauðsynlegt eða ekki að gera myndbandið en tilgangurinn var sá að sýna öðrum fagmönnum hvernig eldhús OR var að gera hlutina. Kostnaður OR við myndbandið var 100 þús. kr og var vinna þess unnin að mestu í frítíma starfsmanna. Myndbandið hefur komið mörgum að góðum notum og álíka eldhús verið byggð á fyrirmynd þess, einkum vegna hagræðingar og góðra vinnuhátta.

Í myndbandinu er sýnt hvernig silungur er reyktur í hitaskáp. Þessi reykskápur er venjulegur hitaskápur sem ekkert stóreldhús getur verið án, þá má líka nota þessa skápa til þess að reykja fisk/kjöt ofl. Því er sú umræða um að keyptur hafi verið sérstakur reykskápur á villigötum.
Einnig hefur grænmetisþvottavélin fengið sinn skammt af gagnrýni. Það er grundvallarregla við meðhöndlun grænmetis og ávaxta að skola vel upp úr hreinu vatni áður en þess er neytt, minni eldhús geta notast við vask og handvirka salatvindu en í stóreldhúsum eru önnur lögmál. Þetta tæki hefur sparað mörg handtökin. Þeir vinnustaðir sem skola ekki sitt grænmeti bjóða hættunni heim vegna hættu á óæskilegum aðskotadýrum og örverum.

Í myndbandinu er sagt frá því að 15.000 gestir hafi þegið veitingar árið 2003. Stór hluti af þessum fjölda er tilkominn vegna vígslu höfuðstöðva fyrirtækisins árið 2003 þegar fyrirtækið var með opið hús fyrir almenning sem taldi 10.200 manns. Aðrir hópar gesta voru t.d grunnskólanemar, háskólanemar, eldri borgarar og fólk sem sótti vikulega deildarfundi. Árið 2009 var þessi fjöldi 3215 og árið 2010 er fjöldinn óverulegur.

Í kvöldfréttum stöðvar 2 þann 1. september var viðtal við matreiðslumann á veitingastað. Þar bar hann saman eldhúsið sitt við eldhús OR. Ekki er réttlátt að bera saman þessi tvö eldhús þar sem þau þjóna engan veginn sama tilgangi. Eldhús veitingastaða er allt annar flokkur eldhúsa en stór framleiðslueldhús og því á engan hátt hægt að bera saman þessi tvö eldhús vegna ólíkra aðferða.

Í sömu frétt er verið að bera saman eldhús OR við skólamötuneyti þar sem einn matreiðslumaður eldar fyrir 500 börn með ófullnægjandi aðstöðu. Vinnuumhverfið í eldhúsum skólanna ætti í raun frekar að vera fréttaefnið. Munurinn á eldhúsi OR og mörgum öðrum er fólgin í því að mikil áhersla er lögð á að maturinn er eldaður frá grunni á staðnum, engir tilbúnir réttir eru aðkeyptir, grænmetið er skorið og eldað á staðnum og áhersla lögð á hollustu og réttar matreiðsluaðferðir.

Starfsfólki eldhússins finnst afar dapurt að fjölmiðlar hafi dregið upp þá mynd af eldhúsinu að þar sé bruðlað í aðbúnaði og hráefni þegar meginmarkmið eldhússins hefur alltaf verið að fara eftir reglum um aðbúnað, hagkvæmni og aðferðir. Starfsfólkið telur að þessi góði vinnustaður hafi skaðast vegna rangs og óréttláts fréttaflutnings undanfarinna daga. Það er bæði rangt og óréttlátt að halda því fram að eldhúsið sé það sem mestu skiptir þegar rætt er um slæma fjárhagsstöðu Orkuveitunnar.

Fyrir hönd starfsfólks eldhúss Orkuveitu Reykjavíkur
Benedikt Jónsson
Yfirmatreiðslumeistari

fimmtudagur, september 02, 2010

2. september 2010 - Voðaverk Kristjáns Möller

Ég er ekki sátt. Kveðja Kristjáns Möller til handa landsmönnum síðustu mínutur sínar í ráðherraembætti er eins og hnífur í bak friðarsinna og kann ég honum engar þakkir fyrir. Það má vel vera að nýfrjálshyggjuþrjótarnir sem seldu útsæðið úr eigin garði á Suðurnesjum og eru nú á hvínandi kúpunni með stuðningi innfæddra fagni innilega komu þessa málaliðafyrirtækis til Suðurnesja, en þeir verða vonandi einir um það.

Reyndar grunar mig að ekki muni líða langur tími uns Suðurnesjamenn sjái einnig þvílíkan harmleik er verið að framkvæma með þessu glapræði og sjálf vona ég að jafnaðarmenn losi sig við fráfarandi samgönguráðherra úr liði sínu svo fljótt sem verða má eftir þessi svik við jafnaðarstefnuna og friðarvonir í heiminum.

Það er fleira sem gerir mig ósátta við ríkisstjórnina. Ég er ósátt við brotthvarf Rögnu Árnadóttur úr ríkisstjórn. Það má vera að einhverjum þyki sem sæti Ögmundar Jónassonar í ríkisstjórn sé málamiðlun svo hægt sé að skapa frið meðal VG. Þeir sem halda slíkt vaða villu og reyk. Fyrsta merki hins nýja klofnings meðal kattanna í VG er þingsályktunartillaga Ásmundar Einars gegn samningaviðræðunum um Evrópusambandið.

Einhvern veginn fæ ég á tilfinninguna að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sé í andarslitrunum nema til komi nýr stuðningur úr öðrum áttum en frá VG.

Því miður.