sunnudagur, mars 08, 2009

8. mars 2009 - Ingibjörg Sólrún Gísladóttir

Ég kynntist Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur um áramótin 1996-1997 er hún kom í áramótasamkvæmi starfsfólks Veitustofnana sem haldið var af stjórn Veitustofnana, reyndar á sama tíma og ég kynntist Alfreð Þorsteinssyni og líkaði mér vel við bæði, en ég var þá nýbyrjuð hjá Hitaveitunni. Næstu árin á eftir rakst ég á Ingibjörgu Sólrúnu öðru hverju og þá einkum í tengslum við störf mín hjá Hitaveitunni, en hún var þá borgarstjóri. Ég þarf heldur ekki að taka fram að stuðningur þeirra beggja við mig varð mér ennfremur hvatning til að styðja þau og R-listann í sveitastjórnarkosningunum 1998 og 2002 þótt skoðanir mínar teldust vinstra megin við þeirra í landsmálunum.

Fyrir kosningarnar 2006 sagði Vinstri hreyfingin-grænt framboð skilið við R-listann í Reykjavík. Þetta, ásamt jákvæðum skoðunum mínum gagnvart Evrópusambandinu, varð til þess að ég sagði skilið við VG þar sem ég hafði reyndar aldrei verið flokksbundin, en fór yfir til Samfylkingarinnar þar sem ég gerðist formlegur félagi þá um vorið. Meðal þeirra fyrstu til að bjóða mig velkomna í Samfylkinguna var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, en hjá henni fann ég fyrir trausti til frekari trúnaðarstarfa fyrir hreyfingu jafnaðarmanna.

Þar sem ég hefi verið virk innan Samfylkingarinnar á þessum tæpu þremur árum sem ég hefi verið flokksbundin, hefi ég ekki komist hjá því að kynnast þeim jákvæðu straumum sem Ingibjörg Sólrún hefur sent frá sér og stutt hana í flestum hennar verkum. Því fann ég, rétt eins og allur þorri Samfylkingarfólks, fyrir sárum missi er hún veiktist í upphafi kreppunnar síðastliðið haust. Svo snéri hún aftur, en einungis til skamms tíma.

Sjálf hirði ég ekki um tvenn ummæli sem hún hefði betur látið ósögð, því öll gerum við mistök, ekki bara einu sinni eða tvisvar, heldur margoft.

Á sjálfan kvennadaginn, ákvað hún að kveðja okkur að sinni. Þrátt fyrir grunsemdir mínar um að heilsa hennar væri verri en hún hafði gefið í skyn, kom ákvörðun hennar okkur öllum á óvart. Við eigum öll þá von í brjósti að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir nái heilsu á ný og snúi aftur til baka að afloknum veikindum.

-----oOo-----

Varðandi orð Einars Mar Þórðarsonar stjórnmálafræðings í sjónvarpsfréttum á sunnudagskvöldið þess efnis að afsögn Ingibjargar Sólrúnar væri af pólitískum ástæðum, mátti hann vita betur, vitandi að Solla hefði frestað fleiri fundum síðustu dagana vegna veikinda.


0 ummæli:







Skrifa ummæli