laugardagur, mars 28, 2009

28. mars 2009 - Davíð og Jesús

Eins og alþjóð ætti að vera kunnugt, nefndi Davíð Oddsson á landsfundi Sjálfstæðisflokksins að ekki væri einu sinni hægt að gúggla á hinn nýja og norska Seðlabankastjóra.

Það er kannski rétt, en um leið tókst Davíð að koma sér á síður Wikipedia fyrir ummæli sín um Jesús Krist.

http://en.wikipedia.org/wiki/List_of_people_who_have_claimed_to_be_Jesus

P.s. 1. apríl.
Messías eða félagar hans hafa augljóslega kvartað því færslan er horfin af Wikipedia. En ummælin lifa eftir sem áður.

föstudagur, mars 27, 2009

28. mars 2009 - Af Evrópusambandssamþykkt Sjálfstæðisflokksins

Hestaeigandi bauð bónda einum skipti á hrossum og þótt hann héldi því fram að um mikinn gæðing væri að ræða, afþakkaði bóndi því eins og hann sagði eftirá:

„Þótt minn hestur sé bæði gamall og haltur, þá þekki ég hann og fer aldrei að skipta á honum og einhverju hrossi sem ég þekki ekki.“

Samþykktin á landsfundi Sjálfstæðisflokksins gegn Evrópusambandinu var af sama toga. ef við fáum einungis að sjá gallana við Evrópusambandið eða fáum ekki að vita kostina, er mjög líklegt að þjóðin hafni því að hefja samningaviðræður um inngöngu í Evrópusambandið og við fáum að búa áfram við einangrun, ónýtan gjaldmiðil og óðaverðbólgu. Þessi tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðsla er því vilji hatrömmustu Evrópusambandsandstæðinga, ekki einvörðungu í Sjálfstæðisflokknum, heldur og manna á borð við Hjörleif Guttormsson og Ragnar Arnalds.

Því segi ég, hefjum samningaviðræður við Evrópusambandið. Ef þær skila engu, verður viðræðunum sjálfhætt, annars lýkur þeim með samkomulagi sem að sjálfsögðu verður borið undir þjóðaratkvæði til samþykkis eða synjunar.

fimmtudagur, mars 26, 2009

27. mars 2009 - Veðrið

Anna biður þjóðina afsökunar á að hafa gert þau mistök að sjá ekki að frostið um helgina er Evrópusambandinu að kenna.

Með þessu er ég búin að játa mín mistök eins og Geir Haarde.

miðvikudagur, mars 25, 2009

26. mars 2009 - Soffía frænka

Ónefndur frambjóðandi var á ferð um Austurland á dögunum og þar fékk hann óvægna spurningu um Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra frá einum kjósanda, en honum fannst hún alltaf svo þurr og reið í sjónvarpsviðtölum.

Frambjóðandinn benti kjósandanum á að Jóhanna væri kannski svipuð og Soffía frænka. Betra væri að hafa Soffíu frænku til að hafa stjórn á ræningjunum en að þeir léku lausum hala og næðu aftur völdum.

þriðjudagur, mars 17, 2009

17. mars 2009 - Loksins Loksins

Nú er það ljóst að Fjármálaeftirlitið hefur sent mál nokkurra lífeyrissjóða til sérstaks saksóknara til rannsóknar. Það kemur mér ekki á óvart, enda hefi ég sjálf tapað stórfé á þessum sömu lífeyrissjóðum.

Það er þó eitt sem ég skil ekki alveg. Lífeyrissjóðurinn Kjölur er settur undir tilsjón Viðars Lúðvíkssonar, en lífeyrissjóður Eimskipafélagsins er settur undir tilsjón Láru V. Júlíusdóttur. Fyrir um tveimur árum rann lífeyrissjóður Eimskipafélagsins inn í lífeyrissjóðinn Kjöl sem þá var stofnaður af nokkrum lokuðum lífeyrissjóðum, þ.e. auk Eimskipafélagsins, lífeyrissjóði Flugvirkjafélagsins, starfsmanna Olíverslunar Íslands, Mjólkursamsölunnar og Áburðarverksmiðjunnar ef ég man rétt. Sjálf á ég umtalsverða fjármuni í lífeyrissjóði Eimskips/Kili eftir margra ára störf hjá Eimskip.

Það var haldinn fundur í Íslenska lífeyrissjóðnum um miðjan desember og þar var kynnt mikið tap sjóðsins eða nærri þriðjungur að raunvirði. Þar fór nokkur kynning fram á því hvaða fyrirtækjum hafði verið fjárfest í og það voru ekki falleg nöfn í ljósi kreppunnar. Viku síðar (tveimur dögum fyrir jól) var haldinn fundur í lífeyrissjóðnum Kili og þar mætti sami sjóðsstjóri og svaraði fyrir verk sín. Tapið var líka ótrúlega svipað og í Íslenska lífeyrissjóðnum. Þar var fundargestum neitað um að sjá nöfn fyrirtækjanna sem fjárfest hafði verið í, en stjórnarformaður Kjalar fullyrti að einungis væri um að ræða mjög traust og áreiðanleg fyrirtæki.

Þess má geta að stjórnarformaður lífeyrissjóðsins Kjalar er nú starfsmaður eins þeirra fyrirtækja sem nú eru í eigu Stoða hf (FL-grúpp). Sjálf sá ég enga ástæðu til að halda áfram viðskiptum við Íslenska lífeyrissjóðinn og flutti séreign mína yfir á lífeyrisbók Landsbankans. Ég get hinsvegar ekki flutt eign mína í lífeyrissjóðnum Kili neitt og því háð duttlungum þeirra sem þar ráða ríkjum.

Án þess að ég viti neitt, þá grunar mig að tveir aldnir heiðursmenn frá Eimskip hafi þrýst á kröfur þess að mál umræddra lífeyrissjóða voru send til sérstaks saksóknara frá Fjármálaeftirlitinu, þeir Kristján Guðmundsson fyrrum skipstjóri og Sigurður Jónsson fyrrum yfirvélstjóri, en báðir voru þeir mjög ósáttir við afgreiðslu mála á fundinum 22. desember og þeirra leyndar sem málið var hjúpað.

Þeim sé þökk fyrir að halda okkur vakandi fyrir spillingunni.

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/03/17/fimm_lifeyrissjodir_i_rannsokn/

laugardagur, mars 14, 2009

14. mars 2009 - Skemmtilegri prófkjörsbaráttu lokið

Þegar horft er um öxl og reynt að draga lærdóm af prófkjöri Samfylkingarinnar, þá held ég að Sigríður Ingibjörg sé ótvíræður sigurvegari. Hún er fulltrúi grasrótarinnar ásamt Önnu Pálu Sverrisdóttur sem þarf að gjalda fyrir ungan aldur.

Sjálf setti ég Jóhönnu í fyrsta sæti, enda þurfti hún á því að halda frá almennu flokksfólki í þeirri von að atkvæðin yrðu henni hvatning til að sækjast eftir formannsstól Samfylkingarinnar á landsfundinum eftir tvær vikur. Þá reyndi ég mitt besta til að tryggja Sigríði Ingibjörgu glæsilega kosningu og það tókst.

Ég ætla ekkert að gefa upp hvernig ég raðaði á listann að öðru leyti en því að ég setti Jóhönnu í fyrsta og Sigríði Ingibjörgu mjög ofarlega. Þarna var mikill fjöldi mjög hæfra einstaklinga sem kepptust um sæti á framboðslistanum og það var einfaldlega mjög erfitt að gera upp á milli þeirra og mega aðeins merkja við átta manneskjur. Um leið var fyrirsjáanlegt að nokkur tilfærsla ætti eftir að eiga sér stað eftir að fyrstu tölur voru kynntar, bæði í ljósi þess hve mikil dreifing virtist vera á atkvæðum við fyrstu tölur, en yngri flokksmenn hafa sennilega gert meira af því að kjósa á netinu, en þeir eldri frekar á kjörstað. Því var eðlilegt að Ásta Ragnheiður og Helgi Hjörvar myndu síga framúr á lokasprettinum þegar síðustu atkvæðin, öll greidd á kjörstað, voru talin.

Þótt ég hafi þegar óskað Sigríði Ingibjörgu sjálfri til hamingju með frábæran árangur, er sjálfsagt að ítreka það hér um leið og ég hlakka til áframhaldandi samstarfs með henni og öðru frábæru fólki innan Samfylkingarinnar.

http://www.mbl.is/mm/frettir/kosningar/2009/03/14/asta_ragnheidur_i_8_saeti/

föstudagur, mars 13, 2009

13. mars 2009 - Örvhentir Íslendingar

Fyrir nokkru ritaði ég stuttan pistil um örvhenta Bandaríkjaforseta, en það hefur orðið mikil fjölgun í stéttinni með þeim Reagan, gamla Bush, Clinton og nú síðast Obama, en undanvillingurinn hans gamla Bush, þ.e. George Dobbljú Bush er að sjálfsögðu öfgasinnaður hægrimaður á öllum sviðum og skrifar með hægri.

En það eru fleiri örvhentir en Bandaríkjaforsetar og ég. Má þar nefna Leonardo da Vinci, Michelangelo, Paul McCartney, Jóhönnu af Örk, Victoriu drottningu, Ayrton Senna og sjálfa hönd Guðs, Diego Armando Maradona (við skulum ekkert hafa hátt um þann síðastnefnda)

Á miðvikudagskvöldið var ég stödd á kynningarfundi frambjóðenda í prófkjöri Samfylkingarinnar. Þar sem ég sat við borð ásamt hópi fólks, veitti ég því athygli að uppáhaldsframbjóðandinn minn í prófkjörinu tók upp penna og hóf að rita hjá sér athugasemdir á blað og að sjálfsögðu notaði hún vinstri hendina.Þetta gladdi auðvitað mitt vinstrisinnaða hjarta, en um leið fór ég að velta fyrir mér hvaða þekktir Íslendingar eru örvhentir. Einhverjar uppástungur?

-----oOo-----

Enn og aftur vil ég svo hvetja Samfylkingarfólk að fara inn á http://samfylking.is/ og greiða þar atkvæði. Þá er ekki úr vegi að muna okkar konu í prófkjörinu, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur en lesa má um hennar hjartans mál á síðunni

http://sigriduringibjorg.is/

fimmtudagur, mars 12, 2009

12. apríl 2009 - Óþarfi að biðja mig afsökunar!

Sem eitt þessara barna sem ólust upp á barnaheimili, fjarri foreldrunum, var algjör óþarfi að biðja mig afsökunar á einu né neinu. Þrátt fyrir neikvæða umræðu um barnaheimilið Reykjahlíð þar sem ég eyddi stórum hluta æskunnar, leið mér vel þar og tel að ég hafi farið þaðan betri manneskja en þegar ég kom þangað. Flest þau börn sem ég hefi rætt við eftir að umræðan kom upp um vond barnaheimili, eru mér sammála og höfum mörg okkar gefið skýrslu þar að lútandi til nefndar um vistheimili sem er að vinna í þessu máli.

Um leið vil ég þakka Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir afsökunarbeiðni hennar gagnvart Breiðavíkurdrengjum og öðrum þeim börnum sem telja sig hafa verið misrétti beitt í æsku. Það er í sjálfu sér lítið verk að biðja fólk afsökunar á misgjörðum þeim sem framkvæmdar voru af stjórnvöldum, en samt treysti Geir Haarde sér ekki til að segja þessi orð á formlegan hátt og er það í samræmi við önnur embættisverk hans í forsætisráðuneytinu. Nú hefur Jóhanna tekið af skarið og er hún enn meiri manneskja fyrir bragðið.

http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/03/12/afsokunarbeidni_vegna_breidavikur/

miðvikudagur, mars 11, 2009

12. mars 2009 - Baráttuhetja myrt


Haustið 2005 tók ég þátt í fyrsta þingi Evrópsku Transgendersamtakanna sem haldið var í Vínarborg í Austurríki. Þetta var í fyrsta sinn sem mér auðnaðist að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi transgender fólks, en þarna hittust tæplega 130 transgender og intersex einstaklingar frá mörgum löndum Evrópu til skrafs og ráðagerða og til að bindast samtökum um réttindamál sín.

Þarna sameinaðist fólk frá Portúgal, Tyrklandi, Bosníu, Þýskalandi, Rússlandi, Finnlandi og raunar flestum ríkjum Evrópu, tengdist í samtökunum Transgender Europe og þar sem ég sat í stjórn næstu þrjú árin á eftir.

Meðal fólks sem ég kynntist á þinginu voru Ebru og Demet, tvær transkonur sem höfðu átt undir högg að sækja í heimalandi sínu, Tyrklandi, en þær voru báðar ákafar baráttukonur fyrir réttindum transgender einstaklinga í samtökunum Lambda Istanbul og höfðu sýnt af sér ótrúlegan kjark með því að koma fram opinberlega í Tyrklandi og segja frá tilfinningum sínum og skoðunum, í landi sem hatar allt sem ekki fellur inn í þjóðfélagsnormið. Ástandið sem Ebru og Demet lýstu fyrir mér, var hrollvekjandi. Transfólki er misþyrmt, rekið úr vinnu, ofsótt, nauðgað, jafnvel myrt, yfirleitt allt gert til að gera því lífið leitt.

Ég hitti Ebru og Demet aftur á öðru þingi TGEU sem haldið var í Berlín vorið 2008. Á þeim tíma sem liðinn var frá fyrsta þinginu hafði margt áunnist, það var farið að hlusta á þær. Þær töldu sig finna fyrir bættum viðhorfum í samfélaginu í sinn garð og annarra sem voru í svipaðri aðstöðu, kannski fyrir þá sök að þær börðust opinberlega fyrir réttindum transgender fólks og þær töluðu fyrir réttindunum án þess að vera á bak við luktar dyr.

Fyrir skömmu síðan barst Ebru alvarleg hótun frá ókunnum aðilum í Istanbul, nógu alvarleg til að hún sá ástæðu til að hafa samband við lögreglu og óska verndar. Hún hafði oft fengið hótanir áður, en nú fannst henni sem alvara væri á bakvið og hafði því samband við lögregluna. Lögreglan sá ekki ástæðu til að verða við óskum hennar og þann 10. mars 2009 fannst hún myrt á heimili sínu í Istanbul.

Þótt Ebru sé fyrsta baráttukonan úr Evrópsku transgendersamtökunum til að falla fyrir hendi morðingja, er hún alls ekki fyrsta transgender manneskjan til að verða fórnarlamb hatursglæps af þessu tagi, en árlega falla á milli 20 og 30 transgender manneskjur fyrir hendi morðingja, langflestar lítt þekktar sem hafa lifað í felum fyrir sviðsljósi forvitninnar.

Mig langar til að biðja alla sem lesa orð mín að minnast Ebru með hlýhug og virðingu.

-----oOo-----

Á myndinni er Ebru til vinstri og Demet til hægri. Á milli þeirra er formaður frönsku transsamtakanna Caritig, Armand Hotimski.

þriðjudagur, mars 10, 2009

10. mars 2009 - Jóhanna Sigurðardóttir

Nú þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur ákveðið að leggja stjórnmálin á hilluna um sinn, er full ástæða til að velta fyrir sér hver taki við keflinu af henni. Jóhanna Sigurðardóttir hefur hafnað því að taka við formennskunni svo ætla mætti að nú væri að hefjast slagur um forystuna í Samfylkingunni.

Ég er ekki viss um að slagur um formennsku sé heppilegur um þessar mundir. Þótt finna megi nokkra góða frambjóðendur í formannsstólinn, er nóg að kljást við andstæðingana í kosningabaráttunni þótt ekki sé verið að berjast innbyrðis um völd. Því verðum við öll að hvetja reynsluboltann Jóhönnu Sigurðardóttur til að bjóða sig fram til formanns og við munum öll standa á bakvið hana í baráttunni fyrir betra samfélagi.

-----oOo-----

Ég vil halda áfram að minna á heimasíðu Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur sem er í framboði í prófkjöri Samfylkingarinnar og hvet ég alla sem eiga kosningarétt í prófkjörinu, að merkja við hana í 3. sæti og helst ekki neðar en í 5. sæti.

http://sigriduringibjorg.is

sunnudagur, mars 08, 2009

8. mars 2009 - Ingibjörg Sólrún Gísladóttir

Ég kynntist Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur um áramótin 1996-1997 er hún kom í áramótasamkvæmi starfsfólks Veitustofnana sem haldið var af stjórn Veitustofnana, reyndar á sama tíma og ég kynntist Alfreð Þorsteinssyni og líkaði mér vel við bæði, en ég var þá nýbyrjuð hjá Hitaveitunni. Næstu árin á eftir rakst ég á Ingibjörgu Sólrúnu öðru hverju og þá einkum í tengslum við störf mín hjá Hitaveitunni, en hún var þá borgarstjóri. Ég þarf heldur ekki að taka fram að stuðningur þeirra beggja við mig varð mér ennfremur hvatning til að styðja þau og R-listann í sveitastjórnarkosningunum 1998 og 2002 þótt skoðanir mínar teldust vinstra megin við þeirra í landsmálunum.

Fyrir kosningarnar 2006 sagði Vinstri hreyfingin-grænt framboð skilið við R-listann í Reykjavík. Þetta, ásamt jákvæðum skoðunum mínum gagnvart Evrópusambandinu, varð til þess að ég sagði skilið við VG þar sem ég hafði reyndar aldrei verið flokksbundin, en fór yfir til Samfylkingarinnar þar sem ég gerðist formlegur félagi þá um vorið. Meðal þeirra fyrstu til að bjóða mig velkomna í Samfylkinguna var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, en hjá henni fann ég fyrir trausti til frekari trúnaðarstarfa fyrir hreyfingu jafnaðarmanna.

Þar sem ég hefi verið virk innan Samfylkingarinnar á þessum tæpu þremur árum sem ég hefi verið flokksbundin, hefi ég ekki komist hjá því að kynnast þeim jákvæðu straumum sem Ingibjörg Sólrún hefur sent frá sér og stutt hana í flestum hennar verkum. Því fann ég, rétt eins og allur þorri Samfylkingarfólks, fyrir sárum missi er hún veiktist í upphafi kreppunnar síðastliðið haust. Svo snéri hún aftur, en einungis til skamms tíma.

Sjálf hirði ég ekki um tvenn ummæli sem hún hefði betur látið ósögð, því öll gerum við mistök, ekki bara einu sinni eða tvisvar, heldur margoft.

Á sjálfan kvennadaginn, ákvað hún að kveðja okkur að sinni. Þrátt fyrir grunsemdir mínar um að heilsa hennar væri verri en hún hafði gefið í skyn, kom ákvörðun hennar okkur öllum á óvart. Við eigum öll þá von í brjósti að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir nái heilsu á ný og snúi aftur til baka að afloknum veikindum.

-----oOo-----

Varðandi orð Einars Mar Þórðarsonar stjórnmálafræðings í sjónvarpsfréttum á sunnudagskvöldið þess efnis að afsögn Ingibjargar Sólrúnar væri af pólitískum ástæðum, mátti hann vita betur, vitandi að Solla hefði frestað fleiri fundum síðustu dagana vegna veikinda.

8. mars 2009 - Sigríður Ingibjörg Ingadóttir


Á tímum þegar prófkjör eru enn notuð til að raða fólki á framboðslista, getur stundum reynst nauðsynlegt að kynna fólk til sögunnar sem gefur kost á sér í prófkjöri. Í prófkjöri eins og nú þegar sáralitlir peningar eru til í sjóði, veitir ekkert af að beita öllum tiltækum ódýrum og ókeypis ráðum til að auglýsa sinn frambjóðanda.

Þrátt fyrir fullt og oftast mikið traust mitt til annarra frambjóðenda Samfylkingarinnar, og að þeim öllum ólöstuðum, hefi ég heitið stuðningi mínum í fyrsta lagi til handa Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur sem er í framboði í þriðja til fimmta sæti í Reykjavíkurkjördæmum. Það er stutt síðan ég kynntist henni, man fyrst eftir henni í tengslum við kosningarnar 2007, en vissi þá engin frekari deili á henni. Það var svo ekki fyrr en við bankahrunið sem nafn hennar heyrðist fyrst fyrir alvöru þrátt fyrir mikið og gott starf í grasrót Samfylkingarinnar, en hún hafði þá setið um skeið í valdalausu bankaráði Seðlabankans, en sem slík axlaði hún sína ábyrgð og sagði af sér í kjölfar hrunsins. Síðan þá hefur hún verið eins og rísandi sól á himni jafnaðarstefnunnar.

Sigríður er ung, rúmlega fertug. Hún er fordómalaus og hún er feministi sem kom úr kvennahreyfingunni til móts við Samfylkinguna. Hún er hugrökk og heiðarleg og vel menntuð í sagnfræði og hagfræði, en er í leyfi frá störfum í Félags- og tryggingamálaráðuneytinu þar sem hún starfar við húsnæðismál og almannatryggingamál auk þess sem hún er formaður stjórnar Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna.

Þess má geta að föðuramma Sigríðar var Ólafía Ingibjörg Óladóttir verkakona í Vestmanneyjum og baráttukona í verkakvennafélaginu Snót, hálfsystir Páls Eggerts Ólasonar lögfræðings og fræðimanns, en í móðurættina er hún komin frá Brigittu Þorvarðardóttur í Stíflisdal í Þingvallasveit og því fjarskyld mér í gegnum Kjósverja.

Sigríður Ingibjörg er gift Birgi Hermannssyni og eiga þau fjögur börn.

Frekar en að mæra hana frekar vísa ég á heimasíðu hennar og hvet Samfylkingarfólk í Reykjavík til að leggja henni lið í prófkjörinu sem hefst á mánudag, en aðra til að muna hana í samtölum við Samfylkingarfólk í Reykjavík.

http://sigriduringibjorg.is/

föstudagur, mars 06, 2009

7. mars 2009 - Um útflutning ferskfisks

Fyrir um þrjátíu árum var talsverð umræða á Íslandi, þar sem þingmenn Alþýðubandalagsins og fleiri vildu koma í veg fyrir að íslensk fiskiskip sigldu með aflann óunninn til hafna erlendis og seldu hann þar á mörkuðum. Það var eðlilegt að sumir sæju ofsjónum yfir því bruðli sem fólst í því að halda skipum frá veiðum í marga daga á meðan verið var að sigla með aflann svo ekki sé talað um tap sjómannsins sem fiskaði ekki á meðan stóð á siglingunni. Reyndin var hinsvegar sú að söluverðið á ferskfiski var hærra á mörkuðum erlendis en fékkst fyrir fullunnar afurðir á mörkuðum á helstu mörkuðum okkar í Bandaríkjunum og því voru þessar siglingar þjóðhagslega hagkvæmar umfram fullvinnsluna í landi, enda dó þessi umræða út um leið og sannleikurinn varð ljós.

Nú er þessi umræða komin af stað á nýjan leik. Enn og aftur á fiskvinnslan í landi að bjarga þjóðarbúinu á sama tíma og markaðir erlendis fyrir frosinn fisk eru í lágmarki. Um leið er mér ómögulegt að mótmæla þessum nýgömlu kröfum einfaldlega af því að ég hefi ekki fylgst með þróun mála síðustu áratugina.

Það hefur margt breyst á síðustu þrjátíu árum. Það er orðið mun ódýrara að senda frosinn fisk til útlanda í gámum og því er útflutningurinn með ferskan fisk orðinn ódýrari en þegar heil skipshöfn sigldi með nokkur tonn af fiski á markað í Hull og Grimsby. Um leið veit ég ekki hvernig staðan er á fiskmörkuðum fyrir frosinn fisk, hvort frosni fiskurinn er orðinn verðmætari en ferskfiskurinn? Hvort heldur er, er nauðsynlegt að kanna möguleikana út í ystu æsar áður en farið verður út í að rústa ferskfiskmörkuðum fyrir vafasama atvinnubótavinnu.

fimmtudagur, mars 05, 2009

6. mars 2009 - Tveir stórbrunar

Í dag eru liðin fjörtíu ár frá tveimur stórbrunum sem áttu sér stað um borð í íslenskum skipum og þar sem annar kostaði sex mannslíf.

Það var um klukkan 4 aðfararnótt 6. mars 1969 sem togarinn Hallveig Fróðadóttir var á leiðinni á miðin frá Reykjavík, að eldur kom upp í hásetaíbúðum frammi í bakka. Þegar í stað var hafist handa um slökkvistarf og kallað eftir hjálp og nokkur skip komu fljótlega til hjálpar auk þyrlu frá Varnarliðinu sem flutti tvo slökkviliðsmenn frá Reykjavík og sjúkraliða um borð í skipið. Eins og áður sagði, lokuðust sex menn inni í íbúðunum og fórust í brunanum, en átta menn hlutu reykeitrun og voru fluttir á sjúkrahús í Reykjavík.

Lengi var látið í veðri vaka af tillitsemi við ættingja hinna látnu að sprenging hefði orðið í ketilrými í bakkanum, en samkvæmt öðrum heimildum kviknaði í út frá logandi sígarettu, en röng fyrstu viðbrögð við brunanum mögnuðu síðan upp eldinn.

Eftir að áhöfn varðskipsins Þórs hafði aðstoðað áhöfn Hallveigar Fróðadóttur við slökkvistarfið, fylgdi skipið Hallveigu síðan til Reykjavíkur og lagðist þar að varðskipabryggjunni við Ingólfsgarð. Um kvöldið, en eftir að áhöfn varðskipsins hafði farið heim, gaus upp mikill eldur í íbúðum skipsins og tók það slökkviliðið í Reykjavík fleiri klukkustundir að ráða niðurlögum eldsins. Var þetta einn dýrasti bruni ársins 1969 í krónum talinn, því auðvitað eru mannslíf ekki metin til fjár. Varðskipið var síðan við bryggju við endurbætur það sem eftir var ársins 1969 og fór loks til gæslustarfa á ný í lok ársins eftir gagngerar endurbætur á íbúðum skipsins.

Ástæða brunans í Þór var ódýr brauðrist sem skilin hafði verið eftir í gangi. Menn höfðu verið að spara aurana og þegar vantaði brauðrist í borðsal yfirmanna var keypt sú ódýrasta sem til var á markaðnum, svo ódýr að hún slökkti ekki einu sinni á sér sjálf eftir að hafa ristað brauðið. Einhver hafði verið að rista sér brauð eftir að komið var að bryggju og gleymt ristavélinni í gangi og farið heim. Sömuleiðis voru fyrstu viðbrögð við brunanum um borð kolröng, því þegar vaktmaður sem átti að gæta skipsins kom um borð um klukkan 22 um kvöldið og uppgötvaði eldinn lét hann kalla í slökkviliðið og opnaði allt upp á gátt til að auðvelda slökkviliðinu aðkomuna, en magnaði eldinn upp með þessu háttalagi.

Báðir þessir brunar eru skólabókardæmi um hvernig á ekki að standa að slökkvistarfi hvort heldur er á sjó eða í landi.

miðvikudagur, mars 04, 2009

4. mars 2009 - Um Landhelgisgæsluna

Í janúar bárust bárust okkur fréttir þess efnis að segja ætti upp 20 – 30 starfsmönnum Landhelgisgæslunnar í sparnaðarskyni og sá ég ástæðu til að skrifa pistil gegn þessu hættulega athæfi vegna þess hve þessar uppsagnir myndu skerða öryggi sjófarenda og ferðalanga á hálendinu. Nú eru þessar aðgerðir orðnar að veruleika, því miður.

Á sama tíma og þessar uppsagnir eiga sér stað, er hafist handa um að halda áfram byggingu tónlistarhússins í höfninni. Nú ætla ég ekki að skammast yfir byggingu tónlisarhússins þótt ég hefði fremur kosið að byggja það á þurru landi og fjarri höfninni. Ég er hinsvegar á þeirri skoðun að beita þurfi ítrasta sparnaði við byggingu hússins þótt það kosti mun lengri byggingartíma, fremur en að skera jafnmikið niður í rekstri Landhelgisgæslunnar sem raun ber vitni. Þá má sömuleiðis spara nokkra fjármuni með því að leggja niður Varnarmálastofnun og veita þeim peningum frekar í að kaupa olíu á varðskipin.

Það er alveg ljóst að eitt varðskip er ekki nóg til að halda uppi löggæslu á öllu íslenska hafsvæðinu og á sama hátt er ekki nóg að halda einungis úti lágmarksvöktun hjá þyrlubjörgunarsveit Landhelgisgæslunnar. Í því sambandi má benda á að þyrlubjörgunarsveit Varnarliðsins var ávallt með fjórar þyrlur reiðubúnar á Keflavíkurflugvelli, en að auki var fimmta þyrlan ávallt í viðhaldi. Á þeim tíma og jafnvel eftir að herinn fór, kom fyrir að engin þyrla var starfhæf hjá Landhelgisgæslunni.

Þessi mál hafa lagast verulega hjá Landhelgisgæslunni undanfarin ár þótt þyrlufjöldinn hafi aldrei orðið fullnægjandi. Nú stefnir Gæslan í að fara áratugi aftur í tímann í þyrluþjónustu. Þetta er ekki lengur spurning um sparnað peninga heldur sóun mannslífa og mun geta kostað verulegan niðurskurð á komum skemmtiferðaskipa sem og annarra ferðamanna til landsins ef fréttist að Íslendingar geta hvorki tryggt lengur öryggi ferðamanna á fjöllum né sjómanna á hafi úti, þar á meðal áhafna og farþega á stórum skemmtiferðaskipum ef alvarleg atvik koma upp þar um borð.

Íslendingar voru duglegir að drekkja sonum sínum í meira en þúsund ár á Íslandsmiðum. Á síðustu árum hefur tekist að fækka þessum slysum verulega og jafnvel koma í veg fyrir þau um tíma. Ef draga á úr björgunarmöguleikum Landhelgisgæslunnar, mun ekki líða á löngu uns Íslendingar geta tekið upp fyrri sið og haldið áfram að drekkja sonum sínum.

þriðjudagur, mars 03, 2009

3. mars 2009 - Enn um söfnunarlífeyristryggingu

Eftir hremmingar síðustu viku er ég fékk hræðilegt yfirlit yfir söfnunarlífeyristryggingu mína ákvað ég að nota tveggja tíma hvíld á milli vaktar og læknisheimsóknar, koma við hjá Kaupþingi og segja upp söfnunarlíftryggingu minni. Sem ég og gerði.

Er ég kom á staðinn tók stúlka ein á móti mér með brosi á vör. Ég fór að afsaka mig, en brynjaði mig upp í að vera eins og umboðsmaður neytenda hjá Spaugstofunni, sagði upp lífeyristryggingunni minni, fyllti út skjöl þar að lútandi, þakkaði fyrir mig og hélt á braut. Og alltaf var stúlkan jafn þægileg og einlæg.

Er ég ók í burtu fann ég fyrir trega. Ekki vegna þess að ég væri að gera neitt rangt, heldur vegna þess hve vel var tekið á móti mér og mál mitt afgreitt fljótt og vel.

KB-líf má eiga það að þar er frábært starfsfólk.

sunnudagur, mars 01, 2009

1. mars 2009 - Úr fréttatíma Stöðvar 2

Það var fjallað um fegurðarkeppnina Ungfrú Reykjavík í fréttatíma Stöðvar 2 á laugardagskvöldið og fréttamaður tók sigurvegarann tali og meðal annars mátti heyra þetta:

Fréttamaður: „Ein spurning fyrir strákana þarna úti. Ertu á lausu?“
Fegurðardrottning: „Nei, því miður.“

Ef ég væri í svo slæmu sambandi að það mætti flokka það sem því miður, myndi ég skilja eins og skot!