laugardagur, mars 14, 2009

14. mars 2009 - Skemmtilegri prófkjörsbaráttu lokið

Þegar horft er um öxl og reynt að draga lærdóm af prófkjöri Samfylkingarinnar, þá held ég að Sigríður Ingibjörg sé ótvíræður sigurvegari. Hún er fulltrúi grasrótarinnar ásamt Önnu Pálu Sverrisdóttur sem þarf að gjalda fyrir ungan aldur.

Sjálf setti ég Jóhönnu í fyrsta sæti, enda þurfti hún á því að halda frá almennu flokksfólki í þeirri von að atkvæðin yrðu henni hvatning til að sækjast eftir formannsstól Samfylkingarinnar á landsfundinum eftir tvær vikur. Þá reyndi ég mitt besta til að tryggja Sigríði Ingibjörgu glæsilega kosningu og það tókst.

Ég ætla ekkert að gefa upp hvernig ég raðaði á listann að öðru leyti en því að ég setti Jóhönnu í fyrsta og Sigríði Ingibjörgu mjög ofarlega. Þarna var mikill fjöldi mjög hæfra einstaklinga sem kepptust um sæti á framboðslistanum og það var einfaldlega mjög erfitt að gera upp á milli þeirra og mega aðeins merkja við átta manneskjur. Um leið var fyrirsjáanlegt að nokkur tilfærsla ætti eftir að eiga sér stað eftir að fyrstu tölur voru kynntar, bæði í ljósi þess hve mikil dreifing virtist vera á atkvæðum við fyrstu tölur, en yngri flokksmenn hafa sennilega gert meira af því að kjósa á netinu, en þeir eldri frekar á kjörstað. Því var eðlilegt að Ásta Ragnheiður og Helgi Hjörvar myndu síga framúr á lokasprettinum þegar síðustu atkvæðin, öll greidd á kjörstað, voru talin.

Þótt ég hafi þegar óskað Sigríði Ingibjörgu sjálfri til hamingju með frábæran árangur, er sjálfsagt að ítreka það hér um leið og ég hlakka til áframhaldandi samstarfs með henni og öðru frábæru fólki innan Samfylkingarinnar.

http://www.mbl.is/mm/frettir/kosningar/2009/03/14/asta_ragnheidur_i_8_saeti/


0 ummæli:







Skrifa ummæli