Í dag eru liðin fjörtíu ár frá tveimur stórbrunum sem áttu sér stað um borð í íslenskum skipum og þar sem annar kostaði sex mannslíf.
Það var um klukkan 4 aðfararnótt 6. mars 1969 sem togarinn Hallveig Fróðadóttir var á leiðinni á miðin frá Reykjavík, að eldur kom upp í hásetaíbúðum frammi í bakka. Þegar í stað var hafist handa um slökkvistarf og kallað eftir hjálp og nokkur skip komu fljótlega til hjálpar auk þyrlu frá Varnarliðinu sem flutti tvo slökkviliðsmenn frá Reykjavík og sjúkraliða um borð í skipið. Eins og áður sagði, lokuðust sex menn inni í íbúðunum og fórust í brunanum, en átta menn hlutu reykeitrun og voru fluttir á sjúkrahús í Reykjavík.
Lengi var látið í veðri vaka af tillitsemi við ættingja hinna látnu að sprenging hefði orðið í ketilrými í bakkanum, en samkvæmt öðrum heimildum kviknaði í út frá logandi sígarettu, en röng fyrstu viðbrögð við brunanum mögnuðu síðan upp eldinn.
Eftir að áhöfn varðskipsins Þórs hafði aðstoðað áhöfn Hallveigar Fróðadóttur við slökkvistarfið, fylgdi skipið Hallveigu síðan til Reykjavíkur og lagðist þar að varðskipabryggjunni við Ingólfsgarð. Um kvöldið, en eftir að áhöfn varðskipsins hafði farið heim, gaus upp mikill eldur í íbúðum skipsins og tók það slökkviliðið í Reykjavík fleiri klukkustundir að ráða niðurlögum eldsins. Var þetta einn dýrasti bruni ársins 1969 í krónum talinn, því auðvitað eru mannslíf ekki metin til fjár. Varðskipið var síðan við bryggju við endurbætur það sem eftir var ársins 1969 og fór loks til gæslustarfa á ný í lok ársins eftir gagngerar endurbætur á íbúðum skipsins.
Ástæða brunans í Þór var ódýr brauðrist sem skilin hafði verið eftir í gangi. Menn höfðu verið að spara aurana og þegar vantaði brauðrist í borðsal yfirmanna var keypt sú ódýrasta sem til var á markaðnum, svo ódýr að hún slökkti ekki einu sinni á sér sjálf eftir að hafa ristað brauðið. Einhver hafði verið að rista sér brauð eftir að komið var að bryggju og gleymt ristavélinni í gangi og farið heim. Sömuleiðis voru fyrstu viðbrögð við brunanum um borð kolröng, því þegar vaktmaður sem átti að gæta skipsins kom um borð um klukkan 22 um kvöldið og uppgötvaði eldinn lét hann kalla í slökkviliðið og opnaði allt upp á gátt til að auðvelda slökkviliðinu aðkomuna, en magnaði eldinn upp með þessu háttalagi.
Báðir þessir brunar eru skólabókardæmi um hvernig á ekki að standa að slökkvistarfi hvort heldur er á sjó eða í landi.
fimmtudagur, mars 05, 2009
6. mars 2009 - Tveir stórbrunar
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 23:46
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli